Kári skrifar: STUTT YFIRLIT UM ALÞJÓÐLEGA DÓMSTÓLA OG GERÐARDÓMA

            Í umræðu samtímans gætir eðlilega nokkurs misskilnings hvað snertir alþjóðlega dómstóla og lögsögu þeirra. Misskilningurinn er fullkomlega eðlilegur sökum þess að dómstólarnir eru margir, þeir eru langt frá fólki í daglegum veruleika lífsins og fjalla um mál sem mörgum eru fjarlæg. Í fyrsta lagi þarf að gera greinarmun á alþjóðlegum dómstólum annars vegar og svæðisbundnum (regional courts) dómstólum hins vegar [sbr. Mannréttindadómstól Evrópu].

            Í öðru lagi þarf að hafa í huga hvaða lögsaga (jurisdiction) kemur helst til álita í tengslum við ákveðna dómstóla. Almennt má reisa lögsögu í alþjóðarétti á nokkrum mismunandi reglum sem þróast hafa í tímans rás og hafa mismikið vægi í framkvæmd. Þær eru:

  • Landfræðileg lögsaga (territorial jurisdiction);
  • Landfræðileg lögsaga - framlengd (extra-territorial jurisdiction[i]);
  • Lögsaga byggð á þjóðerni brotamanns (active personality principle);
  • Lögsaga byggð a þjóðerni fórnarlambs (passive personality principle);
  • Allsherjarlögsaga (universal jurisdiction, hvaða ríki sem er getur krafist lögsögu).

            Í sumum tilvikum er lögsaga skyldubundin (compulsory jurisdiction) en í öðrum tilvikum hafa ríki/einstaklingar val um lögsöguna (optional jurisdiction). Alþjóðarétti verður skipt í alþjóðlegan einkamálarétt (private international law) og opinberan alþjóðarétt (public international law). Skiptingin í einkamálarétt og opinberan rétt er rakin til Rómaréttar (ius privatum v. ius publicum).

Tilurð og áhrif alþjóðaréttar

            Enda þótt upphaf alþjóðaréttar megi formlega rekja til hollenska fræðimannsins og lögfræðingsins Hugo Grotius (1583–1645) byggir alþjóðaréttur þó á undirstöðum úr Rómarétti[ii] enda voru Rómverjar gagnmerkir brautryðjendur á sviði lögfræðinnar. Margar lagareglur úr Rómarétti eru enn í fullu gildi. Alþjóðlegir dómstólar geta bæði fjallað um mál af einkaréttarlegum toga, t.d. á milli fyrirtækja, og af opinberum, s.s. milliríkjadeilur.

            Ýmis álitamál tengjast sambandinu á milli landsréttar einstakra ríkja og alþjóðaréttar. Það er mismunandi eftir ríkjum hvaða stöðu alþjóðaréttur hefur gagnvart innlendum rétti sömu ríkja. Tvær kenningar eru almennt lagðar til grundvallar tengslum alþjóðaréttar og landsréttar, hvað snertir innleiðingu og réttaráhrif. Annars vegar er það kenning „einhyggju“ (monism) og hins vegar kenning „tvíhyggju“ (dualism).[iii]

            Samkvæmt fyrrnefndu kenningunni má segja að landsréttur og alþjóðaréttur „renni saman“ í eitt og sama réttarkerfi. Í slíku réttarkerfi verða alþjóðlegir sáttmálar og samningar sjálfkrafa hluti af landsrétti og þarfnast ekki sérstakrar innleiðingar (sbr. t.d. 25. gr. þýsku stjórnarskrárinnar og franska réttarkerfið). Samkvæmt síðarnefndu kenningunni (dualism) er hins vegar litið svo á að landsréttur og alþjóðaréttur séu tvö aðskilin réttarkerfi. Þar sem slíkt fyrirkomulag er ríkjandi eru alþjóðasáttmálar innleiddir í landsrétt með sérstökum lögum (t.d. á Íslandi og í Englandi).

            Hér á eftir verður gerð stutt grein fyrir helstu alþjóðlegu dómstólum sem stofnaðir hafa verið undanfarna áratugi [og raunar í rúma öld]. Dómstólarnir verða ekki nauðsynlega raktir í tímaröð en stofnárs getið þannig að ekkert fari á milli mála.

Alþjóðadómstóllinn í Haag

            Fyrst er að nefna Alþjóðadómstólinn (ICJ) í Haag í Hollandi. Hann var stofnaður með stofnskrá Sameinuðu þjóðanna árið 1945 og hóf störf árið eftir. Dómstóllinn er skipaður 15 dómurum sem eru kosnir til níu ára í embætti af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og Öryggisráði þeirra. Opinber tungumál dómstólsins eru enska og franska.

            Hlutverk dómstólsins er að útkljá, í samræmi við alþjóðarétt, lögfræðilegar deilur sem ríki leggja fyrir hann og gefa ráðgefandi álit á lögfræðilegum spurningum sem vísað er til hans, af viðurkenndum stofnunum Sameinuðu þjóðanna og sérhæfðum stofnunum.[iv]

            Dómstóllinn starfar á heimsvísu. Lögsaga hans er tvíþætt: í fyrsta lagi kveður hann upp dóma, í krafti alþjóðaréttar, í deilum af lagalegum toga sem ríki leggja fyrir hann (sbr. jurisdiction in contentious cases). Í öðru lagi gefur hann ráðgefandi álit á lagalegum álitamálum sem stofnanir Sameinuðu þjóðanna bera fram, sérhæfðar stofnanir, eða stofnun sem hefur heimild til þess að óska slíks álits (sbr. advisory jurisdiction).[v]

            Lögsaga alþjóðadómstólsins er bindandi, að því gefnu að ríkin sem eiga í deilu fallist á það. Með öðrum orðum, ríkin þurfa (bæði) að samþykkja bindandi lögsögu dómstólsins í tilteknum málum. Samþykki ríkin lögsögu dómstólsins getur hann tekið afstöðu til:

(a) túlkunar sáttmála;

(b) allra spurninga um alþjóðarétt;

  1. c) tilvistar hvaða staðreyndar sem, ef hún væri staðfest, myndi fela í sér brot á alþjóðlegri skuldbindingu;

(d) eðli eða umfangi skaðabóta vegna brots á alþjóðlegri skuldbindingu.[vi]

            Af þessu sést að lögsaga Alþjóðadómstólsins er eðlisólík ef hún er borin saman við t.d. lögsögu Evrópudómstólsins í Lúxemborg, en lögsaga hans er bindandi (compulsory), í ákveðnum málaflokkum, án skilyrða, hafi ríki á annað borð gengið í ESB.

Alþjóðlegi stríðsglæpadómstóllinn

            Þann 17. júlí árið 1998 ákváðu 160 ríki, í Róm, að stofna varanlegan dómstól (ICC).[vii] á sviði stríðsglæpa Stríðsglæpadómstóllinn er staðsettur í Haag í Hollandi. Hann hefur á sinni könnu þjóðarmorð, stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni. Þessi atriði eru öll nánar útfærð í hinni svokölluðu Rómarsamþykkt (Rome Statute).[viii] sem dómstóllinn byggir tilurð sína á. Dómstóllinn er ekki ein af stofnunum Sameinuðu þjóðanna.[ix] Um er að ræða alþjóðlegan dómstól á sviði alþjóðlegs refsiréttar (International Criminal Law). Á heimasíðu dómstólsins er m.a. að finna reglur um málsmeðferð,  sönnunarkröfur, embætti saksóknara og fleira.

            Í 1. gr. Rómarsamþykktarinnar kemur fram að dómstóllinn hafi lögsögu í alvarlegustu, alþjóðlegum glæpum sem framdir eru og kemur lögsagan til viðbótar refsilögsögu aðildarríkja (complementary to national criminal jurisdictions). Um lögsögu og starfsemi dómstólsins fer eftir ákvæðum Rómarsamþykktarinnar. Ísland gerðist aðili að Alþjóða stríðsglæpadómstólnum [aðildarríki Rómarsamþykktarinnar] með undirritun 26. ágúst 1998 og staðfestingu þann 25. maí 2000.[x] Samþykktin var lögfest með lögum nr. 43/2001 sem tóku gildi þann þann 1. júlí 2002.[xi]

            Sjö ríki kusu gegn Rómarsamþykktinni og lögfestu hana ekki. Þau voru: Bandaríkin, Kína, Lýbía, Írak, Ísrael, Katar og Jemen.[xii]

Starfsmannadómstóll Sameinuðu þjóðanna

            Innan Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) starfar dómstóll - International Labour Organization Administrative Tribunal.[xiii] Hann á rætur að rekja til Þjóðabandalagsins sem stofnað var árið 1920 sem var fyrirrennari Sameinuðu þjóðanna.

            Um lögsögu dómstólsins má lesa í samþykkt hans frá 1946 með síðari breytingum. Í 1. mgr. 2. gr. segir að dómstóllinn skuli vera bær til þess að taka til meðferðar kvartanir um að ekki sé fylgt, efnislega eða að formi til, reglum um skipun embættismanna Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar og þeim ákvæðum starfsmannareglna sem við eiga. Í 2. mgr. 2. gr. segir m.a. að dómstóllinn skuli vera bær til þess að greiða úr ágreiningi um bætur vegna meiðsla eða sjúkdóma embættismanna.

            Samkvæmt 4. mgr. skal dómstóllinn vera bær til að taka fyrir deilur sem stafa af samningum sem Alþjóðavinnumálastofnunin er aðili að og kveða á um valdheimildir dómstólsins í öllum ágreiningi varðandi samningana.

            Dómstóllinn skal einnig, samkvæmt 5. mgr., vera bær til þess að fjalla um kvartanir, efnislegar eða formlegar, vegna skipunarskilmála embættismanna og ákvæða starfsmannareglna sem gilda um aðrar alþjóðastofnanir sem uppfylla viðmiðin, sem sett eru fram í viðaukanum við samþykkt dómstólsins.

            Þá skal dómstóllinn, skv. 6. mgr., vera opinn embættismönnum, jafnvel þótt þeir hafi látið af starfi, og sérhverjum þeim sem tekur við starfi eftir dauða embættismanns. Einnig skal dómstóllinn opinn hverjum öðrum einstaklingi sem getur sýnt fram á að hann eða hún eigi einhvern rétt samkvæmt skipunarskilmálum látins embættismanns, eða samkvæmt ákvæðum starfsmannareglna sem embættismaðurinn gæti reitt sig á.

Hafréttardómstóll Sameinuðu þjóðanna

            Hafréttardómstóllinn er óháður dómstóll (staðsettur í Hamborg í Þýskalandi) sem stofnaður var með hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna,[xiv] til þess að dæma í deilumálum sem stafa af túlkun og beitingu sáttmálans. Dómstóllinn er skipaður 21 óháðum dómara, kjörnum úr hópi einstaklinga sem njóta æðsta orðspors fyrir sanngirni, heilindi og viðurkennda hæfni á sviði hafréttar.

            Lögsaga hafréttardómstólsins markast af ákvæðum hafréttarsáttmálans. Hún samanstendur af öllum deilum og öllum umsóknum sem lagðar eru fyrir hann í samræmi við samninginn. Lögsagan tekur einnig til allra mála sem sérstaklega er kveðið á um í öðrum samningum og veita dómstólnum lögsögu skv. 21. gr. stofnsamþykktar dómstólsins.[xv] Dómstóllinn hefur lögsögu til þess að fást við milliríkjadeilur (contentious jurisdiction) og lagalegar spurningar (ráðgefandi lögsaga) sem lagðar eru fyrir hann.

            Dómstóllinn hefur lögsögu yfir öllum deilumálum varðandi túlkun eða beitingu hafréttarsáttmálans, með fyrirvara um ákvæði 297. gr. og yfirlýsingar sem gefnar eru í samræmi við 298. gr. sáttmálans.

  1. gr. hans og yfirlýsingar sem gerðar eru samkvæmt 298. gr. sáttmálans koma ekki í veg fyrir að aðilar samþykki að leggja fyrir dómstólinn ágreining sem annars er undanskilinn lögsögu dómstólsins samkvæmt þessum ákvæðum (299. gr. UNCLOS).[xvi]

Alþjóðlegi gerðardómurinn í Haag

            Í Haag er staðsettur Alþjóðlegi gerðardómurinn (Cour permanente d'arbitrage). Gerðardómurinn var fyrsta varanlega milliríkjastofnunin (IGO) sem skapaði vettvang til lausnar á alþjóðlegum deilum með gerðardómi og öðrum friðsamlegum leiðum. Hann var stofnaður með Kyrrahafssáttmálanum um alþjóðlegar deilur, sem gerður var árið 1899, á fyrstu friðarráðstefnunni í Haag. Ráðstefnan var boðuð að frumkvæði Tsars Nikulásar II.[xvii] Rússlandskeisara [af Rómanovættinni] „með það að markmiði að leita hlutlægustu leiða til þess að tryggja öllum þjóðum ávinninginn af raunverulegum og varanlegum friði og umfram allt að takmarka stigvaxandi uppbyggingu [núverandi] vígbúnaðar.“

            Meðal markmiða ráðstefnunnar var að styrkja kerfi alþjóðlegra lausna á deilumálum - sérstaklega alþjóðlegan gerðardóm. Fulltrúar ráðstefnunnar litu til síðustu 100 ára þar á undan, þar sem stofnaðir höfðu verið fjölmargir, vel heppnaðir, alþjóðlegir gerðardómar. Þeir hófust með „Jay-sáttmálanum“ og gerðardómi (Mixed Commissions[xviii]) í lok 18. aldar og náð hámarki með gerðardómi í Alabama. á árunum 1871-1872. Að auki hafði Institut de Droit International[xix] samþykkt starfsreglur um gerðardóma árið 1875.[xx]

            Ísland er meðal þeirra 122 ríkja sem aðild eiga að Alþjóðlega gerðardómnum, eða frá árinu 1955 [báðum sáttmálunum, þ.e. frá 1899 og 1907, báðir sáttmálarnir í gildi].[xxi] Í reglum gerðardómsins er að finna ákvæði um lögsögu hans. Engin krafa er gerð um það að ríki sem samþykkir að skjóta máli til gerðardómsins sé aðili að sáttmálunum frá 1899/1907 og aðild að þeim stofnar ekki neins konar skyldubundna lögsögu (compulsory jurisdiction).[xxii]

            Engar sérstakar kröfur eru heldur gerðar um efni máls sem hægt er að skjóta til gerðardómsins. Til hans kasta hafa m.a. komið deilur af efnahagslegum toga (economic disputes), um farbann á skipum, um mál sem snerta lögsögu og friðhelgi, um náttúruauðlindir, umhverfi og vatn, um rétt strandríkja, um vopnuð átök, mörk hafsvæða og mörk á landi.[xxiii] Úrskurðum gerðardómsins verður ekki skotið til æðri dómstóls og eru bindandi fyrir málsaðila.[xxiv] Ríki, einkaaðilar og fyrirtæki geta skotið málum til gerðardómsins.

Alþjóða gerðardómur fyrir lausn deilna um fjárfestingar

            Innan Alþjóðabankahópsins (the World Bank Group) er alþjóðlegur gerðardómur, stofnaður árið 1966, sem fjallar um deilur á milli alþjóðlegra fjárfesta. Í sáttmála gerðardómsins[xxv] [Convention on the settlement of investment disputes between States and nationals of other States] er m.a. skilgreind lögsaga hans. Í II. kafla sáttmálans, 1. mgr. 25. gr., segir að lögsaga gerðardómsins (the Centre) nái til allra lögfræðilegra ágreiningsefna sem tengjast fjárfestingum beint, á milli samningsríkis (eða einhverrar undirstofnunar eða stofnunar samningsríkis) og ríkisborgara annars samningsríkis, hvers mál deiluaðilar samþykkja skriflega og leggja fyrir gerðardóminn. Þegar aðilar hafa veitt samþykki sitt er þeim ekki heimilt að draga samþykki sitt til baka.

            Samkvæmt a-lið 2. mgr. 25. gr. merkir „ríkisborgari annars samningsríkis“ sérhvern einstakling sem hefur ríkisfang annars samningsríkis en þess ríkis sem er aðili að deilu, þann dag sem málsaðilar samþykkja að leggja deiluna til sátta eða fyrir gerðardóm, sem og á þeim degi sem beiðni um það er skráð. Undir skilgreininguna fellur einnig, skv. b-lið 2. mgr., hvaða lögaðili sem er (juridical person) sem hefur ríkisfang annars samningsríkis en ríkisins sem aðili er að deilu, þann dag sem málsaðilar samþykkja að leggja deiluna til sátta eða fyrir gerðardóm, og allir lögaðilar sem hafa ríkisfang samningsríkis að deilunni, á þeim sama degi, og samþykkt er af málsaðilum, vegna erlendrar stjórnunar [sbr. foreign control[xxvi]] að skuli meðhöndla sem aðila annars samningsríkis.

            Um sáttaleið (conciliation) er fjallað í III. kafla, (gr. 28-35). Um gerðardóm er rætt í IV. kafla sáttmálans. Um stofnun gerðardóms segir í a-lið 2. mgr. 37. gr. að dómurinn skuli samanstanda af einum gerðarmanni eða misjöfnum fjölda gerðarmanna, skipuðum eins og deiluaðilar verða ásáttir um. Komi deiluaðilar sér ekki saman um samsetningu gerðardómsins, og aðferðir við skipun hans, gilda ákvæði b-liðar 2. mgr. Þá skal dómurinn samanstanda af þremur gerðarmönnum og einum gerðarmanni tilnefndum af hverjum deiluaðila. Dómforsetinn skal skipaður með samþykki deiluaðila.

            Skera skal úr ágreiningi í samræmi við þann rétt (rules of law) sem deiluaðilar kom sér saman um að eigi að gilda. Sé slíkt samþykki ekki fyrir hendi skal dómurinn beita rétti samningsríkis aðila að deilunni (þar með taldar reglur um lagaskil, conflict of laws) og reglur alþjóðaréttar. (1. mgr. 42. gr.).

Alþjóðahugverkastofnunin

            Meðal stofnana Sameinuðu þjóðanna er Alþjóðahugverkastofnunin (WIPO[xxvii]) sem staðsett er í Genf í Sviss. Stofnunin býður úrlausnir deilumála; sáttaumleitanir, gerðardóma, flýtimeðferð og sérfræðiákvarðanir sem gera einkaaðilum fært að leysa deilur innanlands eða á milli ríkja (cross-border) á sviði hugverkaréttar. Alþjóðahugverkastofnuninni var komið á fót með með sáttmála sérstökum sáttmála (The WIPO Convention[xxviii]) sem undirritaður var í Stokkhólmi, þann 14. júlí 1967. Sáttmálinn tók gildi árið 1970 og var breytt árið 1979. Hugverkastofnunin er milliríkjastofnun og varð ein af sérstofnunum Sameinuðu þjóðanna árið 1974.

            Upphaf WIPO nær til áranna 1883 og 1886 þegar Parísarsáttmálinn[xxix] um verndun iðnaðarverðmæta og Bernarsáttmálinn[xxx] um vernd bókmennta og listaverka kváðu á um stofnun „Alþjóðaskrifstofu“. Þessar tvær skrifstofur voru sameinaðar árið 1893. Árið 1970 varð síðan til úr því Alþjóðahugverkastofnunin, í krafti WIPO-sáttmálans.[xxxi] [1. gr. sáttmálans]. Ísland á aðild að stofnuninni, með undirritun árið 1967 og fullgildingu 13. júní árið 1986.

Að lokum

            Áfram verður haldið í næstu grein að gefa yfirlit um alþjóðlega dómstóla og gerðardóma. Af nægu er enn að taka. Þar má nefna „réttarkerfi“ Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO), Mannréttindadómstól Evrópu, Evrópudómstólinn og EFTA-dómstólinn. Vonandi varpar þessi umfjöllun einhverju ljósi á tilurð og tilgang þessara dómstóla. Þakka þeim sem lásu. Góðir stundir.

[i]      Sjá t.d.: Stigall, Dan E., International Law and Limitations on the Exercise of Extraterritorial Jurisdiction in U.S. Domestic Law (April 26, 2012). Hastings International and Comparative Law Review, Vol. 35, No. 2, p. 323, 2012, Available at SSRN: https://ssrn.com/abstract=2043287

[ii]    Sjá t.d.: Wolff, H.J. (1951). Roman Law – An Historical Introduction. University of Oklahoma Press, Norman, p. 216.

[iii]   Sjá einnig: Bradley, A.W. og Ewing, K.D. (2003). Constitutional and Administrative Law, 13th Edition. Pearson-Longman, p. 310.

[iv]    International Court of Justice. https://www.icj-cij.org/en/court

[v]     International Court of Justice. https://www.icj-cij.org/en/jurisdiction

[vi]    2. mgr. 36. gr. stofnsamþykktar dómstólsins. Statute of the International Court of Justice. https://www.icj-cij.org/en/statute

[vii]  Sjá heimasíðu ICC: https://www.icc-cpi.int/Pages/Main.aspx

[viii] Sjá: Rome Statute of the International Criminal Court (Statute). https://www.icc-cpi.int/resource-library/Documents/RS-Eng.pdf

[ix]    Sjá t.d.: UN Documentation: International Law. https://research.un.org/en/docs/law/courts

[x]     Rome Statute of the International Criminal Court. https://treaties.un.org/Pages/ViewDetails.aspx?src=TREATY&mtdsg_no=XVIII-10&chapter=18&clang=_en

[xi]    Lög um framkvæmd Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn. https://www.althingi.is/lagas/149a/2001043.html

[xii]  Michael P. Scharf, The ICC’s Jurisdiction over the Nationals of Non-party States: A Critique of the U.S. Position, 64 Law and Contemporary Problems 67-118 (Winter 2001). Available at: https://scholarship.law.duke.edu/lcp/vol64/iss1/4

[xiii] International Labour Organization (ILO). https://www.ilo.org/global/lang--en/index.htm

[xiv]  United Nations Convention on the Law of the Sea (UNCLOS) of 10 December 1982. https://www.un.org/depts/los/convention_agreements/convention_overview_convention.htm

[xv]   Statute of the International Tribunal for the Law of the Sea (Annex VI of the United Nations Convention on the Law of the Sea). https://www.itlos.org/fileadmin/itlos/documents/basic_texts/statute_en.pdf

[xvi]  Sjá einnig: Jurisdiction. https://www.itlos.org/en/jurisdiction/

[xvii] Sjá t.d.: Tsar Nicholas II: Peace and International Jurisdiction. https://www.peacepalacelibrary.nl/library-special/tsar-nicholas-ii-peace-and-international-jurisdiction/

[xviii]       Sjá einnig: Free Online Dictionary of Law Terms and Legal Definitions. Mixed Commission. https://legaldictionary.lawin.org/mixed-commission/

[xix]  Sjá: L’Institut de Droit international (IDI). https://www.idi-iil.org/fr/

[xx]   History. https://pca-cpa.org/en/about/introduction/history/

[xxi]  Contracting Parties. https://pca-cpa.org/en/about/introduction/contracting-parties/

[xxii] Holtzmann, Howard M. Shifman and Bette E. (2003). Dispute settlement. General topics. 1.3, Permanent Court of Arbitration. United Nations. https://digitallibrary.un.org/record/505017?ln=en

[xxiii]       Pulkowski, D. (2017). Arbitration and Conciliation at the Permanent Court of Arbitration. Meeting of the States Parties to UNCLOS 14 J 2017. https://pca-cpa.org

[xxiv]       Holtzmann op. cit.

[xxv] ICSID Convention, Regulations and Rules. (2006). https://icsid.worldbank.org/sites/default/files/ICSID%20Convention%20English.pdf

[xxvi]       Sjá einnig: Controlled Foreign Corporation (CFC). https://www.investopedia.com/terms/c/cfc.asp

[xxvii]      World Intellectual Property Organization. https://www.wipo.int/portal/en/

[xxviii]     Convention Establishing the World Intellectual Property Organization. https://wipolex.wipo.int/en/text/283833

[xxix]       Paris Convention for the Protection of Industrial Property. https://www.wipo.int/edocs/lexdocs/treaties/en/paris/trt_paris_001en.pdf

[xxx] Berne Convention for the Protection of Literary and Artistic Works. https://www.wipo.int/edocs/lexdocs/treaties/en/berne/trt_berne_001en.pdf

[xxxi]       Convention Establishing the World Intellectual Property Organization. https://treaties.un.org/doc/Publication/UNTS/Volume%20828/volume-828-I-11846-English.pdf

 

 

 

Fréttabréf