Fara í efni

HEIMSVALDASTEFNAN OG BANDARÍSKU KOSNINGARNAR

Trumpisminn sem pólitísk stefna tengist öðru fremur neikvæðri afstöðu til „hnattvæðingarstefnu“. Afstaða bandarískra stjórnvalda til þessa fyrirbæris er afgerandi hluti af stjórnmálum risaveldisins eina – og okkur hina jarðarbúana skiptir hún líka býsna miklu máli. „America is back“ hrópaði Joe Biden eftir kosninganóttina og vísaði til þess forustuhlutverks í alþjóðamálum sem Trumpstjórnin hefði sagt sig frá en skyldi nú tekið upp aftur.

Það er orðin viðtekin venja að kenna heimskapítalismann eftir 1990 við „hnattvæðingu“. Þetta er jafnframt það tímabil sem nýfrjálshyggjan/markaðshyggjan hefur mótað auðvaldskerfið – hnattvæðingin ruddi sér til rúms á grundvelli markaðshyggju og er hluti af henni. Samhliða einkavæðingu og markaðsvæðingu í einstökum löndum fól hnattvæðing í sér „opnun markaðanna út á við“, frjálst flæði fjármagns milli landa og heimshluta og með tilheyrandi athafnafrelsi auðhringa. Á þessu 30 ára skeiði hefur markaðsfrjálslynd hnattvæðingarstefna verið ríkjandi hugmyndafræði, a.m.k. um hinn vestræna heim.

Einnig marxistar nota hugtakið hnattvæðing – og tengja hana hugtakinu HEIMSVALDASTEFNA. Marxísk fræði hafa lengi bent á þá þætti sem einkennt hafa kapítalisma á stigi heimsvaldastefnu allt frá upphafi 20. aldar: samþjöppun og einokun auðmagnsins, drottnun risaauðhringa, aukið vægi fjármálaauðmagnsins, mikill fjármagnsútflutningur, átök heimsvelda um markaði og áhrifasvæði. Þróunin þessa þrjá áratugi hnattvæðingar sýnir einmitt öll þessi efnahagslegu einkenni – í öðru veldi. Hnattvæddur kapítalismi er form heimsvaldastefnunnar í nútímanum.

Jafnframt þessum efnahagslegu einkennum kapítalismans hefur sama tímabil kapítalismans ákveðin PÓLITÍSK einkenni. Eftir fall Sovétríkjanna og Austurblokkar um 1990 hefur megineinkenni alþjóðastjórnmála verið EINPÓLA HEIMUR með Bandaríkin sem eina risaveldið, og þau nýttu þá stöðu til að reyna að leggja heiminn allan undir sig.

Eftir aldamótin 2000 urðu samt til ný viðnámsöfl innan heimsvaldakerfisins og þeim öflum hefur vaxið fiskur um hrygg. Þau hafa styrkt sambandið sín á milli og komið fram sem mótpóll. Fremst í þessum andstöðuarmi eru Rússland og Kína, líka Íran ásamt smærri bandamönnum. En jafnframt hafa þesi lönd gengist inn á hið hnattvædda efnahagslíkan, ekki síst nýkapítalískt Kína sem kemur fram sem hratt rísandi keppinautur innan þess kerfis.

Hnattvæðingarferlið – nokkur einkenni

Skoðum fyrst nokkur einkenni hnattvæðingar sem EFNAHAGSLEGS FERLIS. Hnattvæðingaröflin leitast við að gera heiminn að einu opnu athafnasvæði auðhringa, með opnun markaða, frjálsu flæði fjármagns og vinnuafls milli landa og heimshluta. Hnattvæðingarþróun felur í sér að ákvarðanavald um efnahagsmál færist í hendur á fjarlægum fjármálaelítum, burt frá almannavaldi og þjóðþingum einstakra landa, grefur undan lýðræði, grefur undan sjálfsákvörðunarrétti þjóða og ríkja.

Af helstu verkfærum og múrbrjótum hnattvæðingarinnar á umræddu hnattvæðingarskeiði ber að nefna GATT, WTO, ríkjabandalög eins og ESB/EES í Maastricht-búningi, NAFTA og ASEAN, viðskiptasamningar eins og TISA og TTIP og fjármálastofnanirnar AGS og Alþjóðabankinn. Ef benda skal á hugmyndalega forustu í ferlinu er eðlilegt að benda á samtökin World Economic Forum (WEF, með fundarstað í Davos í Sviss) samkundu hnattrænnar fjármálaelítu og 1000 helstu þungaviktarauðhringa heims.  

Útvistun iðnframleiðslunnar: Á sinn hátt gerðu bandarískir auðhringar Kína (og fleiri lágkostnaðarlönd) að verksmiðju fyrir sig með því að flytja framleiðsluna þangað. Hvað vinnuaflið snerti má tala um hnattvæðinguna sem tvíþætta þróun: Annars vegar útflutning framleiðslunnar til láglaunalanda í Suðrinu og hins vegar innflutning á ódýrara vinnuafli frá Suðrinu til Norðursins. Allt í þágu aukins gróða.

Lítum svo á hnattvæðinguna sem PÓLITÍSKT/HERNAÐARLEGT FERLI: Falli Austurblokkarinnar fylgdi herskárri heimsvaldastefna  – umrætt tímabil hófst með Persaflóastríðinu 1990-91, og stríð í Austurlöndum nær hefur staðið linnulítið síðan –  uppbygging herstöðvanets BNA, síðan „stríð gegn hryðjuverkum“, ógnanir, valdaskiptaaðgerðir, litabyltingar og efnahagsstríð. NATO var breytt í hnattrænt (árásar)bandalag, með Evrópuríkin sem undirgefin fylgiríki volduga frænda í Ameríku.  Eftir 1990, á Jeltsíntímanum,  var Rússland einkavætt (undir stjórn AGS og G7) og rænt og því tekið blóð.

Gegnum þetta tvöfalda ferli hnattvæðingar leit út fyrir á tímabili að BNA tækist áðurnefnt markmið, að leggja undir sig heiminn.

Ný tegund samfélagsklofnings

Eftir því sem hnattvæðingin hefur gengið yfir löndin hefur hún valdið nýrri tegnund samfélagslegs og stjórnmálalegs klofnings.

STUÐNINGSÖFL VIÐ HNATTVÆÐINGARSTEFNU: Í Vestrinu er það fjármálavaldið, ríkjandi hluti auðvaldsins með kjarna í Wall Street, sem hefur leitt hnattvæðingarstefnuna frá byrjun. Vestrænt iðnaðarauðvald (með kjarna í bandaríska hermála-iðnaðar batteríinu og Silicon Valley) stendur þétt að baki líka, enda mjög samofið því fyrrnefnda. Stór hluti auðstéttarinnar fylgir þessum voldugasta hluta - og talsverður hluti almennings líka. Hingað til hefur frjálslyndi verið einkenni þessa arms, markaðsfrjálslyndi (frjálsa flæðið) og menningarfrjálslyndi (fjölmenning). Þessi armur tengir sig við millistétt og menntaðari hluta launafólks. Í Evrópu eru SÓSÍALDEMÓKRATAR miklir pólitískir fulltrúar þessa hnattvæðingarsinnaða samfélagshóps. Kratar (einkum hægrikratar) höfðu áður gengist inn á nýfrjálshyggju, einkavæðingu, stuðning við BNA, NATO, ESB, heimsvaldasinnuð stríð (Blair í Írak og Stoltenberg í Líbíu eru tveir góðir fulltrúar). Stuðningur þeirra við hnattvæðinguna var því rökrétt framhald.

ANDÓF GEGN HNATTVÆÐINGARSTEFNU: Andófið kemur m.a. frá „þjóðlegu auðvaldi“ sem á undir högg að sækja frá hnattvæddu auðvaldi og vill verja þjóðlegan sjálfsákvörðunarrétt. Þessi hluti auðstéttar tengir sig pólitískt þeim hluta alþýðu sem upplifir sig sem fórnarlamb hnattvæðingarþróunar. Þessi armur er gjarnan fremur íhaldssamur (menningarlega, siðferðilega, í innflytjendamálum...), þjóðernissinnaður (fullveldissinnaður). Stuðningur við hnattvæðingarstefnu stendur að jafnaði sterkast í stórborgum, en andóf gegn henni sterkast á landsbyggðinni enda breytir hnattvæðingarlíkanið landsbyggð í efnahagslegt jaðarsvæði. Andófsöflin tengjast oft pólitískum popúlisma en líka þjóðlegri íhaldssemi. Meginstraumsmiðlarnir frjálslyndu stimpla þessi öfl sem hægriöfgar, fasista og rasista. Það er rétt að margir þessara flokka eru langt til hægri en þessir stimplar eru líka hluti af umræðutækni sem pólitísku vopni. Róttæk vinstristefna og verkalýðshreyfing hafa víða sett mark sitt á andhnattvæðingu. Það var þó meira áberandi framan af, sbr. miklar mótmælaaðgerðir gegn WTO, AGS og Alþjóðabanka í Seattle og Washington 1999 og 2000 en sú hreyfing hefur veikst síðan.

Trumpismi og hnattvæðing

Hvers konar fyrirbæri var/er Trumpisminn sem spratt fram 2016? Hér skulu tínd til nokkur áberandi einkenni neftir minni.

  • Trumpisminn 2016 var viðbrögð við minnkandi vaxtarhorfum hnattvædds kapítalisma – og vaxandi margvíslegum vandræðum hnattvæðingarstefnunnar.
  • Trumpisminn 2016 var sú tilfinning að hnattvæðingarstefna – útvistun iðnaðar en einnig endalausar íhlutanir og heimslögregluhlutverk – væri farin að skaða Bandaríkin.
  • Trump sagði : Stríðin endalausu frá 1990 (sérstaklega eftir 2001) eru „total mess“, hafa kostað 8 billjónir (bandarískar „trilljónir“) og litlu skilað svo að „við þurfum að losa okkur út“. Þetta féll í góðan jarðveg stríðsþreyttra Bandaríkjamanna og var mikilvæg skýring á hans árangursríka popúlisma.
  • Trumpisminn var viðurkenning á þeirri óþægilegu staðreynd að hnattvæðingin hefði flutt bandarískan iðnað úr landi, ekki síst til Kína, og skilið eftir fátækara samfélag heima.
  • Trumpisminn var viðurkenning á því að Kína hefði náð að styrkja sig á kostnað Bandaríkjanna, að nýta hnattvæðingarreglurnar sér í vil.
  • Ýmsir forsprakkar trumpisma lýstu þess vegna Kína sem strategískum höfuðandstæðingi frekar en að það væri bara „þægilegt lágkostnaðarland“ fyrir vestræna iðnrekendur.
  • Trump setti fram kjörorðið „Make America great again“. Ekki síst vildi hann kalla iðnaðinn heim aftur.
  • Trumpisminn þurfti líka pólitíska blóraböggla og hefur nærst á útbreiddri útlendingaandúð og kynþáttafordómum, ekki síst andúðinni á ólöglegum innflytjendum.

Trumpismi og djúpríkið

Donald Trump er auðvaldssinni og heimsvaldasinni með sínu sérsniði og stjórnunarstíl. En hann hefur háð margar skærur við aðskiljanlega hluta bandaríska valdakerfisins. Stefnu hans um að draga úr spennu gagnvart Rússum var af hermála-iðnaðarbatteríinu (military industrial complex), CIA o.fl. tekið með ásökunum um landráð – og með endalausu „Russiagate“ sem endurómað hefur árum saman í helstu fjölmiðlunum ásamt öðrum vondum fréttum af Trump. Eitt eru orð Trumps og annað gjörðir hans (varðandi styrjaldir, múra á landamærum o.fl.) og áhugaverðast er að skoða hvort tveggja út frá því hvernig það snertir dýpri hagsmuni í efnahags- og stjórnkerfinu, út frá svokölluðu „djúpríki“.

  • Markaðsfrjálslynd hnattvæðingarstefnan hefur afdráttarlaust verið stefna ráðandi hluta bandarískrar elítu.
  • Stefna andhnættvæðingar mætir því eðlilega mikilli andstöðu í „djúpríkinu“, þar af leiðandi líka í stærstu fjölmiðlunum o.s.frv. Fyrir vikið hlaut Trump að skipa fulltrúa djúpríkis í æði margar lykilstöður ef „skipið“ átti að láta að stjórn hans. Andhnattvæðingarstefna hans varð þess vegna meiri í orði en á borði, jafnvel mest bundin við upphrópanir hans sjálfs.  
  • Dæmi: Að segja, eins og Trump gerði, auðhringunum að koma með iðnaðarstörfin heim frá lágkostnaðarlöndum og lækka þar með gróða sinn er eins og að segja vatninu að renna uppímóti. Vissulega hafa margir auðhringar á síðustu árum flutt framleiðslu sína frá Kína en samt ekki heim til Bandaríkjanna heldur til Víetnam, Taíwan, Indlands, Mexíkó...
  • Að verulegu leyti er hinn heiftarlegi ágreiningur demókrata og repúbíkana bundinn við yfirborðið. Ágreiningur flokkanna í utanríkismálum snýst helst um það hvort leggja beri höfuáherslu á hættuna frá Rússlandi eða Kína. Sameiginlegur kjarni í stefnu bandaríska tvíflokksins er að hindra uppkomu nokkurs keppinautar sem gæti ógnað hnattrænum yfirburðum og yfirráðum Bandaríkjanna (það er sk. Wolfowitz-kenning). Forseti sem gengi gegn þessu meginatriði fengi aldrei að starfa innan bandaríska ríkiskerfisins.
  • Demókratar væna Trump um að vera „Hitler“ en á móti væna trumpistar og Fox News demókrata um „sósíalisma“! Slík orðræða er glamur í tómri tunnu sem breytir ekki ríkjandi stefnu, og hún ræðst í fáveldi fjármálarisa og risauðhringa í nágrenni Wall Street.

Hliðarstökk – gangtruflanirnar í Evrópu

Innri markaður ESB/EES byggist á margumtöluðu efnahagslíkani markaðsfrjálslyndrar hnattvæðingar, frjálsu flæði yfir landamæri, samþjöppun auðmagnseininga – og einnig útflutningi milljóna af iðnaðarstörfum til lágkostnaðarlanda. Samrunaþróunin í Evrópu var gríðarhröð báðum megin við aldamót, en sérstaklega frá fjármálahruninu 2008 hefur hún hægt mjög á sér og fengið alvarlegar gangtruflanir.  

Innan ESB hafa átökin staðið um evruna, innflytjendastefnuna (sem engin eining er um í ESB) og hnattvæðingarlíkanið sjálft, átök milli njótenda og tapara í hnattvæðingunni. Evrukreppa, blóðugur niðurskurður og atvinnuleysi, (alverst í sunnanverðri álfunni) aukin misskipting og hnignun innviða (fátækara samfélag) fyrir áhrif frá markaðshyggju/hnattvæðingu veldur því að fólk leitar eftir betri úrkostum.

Fjarlægt stofnanavald Evrópusambandsins kom í stað lýðræðis. Æ víðar í Evrópu hafa pólitísk átök staðið um það fullveldi sem þjóðirnar hafa smám saman tapað til ESB (og til fjölþjóðlegra auðhringa). Þjóðríkið og sjálfsákvörðunarrétturinn hefur þess vegna aftur færst í brennidepil, sbr. slagorðið „tökum aftur stjórnina!“. 

Brexit-atkvæðagreiðslurnar í Bretlandi 2016 og 2020 stóðu einmitt um kjörorðið að „taka aftur stjórnina“. Úrslit þeirra voru mikil áföll fyrir samrunaþróun ESB. Þær fólu í sér andhnattvæðingarstefnu og uppreisn alþýðu, þótt þær kæmu aðeins nýjum hægrimönnum til valda.

Ýmsar tegundir af popúlisma hafa sprottið fram í Evrópu síðastliðinn áratug, margar kenndar við þjóðernispopúlisma. Popúlistaflokkarnir halda gjarnan á loft þjóðlegum sjálfsákvörrðunarrétti – gegn valdi ESB-elítunnar og gegn hnattvæðingarstefnunni.

Ein ástæðan fyrir góðu gengi þeirra er skortur á sósíalisma í boði. Margir popúlistaflokkar hafa einmitt hirt það fylgi sem áður rann til sósíaldemókrata. Krataflokkarnir hafa skroppið tilsvarandi saman, þeir höfðu yfirgefið sinn gamla grundvöll og verkalýðinn, hafa nú annan kjósendahóp, einkum menntamenn – og aðrar áherslur, svo sem stuðning við hnattvæðingu (eins og áður var lýst) og sjálfsmyndarstjórnmál. „Hnattvæðingarvinstrið“ er stimpill sem þeir bera með sóma.

Einpóla heimur og andspyrnuöxull

Eftir aldamót náði Rússland vopnum sínum sem stórveldi eftir niðurlægingu Jeltsíntímans. Pútín lýsti yfir stuðningi við „fjölpóla heim“. Eftir atburðina í Kiev 2014 setti hann hnefann í borðið í Krím. Hann fór síðan að styðja við Assad gegn innrásaröflum í Sýrlandi, sem snéri við gangi Sýrlandsstríðsins.

Í taktík Bandaríkjanna og bandamanna þeirra gegn Kína, Rússlandi og Íran (og einnig Sýrlandi) nú um stundir eru efnahagslegar refsiaðgerðir efstar á blaði. Bandaríkin hafa komið sér upp aðferðum til að pína bandamenn sína til að fylgja sínum harkalegu refsiaðgerðum, einkum með því – gegnum ráðandi stöðu sína í fjármálakerfinu – að refsa hverjum þeim (ríki, banka, fyrirtæki) sem á viðskipti við hin brennimerktu ríki. Gagnvart Íran og Sýrlandi er því stefnan nú að veikja þessi ríki og brjóta þau niður innan frá frekar en sigra þau hernaðarlega.

Um bandaríska pólitík má svo segja: Þrátt fyrir heiftarlega átakaorðræðu og ólíkar áherslur í málflutningi demókrata og trumpista er það sameiginlegt meginatriði beggja flokka að hindra með valdi framgang hvers þess ríkis, hagkerfis eða afls sem ógnað gæti yfirburðum Bandaríkjanna. Sem sagt að varðveita einpóla heim til frambúðar. 

Kosningarnar í Bandaríkjunum 2020

Frá dögum Hitlers höfum við tilhneigingu til að telja frjálslynd stjórnvöld friðasamari en þau hægrisinnuðu. En það er goðsögn. Bandaríkin hafa lengi lýst sér sem kyndilbera frjálslyndis í heiminum. Ekkert ríki hefur þó rekið árásarhneigðari utanríkisstefnu en þau undanfarna hálfa öld.

Bandaríkin hafa beinlínis notað frjálslyndið sem tromp fyrir heimsvaldastefnu sína, með því að halda á loft „smart power“: að sameina annars vegar hervald og hins vegar mikla mannúðarorðræðu gegn „harðstjórum“. „Verndarskylda“ eða „mannúðaríhlutun“ urðu helstu yfirskrifir stríðsreksturs. Þessari orðræðu er hvað mest beitt af stjórnvöldum Demókrata, en heimsvaldastefna Bandaríkjanna er almennt undir merkjum frjálslyndis.

Joe Biden og Demókrataflokkurinn eru beintengdir innsta kjarna elítunnar – Wall Street, Silicon Valley hugveitunni Council on Foreign Relations o.s.frv. – á meðan Donald Trump var á skakk og skjön gagnvart sömu elítu,  en þjónaði henni samt í meginatriðum. Stjórn djúpríkisins á hlutunum í BNA undir Biden-stjórn verður að öllum líkindum ennþá beinni en verið hefur.

Það er ákveðin vísbending að Joe Biden var ákveðinn og áhrifamikill stuðningsmaður innrásarinnar í Írak 2003 en Donald Trump var a.m.k. andsnúinn henni frá 2004. Frá CIA, frá Pentagon og frá talsmönnum Demókrata (og frá NATO) hefur að undanförnu komið hörð gagnrýni á öll áform Trumps til að draga bandarískan herstyrk út úr Sýrlandi eða Afganistan, svo dæmi séu tekin.

Joe Biden mun skipa í lykilembætti stríðshauka og neocons. Um það vitnar tilnefning Antony Blinken sem nýs utanríkisráðherra og Jake Sullivan sem öryggisráðgjafa forsetans. Báðir voru í innsta kjarna ákvarðana í herskárri og íhlutunarsamri utanríkispólitík Obama og Hillary Clinton. Og væntanlegur varnarmálaráðherra (Austin) kemur úr hergagnaframleiðslunni. http://infobrics.org/post/32343/  „America is back“ hrópaði Joe Biden eftir kosninganóttina og vísaði til þeirrar forustustöðu BNA í alþjóðamálum (og einpóla heimi) sem Trumpstjórnin hefði sagt sig frá. Stríðshaukarnir eru jafnframt  hnattvæðingarsinnar. Hagsmuninr hnattvæðingarafla munu aftur fá fullan forgang – og hagsmunir þeirra hljóða upp á íhlutunarstefnuna endalausu um heim allan.

Varðandi horfur á íhlutunum og ófriði undir Biden-stjórn má vitna í nýlega grein í bandaríska vefritinu Moon of Alabama sem fylgist vel með bandarískri utanríkis- og heimsvaldastefnu. Þar segir örstutt um nokkur helstu átakasvæðin:

  • „Biden hefur sagst vilja fullgilda aftur kjarnorkusamninginn við Íran, en með „breytingum“. [og] ...breytingarnar sem Bidenstjórnin þarf að gera á samningnum til að gera hann pólitískt verjandi eru óásættanlegar fyrir Íran...
  • Það verður mikill þrýstingur frá frjálslyndu haukunum til að ljúka því stríði sem þeir hófu gegn Sýrlandi með því að magna það á ný. Trump hafði tekið af dagskrá CIA-aðstoðina við Jíhad-hópana en mannskapur Bidens gæti vel tekið aftur upp þann þráð.
  • Susan Rice [fyrrv. öryggisráðgjafi Obama og fv. sendiherra hjá SÞ] hefur gagnrýnt Doha-samning trumps við Talíbana. Undir Biden-stjórn er þess vegna líklegt að fjölgi í bandarískum herjum í Afganistan á ný.
  • Möguleg breyting gæti orðið á bandarískum stuðningi við stríð Sáda gegn Jemen. Demókratar kunna illa við Mohammad bin Salman og gætu reynt að nota Jemen til að ýta honum úr stöðu krónprins.
  • Biden og hans mannskapur hefur stutt valdaránstilraunirnar í Venesúela. Þeir gagnrýndu þær aðeins fyrir að vera ekki gerðar rétt og munu væntanlega bera á borð sína eigin blóðugu „lausn“.“ MoA - Joe Biden's Foreign Policy Team (moonofalabama.org)  

Eftir að hafa allt undanfarið kjörtímabil kynt undir andrússneskri móðursýki kringum „Russiagate“ er ríkisstjórn demókrata hreint ekki líkleg til að bæta sambúðina við Rússland. Þvert á móti er hún líklegri til að kynda undir stríði Úkraínustjórnar gegn austurhéruðum sínum og hefja „valdaskiptaaðgerðir“ af einhverri tegund í Hvítarússlandi, svo dæmi séu tekin.

Vera má að Biden muni, til að byrja með, draga eitthvað úr því harkalega orðfæri sem Trump hefur notað gegn Kínverjum. En á meðan rússahættan í Bandaríkjunum eru draugasögur og pólitískar púðurkerlingar er hættan sem bandarísku auðvaldi stafar frá Kína raunveruleiki. Ef fram heldur sem horfir mun Kína brátt ýta BNA úr stöðunni sem ráðandi hagkerfi á heimsvísu. Bandaríkin eru ólíkleg til að láta það gerast friðsamlega.  Þau hafa komið fyrir yfir 400 herstöðvum umhverfis Kína auk gríðarlegrar og hraðvaxandi flotauppbyggingar á Kyrrahafssvæðinu. Þar liggur mesta stríðshætta okkar daga og eykst í takt við vaxandi hlutdeild Kína af heimsmarkaðnum, skv. lögmálum heimsvaldastefnunnar.

Næsti kafli hnattvæðingar – „Endurstillingin mikla“

A.m.k. frá 2008 hafa hnattvæðingarsinnar átt í miklum vandræðum. Kosning Trumps 2016 var þeim áfall. Kosningasigur Bidens 2020 bendir aftur á móti til að hnattvæðingarsinnar hafi að einhverju leyti náð vopnum sínum aftur. Á þessu ári kom ný stærð til skjalanna: kórónuveiran. Án hennar bendir flest til að kosningaúrslit í BNA hefðu orðið önnur.

Ennfremur: með hjálp Covid-19 sýnast hnattvæðingarsinnar hafa snúið vörn í sókn. Tveir helstu múrbrjótar markaðshyggju og hnattvæðingar, World Economic Forum og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, kynna nú „Endurstillinguna miklu“ (The Great Reset) með tilvísun til kórónukreppu. Hún felur í sér „endurstillingu kapítalismans“ og um leið stórlega aukna hnattræn stjórnun („global governance“) sem er einmitt hámark hnattvæðingar. Og það sem meira er: Þessi öfl sýnast í betri færum til að koma slíkum áætlunum í framkvæmd en nokkru sinni áður. Næsta grein verður þess vegna um „Endurstillinguna miklu“.
Greinina er einnig að finna á:  neistar.is