Fara í efni

HVAÐ ER ÞJÓÐAREIGN?

            Meðal athugasemda sem komið hafa frá Feneyjarnefndinni, um fikt stjórnvalda við stjórnarskrána, er skilgreining á hugtakinu þjóðareign. Þar er bæði átt við skilgreiningu á hugtakinu sjálfu sem og tengsl þess við annan eignarrétt. Þetta eru réttmætar athugasemdir enda ljóst að skýr skilgreining hugtaksins er forsenda þess að þjóðareign njóti lögverndar. Reikul skilgreining býður þeirri hættu heim að dómarar beiti orðhengilshætti við túlkun hugtaksins og þykist ekki skilja það.

            Það er hins vegar reginvilla sumra lögfræðinga að hugtakið þjóðareign sé merkingarlaust. Árin fyrir hrunið var áberandi að fjölmiðlar og fleiri mærðu mjög fjölda þjófa og þjófsnauta og áttu vart nógu sterk lýsingarorð til þess að tjá hrifningu sína á þeim. Illa hefur gengið að reisa þessum þjófum einhverjar skorður enda enginn vilji til þess innan gerspilltrar stjórnmálastéttar sem raunar hefur sjálf hýst bæði þjófa og þjófsnauta. Það hefur leitt til gríðarmikilla eignatilfærslna - frá þjóðinni til fáeinna manna og kvenna.

            Mörg er svívirða Alþingis og lengi getur vont versnað. Íslenskt valdakerfi er alltof veikt til þess að geta staðið gegn valdi íslensku mafíunnar sem oft nýtur stuðnings erlendra mafía [nægir að nefna bankakerfið, lyfjamafíur]. Það er því við ofurefli að etja. Alþingi ber þó að miklu leyti sjálft ábyrgð á þessari þróun með sinnuleysi sínu og meðvirkni á mörgum sviðum. Alvöru þjóðþing standa vörð um hagsmuni þjóða sinna og taka af skarið í þýðingarmiklum málum. Það gerir Alþingi Íslendinga sjaldnast. Afleiðingin er sú að braskarar og fjárglæframenn vaða uppi.

            Það er því alveg í stíl við annað að setja loðin ákvæði í stjórnarskrá sem dómarar geta síðan teygt og togað að vild. Þjófnaðar eins og hér um ræðir er hins vegar ekki nýr af nálinni. Mjög sterkar lýsingar á honum er t.a.m. að finna í bók Halldórs Laxness, Atómstöðinni. Þar er þessu ákaflega vel lýst [sbr. Faktúru-Fölsunar-Félagið, Federation of Fulminating Fish, New York - „FFF“].

            Þetta sýnir vel hversu íslenska mafían hefur lengi verið samofin daglegum veruleika, ekki hvað síst stjórnmálum. Enn er við sambærilegan vanda að glíma og lýst er í Atómstöðinni. Dæmi um það eru glórulausir gerningar þar sem útvaldir útgerðarmenn fengu „úthlutað“ kvóta, þýfi, án endurgjalds. Alþingi heimilaði síðar „framsal“ þýfisins, fyrir atbeina „félagshyggjuflokka“ [„FF“].

            Ömurlegri eftirmæli er vart hægt að hugsa sér. Þar náði íslensk spilling ákveðnu hámarki. Það hámark var þó sprengt um áratug síðar þegar bankakerfinu var stolið í heilu lagi. Þeir sem fá brauðmola af þýfinu eru líklegastir til þess að mæla fyrirkomulaginu bót og þeim fjölgar eftir því sem mafíufyrirtækin stækka. Ákvarðanir Alþingis hafa í þessum málum, að minnsta kosti, verið þjóðinni til mikillar bölvunar. Enginn minnsti vafi á því.

Skilgreiningar á eignarrétti

            Eignarréttur vísar til lagalegs réttar einstaklinga, hópa, fyrirtækja eða hins opinbera, til eigna og ráðstöfunar á þeim. Hins vegar er víða vaxandi skilningur á því að hefðbundin skipting eignarréttar dugi ekki til þegar t.d. er um að ræða mikilvægar auðlindir og menningarverðmæti. Hugtakið þjóðareign bætir verulega úr þeim vanda. Skipta má eignarrétti í annars vegar efnislegan hluta (corporeal ownership) og hins vegar óefnislegan hluta (incorporeal ownership). Undir efnislegan hluta falla t.d. húseignir [fasteignir] og land. Undir óefnislegan hluta falla fyrirbæri eins og einkaleyfi, höfundarréttur, vörumerki og fleira. Á Íslandi hefur lengi tíðkast að skipta eignum í fasteignir og lausafé.[i]

            Enn fremur er eignarréttur (réttindi) flokkaður út frá viðfangsefni sínu, þ.e. hvort hann beinist að hlutum („heiminum öllum“, jus in rem) eða ákveðnum einstaklingum (jus in personam).[ii]

            „Jus in personam“ (sbr. Rómaréttinn) vísar til réttar sem einstaklingur hefur gagnvart öðrum einstaklingi eða einstaklingum. „Jus in rem“ merkir almennan rétt, gagnvart hverjum sem er, án tilvísunar í ákveðinn einstakling fremur en annan. Gerður er greinarmunur á réttindum persónu (in personam) sem stafa af sambandi tveggja einkaaðila og þeirra sem stafa af sambandi samkvæmt opinberum rétti (public law).[iii]

            Breski réttarheimspekingurinn John Austin skilgreinir eignarrétt í riti sínu „Lectures on Jurisprudence: Or, The Philosophy of Positive Law“ frá árinu 1875. Austin skilgreinir eignarrétt svona: „Eignarhald eða eign er tegund af „jus in rem“. Það er réttur sem býr í manni, yfir eða á manni eða hlut, gagnvart öðrum einstaklingum hvarvetna eða almennt. Skuldbindingarnar sem það felur í sér eru einnig neikvæðar [sbr. muninn á jákvæðum og neikvæðum skyldum] sem og alhliða.“[iv]

            Neikvæðu skyldurnar (skuldbindingarnar) sem Austin vísar þarna til merkja að aðrir verða að virða eignarrétt viðkomandi einstaklings. Enda ljóst að eignarréttur einstaklinga fengi ekki staðist ef öðrum væri ávalt heimilt að hafa þann sama eignarrétt að engu [enda þótt Alþingi Íslendinga leyfi sér að hafa eignarrétt þjóðarinnar að engu, t.d. á kvóta, og framselji hluta ríkisvalds til erlendra stofnana án heimildar frá þjóðinni!].

            Síðan segir Austin: „Þegar viðfangsefni „jus in rem“ er aðili [einstaklingur], hefur rétthafinn tvíþætta stöðu. Hann hefur rétt (eða réttindi) yfir eða til aðila eins og gagnvart öðrum einstaklingum almennt. Hann hefur einnig réttindi (persónulega – in personam) gagnvart aðilanum eða er skuldbundinn (í skilningi rómversku lögfræðinganna) gagnvart aðilanum.“[v]

            Hafa þarf í huga ákveðinn greinarmun sem er á milli eignarréttar innan ríkja sem kennd eru við fordæmisrétt (common law) og þeirra sem byggja á meginlandsrétti (civil law). Ísland fellur í flokk síðarnefndu ríkjanna þótt skandínavískur réttur [sem er hluti af germönskum rétti] sé gjarnan skilgreindur sem sérstakur réttur í samanburðarlögfræði.

            Í Englandi þar, sem fordæmisréttur (common law) er gildandi réttur, byggir eignarréttur á „rétti til eignar“ (title). Sá sem t.d. kaupir fasteign getur haft missterkan rétt til húseignarinnar sem um ræðir. Þá eru í gildi tvenns konar kerfi; óskráðar eignir og skráðar (unregistered land v. registered land). Sé eignin óskráð þarf kaupandi að ganga úr skugga um[vi] mögulegan rétt annara [third party rights] og ekki verður gengið fram hjá við kaup á eigninni. Kaup á skráðum eignum lúta hins vegar líku fyrirkomulagi (fasteignaskrá) og menn þekkja á Íslandi.

            Kaupandi í Englandi á strangt til tekið ekki eignina sem hann kaupir heldur hefur „rétt til“ hennar. Sterkasti „réttur til eignar“ í Englandi og helst líkist fullkomnum einkaeignarrétti eins og fólk þekkir á Íslandi, er: fee simple absolute in possession. Endanlega á „einvaldurinn“ (the Monarch) allt „land“ í Englandi, Wales og Norður-Írlandi.[vii]Land law“ tekur bæði til fasteigna og lands. Enskur eignarréttur lýtur ekki einungis fordæmisrétti (common law) heldur fellur og undir „equity“ (sbr. equitable right).

            Það sem rætt er um hér að framan fjallar fyrst og fremst um „einkaeignarrétt“ og tengd réttindi. Einkaeignarréttur er mikilvæg forsenda markaðshagkerfisins. Að vissu marki er sá réttur mikilvægur fyrir almenning; að fólki sé t.d. tryggður réttur yfir fasteignum og eignum sem fólk þarf sér til viðurværis.

            En það sem þó varðar almenning jafnvel enn meira er að þjóðareign sé vandlega tryggð. Hvers vegna er það nauðsynlegt? Ein helsta ástæða þess er sú að braskarar og fjárglæframenn[viii] eru að verða sífellt stórtækari og ófyrirleitnari. Þar kemur hin svo kallaða „hnattvæðing“ mjög við sögu. Fjárglæfrar fylgja ekki lengur neinum landamærum og eignarhald oft flóknara en lýst verður í stuttri grein. Það er hvorki sjálfsagt né eðlilegt að eignir þjóða, svo sem náttúruauðlindir, séu hirtar af auðhringum og glæpamönnum. „Lögmætisstimplar“ þjóðþinga breyta engu um það.

Skilgreiningar á hugtakinu þjóðareign

            Í kínverskum (tævönskum) lögum um þjóðareign (National Property Act) er að finna ýtarlegar skilgreiningar á hugtakinu og hvernig því er beitt. Í kafla 1 er fjallað um almennar meginreglur. Þar segir í 2. gr. laganna: „Þjóðareign leiðir af lögum eða beitingu valds af hálfu stjórnvalda, kaupum eða framlagi. Nema annað sé tekið fram í öðrum viðeigandi lögum, teljast allar fasteignir sem ekki tilheyra einkarekstri eða sveitarstjórnum vera þjóðareign.“

            Í 3. gr. sömu laga segir: „Umfang þjóðareigna sem dregið er af áðurnefndri grein [2 .gr.] er sem hér segir:

  1. Fasteignir: vísar til jarða, endurbóta og náttúruauðlinda.
  2. Persónuleg eign: vísar til tækjabúnaðar, samgöngumannvirkja og annarrar aðstöðu.
  3. Verðbréf: vísar til hlutabréfa eða hlutabréfa og skuldabréfa í eigu þjóðarinnar.
  4. Réttur: vísar til eignarréttar á yfirborði, ítakaréttar (easement), lána, veða, námuvinnslu, fiskveiða, einkaleyfa, höfundarréttar, vörumerkja og fleira.“

            Í 4. gr. laganna segir að „Þjóðareign skiptist í eignir til almenningsnota og eignir sem ekki eru til almenningsnota. Fasteignir til almenningsnota eru eftirfarandi:

  1. Skrifstofuhúsnæði: þjóðareign notuð af stjórnvöldum, herstöðvum, opinberum skólum, til opinberrar starfsemi og heimavistir.
  2. Opinberar eignir: þjóðareign sem notuð er fyrir almenningsaðstöðu sem þjóðin býður beint upp á.
  3. Fyrirtæki: þjóðareign notuð af ríkisfyrirtækjum. En ef ríkisfyrirtæki er fyrirtækið er með þjóðareign eingöngu vísað til hlutabréfa þess. Allar þjóðareignir fyrir utan eignir til almenningsnota eru eignir sem ekki eru til almenningsnota og slíkar eignir má hagnýta eða selja.

            Í 7. gr. er tilgreint hvernig arðinum skuli ráðstafað: „Tekjum og ráðstöfun þjóðareigna skal hagað í samræmi við málsmeðferð fjárhagsáætlunar; skal tekjum skilað í ríkissjóð. Tekjur eða ráðstafanir eigna til fyrirtækja skulu ákvarðaðar með reglugerðum og verklagsreglum sem tengjast ríkisfyrirtækjum, á notkunartímabili, eða umbreytt í eignir sem ekki eru til almenningsnota.“[ix] Eftirfarandi atriði skipta mestu máli um eðli og hlutverk eignarréttar:

  • sveigjanleiki - að hve miklu leyti eigandinn getur breytt hætti eða tilgangi eignar án þess að fyrirgera réttinum;
  • deilanleiki - hæfileikinn til að skapa sameiginlegt eignarhald, deila eign landfræðilega eða eftir hlutverki, til þess að búa til tímabundna röð réttinda;
  • eiginleiki eignarhalds - eftirfylgni, vissa, öryggi, hve auðvelt er að stofna eignarrétt. Skilgreinir hversu öruggur eigandi eignar finnur sig gagnvart því að tilgreind eign verði áfram tiltæk í framtíðinni [fyrirsjáanleiki];
  • einkaréttur – sértæki, útilokun, við hversu marga þarf að semja um notkun;
  • tímalengd - varanleiki, lengd og fyrirkomulag endurnýjunar;
  • framseljanleiki - úthlutun, skiptanleiki, söluhæfni.[x] Í töflu 1 sjást tengsl þjóðareignarréttar við ríkiseignarrétt og einkaeignarrétt.[xi]

            Tafla 1

tafla.JPG

Hugtakið þjóðareign (national ownership/national property) kemur víða fyrir í skýrslum Sameinuðu þjóðanna sem fjalla um lýðræði og þróun ríkja. Þar má nefna skýrslur UNESCO um menningarverðmæti.

Deilan um hugtakið þjóðareign snýst ekki um lögfræðileg vandamál sem því tengjast, heldur átök og
hagsmuni. Þetta mál snýr að átökum um skiptingu lífsgæðanna. Reynslan er almennt sú að þegar slík mál koma til kasta dómstóla á Íslandi draga þeir ævinlega taum valdsins, gegn almenningi. „Lögfræðiálit“ á Íslandi ganga í nákvæmlega sömu áttina: með valdinu og gegn almenningi. Sú afstaða er bæði meðvituð og ómeðvituð.

            Dómarar vita nákvæmlega til hvers er ætlast af þeim og hvernig þeir fengu stöðuhækkun. „Undirvitundin“ sér til þess að sú vitneskja er í bakgrunni þegar ákveðnir dómar eru kveðnir upp. Margir eru því tregir til þess að ganga gegn „velgjörðamönnum“ sínum, hvort heldur það eru kvótahafar eða fjármálastofnanir. Þá er ljóst að sumir dómarar hafa sterkar skoðanir [taka jafnvel að sér löggjafarstörf í hjáverkum með dómarastörfum!] og beita sér óspart, s.s. í stjórarskrármálum.

[„Lögfræðiálit“]

Inni á þingi engar varnir,

undir feldi gjaldsins.

Keyptir eru kjaftaskarnir,

keppa um hylli valdsins.

            Niðurstaðan verður sú að „eignarréttur“, braskara, fjárglæframanna, kvótahafa og fjármálastofnana gengur yfirleitt framar eignarrétti þjóðarinnar eða almennings. Í kringum þá fyrirfram gefnu niðurstöðu eru síðan skrifaðir langir og misvísandi dómar og jafnvel skrifuð enn furðulegri „lögfræðiálit“. Hræsnin er hins vegar oft yfirgengileg og það þykir ganga lengra en „guðlast“ að segja hlutina eins og þeir eru.

            Sannleikurinn er versti óvinur valdsins og þeirra sem því fylgja. „Sannleikur“ marga stjórnmálamanna, og þeira sem skrifa „lögfræðiálitin“, gerir engan mann „frjálsan“ heldur þjónar þeim sem vilja hneppa þjóðina í ánauð. Skilgreining og lögfesting á þjóðareign í stjórnarskrá er nauðsynlegt framfaraspor til þess að hindra frekara rán á eignum þjóðarinnar í framtíðinni. Sú vinna á ekki að gerast á forsendum íslensku mafíunnar heldur þjóðarinnar og hagsmuna hennar.

            Eignalaus þjóð hefur glatað sjálfstæði sínu, sérstaklega þegar við bætist að stjórnmálamenn vinna að því að framselja ríkisvald til erlendra stofnana, án umboðs frá kjósendum. Sé hins vegar raunveruleg staða sú, eins og margt bendir til, að Alþingi virði ekki þjóðarviljann, stjórnarskrá, eignarrétt þjóðarinnar (sem á sér aldalanga sögu) eða yfirleitt nokkuð annað en þinginu sjálfu þóknast, er vandinn sem við er að glíma svo risavaxinn að jafna má til lýðræðislegs „neyðarástands“. Sé sú tilgáta rétt, þá liggur og beinast við að efast stórlega um úrslit kosninga. Ísland er þá raunverulega, hvað lýðræði snertir, að minnsta kosti í jafn slæmri stöðu og t.d. Hvíta Rússland. Ætlar þjóðin að sætta sig við það?

[i]      Sjá t.d.: Lög nr. 75/1997 um samningsveð. https://www.althingi.is/altext/stjt/1997.075.html

[ii]    Sjá t.d.: Hudson, R.M. “When Rights in Personam Give Rise to Rights in Rem” (1899) 5: Virginia Law Review 13 at 13-19, https://www.jstor.org/stable/1097900?seq=1#metadata_info_tab_contents viewed October 12, 2020.

[iii]   Sjá t.d.: Eur. Comm. H.R., decision of 16 July 1976, A, B, C, D, E, F, G, H and I v. The Federal Republic of Germany, Nos. 5573/72 and 5670/72, DR 7, p. 8.

[iv]    Austin, J. (1875). The student´s edition. Lectures on Jurisprudence, Or, The Philosophy of Positive Law. New York, Henry Holt and Company, p. 177.

[v]     Ibid, 178.

[vi]    Sbr. t.d. Long, J.R., 1920. Notice in Equity. Harvard Law Review, 34, 137-160.

[vii]  Sjá t.d.: The Crown Estate. https://www.thecrownestate.co.uk/en-gb/resources/faqs/

[viii] Sjá enn fremur: Global Financial Integrity. Natural Resources - Why are natural resources at risk of illicit financial flows? https://gfintegrity.org/issue/natural-resources/

[ix]    National Property Act. https://law.moj.gov.tw/ENG/LawClass/LawAll.aspx?pcode=G0370001

[x]     Sjá: Ministry for the Environment. Characteristics of Property Rights. https://www.mfe.govt.nz/publications/fresh-water/property-rights-water-quality-review-stakeholders-understanding-and-4

[xi]    Ibid.