Fara í efni

STUTT YFIRLIT UM ALÞJÓÐLEGA DÓMSTÓLA OG GERÐARDÓMA - síðari grein

           

Þessi grein er framhald af fyrri grein um sama efni. Áfram verður haldið að gera stutta grein fyrir alþjóðlegum dómstólum og gerðardómum. Um lögsögu og alþjóðarétt almennt vísast m.a. til fyrri greinar.

Alþjóðaviðskiptastofnunin

            Alþjóðaviðskiptastofnunin (WTO) var stofnuð[i] þann 1. janúar 1995 og er staðsett í Genf í Sviss. Aðild að henni áttu 164 ríki[ii] árið 2018. Stofnunin byggir á grunni GATT-samningsins [General Agreement on Tariffs and Trade] frá 1947 um lækkun og afnám tolla og viðskiptahindrana í milli ríkja. Segja má að stofnunin hafi sitt „eigið réttarkerfi“ sem er gríðarlega umfangsmikið og inniheldur fjöldamarga, marghliða samninga.

            Samningarnir binda aðildarríki en skapa hvorki skyldur né réttindi gagnvart ríkjum sem ekki hafa samþykkt þá.[iii] Kerfið byggist á ákveðnu skipulagi sem m.a. er ætlað að leysa viðskiptadeilur og skera úr um rétt aðildarríkja á sviði heimsviðskipta.

            Hlutverk Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar er skilgreint undir III. gr. stofnsamningsins. Þar segir í 2. mgr.: „Alþjóðaviðskiptastofnunin skal vera vettvangur samningaviðræðna meðal aðildarríkja sinna vegna þeirra fjölþjóðlegu viðskiptatengsla, í málum sem fjallað er um samkvæmt samningunum í viðaukum [Annex 1-4] við þennan samning [Stofnsamning WTO]. Alþjóðaviðskiptastofnunin getur einnig skapað vettvang fyrir frekari samningaviðræður meðal aðildarríkja sinna, um þeirra marghliða viðskiptatengsl, og myndað umgjörð til þess að koma niðurstöðum viðræðna til framkvæmda, eins og ráðherraráðstefnan [Ministerial Conference] getur ákveðið.“

            Í stuttu máli eru „tvö dómstig“ innan stofnunarinnar. Í fyrsta lagi er hægt að fara fram á stofnun „kærunefndar“ (panel) sem birtir að lokum skýrslu. Kærunefndir eru ad hoc úrskurðarvald [stofnaðar í hverju máli fyrir sig] á vissan hátt dómstólar, sem dæma á „fyrsta dómstigi“. Niðurstöðum [úrskurðum] þeirra má síðan skjóta til „æðra dómstigs“ eða áfrýjunarnefndar (the Appellate Body[iv]).

            Áfrýjunarnefndin var stofnuð árið 1995 samkvæmt 17. gr. samkomulags um reglur og málsmeðferð við lausn deilumála (Understanding on Rules and Procedures Governing the Settlement of Disputes - DSU). Áfrýjunarnefndin er fastanefnd (standing body). Hana skipa sjö menn/konur sem meta áfrýjanir vegna skýrslna sem kærunefndir hafa skilað af sér í deilum milli aðildarríkja WTO. Áfrýjunarnefndin getur haldið uppi, breytt eða snúið við lagalegum niðurstöðum og ályktunum nefnda (panel). Úrskurðir í skýrslum áfrýjunarnefndar, eftir að skýrslurnar hafa verið samþykktar af (DSB), eru bindandi fyrir ríkin sem eiga í deilum. Ísland er aðili að Alþjóðaviðskiptastofnuninni frá stofnun hennar árið 1995.

Alþjóða stríðsglæpadómstóllinn vegna Rúanda

            Meðal þess sem Nürnberg-réttarhöldin höfðu í för með sér, eftir seinni heimstyrjöld, voru ákveðnar breytingar á ábyrgð vegna voðaverka. En í réttarhöldunum var gengið út frá þeirri reglu að menn væru persónulega ábyrgir fyrir gerðum sínum. Ekki dygði sem vörn að vísa til skipana „að ofan“. Þetta er mikilvæg forsenda þess að hægt sé að draga menn til ábyrgðar vegna glæpa sem framdir eru í stríðum. Sekt er ákvörðuð eftir annað hvort ásetningi (dolus) eða vanrækslu (culpa). [Hér er rétt að hafa í huga að t.a.m. ítalski fræðimaðurinn Antonio Cassese hefur gagnrýnt 30. gr. Rómarsamþykktarinnar m.a. fyrir það að skilgreina ekki hirðuleysi (recklessness) sem saknæman ásetning (sbr. culpable mens rea[v]). Um samþykktina er fjallað í fyrri grein um sama efni].

            Stríðsglæpadómstóllinn vegna Rúanda var stofnaður af Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, með ályktun 955 (1994) frá 8. nóvember 1994, og tók til starfa árið 1995 [í kjölfar borgarastríðsins í Rúanda]. Þessi dómstóll er ad hoc dómstóll [stofnaður af þessu sérstaka tilefni], ásamt samskonar dómstóli vegna fyrrum Júgóslavíu. Refsilögsaga dómstólsins er samhliða lögsaga (concurrent jurisdiction). Í því felst að landsdómstólar og stríðsglæpadómstóllinn fóru saman með lögsögu í þeim glæpum sem um ræðir.[vi] Lögsaga hins síðarnefnda skyldi þó hafa forgang.[vii]

            Dómarar dómstólsins báru ábyrgð á því að ákvarða sekt eða sakleysi þeirra sem sakaðir voru um að hafa framið þjóðarmorð, stríðsglæpi og/eða glæpi gegn mannkyninu, í Rúanda árið 1994, og að dæma hina sakfelldu til fangelsisvistar, í réttu hlutfalli við glæpina. Hámarksrefsing sakfelldra er ævilangt fangelsi.[viii]

            Allir dómararnir voru kosnir af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, af lista sem Öryggisráðið lagði fram. Dómararnir voru kosnir til fjögurra ára og mátti endurkjósa. Upphaflega voru deildir dómstólsins [Chambers] skipaðar 16 dómurum og engir tveir gátu verið ríkisborgarar sömu ríkja. En árið 2002 stofnaði Öryggisráðið hóp 18 dómara [ad litem judges] við dómstólinn og fól þeim í vaxandi mæli að ljúka fyrirliggjandi réttarhöldum og stofna til frekari réttarhalda.[ix]

            Lengst af starfaði dómstóllinn í þremur réttardeildum [trial chamber] og einni áfrýjunardeild, en þeirri síðarnefndu var deilt með Alþjóðastríðsglæpadómstólnum fyrir fyrrum Júgóslavíu (ICTY).[x] Stríðsglæpadómstólinn vegna Rúanda lauk störfum árið 2015.

Alþjóða stríðsglæpadómstóllinn vegna fyrrum Júgóslavíu

            Eins og kemur fram á heimasíðu dómstólsins, þá var Alþjóða stríðsglæpadómstóllinn fyrir fyrrum Júgóslavíu (ICTY) dómstóll Sameinuðu þjóðanna sem fjallaði um stríðsglæpi sem áttu sér stað í átökunum á Balkanskaga á tíunda áratug síðustu aldar.

            Á starfstíma sínum frá 1993-2017, breytti dómstóllinn umgjörð alþjóðlegrar mannúðarlaga til frambúðar, gaf fórnarlömbum tækifæri til þess að koma á framfæri þeim hryllingi sem þau urðu vitni að og upplifðu. Dómstóllinn sannaði að hægt er að kalla þá til ábyrgðar sem grunaðir voru um að eiga stærstan þátt í voðaverkum sem framin voru í vopnuðum átökum.[xi]

            Þessi ad hoc dómstóll var stofnaður með ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 827 (1993). Í 2. gr. ályktunarinnar segir svo:

            [Öryggisráðið] ákveður hér með að stofna alþjóðadómstól, í þeim eina tilgangi að sækja til saka einstaklinga sem ábyrgð bera á alvarlegum brotum, á alþjóða mannúðarlögum, sem framin voru á yfirráðasvæði fyrrum Júgóslavíu á milli 1. janúar 1991 og dags sem Öryggisráðið ákveður þegar friður hefur náðst. Stofnsamþykkt alþjóðadómstólsins í því skyni fylgir með áðurnefndri skýrslu.[xii] [skýrslu aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna].

            Í 4. gr. sömu ályktunar segir að öll ríki skuli hafa fullu samvinnu með alþjóðadómstólnum og stofnunum hans, í samræmi við þessa ályktun og stofnsamþykkt alþjóðadómstólsins. Þar af leiðandi skuli öll ríki gera allar nauðsynlegar ráðstafanir samkvæmt landslögum til þess að framfylgja ákvæðum þessarar ályktunar og stofnsamþykktarinnar, þar með talin skylda ríkja til þess að svara beiðnum um aðstoð eða fyrirmælum gefnum út af réttardeild [Trial Chamber] skv. 29. grein stofnsamþykktarinnar.[xiii]

            Í uppfærðri stofnsamþykkt dómstólsins vegna fyrrum Júgóslavíu [Updated Statute of the International Criminal Tribunal for the former Yugoslavia] er fjallað um fjölmörg atriði og réttarreglur. Þar má finna ákvæði um valdheimildir dómstólsins (1. gr.), vísað til Genfarsáttmálans frá 1949 (2. gr.), skilgreiningar brotanna sem um ræðir í 3-5. gr. og lögsaga dómstólsins nær yfir. Þar er einkum um að ræða [auk ákvæða Genfarsáttmálans] brot á lögum eða venjum í stríði, þjóðarmorð og glæpi gegn mannkyni.

            Hver þessara glæpa flokkast síðan í marga „undirglæpi“ ef svo má að orði komast. Í vopnuðum átökum, þegar glæpir beinast gegn almennum borgurum, kunna þessar skilgreiningar að virkjast. Undir glæpi gegn mannkyni falla: morð, útrýming, þrælkun, brottvísun, fangelsisvist, pyntingar, nauðganir, ofsóknir á pólitískum, kynþáttalegum og trúarlegum forsendum og aðrar ómannúðlegar athafnir.

            Í 6. gr. nefndrar stofnsamþykktar kemur og fram að lögsaga dómstólsins nái til einstaklinga. Einstaklingsbundin refsiábyrgð er sérstaklega tilgreind í 7. gr. [Individual criminal responsibility, sbr. það sem áður er komið fram um Nürnberg-réttarhöldin]. Um lögsögu er rætt í 8. gr. en þar segir að dómstóllinn hafi landfræðilega lögsögu (territorial jurisdiction) í fyrrum Júgóslavíu þar með talin lofthelgi og landhelgi. Í 1. mgr. 9. gr. segir að stríðsglæpadómstóllinn og landsdómstólar skuli hafa samhliða refsilögsögu (concurrent jurisdiction) en sá fyrr nefndi hafi þó forgang [primacy over national courts] (2. mgr. 9. gr.).

            Reglan um að vera ekki saksóttur eða refsað tvívegis [ne bis in idem, sbr.  tvöfalt refsinæmi] vegna sama afbrots/glæps er skilgreind í 10. gr. Þar segir efnislega í 1. mgr. að yfir engum skuli réttað fyrir landsdómstóli vegna athafna sem fela í sér alvarleg brot á alþjóðlegum mannúðarlögum, skv. stofnsamþykkt dómstólsins, sem hann eða hún hefur þegar hlotið dóm fyrir hjá alþjóðlega stríðsglæpadómstólnum.

Almenni dómstóll Evrópusambandsins

            Dómstóll Evrópusambandsins (CJEU) samanstendur af tveimur dómstólum með aðsetur í Lúxemborg. Annars vegar er það almenni dómstóllinn (General Court, áður Court of First Instance), sem er undirréttur, og hins vegar Evrópudómstóllinn (Court of Justice). Við þessa tvo má raunar bæta þriðja dómstólnum sem er Starfsmannadómstóll ESB (European Civil Service Tribunal). Hlutverk hans er skilgreint undir 270. gr. TFEU. Sá dómstóll hefur lögsögu til til úrskurða í deilum á milli ESB og starfsmanna sambandsins. Þar er t.d. um að ræða mál sem snerta laun, nýliðun, stöðuhækkanir, veikindarétt, fjölskyldubætur og fleira.[xiv]

            Almenni dómstóllinn og Evrópudómstóllinn hafa það hlutverk að túlka og dæma eftir Evrópurétti. Þar ber fyrst að nefna frumlöggjöf (primary law) og felst einkum í sáttmálum ESB [sem og almennum meginreglum Evrópudómstólsins]. Hins vegar er um ræða afleidda löggjöf (secondary law) sem fólgin er í reglugerðum, tilskipunum og ákvörðunum. Reglur um skipan dómara, málsmeðferð, lögsögu og fleira er að finna í stofnsamþykkt Evrópudómstólsins[xv] (Statute of the Court of Justice of the European Union).

            Um Almenna dómstólinn segir í stofnsamþykktinni, bálki IV, 48. gr., að hann skuli skipaður 40 dómurum frá 25. desember 2015; 47 dómurum frá 1. september 2016 og 2 dómurum frá hverju aðildarríki frá 1. september 2019. Dómstóllinn skal starfa í réttardeildum (chambers) með 3 til 5 dómurum í hverri deild. (50. gr. stofnsamþykktar Evrópudómstólsins).

            Hlutverk almenna dómstólsins eru skilgreind í stofnanahluta Lissabon-sáttmálans (TFEU), sjötta hluta, bálki I, kafla 1. Í 1. mgr. 256. gr. segir að dómstóllinn hafi lögsögu til þess að rétta og dæma í málum á fyrsta dómstigi í málum sem vísað er til í 263., 265., 268., 270. og 271. gr. Undanskilin eru mál sem eru á valdsviði sérdómstóls, skv. 257. gr. og mál sem falla beint undir Evrópudómstólinn.

            Úrlausnum almenna dómstólsins má síðan skjóta til Evrópudómstólsins, eftir nánari skilyrðum þar um. Þá segir í 3. mgr. 256. gr. að almenni dómstóllinn hafi lögsögu til þess að taka fyrir mál sem snerta forúrskurði[xvi] (preliminary ruling) samkvæmt 267. gr., á sérstökum sviðum samkvæmt stofnsamþykkt Evrópudómstólsins (Statute for the Court of Justice). Forúrskurðum almenna dómstólsins má í undantekningartilvikum skjóta til Evrópudómstólsins, til endurskoðunar, enda sé í húfi eining og samræming Evrópuréttarins.

Evrópudómstóllinn

            Evrópudómstóllinn er skipaður einum dómara frá hverju aðildarríki. Verkefni dómstólsins taka til fjölmarga sviða innan Evrópuréttar. Hann túlkar lög ESB (Evrópurétt) til að ganga úr skugga um að þeim sé beitt á sama hátt [samræmingarhlutverk] í öllum ríkjum ESB og leysir úr lögfræðilegum deilumálum á milli ríkisstjórna og stofnana ESB.

            Einstaklingar, fyrirtæki eða samtök geta, í vissum tilvikum, einnig vísað málum sínum til dómstólsins. Það á t.d. við ef um ræðir mál sömu aðila gegn stofnunum ESB, þar sem látið er á það reyna hvort stofnanirnar hafi brotið gegn Evrópurétti. Hér er og vert að nefna „bein réttaráhrif“[xvii] (direct effect). Samkvæmt reglunni um bein réttaráhrif (dómafordæmi[xviii]) geta einstaklingar sótt rétt sinn í krafti ákveðinna lagagreina Lissabon-sáttmálans [Rómarsáttmálans] eða reglugerða og tilskipana, fyrir dómstólum heimaríkja eða fyrir Evrópudómstóli. Reglan um bein réttaráhrif tekur þó ekki til Evrópuréttar í heild sinni, heldur þeirra ákvæða sem uppfylla skilyrði þess að reglan eigi við. 

Algengustu mál fyrir Evrópudómstólnum eru:

● túlkun laga (forúrskurðir) - innlendum dómstólum ESB-ríkja er gert að sjá til þess að Evrópurétti sé beitt eins og vera skal. Enda gætu dómstólar mismunandi ríkja túlkað réttinn á mismunandi vegu. Ef landsdómstóll er í vafa um túlkun eða gildi Evrópuréttar, getur hann óskað skýringa Evrópudómstólsins. Sama fyrirkomulag má nota til þess að ákvarða hvort landslög eða framkvæmd þeirra samræmast Evrópurétti [sbr. 267. gr. TFEU];
● að framfylgja lögum (brot á reglum um málsmeðferð) - mál af þessu tagi eru höfðuð gegn stjórnvöldum aðildarríkja fyrir að hafa ekki farið að Evrópurétti. Framkvæmdastjórn ESB eða annað ESB-ríki geta hafið slík málaferli. Reynist ríki brotlegt, verður það strax að bæta úr, eða hætta á frekari málshöfðun sem síðan getur leitt til sektar [sbr. 260. gr. TFEU];
● ógilding löggerninga ESB (ógildingarmál) - ef talið er að ESB-gerð brjóti í bága við sáttmála ESB eða grundvallarréttindi, er hægt að óska ógildingar - af hálfu ríkisstjórnar ESB-ríkis, Ráðsins, framkvæmdastjórnar ESB eða (í sumum tilvikum) Evrópuþingsins. Einkaaðilar geta einnig óskað ógildingar á ESB-gerð sem varðar þá beint [sbr. 263. gr. TFEU];
● að tryggja að ESB grípi til aðgerða (aðgerðir vegna vanrækslu) - Evrópuþingið, Ráðið og framkvæmdastjórnin verða að taka vissar ákvarðanir undir vissum kringumstæðum. Ef stofnanirnar gera það ekki, geta ríkisstjórnir ESB-ríkja, aðrar stofnanir ESB eða (við vissar aðstæður) einstaklingar eða fyrirtæki vísað málum til dómstólsins [sbr. 265. gr. TEFU];
● refsiaðgerðir gegn stofnunum ESB (skaðabótamál) - sérhver einstaklingur eða fyrirtæki sem beðið hefur skaða á hagsmunum sínum, vegna aðgerða eða aðgerðaleysis ESB, eða starfsfólks ESB, getur vísað slíku máli til Evrópudómstólsins. [xix]

EFTA-dómstóllinn

            Eins og margir vita liggur leið Íslands að innri markaði Evrópu í gegnum EES-samninginn. EFTA-ríkin eru fjögur, þ.e. Ísland, Liechtenstein, Noregur og Sviss. Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) voru stofnuð með Stokkhólmssáttmálanum[xx] af sjö ríkjum árið 1960. EFTA-dómstóllinn er með aðsetur í Lúxemborg. Hann hefur það hlutverk, gagnvart EFTA-ríkjunum, að gæta að samræmi við Evrópurétt með dómaframkvæmd sinn. Af þessu er ljóst að dómaframkvæmd EFTA-dómstólsins getur aldrei gengið á skjön við almenna þróun Evrópuréttarins, eins og hún birtist í reglugerðum, tilskipunum og dómum Evrópudómstólsins. Á heimasíðu samtakanna má sjá að helstu hlutverk samtakanna eru þríþætt:

  • Viðhald og þróun EFTA-samningsins, [kenndum við Stokkhólm og síðar uppfærður í Vaduz, höfuðborg Liechtenstein, 2001, tók gildi árið eftir] sem stjórnar efnahagslegum samskiptum milli EFTA-ríkjanna fjögurra;
  • Umsjón með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningurinn), sem sameinar aðildarríki Evrópusambandsins og þrjú EFTA-ríkjanna - Ísland, Liechtenstein og Noreg - á einum markaði, einnig nefndur „innri markaðurinn“.
  • Þróun alþjóðlegs nets EFTA-fríverslunarsamninga.[xxi]

            Ísland gerðist aðili að Evrópska efnahagssvæðinu með lögum nr. 2/1993. Með því má fullyrða að íslenska stjórnarskráin hafi verið brotin [„mölbrotin“] enda eru engin ákvæði í henni sem heimila framsal ríkisvalds (fullveldis) eins þarna er um að ræða.

            Aðildin var öðru fremur pólitísk ákvörðun og reynslan sýnir að þegar hagsmunir, peningar og pólitík spila saman þá er lögfræðin „aðlöguð“ eins og þurfa þykir, til þess að ná fram pólitískum markmiðum. Með öðrum orðum, lögfræðin er ekki látin „þvælast fyrir“ „góðum málstað“ (hver sem hann kann að vera).

            Til þess að gefa því „trúverðugleika“ eru síðan fengnir „fræðimenn“ við lagadeildir, eða jafnvel „héraðsdómarar“ sem skrifa langlokur um „takmarkað og afmarkað framsal ríkisvalds“. Það á sér þó enga stoð í raunveruleikanum og er algerlega bundið við hugarheim þessa fólks sem „álitin“ skrifa. Enda alla tíð legið fyrir að ekkert ákvæði í stjórnarskránni heimilar umrætt framsal. Að þyrla upp ryki um „takmörkun“ og afmörkun“, á tugum blaðsíðna, breytir nákvæmlega engu þar um.

            Jafnvel er gengið svo langt að halda því fram að réttaráhrif áralangra stjórnarskrárbrota séu þau að gera brotin lögmæt. Þ.e.a.s. sökum þess að lögbrotin hafi verið látin viðgangast hafi þau skapað lögmæti. Þessi „röksemd“ er svo fráleit að óþarft er að hafa um hana frekari orð. Á hitt er þó rétt að benda að væri þessi „regla“ almennt viðurkennd hefði það víðtæk áhrif. Meginatriðið væri þá að komast nógu lengi upp með stjórnarskrárbrot, þannig að brotin hljóti „lagalega viðurkenningu“.

            Eins og áður var vikið að, veltur samstarfið á evrópska efnahagssvæðinu (EES) á samræmdri framkvæmd og beitingu sameiginlegra reglna í öllum EES-ríkjunum. Í þessu skyni er í gildi tveggja stoða eftirlitskerfi: framkvæmdastjórn ESB hefur eftirlit með ríkjum Evrópusambandsins en EFTA-ríkin, sem eru aðilar að EES-samningnum, lúta eftirlitsstofnun EFTA (ESA). Eftirlitsstofnunin hefur því hliðstætt hlutverk, gagnvart Evrópurétti, og framkvæmdastjórn ESB. Dómstólakerfið byggir á sama fyrirkomulagi. EFTA-dómstóllinn starfar samhliða Evrópudómstólnum.[xxii]

            Um EFTA-dómstólinn er nánar fjallað í uppfærðri stofnsamþykkt[xxiii] hans [frá 2010, Bókun 5 við samninginn um eftirlitsstofnunina og dómstólinn um stofnsamþykkt EFTA-dómstólsins].

Mannréttindadómstóll Evrópu

            Á vegum Evrópuráðsins (Conseil de l'Europe) starfar Mannréttindadómstóll Evrópu. Dómstóllinn hefur aðsetur í Strassborg í Frakklandi. Hann er svæðisbundinn (regional court) sem merkir að hann er ekki alþjóðadómstóll heldur þjónar borgurum aðildarríkja Evrópuráðsins.

            Stofnsamþykkt Evrópuráðsins var undirrituð af tíu ríkjum, þann 5. maí 1949 í St James-höllinni í London. Ríkin voru: Belgía, Frakkland, Lúxemborg, Holland, Bretland, Írland, Ítalía, Danmörk, Noregur og Svíþjóð. Evrópuráðið var þá tilbúið til að hefja störf. Fyrstu fundir þess voru haldnir í Strassborg, sem átti að verða fast aðsetur ráðsins. [Evrópuráðið er ekki ein af stofnunum Evrópusambandsins].

            Fyrsti stóri sáttmálinn var saminn í kjölfarið: Evrópusáttmálinn um mannréttindi og grundvallarfrelsi [Mannréttindasáttmáli Evrópu] sem var undirritaður í Róm 4. nóvember 1950 og tók gildi 3. september 1953.[xxiv] Ísland varð 12. aðildarríki Evrópuráðsins þann 7. mars árið 1950.[xxv] Í dag eiga 47 ríki aðild að Evrópuráðinu. Mannréttindasáttmáli Evrópu var lögfestur á Íslandi með lögum nr. 62/1994[xxvi] og varð þar með hluti af íslenskum rétti.

            Áskilið er að öll réttarúrræði heimaríkis hafi verið tæmd áður en máli verður vísað til mannréttindadómstólsins. Mannréttindadómstóll Evrópu er ekki áfrýjunardómstóll í hefðbundnum skilningi orðsins og hefur ekki vald til þess að ógilda dóma ríkja sem kærur beinast gegn. Dómstóllinn getur hins vegar lýst viðkomandi dóm í aðildarríki ósamrímanlegan ákvæðum mannréttinda [lýst ríkið brotlegt], eins og þau birtast í mannréttindasáttmálanum og viðaukum hans og ákvarðað fébætur. Mannréttindadómstóllinn hefur haft umtalsverð áhrif á réttarþróun aðildarríkja Evrópuráðsins og jafnvel víðar.

            Alls hafa 16 viðaukar verið gerðir við mannréttindasáttmálann en viðaukar 15 og 16 eru frá árinu 2013. Hver aðildarríki Evrópuráðsins þarf að staðfesta (lögfesta) hvern samningsviðauka fyrir sig svo viðkomandi ríki verði bundið af ákvæðum hans. Mörg ár geta liðið þangað til. Í sumum tilvikum verður ekki séð að ákveðin ríki muni staðfesta ákveðna viðauka í náinni framtíð, enda sumir nokkuð umdeildir innan ríkjanna.[xxvii]

            Viðauki 16 tók gildi 1. ágúst 2018 þegar tíu aðildarríki undirrituðu og staðfestu hann. Í viðaukanum er m.a. að finna ákvæði um heimild dómstóla aðildarríkja til þess að óska eftir ráðgefandi áliti mannréttindadómstólsins.

            Í 1. mgr. 1. gr. viðauka 16 segir að æðstu dómstólar samningsríkja, eins og tilgreint er í samræmi við 10. gr., geti óskað eftir ráðgefandi áliti dómstólsins [ECtHR] um meginreglur sem snerta túlkun eða beitingu réttinda og frelsis sem skilgreind eru í sáttmálanum eða viðaukum þar að lútandi.

            Ýmsir sáttmálar um mannréttindi hafa verið gerðir á vegum Evrópuráðsins og væri of langt mál að telja hér. Má þó sérstaklega nefna t.d. félagsleg mannréttindi, Félagsmálasáttmála Evrópu (European Social Charter) frá 1961. Sáttmálinn var endurskoðaður (uppfærður) og opinn til undirritunar árið 1996. Um fjölda ríkja sem undirritað hafa og fullgilt sáttmálann má lesa á heimasíðu Evrópuráðsins.[xxviii] Félagsmálasáttmáli Evrópu var lögfestur á Íslandi með lögum nr. 3/1976 og tóku þau gildi sama ár.[xxix]

Að lokum

            Vonandi hefur þessi stutta umfjöllun, í tveimur greinum, fært einhverja lesendur nær skilningi á alþjóðlegum dómstólum og gerðardómum. Segja má að hlutverk alþjóðlegra dómstóla, eins og t.d. stríðsglæpadómstóla, sé ekki hvað síst að senda skýr skilaboð um það að sameinuð ríki heims muni láta sig það varða ef ákveðin ríki önnur láta viðgangast að þar séu framin þjóðarmorð og stríðsglæpir. Að slíkt verði ekki látið átölulaust.

            Nú geta menn í sjálfu sér deilt um það hvernig réttlæti virkar í raun og hvernig mismunandi ríki standa þar gagnvart réttlætinu (og vonandi kemur sem allra minnst reynsla á það!). Hinu verður þó vart á móti mælt að það er framför í heimi, sem á sér aldalanga sögu um skelfilega atburði, að komnir séu til sögunnar dómstólar sem skera úr um sekt og sakleysi manna [sönnunarfærsla] sem slíkum atburðum tengjast.

            Það má telja framför á þróunarbraut mannkyns og vekur vissar vonir um aukinn siðferðisþroska, þrátt fyrir allt braskið og fjárglæframennskuna sem skekur heiminn og má jafna til „náttúruhamfara“. Næsta skref væri það að koma upp alþjóðlegum dómstólum fyrir spillta stjórnmálamenn og fjárglæframenn. Slíkur er vandinn sem þar er við að etja. Þess konar dómstólar gætu t.a.m. veitt íslensku valdaklíkunni öflugt aðhald, enda gæti stjórnmálamaður sem grunaður væri um spillingu átt á hættu að verða framseldur til aþjóðlegs dómstóls sem réttaði í málinu [refsilögsaga dómstólanna gengi framar refsilögsögu heimaríkis]. Það skyldi þó aldrei vera að réttlætið sigri að lokum?

[i]      Sbr. 1. gr. Stofnsamnings WTO. [Marrakesh-samningurinn, gerður 15. apríl 1994].

[ii]    The World Trade Organization. https://www.wto.org/english/thewto_e/whatis_e/inbrief_e/inbr_e.htm

[iii]   3. mgr. 2. gr. Stofnsamnings WTO.

[iv]    Appellate Body. https://www.wto.org/english/tratop_e/dispu_e/appellate_body_e.htm

[v]     Cassese, A. The Statute of the International Criminal Court: Preliminary Reflections, 10 EUR. J. INT'L L. 144, 153-54 (1999).

[vi]    5. gr. ályktunar Öryggisráðsins, nr. 1966 (2010). Sbr. einnig 8. gr. ályktunar Öryggisráðsins nr. 955 (1994) frá 8. nóvember 1994.

[vii]  2. mgr. 5. gr. ályktunar Öryggisráðsins, nr. 1966 (2010).

[viii] United Nations International Residual Mechanism for Criminal Tribunals. Chambers. https://unictr.irmct.org/en/tribunal/chambers

[ix]    Ibid.

[x]     Ibid.

[xi]    International Criminal Tribunal for the former Yugoslavia. https://www.icty.org/

[xii]  2. gr. ályktunar Öryggisráðsins, nr. 827 (1993).

[xiii] 4. gr. ályktunar Öryggisráðsins, nr. 827 (1993).

[xiv]  EUR-Lex. The Civil Service Tribunal. https://eur-lex.europa.eu/summary/glossary/civil_service_tribunal.html

[xv]   EUR-Lex. Statute of the Court of Justice of the European Union. https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/?uri=CELEX%3A12016E%2FPRO%2F03

[xvi]  Þetta atriði er mjög mikilvægt í Evrópurétti. Dómstólar heimaríkja geta óskað forúrskurða vegna mála sem rekin eru heima fyrir. Mál er þá sett í bið, þangað til forúrskurður (dómur) liggur fyrir. Dómstóli heimaríkis ber síðan að dæma í fullu samræmi við forúrskurðinn.

[xvii] Sjá einnig franska ríkisráðið [Conseil d'État]: Le juge administratif et le droit de l’Union européenne. https://www.conseil-etat.fr/ressources/etudes-publications/dossiers-thematiques/le-juge-administratif-et-le-droit-de-l-union-europeenne

[xviii]Sjá: Judgment of the Court of 5 February 1963. - NV Algemene Transport- en Expeditie Onderneming van Gend & Loos v Netherlands Inland Revenue Administration.

[xix]  European Union. Court of Justice of the European Union (CJEU). https://europa.eu/european-union/about-eu/institutions-bodies/court-justice_en

[xx]   Convention establishing the European Free Trade Association. https://www.efta.int/sites/default/files/documents/legal-texts/efta-convention/Vaduz%20Convention%20Agreement.pdf

[xxi]  The European Free Trade Association. https://www.efta.int/about-efta/european-free-trade-association

[xxii] EFTA-Court. Introduction to the EFTA Court. https://eftacourt.int/the-court/introduction/

[xxiii]EFTA-Court. Statute. https://eftacourt.int/the-court/statute/

[xxiv]Council of Europe. About the Council of Europe – Overview. https://www.coe.int/en/web/yerevan/the-coe/about-coe/overview

[xxv] Council of Europe. https://www.coe.int/en/web/portal/iceland

[xxvi]Lög um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994. https://www.althingi.is/lagas/nuna/1994062.html

[xxvii]Sjá t.d.: UK Parliament. Joint Committee On Human Rights. Seventeenth Report. https://publications.parliament.uk/pa/jt200405/jtselect/jtrights/99/9906.htm

[xxviii]Chart of signatures and ratifications of Treaty 163. European Social Charter (revised). Status as of 25/09/2020. https://www.coe.int/en/web/conventions/full-list/-/conventions/treaty/163/signatures

[xxix]Félagsmálasáttmáli Evrópu. https://www.althingi.is/lagas/129/1976003.html