Fara í efni

SÓTTVARNARAÐGERÐIR VERNDA EKKI ÁHÆTTUHÓPA

Sú ástæða sem oftast er gefin fyrir þeim sóttvarnaraðgerðum sem gripið hefur verið til er að með þeim sé verið að vernda áhættuhópa frá smiti. Helstu kennivöld sóttvarnarstefnunnar hafa gengið svo langt að lýsa því yfir að séu ekki settar strangar skorður á alla landsmenn sé ómögulegt að koma í veg fyrir að smit komist í viðkvæma hópa.
Fyrir þá sem eru í áhættuhópum eða sinna þjónustu við þá, hljómar röksemdafærslan um að aðgerðirnar miði að verndun áhættuhópa undarlega af tveimur ástæðum. Sú fyrsta er sú að það er ekki rétt að ómögulegt sé að koma í veg fyrir að smit komi upp hjá viðkvæmum hópum ef smit verður annars almennt útbreitt í samfélaginu. Til þess þarf átak, fjármagn, hugsjónasemi og festu, en það er hægt. Með því að kalla það ómögulegt er öllum tillögum varpað fyrirfram fyrir borð. Hin ástæðan fyrir því að þessi röksemdafærsla hljómar torkennilega leiðir beint af hinni fyrri. Spurningin er: Ef þetta er aðalástæðan fyrir sóttvarnarstefnunni, hvers vegna er ekki miklu meira gert til að vernda þessa hópa sérstaklega? Hvers vegna hefur ekki verið komið meira til móts við neyðarköll þeirra sem eru í áhættuhópum og þeirra sem þjónusta þau?

Þjónustuaðilar og áhættuhópar afskiptir

 Starfsfólk sem sinnir nú þjónustu við viðkvæma hópa hefur gert allt sem í valdi þess stendur til að skerpa á sóttvörnum og vernd fyrir skjólstæðinga sína. Ráðist hefur verið í mjög umfangsmiklar aðgerðir sem miða að því að lágmarka eins og hægt er að smit berist milli manna, nákvæmar áætlanir hafa verið unnar um hvað skuli gera ef neyð kemur upp og starfsmenn hafa unnið langar vaktir til að koma þessum áætlunum í framkvæmd á meðan reynt er að halda uppi eins óskertri þjónustu og mögulegt er. En víða standa starfsstaðirnir fyrir áskorunum sem þeir geta hreinlega ekki leyst án stuðnings yfirvalda og samfélagsins í heild. Áköllum þeirra fyrir betri stuðning hefur verið mætt með þögn.

Dagleg þjónusta við fólk í áhættuhópum er að stórum hluta ekki í höndum heilbrigðisstarfsfólks. Síðustu ár hefur til dæmis sérstaklega verið tekið fram að þjónustukjarnar fyrir fatlaða séu ekki heilbrigðisstofnanir, heldur heimili. Þetta er jákvætt að því leyti að þetta er liður í afstofnanavæðingu við þessa hópa, en um leið hefur þetta leitt til þess að ekki er heimild til ráðningar á fagfólki úr heilbrigðisgreinum á þessa starfsstaði. Beiðnum frá þessum starfsstöðum um að fá senda til sín sérfræðinga í sóttvarnarmálum til að styrkja stoðirnar hjá viðkvæmum hópum hefur ítrekað verið synjað.

Í tilfelli þjónustu við fatlaða kom sérstaklega vel fram að ekki var lögð áhersla á að aðstoða starfsfólk í slíkum störfum við að vernda skjólstæðinga sína. Þegar mannekla kom upp á þessum starfsstöðum í vor kom til dæmis í ljós að Landspítalinn var meðal þeirra staða sem meinaði starfsfólki sínu að taka að sér aukavaktir á starfsstöðum sem veittu almenna þjónustu við t.d. fatlaða. Þarna misstu þessir starfsstaðir aðgang að einhverju traustasta og besta tímavinnustarfsfólki sínu, og þetta setti skjólstæðinga þeirra í beina hættu, þar sem vinna þurfti með fáu starfsfólki á meðan verið var að manna á ný stöðurnar sem í vantaði. Um leið neituðu spítalarnir slíkum starfsstöðum um óheftan aðgang að sóttvarnar- og hlífðarbúnaði, sem og aðstoð við mótun sóttvarnaráætlunar á þeim forsendum að spítalarnir yrðu að hafa forgang að þessum búnaði og mannafla. Það sem meira er, brögð voru að því að Landspítalinn gerði tilraunir til að senda skjólstæðinga frá sjúkrahúsum á borð við Klepp yfir á íbúðakjarna til að tryggja eigin sóttvarnir, en þeir sem stóðu að baki því hljóta að hafa gert sér grein fyrir því að hvað sóttvarnir varðar eru spítalar mun betur hannaðir til að koma í veg fyrir smit hjá þessum einstaklingum. Íbúðakjarnar á þéttbýlustu svæðum landsins eru ekki hannaðir til að takast á við heilbrigðiskrísu sem þessa og geta ekki veitt sömu smitvernd og spítalar. Er ekki eðlilegra að byrgja brunninn?

Þrátt fyrir allt héldust íbúðakjarnarnir smitlausir í vor, en það var ekki átakalaust. Mikil vinna undir gríðarlegu álagi á þessum stöðum tók sinn toll og einhverjir misstu af sumarfríi þetta árið. Eftirköst álagsins eru enn til staðar. Ofan á þetta voru starfsmenn í t.d. velferðar- og umönnunarþjónustu ekki með í þakkarpakka ríkisins í sumar; þeir fengu ekkert opinbert hrós, enga sérstaka aukagreiðslu og engan afslátt, eins og starfsfólk spítalanna fékk. Það sem við fengum var páskaegg númer 4 frá Reykjavíkurborg í apríl. Er hægt að búast við öðru en að þeir sem mættu samviskusamlega í erfiðar aðstæður á hverjum degi, á meðan ástandið var sem verst, séu orðnir lúnir og jafnvel farnir að leita sér að annarri vinnu? Engan skal undra, að varnirnar á þessum starfsstöðum fari að gefa sig í ljósi þessa.

Sóttvarnarstefnan tryggir að þeir sem sinna viðkvæmum hópum eru í mestri smithættu sjálfir

Þjónusta við viðkvæma hópa felst oft í mjög líkamlegri vinnu. Þetta er starfsfólkið sem sinnir þrifum, sér um innkaup, sinnir persónulegri umhirðu á borð við aðstoð við böðun, fataskipti og falskar tennur, líkamlegri og félagslegri þjónustu, matseld, uppvaski, viðgerðum og sorphirðu svo eitthvað sé nefnt. Þetta eru ekki störf sem hægt er að sinna á fjarfundum eða úr heimahúsi. Það er einmitt starfsfólk sem sinnir viðkvæmum hópum sem þarf mest að vera í nánd við annað fólk. Það á svo oft fjölskyldu heima fyrir sem einnig getur verið í samneyti við annað fólk. Af öllu vinnuafli Íslands er þetta það fólk sem er því allra líklegast til að smitast, sama hversu varlega það fer. Sú hugmynd að hægt sé að halda samfélaginu gangandi í gegnum fjarfundi er hugarburður. Þegar fólk pantar sér mat í gegnum netið hefur eitthvert starfsfólk sett hann í pokann og komið honum fyrir við dyrnar. Sorpið hverfur ekki úr ruslageymslunni að sjálfu sér, pósturinn flytur sig ekki sjálfur, heimilisþrif þarfnast duglegra handa, viðhaldi er ekki sinnt úr síma. Eins og sóttvarnaráætlunin er nú, er hún því fullkomlega öfugsnúin: Þeir hafa mesta vernd gegn smiti sem eru í hvað minnstri áhættu og í hvað minnstum samskiptum við fólk í áhættuhópum.

Áhættuhóparnir og við hin

Það er ekki að ástæðulausu að talað eru um áhættuhópa vegna þeirrar veiki sem tengd er við sars-cov-2 veiruna. Á þessari stundu er opinber dánartíðni af völdum smits af sars-cov-2 veirunni 10/3080, eða 0,32 prósentur. Þessi veira gerir mikinn mannamun. Í rannsókn frá sænskum heilbrigðisyfirvöldum (Socialstyrelsen, 2020) kom fram að 90,4% hinna látnu voru 70 ára eða eldri. Langflestir hinna látnu voru með ákveðna undirliggjandi sjúkdóma, eða 85,6 prósent. Þeir undirliggjandi sjúkdómar sem settu fólk í mesta áhættu voru: Hár blóðþrýstingur (79,6%), hjarta- og æðasjúkdómar (48,5%), sykursýki (29%) og lungnasjúkdómar (14,6%), en aðrir sjúkdómar á borð við krabbamein og nýrnabilanir komu einnig við sögu. Flestir voru með fleiri en einn undirliggjandi sjúkdóm. Þessar niðurstöður eru svipaðar, en meira afgerandi en niðurstöður rannsókna frá Bandaríkjunum (Chov et al., 2020) og Suður Kóreu (Yun-Kung, 2020) meðal annarra.

Miðað við þetta má gera ráð fyrir því að 85,6% af þeim látnu sem voru yngri en 70 ára gamlir hafi verið með þekkta undirliggjandi sjúkdóma fyrir, oftast fleiri en einn og 90,4% af hinum látnu voru eldri en 70 ára. Þetta þýðir að um 1,4% hinna látnu voru yngri en 70 ára og voru ekki með hina þekktu undirliggjandi sjúkdóma. Ef þetta er rétt skilið hjá mér, má rekja 98,6 prósent allra dauðsfalla af völdum covid til fólks úr þessum áhættuhópnum. Með öðrum orðum, jafnvel þótt smit verði algerlega stjórnlaust að öðru leyti, má koma í veg fyrir allt að 98% dauðsfalla og örkumla með því að tryggja öryggi hinna veiku. Þar sem svo mikið er vitað um hverjir tilheyra þessum áhættuhópum er enn auðveldara en ella að vita hvar áherslan í sóttvörnum á helst að liggja.

Allt bendir til þess að það sama gildi um langtímaafleiðingar sjúkdómsins, sem mikill uggur ríkir um. Þangað til annað kemur í ljós verður að gera ráð fyrir að svipuðu munstri og varðandi dánartíðni, þ.e. að þetta leggist helst á ákveðna áhættuhópa. Því er það svo að þó að þetta geti og hafi haft áhrif á hraustara fólk er áhættan fyrir viðkvæma hópa svo yfirgnæfandi meiri en hjá öðrum að það er óðs manns æði að setja ekki meiri kraft í að einbeita sér að þeim.

Hræðsuláróður og skömm getur haft hættuleg áhrif

Varast ætti ofnotkun hræðsluáróðurs til að hafa áhrif á hegðun landsmanna. Tilgangurinn er eflaust göfugur að því leyti að hann miði að því að vernda viðkvæma frá smiti, en sé gengið of langt getur þetta haft slæm áhrif á vinnustaði sem sinna þessum hópum. Við þurfum að mæta til vinnu og sinna þessum störfum sama hvað og ef hluti vinnuaflsins verður of kvíðinn getur það gerst að það treysti sér ekki að mæta til vinnu, og það er fullkomlega skiljanlegt. Við það eykst álagið á þá sem eftir eru gríðarlega og um leið er heilsu skjólstæðinganna stefnt í hættu. Því miður hefur þetta þegar gerst og í raun verið ein helsta áskorunin sem þessir vinnustaðir standa frammi fyrir. Fólk er orðið nógu hrætt. Það er alveg óþarfi að leita uppi hvert einasta tilfelli af yngra fólki sem ekki telst tilheyra áhættuhópum sem hefur orðið alvarlega veikt af þessari veiru og lýsa skelfingarsögum þeirra. Það þarf líka að benda á að yfirgnæfandi meirihluti fólks sem ekki er í áhættuhópum fær fremur væg einkenni og nær sér að fullu í kjölfar sýkingar. Sterkt ónæmiskerfi er þrátt fyrir allt besta vopnið gegn hvers kyns veirusýkingu. Þetta þarf að ítreka svo þjónustan við skjólstæðingana skerðist ekki.

Þetta þýðir ekki að hraust fólk geti ekki veikst. Ef 2% dauðsfalla og alvarlegra veikinda má rekja til einstaklinga utan áhættuhópa þýðir það einnig að þar eru einstaklingar á meðal sem veikjast alvarlega og jafnvel deyja. En þegar heildarmyndin er skoðuð eru þessi tilfelli svo sjaldgæf að ekki ætti að auglýsa þau sem normið. Það má hugsa þetta sem reiknidæmi. Þegar heildardánartíðnin er t.d. 0,3 prósent eins og hún er hér og 98 prósentur af þeim má rekja til þeirra kannski 20 prósenta sem eru í áhættuhópum, má reikna með því að af hverjum 100.000 sem sýkjast deyji 300, af þeim 294 úr áhættuhópum og 6 sem ekki eru úr áhættuhópum. Það eru vissulega 6 heilbrigðir einstaklingar þarna á meðal, en líkurnar á dauða fyrir hvern einstakling úr þeim hópi eru samt sem áður einungis 6/80.000, eða 0,0075%. Jafnvel þó að áhættan sé tífalt meiri og 60 einstaklingar utan áhættuhópa deyji, verður áhættan einungis 0,075% fyrir einstakling sem ekki tilheyrir áhættuhópum. Það er blekkjandi og skaðlegt að ýkja þessa áhættu of mikið, sérstaklega ef sá ótti bitnar á þeim sem eru í áhættuhópunum. Það hefur gerst að starfsstaðir fyrir veikburða voru hreinlega yfirgefnir erlendis, m.a. í Bandaríkjunum, og hefur það orsakað dauða og örkumlan fjölda fólks úr áhættuhópum. Slíkt má ekki gerast hér. Fyrir þá sem eru í áhættuhópi er hættan nefnilega um 200 sinnum meiri, um 1,5 prósenta líkur á dauða við smit. Því fleiri sem áhættuþættirnir eru og aldurinn hærri, þeim hættulegri er þessi veira. Fyrir 90 ára gamlan einstakling með háan blóðþrýsting og sykursýki fer áhættan að nálgast öruggan dauða. Við verðum að vernda skjólstæðingana að öllu afli og því verðum við að hughreysta og styðja þau sem sinna þeim, ekki hræða úr þeim líftóruna.

Til að reyna að minnka smithættu úr fjarstýringu hefur svo þeirri aðferð verið beitt, bæði opinberlega en sérstaklega af virkum í athugasemdum, að nota skömmina. Þeir sem smitast á vinnustöðum fyrir viðkvæma hópa eru smánaðir, helst opinberlega og helst lifa undir eftirliti allan sólarhringinn, m.a. í gegnum rakningarapp. Þessi nálgun er mjög hættuleg því það eina sem hún nær fram er að auka enn á andlegt álag hjá því starfsfólki sem þó þorir enn að mæta í vinnuna. Þetta eru oft illa borguð störf og nú er ljóst að þau eru fullkomlega vanþakklát. Fólk upplifir sig sem þræla sem ekki er hlustað á, á meðan ætlast er til hins ómögulega af þeim. Ef þau þurfa að mæta í vinnuna á hverjum degi með þann ótta að þau hafi mögulega borið með sér smit og að fylgst sé með ferðum þeirra, af hverju ættu þau ekki einfaldlega að hætta og vinna við eitthvað annað? Það er betra að vera atvinnulaus en að fórna geðheilsunni fyrir svona störf. Mig grunar að það eina sem heldur sumu þessu starfsfólki í vinnunni sé ábyrgðartilfinning gagnvart skjólstæðingunum. Ef við förum að sjá hópuppsagnir á þessum vinnustöðum, þá standa skjólstæðingar þeirra í virkilega vondum málum. Við verðum, sem samfélag, að koma í veg fyrir þetta og hlúa miklu betur að þessu lífsnauðsynlega starfsfólki og finna leiðir fyrir það sem virka í stað þess að beita einungis neikvæðni.

Hvað er hægt að gera til að vernda áhættuhópana beint?

Ef við virkilega leggjum áherslu á að vernda áhættuhópana og notum allt okkar hugarafl og starfsorku í það er hægt að finna lausnir sem nálgast það að geta komið þessum hópi í nánast fullkomið var gagnvart smiti og um leið tryggt þeim mun betri lífsgæði en þau hafa nú. Hér eru nokkrar tillögur sem geta nálgast þetta markmið, en margt, margt fleira er hægt að gera og eru sóttvarnaryfirvöld hvött til að leggja sitt af mörkum til að finna fleiri og betri leiðir til að vernda þessa hópa beint.

Styrkur og kennsla í bjargráðum

Fyrir einstaklinga sem ekki fá nú þjónustu og eru í einangrun í heimahúsi er algjörlega nauðsynlegt að þau hafi aðgang að bjargráðum sem koma í veg fyrir stórslys. Margir í þessum hópi eru efnalitlir og hafa lítil tök á að notast við þá nútímatækni sem ætlast er til að þau geti notað. Sumir kunna ekki almennilega á slík tæki. Full ástæða er til að láta þessum einstaklingum í té tæki á borð við spjaldtölvur og um leið gefa þeim eins nákvæma kennslu og hægt er í að nota þau, hvernig hægt er að nálgast þjónustu í gegnum þessi tæki og auðvitað að benda á hvaða þjónusta er í boði sérstaklega fyrir þessa hópa.

Frekari afmörkun þjónustu

Afmarka þarf þjónustu á borð við matarbirgja, líkamsrækt, heilsugæslu og leigubílaþjónustu sérstaklega fyrir viðkvæma hópa mun betur en gert er nú. Þeir sem ekki hafa mikið fé milli handanna ættu ennfremur að fá fjárhagslega aðstoð til að koma sér upp þeirri þjónustu sem þeir þurfa.

Fjölgun stöðugilda og fagfólks

Fjölga þarf stöðugildum á öllum starfsstöðum sem sinna fólki úr áhættuhópum. Þannig má minnka álag á þá starfsstaði sem mest mæðir á. Um leið þarf að opna fyrir ráðningu á fagfólki úr heilbrigðisgreinum, þá sérstaklega fólks sem þjálfað er í sóttvörnum, á þá vinnustaði sem hafa flesta skjólstæðinga sem tilheyra áhættuhópum. Þetta kostar fjármagn, en miðað við hvað núverandi sóttvarnaráætlun er sá kostnaður réttlætanlegur.

Tarnavinna og skimun

Í kjölfarið er hægt að haga starfstíma þannig að hægt sé að vinna í törnum. Fyrir hverja törn ætti hver starfsmaður að fá tök á skimun fyrir veirunni svo hann eða hún geti verið viss um að hann eða hún sé ekki óafvitandi að bera með sér smit. Ef til vill mætti bjóða þeim sem vildu upp á gistingu á meðan. Þar sem þetta er mikið inngrip í líf starfsfólks og alls ekki mögulegt fyrir alla verður um leið að tryggja slíku starfsfólki mjög góð laun fyrir, eins og tarnavinnu sæmir. Á milli vaktatarna þarf þetta fólk svo algjört frí, einnig frá vökulu auga virkra í athugasemdum, svo þau brenni ekki út.

Frekari sérþjónusta fyrir framlínustarfsfólk

Eins og fyrir aðra í áhættuhópi þarf að eyrnamerkja ákveðna þjónustustaði fyrir þessa hópa. Þessir einstaklingar þurfa sjúkraþjálfun, félagslega virkni, nám, ferðaþjónustu og margt fleira í sínu daglega lífi. Það var mjög gott framlag hjá sveitarfélögum að hafa börn framlínustarfsfólks í forgangi um skólavist í vor og það bjargaði líklega mannslífum. Fleiri mættu taka sér þetta til fyrirmyndar.

Fleiri NPA samninga

Gera þarf fleiri NPA-samninga við þá sem hafa rétt á því, en hafa ekki fengið. Þá þyrftu slíkir einstaklingar einungis að reiða sig á hjálp frá einum þjónustuveitanda, í stað margra ólíkra starfsmanna á stofnunum. Auk þess að minnka smithættu með því að takmarka fjölda þeirra sem koma að þjónustu myndu slíkir samningar auka lífsgæði og lífsgleði þessa fólks mjög mikið.

Starfsfólk með mótefni

Fyrir fólk í áhættuhópum eru það ekki endilega slæmar fréttir að smit komi upp í hópum ungs fólks, svo fremi sem þeirra eigin varnir eru tryggar. Rannsóknir, meðal annars frá Íslenskri erfðagreiningu, hafa sýnt á óyggjandi hátt að fólk sem smitast af veirunni og nær sér myndar raunverulegt ónæmi sem endist. Þetta þýðir meðal annars það að einstaklingur sem hefur fengið ónæmi á þennan hátt veitir með tilvist sinni örlitla smitvörn fyrir þessa viðkvæmu einstaklinga. Smit koma síður frá þeim. Því stærri hópur sem þetta er, þeim mun öruggari eru einstaklingarnir í áhættuhópnum. Það besta væri ef þjónusta fyrir áhættuhópa væri einmitt í höndum þessara nú ónæmu einstaklinga. Í raun ættu þeir sem eru í þeirri stöðu að fá algjöran forgang í slíka vinnu.

Fjölgun úrræða og endurskoðun velferðarstefnu

 Eitt af því sem ástandið í dag hefur opinberað er að velferðarkerfi Íslands hefur verið veiklað kerfisbundið árum saman og nú er svo komið að langir biðlistar eru á hverja einustu velferðarstofnun sem og í heilbrigðiskerfið. Það að í Reykjavík séu á fjórða hundrað einstaklinga sem teljast heimilislausir og biðlistar eftir úrræðum teljast óleysanlegir ætti að vera ákall til okkar allra að snúa blaðinu við. Byggja þarf öryggisúrræði fyrir þá allra veikustu, bæta aðbúnað og mannafla í heilbrigðisþjónustu og  forgangsraða fjármagni tafarlaust til þessara lífsnauðsynlegu innviða. Stöðva þarf einkavæðingu á velferðar- og heilbrigðisþjónustu. Einkavædd þjónusta er of dýr fyrir flesta og hefur ekki sýnt sömu samfélagslegu ábyrgð og þá sem aðrir eru að sýna af sér. Í kjölfar þess að úrræðum er fjölgað má hægara koma fólki í var.

Forgangur fyrir milliflutningi í meira öryggi

Nauðsynlegt er að skilgreina starfs- og dvalarstaði fyrir viðkvæma hópa eftir því hvað þeir eru vel í stakk búnir til að tryggja smitlaust umhverfi, veita nauðsynlega þjónustu fyrir fólk í sóttkví eða einangrun og veita skjól frá umhverfisþáttum. Í kjölfarið ætti að meta hvern þjónustuþega eftir því í hversu mikilli áhættu þeir eru gagnvart veirunni og veita þeim forgang í þjónustu á þeim stöðum sem eru best í stakk búnir til að tryggja þeim öryggi og óska þess sjálfir. Eins og málin standa nú er fjöldi fólks í miklum áhættuhópi annað hvort án þjónustu, eða fær þjónustu frá starfsstöðum sem ekki hafa heimild til ráðningar á hjúkrunarstarfsfólki og neyðast til að leita eftir þjónustu út í umhverfi þar sem mikið samfélagslegt smit ríkir. Stór hópur fólks sem hefur mikil samskipti sín á milli skortir úrræði og hefur engin önnur tök sér til lífsbjargar en að leita til hvers annars. Komi upp smit í þessum hópum má búast við stórslysi og þessum hópi þarf að sinna tafarlaust.

Hlustið betur á fólkið á gólfinu og áhættuhópana sjálfa

Þeir sem stjórna mótun sóttvarnaráætlunar á Íslandi koma nær einvörðungu úr stétt lækna og svo úr gróðareknum einkafyrirtækjum. Sjónarhorn þessa fólks er gjörólíkt þeirra sem vinna í umönnunarstörfum, við þrif o.s.frv. Þau sjá einvörðungu veikt fólk koma inn í stofnanir þeirra, en sjá ekki hversu mikið átak felst í að koma í veg fyrir að viðkvæmt fólk lendi þar og sjá ekki heldur þá sem veikjast lítið og ná sér fljótt. Þetta eru auk þess aðilar með há laun, örugga vinnu og komin af besta aldri. Þau hafa ekki endilega mikinn skilning á fátækt fólks sem hefur misst vinnu sína, láglaunafólks í ræstingarstörfum eða áhyggjufullu starfsfólki á heimilum fólks í áhættuhópum. Aðferðarfræði sóttvarnaryfirvalda má líkja við smið sem hefur einungis eitt verkfæri, sleggjuna, sem má annað hvort beita létt eða hart. Við þurfum mun fjölbreyttari og betri nálgun. Það, hversu lítil áhersla er lögð á fyrirbyggjandi sóttvarnaraðgerðir meðal viðkvæmra hópa, er bein afleiðing þess að þessir hópar eru ekki hafðir með í ráðum við mótun sóttvarnarstefnu.

Áherslubreyting sem mun bjarga mannslífum, sama hvað

 Við höfum nú fengið þrjár bylgjur af smiti og það er alveg öruggt að smit munu halda áfram að vera í samfélaginu. Nú þurfum við að búa okkur undir það að smit gæti orðið stjórnlaust og þá er nauðsynlegt að forgangsraða. Jafnvel þótt þessi bylgja verði kveðin niður þá mun ríkja hættuástand fyrir þessa viðkvæmu einstaklinga um langa hríð.

Þegar sóttvarnaryfirvold nota orðfæri eins og “bara tímaspursmál” eða “óhjákvæmilegt” um að smit komi upp hjá viðkvæmum hópum, þá ættu þeir að hugsa betur um það hvaða skilaboð þau eru að senda þeim sem eru nú að reyna að koma í veg fyrir þetta. Nú eru allar byrðarnar á þetta verkefni settar á herðar fólks sem ekki er hlustað á og hefur sumt hvert með lægstu launa á Íslandi. Ef tilgangurinn er svo göfugur, sá að vernda áhættuhópa, hvernig væri þá að leita allra leiða til að deila þessari byrði og finna hentugustu og bestu lausnirnar til að koma í veg fyrir þetta slys. Ef þetta er ekki ætlunin, þá eru þetta innantóm orð. Við hljótum að geta verið sammála um eitt: veitum áhættuhópunum hámarksvernd og notum alla orku í það. Með því verndum við ástvini okkar og samfélagið best.