Kári skrifar: STÓRA RÁNIÐ UNDIRBÚIÐ - FRAMHALDSUMRÆÐA ÁTTA - RAFORKUTILSKIPUN 2019/944 ESB - ORKUPAKKI 4 – Landsreglari – grein II

            Nú verður áfram haldið að rekja ákvæði og innihald raforkutilskipunar 2019/944 ESB. Fyrir íslensku mafíuna er það er kjörin réttlæting að fá innleitt evrópskt regluverk sem gerir kröfur um markaðs- og einkavæðingu á innviðum þjóðarinnar. Stjórnmálamenn og embættismenn munu halda áfram að ljúga, hver í kapp við annan, en staðreyndirnar tala sínu máli. Þær felast í lagatextunum sjálfum. En ekki bara í lagatextum, einnig í stefnumiðum ESB – orkustefnu ESB. Það er því engin ástæða til þess að láta stjórnmálamenn ljúga sig fulla/fullan.

[Mafían ásælist innviði]

Hér mafían er á miklu skriði,

margur illur gróður.

Þjóðin byggði upp þessa viði,

þar er falinn sjóður.

  • Ákvarðanir og kvartanir

            Í 60. gr. tilskipunarinnar segir að Landsreglari hafi heimild til að krefja flutningskerfisstjóra og dreifikerfisstjóra, ef nauðsyn krefur, um að breyta skilmálum og skilyrðum, þ.m.t. gjaldtöku eða aðferðafræði, sem um getur í 59. gr. þessarar tilskipunar, til að tryggja að þau séu hófleg, og að þeim sé beitt án mismununar, í samræmi við 18. gr. reglugerðar ESB 2019/943.

            Komi til seinkunar á ákvörðun flutnings- og dreifigjalda, skal Landsreglari hafa heimildir til að ákveða eða samþykkja bráðabirgða flutnings- og dreifigjaldskrár eða aðferðafræði og ákveða viðeigandi jöfnunaraðgerðir ef endanlegar flutnings- og dreifigjaldskrár eða aðferðafræði víkja frá þessum bráðabirgðagjöldum eða aðferðafræðinni. (1. mgr. 60. gr.).

            Sérhver aðili sem hefur kvörtun gagnvart flutningskerfis- eða dreifikerfisstjóra vegna skyldna þeirra, samkvæmt þessari tilskipun, getur vísað kvörtuninni til Landsreglara, sem setur niður deilur, og skal taka ákvörðun innan tveggja mánaða frá móttöku kvörtunar. Það tímabil má framlengja um tvo mánuði ef Landsreglari leitar frekari upplýsinga. Heimilt er að framlengja enn þann tíma með samþykki þess sem ber fram kvörtun. Ákvörðun Landsreglara er bindandi nema og þar til henni er áfrýjað. (2. mgr. 60. gr.).

            Í 3. mgr. er rætt um „stöðu“ [sbr. standing/locus standi á ensku lagamáli], þ.e.a.s. hverjir geta borið fram kvörtun. Þar segir að sérhver aðili sem ákvörðun hefur áhrif á og rétt hefur til þess að kvarta vegna ákvörðunar um aðferðafræði, sem tekin er skv. 59. gr., eða, þar sem Landsreglara ber að hafa samráð, varðandi fyrirhugaða gjaldtöku eða aðferðafræði, getur innan tveggja mánaða, eða innan styttri frests, eftir því sem kveðið er á um í aðildarríkjunum, eftir birtingu ákvörðunar eða tillögu að ákvörðun, lagt fram kvörtun um endurskoðun. Slík kvörtun hefur ekki frestunaráhrif. [Það felur í sér að viðkomandi ákvörðun, sem kært er vegna, kemur samt til framkvæmda, þangað til niðurstaða kæru liggur fyrir] (3. mgr. 60. gr.).

            Aðildarríkin skulu koma á viðeigandi og skilvirku fyrirkomulagi til eftirlits, stjórnunar og gagnsæis, til að forðast misnotkun á markaðsráðandi stöðu [sbr. abuse of dominant position í samkeppnisrétti], einkum til skaða fyrir neytendur og forðast hvers konar undirverðlagningu.[i] Fyrirkomulagið skal taka mið af ákvæðum Lissabon-sáttmálans (TFEU) og einkum 102. gr. hans. [sú grein fjallar um bann við misnotkun á markaðsráðandi stöðu]. (4. mgr. 60. gr.).

            Aðildarríkin skulu sjá til þess að viðeigandi ráðstafanir séu gerðar, þ.m.t. stjórnsýslufyrirmæli eða sakamál, í samræmi við landslög þeirra, gegn einstaklingum eða lögaðilum sem ábyrgð bera þegar trúnaðarreglur, settar með þessari tilskipun, hafa ekki verið virtar. (5. mgr. 60. gr.).

            Kvartanir, sem um getur í 2. og 3. mgr., skulu vera án fyrirvara um áfrýjunarrétt samkvæmt lögum ESB eða landslögum. (6. mgr. 60. gr.). Ákvarðanir, sem Landsreglari tekur, skulu vera fullrökstuddar og réttlætanlegar vegna endurskoðunar dómstóla. Ákvarðanirnar skulu vera aðgengilegar almenningi en virða ber þagnarskyldu viðskiptalega viðkvæmra upplýsinga. (6. mgr. 60. gr.). Aðildarríkin skulu sjá til þess að viðeigandi fyrirkomulag sé til staðar á landsvísu þar sem aðili, sem verður fyrir áhrifum af ákvörðun Landsreglara, hefur málskotsrétt til aðila óháðum hlutaðeigandi málsaðilum og hvaða stjórnvalds sem er. (7. mgr. 60. gr.).

  • Svæðisbundið samstarf Landsreglara um málefni yfir landamæri

            Landsreglarar skulu hafa náið samráð og samvinnu sín á milli, einkum innan ACER, og skulu veita hverjir öðrum og ACER allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að sinna verkefnum sínum samkvæmt þessari tilskipun. Að því er varðar upplýsingaskipti, skal Landsreglari sem fær upplýsingar tryggja sömu þagnarskyldu og krafist er af gagnaðila. (1. mgr. 61. gr.).

            Landsreglarar skulu hafa samvinnu að minnsta kosti á svæðisbundnum vettvangi til að:

(a) stuðla að rekstrarfyrirkomulagi sem geri kleift að stjórna raforkukerfinu sem best, stuðla að sameiginlegum raforkuskiptum og flutningi yfir landamæri og ná fram nægilega öflugum samtengibúnaði (interconnection capacity) þ.m.t. með nýjum samtengingum, innan svæði og milli svæða, til að þróa skilvirka samkeppni og bæta afhendingaröryggi, án þess að mismuna rafveitum í mismunandi aðildarríkjum;

(b) samræma sameiginlegt eftirlit með þeim sem þjóna á svæðisbundnum vettvangi;

(c) samræma sameiginlegt landsbundið, svæðisbundið og evrópskt eftirlit yfir mati á orkuframleiðslu/orkuþörf, (sbr. adequacy assessments[ii]) í samvinnu við önnur hlutaðeigandi yfirvöld;

(d) samræma þróun allra netkóða og leiðbeininga fyrir viðkomandi flutningskerfisstjóra og aðra markaðsaðila; og

(e) samræma þróun reglna um stjórnun á burðargetu/yfirálagi (sbr. congestion). (2. mgr. 61. gr.).

            Landsreglarar hafa rétt til samvinnu sín á milli til þess að bæta eftirlit. (3. mgr. 61. gr.). Atriðin sem um getur í 2. mgr. skulu framkvæmd, eftir því sem við á, í nánu samráði við önnur viðeigandi innlend yfirvöld og með fyrirvara um sérstakar valdheimildir þeirra yfirvalda.

            Framkvæmdastjórn ESB hefur vald til þess að setja „framseldar gerðir“ [sbr. delegated act[iii]] í samræmi við 67. gr. til þess að bæta við þessa tilskipun, með því að setja leiðbeiningar um skyldur Landsreglara til samvinnu sín á milli og við ACER. (5. mgr. 61. gr.).

  • Skyldur og heimildir Landsreglara með tilliti til svæðisbundinna samhæfingarstöðva

            Samkvæmt 1. mgr. 62. gr. skulu svæðisbundnir Landsreglarar, á svæðum þar sem svæðisbundin samhæfingarstöð er stofnuð, hafa með sér nána samvinnu um:

(a) samþykkt tillögu um stofnun svæðisbundinna samræmingarstöðva í samræmi við 1. mgr. 35. gr. reglugerðar ESB 2019/943;

(b) samþykkt kostnaðar sem tengist starfsemi svæðisbundinna samhæfingarmiðstöðva, kostnaðar sem flutningskerfisstjórum er ætlað að bera, og taka skal tillit til við útreikning á gjaldskrám, að því tilskildu að þeir séu hæfilegir og viðeigandi;

(c) að samþykkja ákvörðunartökuferli;

  1. d) að tryggja að svæðisbundnar samhæfingarstöðvar séu búnar öllum nauðsynlegum mannauði, tæknilegum, efnislegum og fjárhagslegum björgum til þess að uppfylla skyldur sínar, samkvæmt þessari tilskipun, og til þess að sinna verkefnum sínum sjálfstætt og óhlutdrægt;

(e) að leggja til, ásamt öðrum Landsreglurum rekstrarsvæða, möguleg viðbótarverkefni og viðbótarheimildir sem aðildarríki rekstrarsvæðanna skulu úthluta svæðisbundnum samhæfingarstöðvum;

  1. f) að tryggja að farið sé að skyldum samkvæmt þessari tilskipun og öðrum viðeigandi Evrópurétti, einkum að því er varðar málefni yfir landamæri, og í sameiningu greina hvort svæðisbundnar samræmingarstöðvar uppfylla skyldur sínar.

            Hafi Landsreglari ekki náð samkomulagi, innan fjögurra mánaða frá því að samráð hófst, í þeim tilgangi að skilgreina sameiginlega vanefndir, skal málinu vísað til ACER til ákvörðunar skv. 10. mgr. 6. gr. reglugerðar ESB 2019/942;

(g) fylgjast með samhæfingu kerfis og tilkynna árlega til ACER að þessu leyti, í samræmi við 46. gr. reglugerðar ESB 2019/943.

            Samkvæmt 2. mgr. 62. gr. skulu aðildarríkin sjá til þess að Landsreglara séu veittar valdheimildir sem gera fært að uppfylla skyldurnar sem um getur í 1. mgr. á skilvirkan og fljótlegan máta. Í því skyni skal Landsreglari hafa að minnsta kosti eftirfarandi heimildir til:

(a) þess að óska upplýsinga frá svæðisbundnum samræmingarstöðvum;

(b) skoðana, þ.m.t. ótilkynntar skoðanir, í húsakynnum svæðisbundinna samræmingarstöðva;

(c) þess að gefa út sameiginlegar bindandi ákvarðanir um svæðisbundnu samræmingarstöðvarnar.

            Landsreglari, sem staðsettur er í aðildarríkinu þar sem svæðisbundin samræmingarmiðstöð hefur aðsetur, skal hafa heimilir til þess að beita svæðisbundna samræmingarstöð skilvirkum, sanngjörnum og fælandi (sbr. deterrence) viðurlögum þegar hún uppfyllir ekki skyldur sínar samkvæmt þessari tilskipun, reglugerð ESB 2019/943 eða einhverjar lagalega bindandi ákvarðanir Landsreglara eða ACER, eða hafa heimild til þess að leggja til að lögbær dómstóll beiti slíkum viðurlögum. (3. mgr. 62. gr.).

  • Fylgni við netkóða og leiðbeiningar

            Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. getur sérhver Landsreglari, og framkvæmdastjórn ESB, óskað álits ACER um fylgni við ákvörðun sem Landsreglari hefur tekið og snertir netkerfi og leiðbeiningar sem vísað er til í þessari tilskipun eða í VII. kafla reglugerðar ESB 2019/943.

            ACER skal láta í té álit sitt þeim Landsreglara sem hefur óskar eftir því eða framkvæmdastjórn ESB, eftir því sem við á, og Landsreglara sem hefur tekið umrædda ákvörðun, innan þriggja mánaða frá móttöku beiðninnar. (2. mgr. 63. gr.).

            Hafi Landsreglari sem ákvörðun tók ekki farið að áliti ACER, innan fjögurra mánaða frá því að álit barst, skal ACER tilkynna framkvæmdastjórn ESB um það. (3. mgr. 63. gr.).

            Sérhver Landsreglari getur upplýst framkvæmdastjórnina þegar hann telur að ákvörðun sem skiptir máli fyrir viðskipti yfir landamæri, sem tekin er af öðrum Landsregara, sé ekki í samræmi við netkóða og leiðbeiningar sem vísað er til í þessari tilskipun, eða í VII. kafla reglugerðar ESB 2019/943, innan tveggja mánaða frá dagsetningu ákvörðunarinnar. (4. mgr. 63. gr.).

            Ef framkvæmdastjórnin telur, innan tveggja mánaða frá því að ACER tilkynnir um ákvörðun, í samræmi við 3. mgr., eða Landsreglari í samræmi við 4. mgr., eða að eigin frumkvæði, innan þriggja mánaða frá ákvörðunardegi, að ákvörðun Landsreglara veki upp verulegar efasemdir um fylgni við netkóða og leiðbeiningar, sem vísað er til í þessari tilskipun eða í VII. kafla reglugerðar ESB 2019/943, getur framkvæmdastjórnin ákveðið að rannsaka málið frekar. Í slíkum tilvikum skal framkvæmdastjórnin bjóða Landsreglara, og aðilum máls, að leggja fram athugasemdir. (5. mgr. 63. gr.).

            Ef framkvæmdastjórn ESB tekur ákvörðun um að rannsaka mál frekar skal hún, innan fjögurra mánaða frá því að ákvörðunin er tekin, taka endanlega ákvörðun um að:

(a) andmæla ekki ákvörðun Landsreglara; eða

(b) krefja hlutaðeigandi Landsreglara um að draga ákvörðun sína til baka, á grundvelli þess að reglum um netkóða og leiðbeiningum hafi ekki verið fylgt. (6. mgr. 63. gr.).

            Hafi framkvæmdastjórn ESB hvorki tekið ákvörðun um að rannsaka mál frekar né tekið endanlega ákvörðun, innan þeirra tímamarka sem sett eru í 5. og 6. mgr., skal litið svo á að framkvæmdastjórnin hafi ekki andmælt ákvörðun Landsreglara. (7. mgr. 63. gr.).

            Landsreglari skal fara að ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar, þar sem þess er krafist að hann dragi ákvörðun sína til baka, innan tveggja mánaða og skal Landsreglari tilkynna framkvæmdastjórninni um það. (8. mgr. 63. gr.).

            Framkvæmdastjórn ESB hefur heimild til þess að samþykkja „framseldar gerðir“ (delegated acts) í samræmi við 67. gr., sem viðbætur við þessa tilskipun, með því að setja leiðbeiningar þar sem fram koma smáatriði um málsmeðferðina sem fylgja skal við beitingu þessarar lagagreinar. (9. mgr. 63. gr.).

  • Að lokum

            Senn dregur að lokum þessarar umfjöllunar um raforkutilskipun 2019/944 ESB. Staðgóð þekking kjósenda á innihaldi og tilgangi orkupakkanna er nauðsynleg forsenda upplýstra ákvarðana t.d. í næstu kosningum til Alþingis. Stjórnmálamenn hafa of lengi komist upp með það að ljúga að kjósendum sínum og endurtaka margskonar rangfærslur. Besta svarið við því er upplýsing, að fólk gefi sér smá tíma og lesi grunngögn málanna (s.s. tilskipanir og reglugerðir), bæði markmiðslýsingar þeirra og svo auðvitað einstakar lagagreinar.

            Eftir standa þá, vonandi, spurningar (ekki síður en svör) kjósenda, s.s.: er ég sáttur/sátt við að hafa þetta svona? Mun þetta fyrirkomulag tryggja mér lægra raforkuverð en ég hef núna? Mun þjóðin í heild hagnast á þessu fyrirkomulagi? Hvert mun arðurinn renna? Hvernig ætla menn að hindra það að braskarar og fjárglæframenn nái ekki, í krafti þessa regluverks, öllum orkuauðlindum undir sig? Hvers vegna ætti hæsta verð á kílóvattstund að vera sérstakt markmið á Íslandi, þar sem raforkuverð er nú þegar með því lægsta sem þekkist? Hvernig sjá menn fyrir sér framtíð bakara, grænmetisbænda og annara sem eiga mikið undir lágu raforkuverði? Fólk þarf að leiða hugann vel að öllum þessum spurningum og kjósa í samræmi við það (eins og mörg önnur atriði auðvitað). Næsta grein mun hefjast á umfjöllun um 64. gr. tilskipunarinnar. Þakka þeim sem lásu. Góðar stundir.

[i]      Sjá t.d.: Bara, Z. (2008). Economic Principles of Predatory (Exclusionary) Pricing in the US and in the EU Their (mis)Application in Some Recent Competition Law Cases of the European Community Commission and the Court of First Instance.

[ii]    Sjá enn fremur: ENTSO-E. (2020). Short-term and Seasonal Adequacy Assessments Methodology – Explanatory note (supplements the Methodology document for information and clarification purposes).

https://www.acer.europa.eu/en/Electricity/CLEAN_ENERGY_PACKAGE/Documents/Explanatory%20Note%20for%20Methodology%20for%20Short-term%20and%20Seasonal%20Adequacy%20Assessment_200106_submitted%20to%20ACER.pdf

[iii]   Með „framseldum gerðum“ (sbr. delegated acts) er átt við tæknilegt atriði í Evrópurétti. Það snýr að heimild framkvæmdastjórnar ESB til þess að bæta við lagatexta, sem ekki hefur grundvallarþýðingu [non-essential parts], eða breyta honum, enda geri Evrópuþingið eða Ráðið ekki athugasemdir við það. Þarna er um að ræða rétt til setningar sérstakra lagalega bindandi gerða, til handa framkvæmdastjórn ESB, til þess að skilgreina ákveðin atriði s.s. ítarlegar ráðstafanir.

Fréttabréf