Kári skrifar: MUN „FJÖLSKYLDUSTEMNING“ LEYSA VANDAMÁL STJÓRNVALDA?

            Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur gert við það formlega athugasemd[i] hvernig íslenskir dómstólar, sérstaklega Hæstiréttur, hafa túlkað rétthæð Evrópuréttar samanborið við landsrétt, þegar árekstur verður þar á milli. ESA telur að Evrópuréttur njóti ekki þess forgangs í íslenskri dómaframkvæmd sem honum ber. Séð út frá reglum Evrópuréttar eru þetta fullkomlega eðlilegar athugasemdir hjá ESA. Þar ber og að hafa í huga ýmsar meginreglur sem mótast hafa með dómum Evrópudómstólsins og „fylgja með“ þegar Evrópuréttur er innleiddur.

            Nokkrar hæpnar skýringar eru uppi um eðli og virkni Evrópuréttarins. Ein er sú að Evrópuréttur sé í raun landsréttur, einungis með „evrópskum bragðbæti“ þar sem íslenskir dómstólar hafi það á valdi sínu hvaða gildi honum er veitt. Með því að líta svo á málin horfa menn algerlega framhjá þeirri staðreynd að Evrópuréttur er yfirþjóðlegur réttur (supranational) og þar að auki sérstakrar gerðar (sui generis) eins og komið hefur fram í dómum Evrópudómstólsins.

            Hvort um ræðir Evrópurétt innan aðildarríkja ESB eða „EES-rétt“ kemur í veigamiklum atriðum út á eitt og hið sama. Hvort tveggja er Evrópuréttur. Það á t.d. við um reglur fjórfrelsisins, samkeppnisreglur, persónuverndarlöggjöf og margt fleira. Evrópureglugerð eða Evróputilskipun hefur, og á að hafa, sömu réttaráhrif á Íslandi og annar staðar á Evrópska efnahagssvæðinu, eftir innleiðingu. Hver aðferðin er við innleiðingu (sbr. kenningar um „dualism“ v. „monism“) á að koma út á eitt hvað réttaráhrif snertir. Enda er það meðal yfirlýstra markmiða með þessu evrópska samstarfi að samræma reglur og beitingu þeirra.

            Þekktur lögmaður, Jón Steinar Gunnlaugsson, hefur lýst því þegar hann hóf störf sem dómari við Hæstarétt Íslands. Þar nefndi Jón m.a. að ákveðinn dómari við réttinn hefði skýrt sér frá því að þar ríkti svo „þægileg fjölskyldustemning“. Það kom þó ekki í ljós fyrr en síðar hvað raunverulega var átt við. „Fjölskyldustemningin“ fólst í því að dómarar gerðu hverjir öðrum „greiða“ þegar þeir höfðu dómsmál til meðferðar. Greiðinn fólst í því að styðja dómara í afstöðu hans, gegn því að sami dómari [sem var studdur] endurgildi greiðann síðar. Þetta heitir á mannamáli greiði gegn greiða. Enginn ástæða er til þess að rengja Jón um þetta, enda hefur þessu ekki verið andmælt svo séð verði.

            Kvörtun ESA er skýr og vísað þar m.a. til dóma Hæstaréttar. Verður að teljast líklegt að kvörtunin rati fyrir EFTA-dómstólinn í Lúxemborg. Þá er íslenskum stjórnvöldum talsverður vandi á höndum við það að sýna fram á að aðrar reglur skuli gilda um rétthæð Evrópuréttar á Íslandi en í öðrum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu.

            Hæpið er að vísa til þess að með inngöngu í EES hafi íslensk stjórnvöld ævinlega gengið út frá því að óskert löggjafarvald héldist áfram í landinu. Það viðhorf er mjög „séríslenskt“ að því leyti að sumir telja að hægt sé að framkvæma ákveðna hluti en samt ekki framkvæma þá.

            Tökum dæmi: Maður sem t.d. kaupir súkkulaðistykki hefur yfirleitt ekkert val um innihald þess sama súkkulaðis. Það er innihaldslýsing á umbúðunum, þegar súkkulaðið er keypt og hún ætti að öllu jöfnu að nægja. Menn geta ekki gert sérstaka fyrirvara við innihald súkkulaðisins þegar það er keypt. Samkvæmt „íslensku kenningunni“ er þetta allt opið. Það er bæði hægt, á sama tíma, að kaupa súkkulaðið og kaupa það ekki, það er hægt að samþykkja innihaldslýsinguna og samþykkja hana þó ekki, það er á sama tíma hægt að kaupa súkkulaðið með fyrirvara og án fyrirvara. Það sem verra er, þetta á allt að velta á huglægri afstöðu „kaupandans“, hvaða afstöðu hann hefur til „innihaldsins“. Spurningin ætti þó fremur að snúast um hitt, hvaða reglur gilda.

            Þetta er hin skapandi lögfræði í allri sinni dýrð með öllum sínum „fljótandi réttaráhrifum“, þar sem rétturinn byggist mikið á því hverju stjórnvöld halda fram á hverjum tíma. Eftir stendur þó hitt, þrátt fyrir allt, að það er eitthvert ákveðið innihald í „súkkulaðistykkinu“, það er ekki spurning um skoðun manna, ekki eftir að búið er að framleiða „vöruna“.

            Stóra spurningin er hins vegar sú hvort við EFTA-dómstólinn ríkir „fjölskyldustemming“ áþekk þeirri sem Jón Steinar hefur lýst. Það sýnist vera helsta von og vörn stjórnvalda í samningsbrotamáli ESA. Hvort slíkt „fjölskyldustemming“ nægir til þess að veita íslenskum rétti forgang mun koma í ljós. Hitt er þó rétt að hafa í huga, að færi sama mál (eða sambærilegt) fyrir Evrópudómstólinn er nokkuð öruggt hver afdrif málsins yrðu – þar hefur Evrópurétturinn algeran forgang.[ii]

[i]     Sbr. Letter of formal notice to Iceland concerning Iceland’s implementation of Protocol 35 to the EEA Agreement, dags. 13. desember 2017.

[ii]    Mæli sérstaklega með: FAILING TO HOLD BACK THE INCOMING TIDE: Why EU law has supremacy over national law and why attempts at reform will never succeed. https://www.brugesgroup.com/images/papers/eulawsupremeovernationallaw.pdf

 

Fréttabréf