Fara í efni

STÓRA RÁNIÐ UNDIRBÚIÐ - FRAMHALDSUMRÆÐA TVÖ - RAFORKUTILSKIPUN 2019/944 ORKUPAKKI 4

Þessi grein er framhald síðustu greinar, frá 20. janúar 2020, um sama efni. Haldið verður áfram að rekja innihald tilskipunar ESB 2019/944 um raforku. Tilskipunin er hluti af orkupakka 4. Í síðustu grein var endað á 16. gr. tilskipunarinnar. Eins og áður hefur komið fram brugðust Alþingi og ríkisstjórn Íslands algerlega í orkumálum þjóðarinnar með innleiðingu á orkupakka 3.

            Hið sama gerðu fyrri þing og fyrri ríkisstjórnir sem vörðuðu leiðina að takmarki einka- og braskvæðingar orkulindanna og nýtingar þeirra. Þjóðin er aldrei spurð álits en vísað til þess að menn hafi umboð kjósenda eftir kosningar. Það eru rök sem halda alls ekki enda eru þeir fáir þingmennirnir sem standa við loforð sín eftir kosningar. „Það er leikur að ljúga leikur sá er mér kær“ var sungið í áramótaskaupinu árið 1968, í umsjón Flosa Ólafssonar, og þar vísað til íslenskra stjórnmálamanna. Það eru orð að sönnu.

            Raunar væri það rannsóknarefni hvort lygi stjórnmálamanna hefur minnkað, vaxið eða staðið í stað, síðustu 50 ár eða svo. Slíka rannsókn má t.d. gera þannig að bera saman innihald þingræðna og blaðagreina ákveðinna þingmanna og bera svo aftur innihaldið saman við sannleikann, hver hann var þegar orðin féllu og hvað kom síðar í ljós.

            Eðlilegt væri að flokka efnið niður þannig að skoðað sé sérstaklega hvort lygin er meiri í ákveðnum málaflokkum og hvort lygin fylgir fremur sumum stjórnmálastefnum en öðrum. Upplagt tölfræðiforrit til þessa verks væri að sjálfsögðu hið gríðarlega öfluga R.[i] Það ræður auðveldlega við mjög stór gagnasöfn [sem aftur útheimtir nokkuð öflugan vélbúnað] og ekki veitir af í þessu tilviki, enda lygin umfangsmikil og langvarandi.

            En hvernig á að skilgreina lygina? Hvernig geta menn vitað að þingmaður sem stóð t.d. í pontu Alþingis og laug hafi vísvitandi logið eða einfaldlega ekki vitað betur? Á því tvennu er alger grundvallarmunur. Ef þingmaður (verandi eða verðandi) lofar einhverju en stendur síðan ekki við neitt, eftir kosningar, þá er hann auðvitað lygari. Hann getur beitt margskonar afsökunum, um að hann hafi ekki getað staðið við orð sín eða annað álíka. Það breytir hins vegar engu. Loforð eru loforð. Hvort hann vissi ekki betur má kanna með rannsókn úr ýmsum áttum, hvað hann sagði áður og fleira í þeim dúr. Auðvitað ætti ponta Alþingis að vera tengd við „snjall-lygamæli“ en þeirri tækni verður ekki beitt afturvirkt af augljósum ástæðum. Meginatriðið er það að nota samræmdar aðferðir í gegnum alla rannsóknina, styðjast alltaf við sömu aðferðafræðina.

            Hættulegust er sú tegund lygi sem oft kemur frá stjórnmálamönnum, en ekki síður „gervikennimönnum“, um að ekkert sé að óttast, allt verði í fína lagi. Þá ættu kjósendur virkilega að hafa vara á sér. Ábyrgari afstaða þingmanna væri sú að segja einfaldlega: „flokksagi býður mér að styðja málið en jafnframt óttast ég afleiðingarnar“. Það væri að minnsta kosti heiðarleg framkoma. Þessar vikurnar hefur RUV sýnt, á þriðjudagskvöldum, þáttaröð sem nefnist „Mestu lygar sögunnar“. Það er ekki fráleitt að ætla að lygar íslenskra ráðamanna, t.d. í tengslum við orkupakka 3, ættu heima í slíkri þáttaröð. Að því sögðu verður nú haldið áfram að rekja einstakar greinar umræddrar tilskipunar.

Raforkutilskipun 2019/944

  1. gr. fjallar um eftirspurnarstýringu[ii] í gegnum samsöfnun [Demand response[iii] through aggregation]. Í 1. mgr. 17. gr. segir að aðildarríkin skuli leyfa og stuðla að eftirspurnarstýringu með samsöfnun. Aðildarríkin skulu leyfa endanlegum viðskiptavinum, þar með talið þeim sem mynda hóp (með samsöfnun), að taka þátt á öllum raforkumörkuðum, meðfram framleiðendum, og án mismununar.

            Samkvæmt 2. mgr. ber ríkjum, við öflun stoðþjónustu, að tryggja að flutningskerfisstjórar og dreifikerfisstjórar meðhöndli markaðsaðila sem þátt taka í samsöfnun (aggregation) án mismununar ásamt framleiðendum, á grundvelli tæknilegrar getu. 3. mgr. mælir fyrir um að aðildarríkin skuli tryggja að viðeigandi regluverk innihaldi að minnsta kosti eftirtalda þætti:

(a) rétt hvers aðila á markaði til þess að taka þátt í samsöfnun,[iv] þar með taldir sjálfstæðir aðilar samsöfnunar, til þess að koma inn á raforkumarkaði án samþykkis annara á þeim sömu mörkuðum;

(b) gegnsæjar reglur án mismununar sem skýrlega mæla fyrir um hlutverk og skyldur allra raforkufyrirtækja og neytenda;

(c) gegnsæjar reglur án mismununar og verkferla um skipti á gögnum milli þátttakenda á markaði, sem taka þátt í samsöfnun og annari raforkustarfsemi, sem tryggi auðveldan aðgang að upplýsingum á jafnréttisgrundvelli, og án mismununar, en jafnframt verja fullkomlega viðskiptalega viðkvæmar upplýsingar og persónupplýsingar viðskiptavina;

(d) skyldu þeirra sem starfa á markaði, í gegnum samsöfnun, til þess að bera fjárhagslega ábyrgð á ójafnvægi sem þeir valda í raforkukerfum. Að því marki skulu þeir vera ábyrgðaraðilar á jafnvægi eða framselja jöfnunarábyrgð sína í samræmi við 5. gr. reglugerðar (ESB) 2019/943;

(e) ákvæði fyrir lokakaupendur (final customers) sem samning hafa við sjálfstæða aðila samsöfnunar, um að verða ekki háðir ótilhlýðilegum greiðslum, viðurlögum eða öðrum ótilhlýðilegum samningsbundnum takmörkunum frá rafveitum (suppliers);

(f) fyrirkomulag til að leysa ágreining milli markaðsaðila sem taka þátt í samsöfnun og annarra markaðsaðila, þar á meðal vegna ábyrgðar á ójafnvægi.

            Í 4. mgr. segir að aðildarríkjum sé heimilt að krefja raforkufyrirtæki, eða virka lokakaupendur, um fjárbætur til annara aðila á markaði, eða til þeirra sem bera jöfnunarábyrgð, ef sömu aðilar á markaði eða þeir sem bera jöfnunarábyrgðina, verða fyrir beinum áhrifum vegna eftirspurnarstýringar.

            Bæturnar skulu ekki hindra markaðsaðgang þeirra sem þátt taka í samsöfnun, eða hindra sveigjanleika. Fjárbætur skulu takmarkast við kostnað veitna vegna þátttakenda á markaði, eða vegna þeirra aðila veitna sem ábyrgir eru fyrir jöfnun í raforkukerfum (sbr. balance responsibility), þegar eftirspurnarstýringu (demand response) er komið á.

            Við útreikninga á fjárbótum má taka mið af ávinningi sem tilkominn er vegna sjálfstæðra aðila samsöfnunar til annara aðila á markaði. Hægt er að krefja aðila samsöfnunar, og viðskiptavini sem þátt taka, um þátttöku í fjárbótum en einungis þegar og að því marki að ávinningurinn sem gagnast öllum veitum, viðskiptavinum og þeim aðilum sem bera jöfnunarábyrgð, fari ekki framúr þeim beina kostnaði sem leggst til. Reikniaðferðin skal háð samþykki yfirvalda (Landsreglara) eða annara lögbærra yfirvalda.

            Í 5. mgr. 17. gr. segir síðan að aðildarríki skuli tryggja að Landsreglari, eða þegar lög heimaríkja krefjast, flutningskerfisstjórar og dreifikerfisstjórar, í nánu samstarfi við þáttakendur á markaði og lokakaupendur, setji skilyrði fyrir þátttöku í eftirspurnarstýringu á öllum raforkumörkuðum. Það skal gert á grundvelli tæknilegra þátta sem einkennandi eru fyrir viðkomandi markaði og getu til eftirspurnarstýringar. Kröfurnar skulu ná til þátttöku sem byggist af samanlögðu álagi (aggregated loads).

  • Reikningar og greiðsluupplýsingar

            Í 18. gr. tilskipunarinnar er fjallað um reikninga og greiðsluupplýsingar. Samkvæmt 1. mgr. ber aðildarríkjum að tryggja að reikningar og greiðsluupplýsingar gefi rétta mynd, séu auðskilin, skýr, nákvæm, notendavæn og framsett þannig að það auðveldi samanburð fyrir lokakaupendur (neytendur). Sé þess óskað, skal lokakaupandi fá skýrar og skiljanlegar útskýringar á tilurð reikninga, sérstaklega þegar reikningarnir byggjst ekki á raunverulegri notkun.

            Samkvæmt 2. mgr. ber aðildarríkjum að tryggja að lokakaupendur fái alla sína reikninga og upplýsingar án endurgjalds.

            Aðildarríkin skulu tryggja að lokakaupendendur hafi val um rafræna reikninga og upplýsingar og sveigjanlegt greiðslufyrirkomulag (3. mgr.). Ef samningur mælir fyrir um framtíðarbreytingar á „vöru“ eða verði, eða afslætti, skal taka það fram á reikningnum ásamt með dagsetningu breytinganna (4. mgr.). Samkvæmt 5. mgr. skulu aðildarríkin hafa samráð við neytendasamtök þegar þau íhuga breytingar á kröfum um innihaldi reikninga. 6. mgr. mælir fyrir um skyldur aðildarríkja til þess að tryggja að reikningar og greiðsluupplýsingar uppfylli lágmarkskröfur samkvæmt viðauka I við umrædda tilskipun.

  • „Snjallmælingar“

            Í 19. gr. tilskipunarinnar er fjallað um snjallmæli-kerfi (smart metering systems). Til þess að stuðla að „orkunýtni“ og „valdefla“ lokakaupendur (neytendur) [þessi „gulrót“ á augljóslega að höfða til neytenda sem trúa í blindni] skulu aðildarríki, eða þegar þau hafa svo ákveðið, skal Landsreglari sterklega mæla með því við orkufyrirtæki, og aðra þátttakendur á markaði, að haga rafmagnsnotkun þannig að bjóða m.a. orkustjórnunarþjónustu, þróa „nýstárlegar“ verðformúlur og bjóða snjallmæla sem eru samhæfðir, sérstaklega við orkustjórnunarþjónustu fyrir neytendur og snjallnet (smart grids), í samræmi við evrópskar reglur um gagnageymd.

            Aðildarríkjum ber samkvæmt 2. mgr. 19. gr. að tryggja útbreiðslu snjallmæla-kerfa sem auki á „virka þátttöku neytenda“ á raforkumarkaði. Útbreiðslan getur lotið kostnaðarmati [kostnaður vs. ávinningur] sem gert er í samræmi við reglur sem settar eru fram í viðauka II við sömu tilskipun. [Næsta skref verður líklega að gera neytendum að „brýna hnífana“ fyrir skurðlækninn, ef neytendur skyldu þurfa í aðgerð. Þannig má „virkja“ sjúka til þátttöku á „heilbrigðismarkaði“. Á sama hátt má hugsa sér að þeir sem fara til tannlæknis verði látnir snúa sveif og þannig framleiða rafmagnið sem knýr tannlæknaborinn. Vitleysan þekkir engin mörk.].

            Í 3. mgr. segir að aðildarríki þar sem ráðist er í upptöku snjallmælikerfa skuli setja og auglýsa lágmarks virkni- og tækniskilyrði vegna snjallmælikerfa sem rekin verða á þeirra yfirráðasvæði, í samræmi við 20. gr. og viðauka II. Aðildarríkin skulu tryggja samhæfingu slíkra mælikerfa og gera orkustjórnunarkerfum neytenda fært að fá upplýsingar, yfir notkun, frá þeim.

            Í því sambandi skulu aðildarríkin taka tilhlýðilegt tillit til viðeigandi staðla, þar með taldir staðlar sem lúta að samhæfingu, til bestu notkunarhátta, og til mikilvægis þess að þróa snjall-net og innri markað með raforku.

            Samkvæmt 4. mgr. 19. gr. skulu aðildarríki sem ráðast í upptöku snjallmælikerfa tryggja að lokakaupendur leggi af mörkum, vegna tilheyrandi kostnaðar sem hlýst af upptökunni, á gegnsæjan hátt án mismununar, en taka jafnframt með í reikninginn langtíma ávinning fyrir alla virðiskeðjuna.[v] Aðildarríkin, eða þegar aðildarríki mælir svo fyrir, skulu viðeigandi lögbær yfirvöld reglulega fylgjast með upptöku mælikerfanna og því hversu vel þau skila ávinningi til neytenda.

            Í 5. mgr. segir að þegar uppsetning snjallmælikerfa hefur hlotið neikvæða umsögn, í ljósi mats á kostnaði og ávinningi og vísað er til í 2. mgr., skulu aðildarríkin tryggja að matið sé endurskoðað á að minnsta kosti fjögurra ára fresti,  eða oftar, til þess að bregðast við verulegum breytingum á forsendum og til þess að bregðast við tækni- og markaðsþróun. Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórn ESB um niðurstöður úr endurskoðuðu mati, á kostnaði og ávinningi, þegar þær liggja fyrir.

            Eins og kemur fram í 6. mgr. skulu ákvæði tilskipunarinnar, sem varða snjallmælikerfi, taka til framtíðar upptöku og til upptöku og endurnýjunar á eldri snjallmælum. Snjallmælakerfi sem þegar eru uppsett, eða þar sem það verk hófst fyrir 4. júlí 2019, má nota áfram svo lengi sem þau endast. Í þeim tilfellum hins vegar þegar kerfin uppfylla ekki kröfur samkvæmt 20. gr. og viðauka II, skal hætta rekstri þeirra eftir 5. júlí 2031.

            „Verkbyrjun“ merkir í skilningi þessarar málsgreinar (6. mgr.) annað hvort upphaf framkvæmda og fjárfestinguna, eða fyrstu skuldbindingu fyrirtækis til þess að panta búnað eða aðra skuldbindingu sem gerir fjárfestinguna óafturkræfa, hvort heldur kemur á undan í tímaröð. Kaup á landi og undirbúningsverkum, svo sem að fá leyfi og framkvæma forkönnun á hagkvæmni, teljast í þessu sambandi ekki „verkbyrjun“. Í tilviki yfirtöku merkir „verkbyrjun“ tímasetningu þess þegar eignir færast yfir á annan aðila og beintengdar eru við yfirtekið fyrirtæki.

  • Virkni snjallmælakerfa

            Þegar uppsetning snjallmælakerfa hefur hlotið jákvæða umsögn, eftir mat á kostnaði og ávinningi og vísað er til í í 2. mgr. 19. gr., eða þar sem snjallmælakerfi eru tekin upp eftir 4. júlí 2019, skulu aðildarríki taka upp slík kerfi í samræmi við evrópska staðla, viðauka II og eftirfarandi kröfur:

(a) snjallmælakerfin skulu mæla nákvæmlega raunverulega rafmagnsnotkun og skulu þannig gerð að geta sýnt lokakaupendum upplýsingar um raunverulegan notkunartíma. Fullgiltar, sögulegar upplýsingar um notkun skulu gerðar lokakaupendum aðgengilegar og sýnilegar á auðveldan máta, eftir óskum og án viðbótarkostnaðar. Ófullgiltar notkunarupplýsingar, nálægt rauntíma,[vi] skulu einnig gerðar lokakaupendum aðgengilegar á auðveldan og öruggan hátt, án viðbótarkostnaðar, með stöðluðu viðmóti eða með fjaraðgangi (remote access), í þeim tilgangi að styðja sjálfvirk orkustjórnunarkerfi, eftirspurnarstýringu og aðra þjónustu;

(b) öryggi snjallmælakerfa og upplýsingamiðlunar skal samræmast viðeigandi reglum ESB, að teknu tilliti til bestu fáanlegrar tækni er tryggi hæsta stig netverndar, hafandi hliðsjón af kostnaði og meðalhófsreglunni;[vii]

(c) einkalíf lokakaupenda, og vernd gagna þeirra, skal samræmast viðeigandi reglum ESB um gagnavernd og einkalífsvernd;

(d) rekstraraðilar mælanna skulu tryggja að mælar virkra viðskiptavina[viii] sem veita rafmagni inn á net (grid) sýni það rafmagn sem veitt er inn á netið frá stað virkra viðskiptavina;

(e) ef lokakaupendur svo óska, skulu upplýsingar um það rafmagn sem þeir veita inn á net, og rafmagnsnotkun þeirra, vera þeim aðgengilegar; í samræmi við settar gerðir [evrópugerðir] og teknar eru upp samkvæmt 24. gr., með stöðluðu samskiptaviðmóti eða með fjaraðgangi, eða til þriðja aðila í umboði lokakaupenda, á auðveldan og skiljanlegan máta sem geri fært að bera saman tilboð yfir ákveðið tímabil.[ix]

(f) veita skal lokakaupendum viðeigandi ráðleggingar og upplýsingar áður eða um leið og uppsetning snjallmæla fer fram, einkum varðandi alla möguleika þeirra við stjórnun á álestri og eftirlit með orkunotkun, og varðandi söfnun og vinnslu á persónuupplýsingum í samræmi við viðeigandi gagnaverndarreglur ESB;

(g) snjallmælakerfi skulu gera lokakaupendum (neytendum) kleift að fá mælingu og uppgjör[x] á sama „tímasniði“[xi] og gildir vegna „ójafnvægis“ (imbalance[xii]) á innlendum markaði.

            Í þeim tilgangi sem um getur í e-lið 1. mgr. 20. gr. skal vera mögulegt fyrir lokakaupendur að fá álestrargögn (mæligögn) eða miðla þeim áfram til annara án aukakostnaðar, og í samræmi við rétt til gagnamiðlunar, samkvæmt gagnaverndarreglum ESB.[xiii]

  • Réttur til snjallmæla

            Í 1. mgr. 21. gr. segir að þar sem uppsetning snjallmælakerfa hefur hlotið neikvæða umsögn með tilliti til kostnaðar og ávinnings og vísað er til í 2. mgr. 19. gr., og þar sem snjallmælakerfi eru ekki tekin kerfisbundið í notkun, skulu aðildarríki tryggja að hver og einn lokakaupandi eigi kost á snjallmæli, óski hann eftir honum. Enda beri hann kostnað af því að fá mælinn uppsettan, eða uppfærðan, á sanngjörnum kjörum. Mælir sé:

(a) búinn þeim eiginleikum sem vísað er til í 20. gr., eða með lágmarkseiginleikum sem skilgreindir verða og auglýstir af aðildarríkjum á landsvísu samkvæmt viðauka II;

(b) samhæfður og geti tengst við mælakerfi og orkustjórnunarkerfi neytenda á næstum rauntíma (in near real-time).

Í 2. mgr. segir síðan að þegar svo háttar til að viðskiptavinur óskar eftir snjallmæli samkvæmt 1. mgr. skal aðildarríki, eða þar sem aðildarríki kveður á um, lögbær yfirvöld:

(a) tryggja að tilboð sem lokakaupanda berst vegna uppsetningar á snjallmæli innihaldi skýrt og greinilega:

(i) virkni og samhæfni sem mælirinn hefur, og þá þjónustu sem möguleg er, ásamt þeim kostum sem raunhæft er að nýta með viðkomandi snjallmæli á þeim tíma;

(ii) allan meðfylgjandi kostnað sem lokakaupandi þarf að bera;

(b) tryggi að mælirinn sé settur upp innan hæfilegs tíma, eigi síðar en fjórum mánuðum eftir að ósk viðskiptavinar barst;

(c) endurskoði reglulega, og geri almenningi aðgengilegan, að á minnsta kosti tveggja ára fresti, tilheyrandi kostnað, og reki þróun þess kostnaðar sem afleiðingu af tækniþróun og mögulegri uppfærslu mælakerfa.

  • Hefðbundnir mælar

            Í 22. gr. er fjallað um hefðbundna rafmagnsmæla. Þar segir í 1. mgr. að þegar viðskiptavinir eru ekki með snjallmæla skuli aðildarríkin tryggja að lokakaupendur hafi völ á hefðbundnum mælum sem mæli nákvæmlega raunverulega notkun. Samkvæmt 2. mgr. skulu ríkin tryggja auðveldan álestur hefðbundinna mæla fyrir lokakaupendur, annað hvort beint eða með viðmóti á netinu, eða öðru sambærilegu viðmóti.

  • Gagnastjórnun
  1. gr. þessarar tilskipunar fjallar um gagnastjórnun (data management). Í 1. mgr. segir að þegar reglur eru settar sem lúta að stjórnun og skiptum á gögnum skuli aðildarríkin, eða þegar þau mæla svo fyrir um, viðeigandi lögbær stjórnvöld,

setja reglur um aðgang viðurkenndra aðila að gögnum lokakaupenda, í samræmi við 23. gr. og gildandi lagaramma ESB.

            Samkvæmt tilskipun 2019/944 skulu gögn innihalda mæli- og notkunargögn ásamt gögnum sem þarf til skipta um söluaðila (customer switching), til eftirspurnarstýringar (demand response) og annarar þjónustu. Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. skulu aðildarríki skipuleggja gagnastjórnun þannig að hún tryggi skilvirkan og öruggan aðgang og skipti á gögnum, ásamt gagnavernd og gagnaöryggi.

            Aðilar sem ábyrgir eru fyrir gagnastjórnun skulu, óháð þeirri gagnastjórnunaraðferð sem hvert aðildarríki beitir, veita viðurkenndum aðilum aðgang að gögnum lokakaupenda, í samræmi við 1. mgr. Gögn sem þeir óska skulu afhent án mismununar. Gagnaaðgangur skal vera auðveldur og viðeigandi reglur um hann gerðar almenningi aðgengilegar.

            Samkvæmt 3. mgr. 23. gr. skulu reglur um gögn og geymslu gagna, hvað snertir þessa tilskipun, samrímast viðeigandi Evrópurétti. Vinnsla persónupplýsinga, innan ramma tilskipunarinnar, skal samrímast reglugerð ESB nr. 2016/679.

            Samkvæmt 4. mgr. skulu aðildarríki, eða þegar þau mæla svo fyrir um, viðeigandi lögbær stjórnvöld, heimila og votta eða, ef við á, hafa eftirlit með þeim aðilum sem bera ábyrgð á gagnaumsýslu, til að tryggja að kröfur þessarar tilskipunar séu uppfylltar.

            Að teknu tilliti til verkefna gagnaverndarfulltrúa samkvæmt reglugerð ESB nr. 2016/679, geta aðildarríkin krafist þess að aðilar sem ábyrgð bera á gagnastjórnun skipi regluverði (compliance officers) sem ábyrgð beri á eftirliti og ráðstöfunum, án mismununar, vegna gagnaaðgangs, þannig að samrímist þessari tilskipun. Aðildarríkin geta skipað regluverði, eða stofnun sem um getur í d-lið 2. mgr. 35. gr. tilskipunarinnar til þess að uppfylla skyldur samkvæmt 4. mgr.

            Lokakaupendur skulu ekki greiða neinn aukakostnað vegna aðgangs að eigin gögnum né vegna beiðni um að gera gögnin tiltæk. Aðildarríki skulu bera ábyrgð á ákvörðun viðeigandi aðgangsgjalda, vegna gagna, fyrir viðurkennda aðila. Aðildarríki, eða þegar þau mæla svo fyrir um, viðeigandi lögbær stjórnvöld, skulu tryggja að öll gjöld sem eftirlitsskyldir aðilar leggja á, og veita gagnaþjónustu, séu hæfileg og vandlega rökstudd.

  • Samhæfingarkröfur og fyrirkomulag gagnaaðgangs

            Fjallað er um samhæfnikröfur og fyrirkomulag gagnaaðgangs í 24. gr. tilskipunarinnar. Þar kemur skýrt fram í 1. mgr. að svo stuðlað sé að samkeppni á smásölumarkaði, og til þess að fyrirbyggja óhóflegan umsýslukostnað fyrir viðurkennda aðila (eligible parties), skulu aðildarríkin auðvelda alla samhæfingu orkuþjónustu innan sambandsins (ESB).

            Framkvæmdastjórn ESB skal taka upp gerðir (acts) um samhæfingarkröfur, og verklagsreglur um gagnaaðang, án mismununar, á gegnsæjan máta, og vísað er til í 1. mgr. 23. gr. Gerðirnar skulu teknar upp í samræmi við ráðgefandi málsmeðferð[xiv] og vísað er til í 2. mgr. 68. gr. Samkvæmt 3. mgr. 24. gr. skulu aðildarríkin tryggja að raforkufyriræki beiti samhæfingarreglunum og verklagsreglum um gagnaaðgang og vísað er til í 2. mgr. Kröfurnar og málsmeðferðin skulu byggjast á gildandi innlendum venjum.

  • Þjónustumiðstöðvar

            Mælt er fyrir um þjónustumiðstöðvar (single points of contact) í 25. gr. Samkvæmt ákvæðinu ber aðildarríkjum að tryggja tilvist þjónustumiðstöðva sem veita viðskiptavinum allar nauðsynlegar upplýsingar um réttindi þeirra, gildandi lög og leiðir til þess að setja niður deilur. Slíkar þjónustustöðvar geta verið innan almennra upplýsingaborða fyrir neytendur.

  • Að lokum

            Nánar verður haldið í næstu grein að rekja greinar og ákvæði raforkutilskipunar ESB nr. 2019/944. Eins og glöggum lesendum er fyrir löngu orðið ljóst, þá inniheldur þessi eina tilskipun heilan „frumskóg“ af reglum og skyldum sem aðildarríkjum ber að taka upp. Verði misbrestur á því munu viðbrögðin ekki láta á sér standa – samningsbrotamál og viðurlög.

            Hversu margir þingmenn á Íslandi skyldu hafa lesið gerðir orkupakka þrjú og fjögur? Vita þeir almennt hvað þeir eru að innleiða, eða treysta þeir mest á „gervikennimenn“ og fólk sem fullyrðir að ekkert sé að óttast – allt verði í fína lagi? Hvaða heilvita maður trúir því? En upplýsing er ávalt besta vörnin gegn lyginni. Reynslan sýnir það. Það er ekki hvað síst ámælisvert í þessum orkupakkamálum öllum að þjóðin sjálf hefur aldrei verið spurð álits á því hvað leið hún vilji fara. Kerfiskallar og möppudýr virðast hafa ráðið ferðinni.

[i]      http://personality-project.org/r/r.guide.html

[ii]    Með eftirspurnarstýringu (Demand response) er hér átt við þátt neytandans, lokakaupandans, í raforkustjórnun. Stýringin fer þá ekki einungis fram á framboðshliðinni heldur og með þátttöku neytenda. Hluti af því eru svokallaðir smartmælar og áður hefur verið fjallað um. „...‘demand response’ means the change of electricity load by final customers from their normal or current consumption patterns in response to market signals, including in response to time-variable electricity prices or incentive payments, or in response to the acceptance of the final customer's bid to sell demand reduction or increase at a price in an organised market as defined in point (4) of Article 2 of Commission Implementing Regulation (EU) No 1348/2014 (17), whether alone or through aggregation;...“ (20. mgr. 2. gr. tilskipunar ESB nr. 2019/944).

[iii]   Sjá einnig: https://setis.ec.europa.eu/publications/setis-magazine/smart-grids/demand-response-empowering-european-consumer

[iv]    Sjá: https://www.europarl.europa.eu/RegData/etudes/BRIE/2017/595924/EPRS_BRI(2017)595924_EN.pdf

[v]     Sjá skilgreiningu á hagfræðihugtakinu virðiskeðja: https://www.investopedia.com/terms/v/valuechain.asp

[vi]    Sjá: https://www.emissions-euets.com/internal-electricity-market-glossary/607-balancing-market

[vii]  Sjá t.d.: https://eur-lex.europa.eu/summary/glossary/proportionality.html

[viii] „...‘active customer’ means a final customer, or a group of jointly acting final customers, who consumes or stores electricity generated within its premises located within confined boundaries or, where permitted by a Member State, within other premises, or who sells self-generated electricity or participates in flexibility or energy efficiency schemes, provided that those activities do not constitute its primary commercial or professional activity;...“ (8. mgr. 2. gr. tilskipunar ESB nr. 2019/944).

[ix]    Sjá t.d.: https://www.investopedia.com/terms/l/likeforlikesales.asp

[x]     Sjá einnig: http://www.elexon.co.uk/wp-content/uploads/2011/10/Smarter_Settlement_Final.pdf

[xi]    Time resolution vísar til þess hversu nákvæmlega hægt er að staðsetja orku í tíma. Nákvæmni í mælingum er ein af grundvallarforsendum braskkerfis með raforku. „For the scope of execution of the ISP and the BM, ADMIE shall keep a separate Registry for all Entities. It is noted that all technical operating characteristics of entities in the following registries that involve timings (e.g. time off load before going into longer standby conditions, time to synchronize, soak time, time from technical minimum generation to de-synchronization, etc.), should be converted to half-hours from hours to facilitate the half-hourly time resolution of the ISP.“

https://ec.europa.eu/research/participants/documents/downloadPublic?documentIds=080166e5c3ad0922&appId=PPGMS

[xii]  Sjá enn fremur: https://www.emissions-euets.com/-imbalance-settlement-period-

[xiii] Sjá einnig: https://www.europarl.europa.eu/RegData/etudes/BRIE/2016/593519/EPRS_BRI(2016)593519_EN.pdf

[xiv]  Sjá og 4. gr. reglugerðar nr. 182/2011: https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/ALL/?uri=CELEX:32011R0182