Kári skrifar: AUÐLINDAÁKVÆÐI OG VALDARÁN

            Það hefur varla farið framhjá neinum sem fylgist með störfum valdaklíkunnar á Alþingi að þar bauka menn við breytingar á stjórnarskránni. Þar fremur þingið valdarán enda hefur það ekkert umboð frá kjósendum, þjóðinni, til þessara verka. Merkilegur hápunktur vitleysunnar var við setningu þingsins, þegar forseti Íslands lýsti því yfir hversu mikil hneisa það væri fyrir þingið að halda ekki áfram á sömu braut. Orðin lýsa ákaflega vel „áhuga“ forseta lýðveldisins á „lýðræðinu“.

[Þingmaður – í símanum]

Söngur í fólki til sífelldrar mæðu,

sama er líka um tímann.

Hætti því alveg að hlusta á ræðu,

heldur vil glápa á símann.

            Með „lýðræði“ á þetta sama fólk við þingræði. Það er talið ákaflega hættulegt að rugga hinum hripleka báti valdsins með því að almennir kjósendur hafi eitthvað um málin að segja. Almennt lítur valdaklíkan svo á að almenningur sé „ekki nógu vel gefinn“, hafi ekki þá „dómgreind“ sem valdaklíkan hefur, hafi ekki „þekkinguna“ og „djúpu viskuna“ sem er saman komin á Alþingi. Mannvitið er raunar slíkt að ákveðið hefur verið að stækka umgjörð þess og ráðast í nýbyggingu á Alþingisreitnum.

            Þá er og talið að almenningur taki alls ekki nægt tillit til vina valdaklíkunnar, og þjófsnauta hennar, sem fengu t.d. kvóta án endurgjalds og stunda margs konar spillingu í skjóli ríkisvaldsins.

            Valdaklíkan er þeirrar gerðar að viðhalda sjálfri sér þótt þingmenn komi og fari. Það breytir engu í stóru myndinni. Sumir þingmenn hafa raunar setið svo lengi á Alþingi að þeir munu steinrenna [eins og tröllin forðum] áður en þeir sjá sóma sinn í því að hætta. Maður sem situr í áratugi á Alþingi telur sjálfan sig auðvitað ómissandi, það liggur í augum uppi. Þar er að baki sama hugarfar og einkenndi suma „upplýsta einvalda“ fyrr á öldum.

            Baktjaldamakkið, við breytingar stjórnarskrárinnar, felst í því að tryggja að braskarar og fjárglæframenn haldi þýfinu sem þeir hafa komist yfir, á formi auðlinda og afnota. Þá er og markmiðið að draga úr valdi þjóðarinnar og festa sem best í sessi stöðu valdaklíkunnar [valdaklíkur hafa almennt sterka tilhneigingu til þess að styrkja eigin völd]. Með öðrum orðum: þetta eru andlýðræðislegar aðgerðir. Full ástæða er til þess að hvetja núverandi þing, og ekki síður hið næsta, til þess að hafna þessu baktjaldamakki þingflokksformanna og héraðsdómara, gegn vilja meirihluta kjósenda á Íslandi. „Samráðsgáttin“ var auðvitað sýndarmennskusamráð, það mátti öllum vera ljóst frá upphafi. Störf þessa fólks, í fjölda mála, snúast sjaldnast um annað en blekkingar og lygi. Það má rifja það upp hér að umræddur héraðsdómari hafði sig mjög í frammi í umræðunni þegar stjórnarskrármálin voru í deiglunni árið 2012. Gagnrýndi hann alla þá vinnu. „Héraðsdómarinn“ [sem vafalaust stefnir að „stöðuhækkun“] er því langt í frá hlutlaus „álitsgjafi“ í makkinu núna, heldur beinn gerandi.

            Vandamálið er hins vegar ekki að kjósendur skorti skilning á raunveruleikanum heldur miklu fremur hitt hvað skal gera. Hluti valdaklíkunnar sér það sem leið til þess að styrkja sjálfa sig í sessi að ganga í erlent ríkjasamband (ESB) og þannig útiloka enn frekar völd almennings á Íslandi. Það stafar af því að með inngöngu í Evrópusambandið lengist leiðin til muna frá hinum almenna kjósenda og til þeira sem taka ákvarðanir. Þetta merkir á mannamáli að með inngöngu í ESB minnkar lýðræði þjóðríkjanna. Stofnanir ESB taka allar helstu ákvarðanir, þ.e. Evrópuþingið, Ráðið og framkvæmdastjórn ESB.

            Þeir sem vilja sækja rétt sinn verða að gera það í gegnum dómstóla, aðildarríkjanna og síðan eftir atvikum við dómstóla ESB [sbr. regluna um bein réttaráhrif, direct effect, og forúrskurði, preliminary rulings]. Aðildarríkin kjósa að vísu til Evrópuþingsins en það er þó fjarri því að vera sérstök valdastofnun almennra kjósenda eða sérstakur fulltrúi þeirra. Þetta merkir einfaldlega að almenningur verður fjær ákvarðanatöku en áður. En þegar ósannindafólkið á Alþingi mun reyna að troða Íslandi inn í ESB þá mun það auðvitað halda fram hinu gagnstæða: að lýðræði mun aukast á Íslandi, til mikilla muna, við inngöngu. Það er hins vegar lygi.

Hvað felst í auðlindaákvæðinu?

            Áður en rætt verður um innihald auðlindaákvæðis í stjórnarskrá er alveg nauðsynlegt að vekja á því sérstaka athygli að slíkt ákvæði kemur ekki til með að hafa neina merkingu hvað snertir orkupakka ESB! Þetta verður fólk að gera sér ljóst. En hver er ástæða þess? Hún er sú, eins og áður hefur komið fram í fyrri skrifum, að Evrópuréttur hefur forgang umfram landsrétt þegar árekstur verður þar á milli. Innlend lög og þar með taldar stjórnarskrár aðildarríkja ESB/EFTA víkja fyrir Evrópurétti (Primacy of EU Law/Primauté de l'application du droit européen).

            Af þessari ástæðu verður strax ljóst að ákvæði ESB sáttmála, ákvæði reglugerða og tilskipana, hafa forgang umfram ákvæði í íslenskum lögum eða ákvæði í stjórnarskrá. Það fólk sem nú skipar íslensk stjórnvöld virðist ekki hafa gert sér nokkra grein fyrir þessu. Alvöru auðlindaákvæði ætti að öllu jöfnu að halda gagnvart innlendum auðlindum, að því gefnu að valdið yfir þeim hafi ekki þegar verið framselt til Evrópskara stofnana eins og raunin er með orkupakkana! Í tilviki þeirra er búið [ranglega] að framselja yfirráð og stjórnun úr landi. Það gerði Alþingi með afléttingu stjórnskipunarlegs fyrirvara á síðasta ári og innleiddi orkupakka 3 í íslenskan rétt.

            Þegar Evrópureglugerð eða Evróputilskipun hefur verið innleidd í íslenskan rétt fær viðkomandi Evrópugerð réttaráhrif á Íslandi. Enginn þarf að velkjast í vafa um það. Talsmenn stjórnvalda, og stjórnvöldin sjálf, hafa hins vegar látið sér sæma að halda því fram að innleiðing breyti engu, hafi engin áhrif! Allt verði óbreytt á eftir og vald sem búið er að afsala úr landi sé áfram í landinu! Þessi málflutningur hefur ævinlega gengið í „austur og vestur“ á sama tíma. Annað hvort fara menn í austur, eða þeir fara í vestur. Það er ekki hægt að gera hvort tveggja á sama tíma. Flestir átta sig ágætlega á því. Samt reyna stjórnvöld að halda öðru fram.

            Skoðum þessu næst hvað felst í auðlindaákvæðinu sem valdaklíkan fæst við að koma í stjórnarskrá með aðstoð héraðsdómara sem auðvitað ætti ekki að koma nálægt slíkri vinnu, ef farið væri að réttum leikreglum og aðgreiningu ríkisvalds.

            Ýmsir gagnrýndu frumvarp stjórnlagaráðs árið 2012 m.a. fyrir það að sum ákvæði þess væru „,matskennd“. En hvað myndi sama fólk þá segja um drögin að nýju auðlindaákvæði þingflokksformannanna og „héraðsdómarans“? Ákvæðið hljóðar svo:

            „Auðlindir náttúru Íslands tilheyra íslensku þjóðinni. Nýting auðlinda skal grundvallast á sjálfbærri þróun. Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign. Enginn getur fengið þessi gæði eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota. Handhafar löggjafarvalds og framkvæmdarvalds fara með forræði og ráðstöfunarrétt þeirra í umboði þjóðarinnar. Veiting heimilda til nýtingar á náttúruauðlindum og landsréttindum sem eru í þjóðareign eða eigu íslenska ríkisins skal grundvallast á lögum og gæta skal jafnræðis og gagnsæis. Með lögum skal kveða á um gjaldtöku fyrir heimildir til nýtingar í ábataskyni.“[i]

            Allt er þetta mjög loðið og matskennt. Hvað merkir t.d. orðið „tilheyra“ í þessu sambandi? Þarna er ekki tekið af skarið. Ákvæðið þyrfti að hljóða svona: Auðlindir í náttúru Íslands eru eign íslensku þjóðarinnar og njóta fullrar réttarverndar samkvæmt því. Enn fremur: „Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign.“ Ýmsir útgerðarmenn telja sig eiga kvótann, í skilningi eignarréttar, og telja sig njóta verndar eingnarréttarákvæða stjórnarskrárinnar. Þarna snýst spurningin ekki síst um tímasetningu. Hvenær varð eign að einkaeign sem þá væri undanskilin ákvæðum um þjóðareign?

            Ýmsir þjófsnautar, sem fengu kvóta án endurgjalds, myndu t.d. reyna að halda því fram að kvótinn lúti nú þegar einkaeignarrétti og sé því undanskilinn ákvæðum um þjóðareign. Meðvirkir dómarar valdsins myndu örugglega taka undir það [enda stundum hallir undir fjármálavald]. Enn fremur, ef „eign“ varð ranglega „einkaeign“ (sbr. kvótann, sem er í raun þýfi sem menn hafa keypt og selt) á þýfið þá að njóta lögverndar sem einkaeign?

            Í þessu felst, að þegar búið er að ræna öllum helstu eignum þjóðarinnar og færa þær undir „einkaeignarrétt“ þá má þjóðin eiga það sem eftir er! Restin má lúta þjóðareignarrétti. Markmiðið er þá að ræna sem mestu, koma sem flestu undir „einkaeignarrétt“ og þá er í lagi að setja gagnslaust ákvæði um auðlindir í stjórnarskrá enda þegar búið að ræna öllu sem fémætt getur talist. Þetta virðist í fljótu bragði vera stefnan.

            „Enginn getur fengið þessi gæði eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota.“ Nei, en það er búið að ræna þeim áður. Sömu gæði lúta [ranglega auðvitað] einkaeignarrétti braskara og fjárglæframanna.

            „Handhafar löggjafarvalds og framkvæmdarvalds fara með forræði og ráðstöfunarrétt þeirra í umboði þjóðarinnar.“ Þarna vantar einnig að taka af skarið. Að minnsta kosti þarf að bæta við: þjóðareign má aldrei selja né veðsetja.

            „Veiting heimilda til nýtingar á náttúruauðlindum og landsréttindum sem eru í þjóðareign eða eigu íslenska ríkisins skal grundvallast á lögum [skal byggð á lögum, væri betra orðalag] og gæta skal jafnræðis og gagnsæis. Með lögum skal kveða á um gjaldtöku fyrir heimildir til nýtingar í ábataskyni.“ Þessi hluti ákvæðisins snýst um grundvallaratriði.

            Það hvernig gjaldtökunni er háttað er enn fremur grundvallaratriði. „Með lögum skal kveða á um gjaldtöku“. Þetta er afskaplega loðið orðalag. Hættan er sú að þar með verði gjaldtakan hátt duttlungum og geðþótta stjórnmálamanna í framtíðinni. Afskipti þeirra hingað til, s.s. setning laga um stjórn fiskveiða og síðar framsal, hafa haft þær afleiðingar að þjóðin hefur verið snuðuð um tugi og hundruði milljarða sem braskarar og fjárglæframenn hafa stungið í eigin vasa. Í stuttu máli má segja að versta leiðin sé sú að nánast gefa aflaheimildirnar, eins og nú er gert [og „æ sér gjöf til gjalda“].

            Lengi má deila um gildi hins „frjálsa markaðar“ sem oft virkar illa vegna smæðar. Hugmyndin með slíkum markaði er sú að verð myndast í samhengi framboðs og eftirspurnar.[ii] Það lögmál gildir hins vegar ekki um aflaheimildir á Íslandi, gildir þó um flest annað, s.s. matvöru, með þeim fyrirvara sem gera verður vegna smæðar markaða.

            Önnur aðferð væri sú að stjórnmálamenn ákveði „handvirkt“ verð á aflaheimildum. Fyrrum Austantjaldsríki voru oft gagnrýnd fyrir að ákvarða verð með því móti. Á Íslandi ákveða stjórnmálamenn raunar „handvirkt“ hækkun og lækkun svonefndra veiðigjalda. Almennt hafa afskipti íslenskra stjórnmálamanna af þessum málaflokki ekki gefist vel. Önnur aðferð væri t.d. sú að ákveða verðbil (lágmarksverð/hámarksverð miðað við eitthvert ákveðið magn) og bjóða mönnum síðan að draga úr potti. Verð á tilteknu magni aflaheimilda væri þá háð heppni hvers og eins. Það má hugsa sér ýmsar útfærslur til þess að finna hið „rétta verð.“ Aldrei má þó gleyma því að um er að ræða eign þjóðarinnar – þjóðareign á aflaheimildum. Ráðstöfunarréttur á að fylgja þeim eignarrétti [hvernig afnotum er háttað]. Auðlindaákvæði á ekki að vera friðþægingarákvæði sem síðan er teygt og togað í allar áttir. Taka þarf af öll tvímæli um það að auðlindir (hafsins) séu ævarandi eign þjóðarinnar og tekið sé fyrir brask með þær. „Framsal“ aflaheimilda skapar hagræði fyrir braskara en ekki fyrir þjóðina. Það er grundvallaratriði hvað þann þátt snertir. Það leiðir til gríðarlegrar samþjöppunar og einokunar á nýtingu. Þar við bætist að það er auðvitað fullkomlega óeðlilegt að mönnum skuli leyfast að lögum að selja það sem þeir eiga ekki [sbr. og latnesku regluna: Nemo dat quod non habet]. Tilfærsla sem slík, á milli manna, myndar aldrei eignarrétt.

Niðurstaða

            Það sýnist alveg ljóst að auðlindaákvæði sem vel er úr garði gert getur gagnast gagnvart þeim auðlindum sem þjóðin hefur enn þá stjórn á! Þar þarf þó að taka af öll tvímæli gagnvart t.d. auðlindum sjávar.

            Hvað snertir orkuna, rafmagnið og svo vatnið, með síðari orkupökkum, þá gegnir allt öðru máli. Yfirráð yfir þessum auðlindum hafa þegar verið færð að miklum hluta til Evrópu [orkupakki 3], undir evrópskt vald sem stendur ofar íslensku valdi. Sú þróun mun halda áfram ef íslenska þjóðin grípur ekki hressilega í taumana, ekki síðar en í næstu kosningum! Í þessum málaflokkum gildir regluverk ESB og það í sívaxandi mæli, verði ekki snúið af ógæfubrautinni [sbr. IV. viðauka við EES-samninginn sem er eins og „opinn víxill“].

            Hvað sem fólki kann að finnast um Miðflokkinn [og Agli Skallagrímssyni hefði varla blöskrað víndrykkja] þá er hinu ekki að að neita að það er eini flokkurinn á Alþingi sem hélt uppi vörnum þjóðarinnar í orkupakkamálum. Hvað sem menn telja að flokknum hafi gengið til með því þá er staðan einfaldlega sú, hvort sem fólki líkar betur eða verr. Aðrir flokkar studdu orkupakka 3, ýmist beint eða „óbeint“ og brugðust þjóðinni þar með algerlega.

            Það á að vera geymt en ekki gleymt t.d. í næstu kosningum. Hefði Miðflokkurinn engum andmælum hreyft, væri staðan sú að Alþingi eins og það leggur sig, hefði framselt vald í orkumálum þjóðarinnar til erlendra stofnana [vísa og til fyrri skrifa um það efni] að þjóðinni forspurðri – án umboðs þjóðarinnar og enginn flokkur andmælt því. Heimsóknir á öldurhús breyta engu um það. Enda mun framtíð Íslands í orkumálum ekki velta á ölkrúsum heldur réttum ákvörðunum. Þar ber að forðast pólítíska meðvirkni en hafa þjóðarhag að leiðarljósi. Á Alþingi ríkir ómæld meðvirkni en að sama skapi er leiðarljósið dauft í orkumálunum. Villuljós orkupakkanna er eina ljósið sem þar skín.

[i]      Drög að stjórnarskrárákvæði um auðlindir náttúru Íslands. https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=1387

[ii]    Sjá t.d.: Pettinger, T. (2019). Diagrams for Supply and Demand. https://www.economicshelp.org/blog/1811/markets/diagrams-for-supply-and-demand/

Fréttabréf