Fara í efni

AUÐMANNAVÆÐING OG ALÞJÓÐAVÆÐING LANDEIGNA

Landakaup erlendra stóreignamanna

Uppkaup erlendra stóreignamanna á íslensku landi vekur kurr í samfélaginu. Sigurður Ingi Jóhannson segir að endurskoða þurfi lög um jarðeignir útlendinga og setja „stífa umgjörð um jarðamál“. Slík orð hafa svo sem heyrst áður, en fátt gerist – og á meðan er landið áfram selt í bútum.

Í sveitinni minni fyrir norðan var innsti bærinn nýlega seldur Ameríkönum (Eleven Experience) sem þegar eiga margar jarðir í Fljótum og Tröllaskaga og stunda þar hótelrekstur, þyrluskíðaferðir, vélsleðaferðir og laxveiði. Stærri í sniðum er landssalan kringum breska félagið Halicia í eigu breska auðjöfursins Jims Ratcliffe. Sjónvarpsþátturinn Kveikur 5. nóvember fór skilmerkilega í gegnum hina skyndilegu og stórtæku eignamyndum hans á Norðausturlandi.

Ratcliffe keypti fyrstu jörðina snemma árs 2016 og skömmu síðar keypti hann Grímsstaði á Fjöllum. Síðan hefur hann fyrst og fremst keypt jarðir með veiðiréttindi í bestu laxveiðiám Vopnafjarðar og Þistilfjarðar en einnig jarðir sem liggja að Finnafirði í Bakkaflóa (stórskipahöfnin). Á árunum 2017-18 sótti félag hans ört fram, hann keypti m.a. jarðir Jóhannesar Kristinssonar viðskiptafélaga síns (félagið Grænaþing og fleiri félög). Og á árinu 2019 hefur hann enn hert róðurinn: „Svo Jim Ratcliffe á nú meirihluta í 30 jörðum, sem er rúmlega tvöfalt meira en í ársbyrjun í fyrra. Að auki á hann minnihluta í níu jörðum...“ [Stærð landsins er upp á] „...1400 til 1500 ferkílómetra, sem er um 1,4% af flatarmáli Íslands. Það er meira en 17 sinnum stærra en Þingvallavatn“, sagði Tryggvi Aðalbjörnsson hjá Kveik. Samt hefur maðurinn ekki eytt í jarðakaupin nema rúmlega helmingi af verði einkaþotunnar sem hann flýgur á til landsins!

 Orð og gjörðir stjórnvalda í austur og vestur

Viðbrögð ríkisstjórnarinnar: Sigurður Ingi hefur kallað eftir „stífri umgjörð um jarðamál“. En hverjar eru aðgerðir stjórnvalda í málinu? Lítið hefur farið fyrir þeim, annað en frumvarp frá landbúnaðarráðherra í október sem, ef það yrði að lögum, „myndi takmarka atkvæðarétt umsvifamikilla landeigenda í veiðifélögum“. Gísli Ásgeirsson framkvæmdastjóri Halicia segir að vísu að þau lög beinist sérstaklega gegn Ratcliffe. En ekki virka þau sérlega ógnandi. Sjá umfjöllun Kveiks https://www.ruv.is/kveikur/ratcliffe-storeykur-eignaumsvif-sin-a-islandi/

Meðan orð snúa í austur snúa gjörðir í vestur. Vísir skrifar:  „Ratcliffe og Hafrannsóknarstofnun undirrituðu samkomulag um miðjan ágúst um rannsókn, sem er að fullu fjármögnuð af Ratcliffe. Rannsóknin nær til nýrra sviða vistfræði og hegðunar laxins.“ https://www.visir.is/g/2019190929517  Sem sagt, samtímis þessum nasablæstri ráðherra (annars ráðherra) gegn (erlendum) stóreignamönnum gerir Hafrannsóknarstofnun samstarfssamning við þann langstærsta meðal þeirra. Og samkvæmt lögum heyrir Hafrannsóknarstofnun undir sjávarútvegsráðherra, sem líka er landbúnaðarráðherra!  Getur þetta með nokkru móti boðað einhverja stórsókn gegn landsölustefnunni?

Land, vatn, veiðihlunnindi og önnur náttúrugæði eru sívaxandi að verðgildi í veröldinni og þróunin í okkar heimshluta er ennþá í átt til markaðsvæðingar og einkavæðingar þeirra. Hér á landi gengur þetta í skrefum: Markaðsvæðing fiskimiðanna og söfnun kvótans á örfáar hendur, nýleg skref tekin til einkavæðingar orkunnar – við munum Magma-ævintýrið – og við sáum Alþingi undirgangast orkustefnu ESB og þar með markaðsvæðingu raforkunnar, uppskiptingu orkufyrirtækja m.m.,  með orkupökkunum. Sala lands á evrópskum markaði er hluti af sömu þróun. Skref fyrir skref.

 
Breytileg lög um eignarhald á landi


Staðreyndin er að lagaumhverfið okkar býður upp á að landið seljist hæstbjóðanda, innlendum sem erlendum, á evrópskum markaði. Þá er ástæða til að spyrja: Hvernig varð lagaumhverfið svona? Förum aðeins aftar í tímann og skoðum sérstaklega eignarhald á landi.

Yfirráð yfir landi, landgæðum og auðlindum  eru snar þáttur í fullveldi ríkja. Þess vegna hafa fullvalda ríki gjarnan sett sér lög um eignarhald á landi, m.a. til að tryggja að það sé í höndum eigin þegna.

Lög hérlendis um eignarhald á landi fylgja lögum um fasteignir. Árið 1919, þegar fullveldið var ungt, voru sett lög um fasteignir á Íslandi: „almenn lög á Íslandi um takmörkun á heimildum erlendra aðila til að eiga fasteignir á Íslandi“ og voru byggð á því, eins og fossalögin frá 1907, að heimilisfesti á Íslandi væri skilyrði fyrir því að menn gætu öðlast eignarrétt eða notkunarrétt á fasteignum hér á landi.“ Sömuleiðis í fasteignalögum  frá 1966 var „miðað við íslenskt ríkisfang sem skilyrði fyrir því að mega öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteignum hér á landi.“ Sjá  lög nr. 19/1966

 „EES-samningurinn leiddi okkur til nútímans“

Mestu straumhvörfin urðu með  EES-samningnum. Í kjölfar hans gjörbreyttist lagaumhverfið. Sömuleiðis hafði hann grundvallaráhrif á íslenskt atvinnulíf og stjórnmál líka. Fyrsta grundvallarprinsipp samningsins, og grundvallarprinsipp ESB, var frjálsir fjármagnsflutningar yfir landamæri. Hann fól líka í sér rétt erlendra ríkisborgara af EES-svæðinu til að eignast fasteignir og land hérlendis (og auðlindir sem landi fylgja), með tilvísun til reglna um fjármagnsflutninga og reglunnar um að ekki skuli „mismuna á grundvelli þjóðernis“.

Það er staðreynd að í kjölfar EES-samningsins stormaði nýfrjálshyggjan fram í landinu. Áhrif samningsins voru bæði bein, m.a. í lagaumhverfi, og óbein eða hugarfarsleg. Hvers konar hömlur eða takmarkanir á viðskiptum voru nú dæmdar úreltar, markaðshyggjan bauð allsherjarlausnir. Hægrimenn og markaðskratar fóru fyrir, hinir komu á eftir. Ekki held ég því fram að öll frjálshyggjuþróunin hér sé  til komin vegna EES-samningsins (markaðsvæðing fiskimiðanna var t.d. þegar komin), en hann auðveldaði  sannarlega banksterum og markaðsöflunum sóknina. Með nýfrjálshyggjunni fylgir systir hennar, alþjóðavæðingin.

Í umræðunni um samninginn hafði einmitt verið harður ágreiningur um þau ákvæði er sneru sérstaklega að kaupum útlendinga á landi, og kallað var eftir því (af Hjörleifi Guttormssyni og fleirum) að í þeim efnum yrðu miklu skýrari skorður settar. Niðurstaðan varð samt sú að Ísland opnaðist mjög fyrir erlendu eignarhaldi á jarðnæði.

Þegar Viðeyjarstjórnin var mynduð 1991 stóðu umræðurnar um EES-samninginn sem hæst. Og ekki löngu síðar voru eiginlega allar kröfur Íslands um varanlega fyrirvara við eign erlendra ríkisborgara á Íslandi felldar niður með einni undatekningu: varðandi fjárfestingar í sjávarútvegi.

Eftir þetta tók mat á löggjöf um viðskipti með land og fasteignir mið af EES-samningnum (enda hefur hann forgang fram yfir þjóðlega löggjöf). Spurt var hvort eldri takmarkanir „ættu stoð í EES-samningnum“. Lagabreytingar voru gerðar í enn frekari frjálsræðisátt árið 1997 (að forgöngu Þorsteins Pálssonar dómsmálaráðherra) með tilvísun til laga um frjálsa fjármagnsflutninga. Og með jarðalögum árið 2004 var bæði rýmkaður réttur útlendinga til landeigna og réttur landeigenda til frjálsra viðskipta án afskipta stjórnvalda. Sjá lög nr. 81/2004  Í athugasemdum við það frumvarp kemur fram að nýmælin þar eigi rætur að rekja til þess að ESA hefði gert athugasemdir við ýmis ákvæði jarðalaga og talið þau brjóta gegn EES-samningnum. Það snerti m.a. búsetuskilyrði. Þing og ríkisstjórn beygðu sig undir þetta, og beygðu sig jafnvel dýpra en þau strangt tekið hefðu þurft að gera. Það var kaldhæðnislegt að ráðherrann sem flutti málið 2004 var Guðni Ágústsson.   

Ekkert von á góðu

Með þeim hraða sem verið hefur á umræddri landssölu síðustu misseri gætum við verið að horfa fram á ófélega formgerð landbúnaðar með stóreignastétt landeigenda, að verulegu leyti utan lands, og svo leiguliða þeirra líkt og á 17. öld. Ástandið er þegar orðið óþolandi.

Niðurstaða þróunarinnar sem hér var rakin varð sú að íslensk lög opna nú mun meira á erlenda eign á landi en t.d. lög í ESB-landinu Danmörku þar sem eign á landbúnaðarlandi er háð skilyrðum um búsetu (með undantekningum þó). Slík grundvallarregla væri æskileg. En slík grundvallarregla er þó klárlega ekki „í anda“ EES-samningsins (ekki í anda alþjóðavæðingar). Og ef reynt verður að reisa takmarkanir gegn þessari þróun verður örugglega spurt hvort það „eigi stoð í EES-samningnum“. Neikvætt svar við því er litið alvarlegum augum af ríkisstjórninni, sbr nýlega áróðursherferð ríkisstjórnarinnar um EES. Gerum okkur því engar gyllivonir.