Fara í efni

ORKUMÁL SEM ORSÖK ÁTAKA OG ÁGREININGS

- Lýðræði er ekki einkamál stjórnmálamanna -

            Mörgum stjórnmálamönnum er tamt á tungu, eftir nýjustu atburði í Washington, að segja árás hafa verið gerða á „lýðræðið“. En það gleymist alltaf að láta fylgja með svarið við spurningunni: lýðræði hverra? Lýðræði valdaklíkunnar í Bandaríkjunum, lýðræði almennings? Forsetanefnur jafnt sem ráðherrar apa hver upp efir öðrum staðlaðar skoðanir um „árás á lýðræðið“ og látast stórhneykslaðir á því. Trúverðugleiki þessa fólks sem þannig talar er hins vegar enginn. Fólk sem lifir og hrærist í fílabeinsturnum er í órafjarlægð frá veruleika almennings, hvort heldur er í Bandaríkjunum eða á Íslandi. Í máli þess er ætíð holur hljómur.

            Samræming í málflutningi stjórnmálamanna, þvert á landamæri, er oft slík að ætla mætti að haldinn hefði verið fundur (net/símafundur) og þar ákveðið hvaða „skoðun“ hópurinn skyldi hafa. Aðrar skoðanir, oft vel rökstuddar, eru afgreiddar sem „populismi“. Engin leið er að halda því fram að siðferðisnæmi stjórnmálamanna sé svo miklu meira en annars fólks að þeir skynji ósjálfrátt muninn á réttu og röngu, án samræmingar innan hópsins. Það er miklu nær lagi að þetta fólk komi sér upp „hópskoðun“ sem síðan er hamrað á. Það gefur enn fremur auga leið að þegar hópur hefur ákveðið „rétta skoðun“ hljóta aðrar skoðanir að vera „rangar“ („populískar“).

            Dæmi um þetta er hugmyndin um „frjálsa för“ þvert á landamæri, jafnt glæpamanna sem annara, enda má ekki á nokkurn hátt skerða „mannréttindi“ glæpamanna. Sá sem vogar sér að gera rökstuddar athugasemdir við fyrirkomulagið er umsvifalaust stimplaður „populisti“ ef ekki „rasisti“ og skoðanir viðkomandi flokkaðar sem „upplýsingaóreiða“. Hópskoðunarfólkið stimplar þá sem ekki eru sammála og skreytir sig oft með merkingarlausum hugtökum eins og „frjálslyndi“, sérstaklega þegar líður að kosningum. Mikilvægt er talið að sýna sig með leiðtogum annara ríkja og brosa í myndavélar. Þar gildir eins og segir í vísunni; „útlitið er innrætinu skárra“. Það hefur talsvert angrað þetta sama fólk að geta ekki óhindrað haldið uppteknum hætti vegna kórónaveirunnar, því það telur flæking á kostnað almennings til sinna sjálfsögðu forréttinda.

Íslenskt hópskoðunarfólk

            Það var áberandi í aðdraganda innleiðingar orkupakka 3 að hópskoðunarfólkið innan Alþingis og utan talaði einni röddu. Það hafði staðlaða og samræmda skoðun um ágæti þess og nauðsyn að innleiða regluverk sem miðar að sameiginlegum orkumarkaði Evrópu. Í hinu orðinu var því haldið fram að innleiðingin skipti engu máli og væri öll í plati.

(Hópskoðanir á Alþingi)

Opinn margur upp á gátt,
oft er falskur kjaftur.
Sauðahjörðin syngur hátt,
sama tóninn aftur.

            Sumir sem í orði kveðnu hafna trúarbrögðum virðast sjálfir ekki gera sér nokkra grein fyrir því að þeir hafa „aðra guði“ í staðinn. Sumir trúa á „frelsi markaðarins“. Sama fólk trúir á inngöngu í Evrópusambandið (sumir trúa á frjálshyggju) og nálgast það málefni af miklum trúarhita. Boðun „safnaðarins“ er ein og söm: innganga í Evrópusambandið og upptaka evru. Menn trúa því að aðrir muni leysa vanda sem þeir geta ekki leyst sjálfir og að það standi öðrum nær.

            Þó má öllum ljóst vera að það er ekki einfalt mál að lúta hagsveiflum miklu stærri hagkerfa sem oft ganga í öðrum takti. Að hafa fulla stjórn á peningamálum er og hluti af fullveldi ríkja (sbr. hugtakið „monetary sovereignty“). Safnaðarmeðlimir kæra sig hins vegar kollótta um allt fullveldistal. Telja það létt á metum samanborið við þægilegar stöður í Brussel eða annars staðar í Evrópu þar sem stofnanir ESB eru til húsa. Margt af þessu fólki er einfaldlega í eiginhagsmunabaráttu. Það er virkilega þannig. En baráttan er háð undir fölsku flaggi íslenskra almannahagsmuna.

Andstaða við aðild að ESB felur ekki sjálfkrafa í sér andstöðu við alþjóðasamstarf almennt

            Það er algeng meinloka á Íslandi (og víðar) að telja alþjóðasamstarf jafngilda því að ganga beri í Evrópusambandið. Meinlokan er þannig framreidd að þeir sem hafa sitthvað við inngöngu í sambandið að athuga séu jafnframt á móti alþjóðsamstarfi. Jafnt ráðherrar, þingmenn og forsetanefnur halda þessu fram. Í stuttu máli er þetta hreinræktuð vitleysa. Það er einfaldlega ekkert samband á milli þess að vera gagnrýninn á inngöngu í ESB og hins að vera á móti alþjóðasamstarfi. Það er með öðrum orðum vel hægt að andmæla inngöngu í ESB en vera jafnframt hlynntur alþjóðasamstarfi. Þá má einnig hugsa sér að sumt sérhagsmunafólk sé hlynnt aðild að ESB en þó á móti alþjóðasamstarfi almennt. Ekkert sem útilokar það. Hins vegar notar lýðskrumsfólkið það oft sem „rök“ fyrir aðild að ESB að alþjóðasamstarf sé mikilvægt. En þetta fólk útskýrir sjaldnast hvað það á nákvæmlega við.

            Annað ætti þetta fólk að athuga sem þessu heldur fram. Með inngöngu í ESB má einmitt segja að ríki hafi takmarkað áhrif sín til alþjóðasamstarfs og lokast inni. Með aukinni miðstýringu innan ESB missa þjóðríkin að sama skapi hluta af sínu fullveldi. Það er nefnilega ekki hægt á sama tíma að framselja hluta fullveldis og halda áfram óskertu fullveldi – enda þótt til séu íslenskir stjórnmálamenn sem telja það hægt.

            Aðildarríki missa t.a.m. sjálfstæðan rétt sinn, sem fullvalda ríki, til þess að gera samninga við þriðju ríki. Sá réttur fellur undir óskiptar valdheimildir ESB (exclusive competence). Það er vissulega skerðing á fullveldi ríkjanna, engin leið að horfa öðruvísi á það. Sumir „héraðsdómarar“ og „stjórnmálaspekingar“ hafa þó rætt um „skiptingu fullveldis“. Það eru dæmigerðar eftiráskýringar og eiga sér enga stoð í veruleikanum.

Orkumál og átök

            Skoðum þessu næst samband orkumála og átaka.[i] Friður er ætíð göfugt markmið. En friðurinn þarf að hvíla á grunni sanngirni og réttlætis, það er ekki nægjanleg að friður ríki á Alþingi. Atlaga þingsins gegn lýðræðinu hefur birst víða. Í kvótamálum, við innleiðingu orkupakka þrjú og í stjórnarskrármálum, svo nærtæk dæmi séu tekin.

            Á heimasíðu Hæstaréttar Noregs er að finna fréttatilkynningu frá 5. janúar 2021. Þar segir að Hæstirétturinn muni taka fyrir ACER-málið (nr. 20-072085SIV-HRET[ii]) þann 13. janúar sem norsku samtökin Nei við ESB hafa höfðað. Málið snýst um innleiðingu orkupakka þrjú. Hæstiréttur mun skera úr um það hvort málsmeðferð Stórþingsins sé lögum samkvæmt.

            Málshöfðandi telur að um slíkt fullveldisafsal að ræða að þurft hefði aukinn meirihluta, þ.e. 3/4 atkvæða þingsins í samræmi við 115. gr. norsku stjórnarskrárinnar til þess að samþykkja orkupakkann. Úrskurði Hæstiréttur Noregs málið tækt (admissible) er kominn grunnur til þess að reka það áfram fyrir norskum dómstólum.[iii] Raunar hefði innleiðing orkupakkans á Íslandi átt fullt erindi fyrir Hæstarétt Íslands. En þar sem sá dómstóll er oft fyrirsjáanlegur í dómum sínum má leiða að því líkur að hann teldi kærendur ekki hafa „lögvarða hagsmuni“ í málinu. Það er viðkvæði sem oft er notað (misnotað) á Íslandi til þess að þurfa ekki að taka efnislega afstöðu til mikilvægra mála.

            Þá er sú árátta útbreidd á Íslandi að víkja lögum til hliðar ef fjárhagslegir hagsmunir eru taldir mikilvægari. Ef t.d. rekast á hagsmunir orkubraskara annars vegar og hagsmunir þjóðarinnar hins vegar er fyrirsjáanlegt að dómstólar munu auðvitað draga taum braskaranna. Reynt er að gera það „faglega“ og soðnar saman lögfræðilegar langlokur sem eiga að réttlæta dugleysi og ósjálfstæði dómstólanna.

            Má telja það meðal einkenna á íslenskum dómstólum hversu pólitískir þeir eru oft. Bæði á það við um skipan dómaranna[iv] en ekki síður þegar kemur að lögfræðinni, hvernig sum mál eru meðhöndluð og hvaða taum dómarar draga.[v] Stundum mætti jafnvel ætla að menn hafi gefið sér niðurstöðuna fyrirfram og síðan sniðið dóminn að henni. Slíkt er auðvitað algerlega óboðleg aðferðafræði hjá dómstólum.[vi]

            Þetta má greina með ýmsum aðferðum, s.s. málsmeðferðarhraða, hversu fljótur dómstóll er að komast að niðurstöðu; hvernig ályktanir (oft hæpnar) eru dregnar af gögnum máls [eða málsgögnin yfirleitt lesin!]; hvaða orðalag er notað og fleira. Það gefur auga leið að þegar niðurstaða er ákveðin fyrirfram er dómstóll fljótur að kveða upp dóm. Það er vonandi að Hæstiréttur Noregs falli ekki í þennan djúpa pytt með því að taka hagsmuni orkubraskara í Noregi fram yfir hagsmuni Norðmanna sem þjóðar.

            Það er mikilvægt, nú á kosningaári, að Íslendingar kjósi burt sem allraflesta þeirra þingmanna sem studdu orkupakka þrjú. Þeir eiga ekkert frekara erindi við þjóðina. Kjósendur mega vita að ekkert er að marka þetta fólk – það lýgur einu til og öðru frá. Svik og blekkingar stjórnmálamanna gagnvart kjósendum eiga að geymast í fersku minni í áratugi, ekki gleymast á nokkrum vikum. „Langræknin“ og sannleikurinn eru alltaf besta vörn kjósenda. Meðvirknin er hins vegar versti óvinur þeirra. Stórhækkað raforkuverð er ekki það sem þjóðina vantar helst eða brask og fjárglæfrar með gullegg hennar. En það er í raun það sem orkupakkarnir innibera þótt ekki séu það yfirlýst markmið þeirra. Hins vegar er oft skammt á milli „markaðsvæðingar“ og fjárglæframennsku.

Ætlar Alþingi Íslendinga að verjast kjósendum með skammbyssum?

            Gjáin á milli þinga og þjóða er endanlega staðfest þegar að menn búast til varna gegn kjósendum með skammbyssum. Atburðirnir í Bandaríkjunum verða ekki afgreiddir þannig að um sé að ræða „einhverja óeirðaseggi“. Donald Trump hlaut, eftir því sem næst verður komist, 71 milljón atkvæða.[vii] Þar með er ekki sagt að allir kjósendur Trumps séu meðmæltir áhlaupinu á þinghúsið. Hitt má fullyrða, að óánægjan nær langt út fyrir þau mörk að hún verði afgreidd sem aðgerð „óeirðaseggja“. Hún á sér miklu dýpri rætur.

ORKUMÁL SEM ORSÖK ÁTAKA OG ÁGREININGS

            Þau átök sem urðu á Íslandi í kjölfar hrunsins hefðu átt að hreyfa við íslenskum stjórnmálamönnum – svo um munaði. En þeim hefur virst gersamlega ófært að draga nokkurn lærdóm af þeim en tala þó oft um að „draga lærdóm“. Sá útþvældi frasi er merkingarlaus í munni sama fólks.

            Á meðan þjófnaður og rán á eigum og auðlindum[viii] almennings heldur áfram dýpkar gjáin á milli þings og þjóðar. Ránið kyndir undir ófriði og átökum. Á meðan svo er stoðar lítt að fordæma „árás á lýðræðið“ en standa sjálfur/sjálf fyrir stórfelldum árásum á lýðræðið og hafa vilja almennings að engu. Ef víggyrða þarf þjóðþing og verjast innan frá með skammbyssum (að maður segi ekki herrifflum og jafnvel hríðskotabyssum) er verulegt rof komið á milli valdaklíkunnar sem tekið hefur sér bólfestu [„látið kjósa sig“[ix]] innan veggja þinghússins og kjósenda. Ætlar íslenska útgerðin e.t.v. að bjóðast til þess að kosta vopnaða öryggisgæslu á Alþingi? Það myndi líklega tryggja óbreytt kvótakerfi.

Að lokum

            Lýðræði er ekkert einkamál stjórnmálamanna. Það snýst ekki bara um það hvort valdaklíkan á þinginu er sammála eða ósammála innbyrðis. Lýðræði á að vera fyrirkomulag við ákvarðanatöku þar sem þingmenn starfa í umboði kjósenda og framkvæma vilja þeirra. Lýðræði á ekki að snúast um það að koma fram vilja þingmanna og fjárglæframanna – gegn þjóðarviljanum.

[i]      Mæli með: Jensen, D., & Halle, S. (Eds.). (2015). Natural Resources and Conflict - A Guide for Mediation Practitioners (Ser. 6, Rep.). New York, USA: United Nations Department of Political Affairs and United Nations Environment Programme.

       https://wedocs.unep.org/bitstream/handle/20.500.11822/9294/-Natural_resources_and_conflic.pdf?sequence=2&isAllowed=y

[ii]    Sjá: https://www.domstol.no/Enkelt-domstol/hoyesterett/saksliste/kommende-rettsmoter/20-072085siv-hret/

[iii]   Supreme Court of Norway. „Press release from the Supreme Court in the ACER case“. https://www.domstol.no/en/Enkelt-domstol/supremecourt/nyhet/2021/press-release-from-the-supreme-court-in-the-acer-case/

[iv]    Sjá enn fremur: Bovend’Eert, P. (2018). Recruitment and appointment of judges and justices in Europe and the US: law and legal culture. https://trema.nvvr.org/uploads/documenten/downloads/2018-05-Artikel-BovendEert.pdf

[v]     Sumir myndu halda því fram að það sé rökrétt samhengi á milli pólitískrar skipunar og þess hvernig menn dæma. Að pólitískt skipaður dómari geti aldrei verið fullkomlega hlutlaus.

[vi]    Sjá enn fremur muninn á afleiðslu og leiðsla (abduction v. induction). https://plato.stanford.edu/entries/abduction/#DedIndAbd

[vii]  Renkl, M. (Nov. 9, 2020). „71 Million People Voted for Trump. They’re Not Going Anywhere.“ The New York Times. https://www.nytimes.com/2020/11/09/opinion/trump-biden-nation-divided.html

[viii] Sjá einnig.: Sjálfstæðisflokkur og Framsókn vilja selja hlut Hafnarfjarðar í HS-Veitum. (23. apríl 2020). Fjarðarfréttir. https://www.fjardarfrettir.is/frettir/sjalfstaedisflokkur-og-framsokn-vilja-selja-hlut-hafnarfjardar-i-hs-veitum

[ix]    Sjá einnig: Mansbridge, J. (1990). Self-Interest in Political Life. Political Theory. Sage Publications, Inc.