Fara í efni

ENN UM BRASK- OG MAFÍUVÆÐINGU - UNDIRLÆGJA GAGNVART PENINGAVALDI -

            Undirlægja og virðing fyrir peningavaldi eru útbreidd vandamál á Íslandi. Um er að ræða anga af sama meiði og hvort tveggja byggt á „misskilningi“ ef svo má segja. Til þess að skilja undirlægjuna þarf fyrst að greina hina misskildu virðingu fyrir peningum. Flestir tengja peninga við „efnisleg gæði“; skort eða jafnvel ofgnótt. Mikilvægt er að gera sér ljóst að öflun efnislegra gæða er bundin við þá plánetu okkar sólkerfis sem nefnist jörð. Öflunin er enn fremur bundin við jarðlífið sem slíkt. Ekki hefur verð sýnt fram á gagnsemi peninga og jarðneskra gæða utan jarðarinnar[i] og jarðlífsins.[ii] Veltum því aðeins fyrir okkur og skoðum nokkur dæmi.

Hvað verður keypt fyrir peninga?

            Snemma á lífsleiðinni lærir fólk að til þess að geta keypt eitthvað þurfi að hafa peninga, jafnvel mikið af þeim. Krakkar kaupa sér „nammi“ og síðar „annars konar nammi“ þegar lögræðisaldri er náð. Fullorðinsaldri fylgja líka kaup á fasteignum, innbúi, bifreiðum (jafnvel vélsleðum), stundum líka á flugvélum, einkaþotum, skútum og öðrum efnislegum gæðum. Þá þekkist vel að menn og konur kaupi hlutabréf í fyrirtækjum.

            Í sjálfu sér þarf ekki að vera neitt óeðlilegt við þetta svo lengi sem umræddar eignir eru heiðarlega fengnar og til þeirra stofnað á lögmætum forsendum. Stundum leikur þó verulegur vafi á því s.s. þegar ávinningur af brotastarfsemi eða stolnum náttúruauðlindum[iii] er notaður til slíkra fjárfestinga. Meðvirkir og keyptir undirlægju-talsmenn hafa oft tilhneigingu til þess að flokka gagnrýni á eignasöfnun sem „öfund“. Það er aldeilis furðuleg ályktun. Þeir virðast gefa sér að fólk almennt hugsi eins og „eignasafnarinn“.

            Matteusarguðspjall 6:19-21 fangar afskaplega vel kjarna málsins:  „Safnið yður ekki fjársjóðum á jörðu, þar sem mölur og ryð eyðir og þjófar brjótast inn og stela. Safnið yður heldur fjársjóðum á himni, þar sem hvorki eyðir mölur né ryð og þjófar brjótast ekki inn og stela. Því hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera.“[iv] Eina „vafaatriðið“ í þessari tilvitnun er það sem segir um fjársjóði á himni. Það er reyndar engum vafa undirorpið í huga þess sem trúir en aðrir kynnu að rengja himneska fjársjóðssöfnun. Hitt er þó hafið yfir vafa sem þarna segir.

            Svona boðskapur fellur auðvitað ekki vel í geð hjá mörgu efnishyggjufólki sem mælir alla hluti í peningum, verðbréfum og veraldlegum eignum og trúir frekar á ákveðnar „stjórnmálakirkjur“.[v] En það mun renna upp fyrir sama fólki, þótt síðar verði, að ekkert af veraldlegum eignum verður tekið með í „lokaferðalagið“ sem allra bíður og er einungis spurning um tíma. Sumt  efnishyggjufólkið telur sig hins vegar geta fullyrt að það verði ekkert „lokaferðalag“ enda hafi „vísindin“ sýnt fram á það. Menn snúist bara í hringi á jörðinni – það sé allt og sumt.

            Þeir sem hvað mest gagnrýna kristna kirkju hræra oft saman hinu andlega innihaldi og jarðneskum umbúðum þess, þ.e. „steinsteypunni“ og stjórnsýslunni. Menn geta gagnrýnt málefnalega „umbúðirnar“ og jarðnesku hliðina en hafa að sama skapi afar takmarkaðar forsendur til þess að gagnrýna andlegu hliðina. Þessu er þó oft í umræðunni öllu hrært saman í einn graut. Útkoman er eftir því.

            Eignasöfnunin vekur upp margar tilvistarlegar spurningar en einnig siðferðilegar spurningar að maður segi ekki spurningar sem tengjast lögfræði sem fræðigrein [s.s. um mörk eignarréttar]. En hvað verður ekki keypt? Skoðum það.

Hvað verður ekki keypt fyrir peninga?

            Það er mun fleira sem ekki verður keypt fyrir peninga en hitt sem hægt er að kaupa. Augljósasta dæmið um það sem ekki verður keypt með peningum er eilíft líf. En lífið þarf ekki að vera eilíft. Í mörgum tilvikum verður jarðneskt líf ekki keypt heldur, því verður ekki bjargað. Fólk deyr og engin peningaupphæð getur hindrað það.

            Maður sem liggur banaleguna, með ólæknandi sjúkdóm, er ekkert betur staddur þótt hann sé „milljarðamæringur“. Hann getur mögulega keypt sér „framlengingu“ á líf sitt en það breytir engu um lokaniðurstöðuna sem er þegar í sjónmáli. Auðurinn breytir ekki örlögum manna. Hann hindrar heldur ekki að viðkomandi verði fyrir bíl eða látist af öðrum orsökum.

            Annað augljóst dæmi er búseta utan jarðarinnar. Það hillir ekki undir  neinn annan raunhæfan valkost til búsetu en jörðina. Árið 2019 var frá því greint að fyrirtæki nokkurt sem bauð „flugmiða aðra leiðina“ til Mars væri gjaldþrota.[vi] Raunar er það svo að ef menn bæru gæfu til þess að ganga almennilega um á jörðinni, og hefðu taumhald á græðginni, þá væri hún (víða) að mörgu leyti prýðilegur kostur til búsetu. En peningar munu að minnsta kosti ekki færa mönnum neinn annan raunhæfan valkost í náinni framtíð.

            Hér er rétt að nefna ógnina sem stafar af kjarnorkuúrgangi[vii] víða á jörðinni. Það er hrikalegt mál og mikil ógn við lífríkið, hvort sem er á láði eða legi. Peningar munu ekki stytta helmingunartíma geislavirkra efna[viii] en geta þó komið að gagni við að hemja áhrif geislunar. Má þar nefna gríðarmiklar framkvæmdir[ix] við kjarnorkuverið í Chernobyl í Úkraínu.

            Oft hefur verið á það bent að hamingjan fáist ekki keypt. Það er að sjálfsögðu satt og rétt. Hins vegar er rétt að skilgreina hugtakið „hamingja“ áður en menn hrapa að ályktunum um það efni. „Hamingju“ má nefnilega skilgreina á ýmsa vegu. Ef hún er skilgreind út frá efnislegum eignum (jarðneskum gæðum) kynnu einhverjir að draga þá ályktun að hamingja og peningar séu nátengd fyrirbæri. Hér verður því hins vegar haldið fram að engin nauðsynleg tengsl séu þar á milli. Að hamingjan sé andlegs eðlis og verði einungis höndluð á andlegum forsendum.

            Fjöldi hjónaskilnaða, og sambandsslita, þar sem efnaleg gæði voru þó oft í hávegum höfð, bendir ekki til þess að efnalegu gæðin hafi gulltryggt „hamingjuna“. Enda kunnara en frá þurfi að segja að andinn segir til sín, fyrr eða síðar. Fáir eru svo gersneyddir andlegum eiginleikum að efnaleg gæði dugi þeim algerlega. Margir verkfræðingar, eðlisfræðingar, og aðrir sem tengjast efnisheiminum nánum böndum, eiga sér andleg áhugamál, stundum mörg. Þeir hafa t.d. numið fræði tónlistarinnar, stunda skriftir eða hvað annað. Þannig ná þeir að sinna sínum andlegu þörfum.

            Þegar fólk les góða bók þá er það ekki hið keypta við bókina sem máli skiptir, þ.e. pappírinn og bókarkápan, heldur innihaldið. Þar hefur andinn oft fengið að leika lausum hala, öðrum til ánægju.

            Að hverfa úr jarðlífinu er hlutskipti allra, fyrr eða síðar. Þótt vísindamenn hafi reynt að finna „öldrunargenið“[x] sýnist enn nokkuð í land þar til menn hafa fulla stjórn á aldri og öldrun. Þótt menn gætu lifað „endalaust“ myndi það ekki leysa menn undan því umhverfi sem þeir lifa í og hættum þess. Eða verða menn lausir við sjúkdóma og slys þótt „slökkt“ hafi verið á öldrun þeirra? Nói gamli er sagður hafa náð afar háum aldri. Í fyrstu Mósebók 9:29, segir að hann hafi andast 950 ára að aldri. Það má vera rétt, nútímafólk hefur að minnsta kosti engar forsendur til þess að hafna því þótt sumir kunni að draga það í efa.

            En hvort sem menn verða 95 ára eða 950 ára hefur ekki verið sýnt fram á það að menn geti keypt sig inn í Himnaríki, með jarðneskum peningum. En Himnaríki sýnist afar fýsilegur dvalarstaður að loknu jarðlífinu. Ætla má að fjölda margir Íslendingar hafi náð þar inn fyrir dyr, sumir jafnvel strax eftir burtförina úr jarðlífinu; að minnsta kosti í anddyri Himnaríkis, án nokkurs „aðlögunartímabils“.

            Ekkert bendir til þess að hægt sé að múta yfirvöldum í Himnaríki eða komast þangað í gegnum klíkuskap. Jarðnesk eignastaða, skattskýrslur, efnahagsreikningar og rekstrareikningar eru örugglega ekki ráðandi þættir heldur hvað inngöngu snertir. Gera má ráð fyrir því að braski, fjárglæframennsku, mafíustarfsemi og spillingu manna ljúki í síðasta lagi um leið og jarðlífi þeirra lýkur eða skömmu áður.

            Af og til berast af því fréttir í fjölmiðlum að milljarðamæringar hafi látist.[xi] Það sem alltaf vekur furðu er að menn virðast látast þrátt fyrir milljarðana sem þeir voru sagðir eiga. Peningarnir hindra með öðrum orðum ekki dauða þessara manna. Það er verulega takmarkandi þáttur á gildi peninga. Hitt væri „rökréttara“ að vald peninganna leysti menn undan slíkum kvöðum eins og þeirri að deyja. Hingað til hefur ekkert tilvik sýnt eða sannað að svo sé eða geti orðið.

            Gjarnan heyrist að sömu menn hafi afrekað svo mikið í jarðlífinu og skilið svo mikið eftir sig. Er ekki rétt að spyrja að leikslokum? Ef gengið er út frá því að maðurinn sé andleg vera mun þá ekki lokadómurinn um „afrekin“ fara fram á öðru tilverusviði en hinu jarðneska? Hvaða „afrek“ skipta mestu máli þegar allt kemur til alls?

            Síðasta tækifærið sem „milljarðamæringur“ hefur til þess að sýna jarðneska stöðu sína er í kirkjugarðinum.[xii] Margir þekkja „grafhýsi“, sambland af graníti og gleri. Í kirkjugarðinum má „splæsa“ í veglegt „grafhýsi“ eða stóran legstein og reyna þannig að tryggja að menn gleymist ekki strax. Íslenskir mafíósar þurfa að huga að þessu. Fé sem þeir hafa stolið af almenningi, t.d. með hagnýtingu auðlinda gegn málamyndagjaldi, ætti að duga fyrir „grafhýsi“ eða legsteini af stærri gerðinni.

            Um þessar mundir fer fram val stjórnmálaflokka á lista. Sumir hafa sett „ný andlit á forsíðuna“ sem ætlað er að draga að kjósendur. Það er mjög í anda „fegurðarsamkeppna“ þar sem útlit skiptir oft meira máli en innihald. Þetta mætti kalla „fegurðarstjórnmál“.[xiii]

 

            Sjálftökufólkið mun þó halda uppteknum hætti, skammta sér rífleg laun [hækka t.d. um 45% í einu lagi en jafnframt ræða nauðsyn þess að „hófsemi“ ríki í launakröfum almennings], troða vilja þjóðarinnar í svaðið, halda áfram að leggja til inngöngu í ESB sem altæka lausn allra vandamála, styðja áfram óbreytt kvótakerfi [en ræða þó um nauðsyn þess að breyta því], bregðast ekki við stjórnlausum jarðakaupum, halda áfram að lúta orkustefnu ESB, ekki hindra ágang fjárglæframanna í auðlindir og ríkiseignir, ekki koma á beinu lýðræði og ekki koma böndum á fjármálakerfið. En samt finnst þessu fólki sjálfsagt að að kjósendur eyði á það atkvæðum.

            Þarna er rætt um stjórnarflokkana, Viðreisn [sem er eins konar „meinvarp“], Samfylkingu, og Pírata [sem helst fjandskapast út í kirkju og Kristni auk þess að berjast fyrir bættum aðgangi að eiturlyfjum og brennivíni]. Kolsvart myrkur hylur alla þessa flokka. Það er hámark ósvífninnar að koma síðan til kjósenda og óska eftir endurkjöri! Góðar stundir.

[i]      Hér er óþarft að ræða tækniundur eins og alþjóðlegu geimstöðina enda tilheyrir hún jarðnesku vísindastarfi. Sjá einnig: European Space Agency. Wo ist die Internationale Raumstation? http://www.esa.int/Space_in_Member_States/Germany/Wo_ist_die_Internationale_Raumstation

[ii]    Hins vegar má færa fyrir því rök að andleg gæði séu án landamæra.

[iii]   Sjá einnig: Goldtooth, T.B.K. Stolen Resources - Continuing threats to Indigenous people’s sovereignty and survival. Reimagine. https://www.reimaginerpe.org/node/215

[iv]    Matteusarguðspjall 6:19-21. Svartletrun mín.

[v]     Með stjórnmálakirkju er hér átt við ýmsar stjórnmálastefnur og hugmyndafræði. Þar má nefna ofsatrú á „frjálsan markað“, frjálshyggju, „vísindatrú“ eða hvað annað.

[vi]    Sjá: Grush, L. (2019). The company that promised a one-way ticket to Mars is bankrupt. The Verge. https://www.theverge.com/2019/2/11/18220153/mars-one-bankruptcy-bas-lansdorp-human-settlement

[vii]  Sjá t.d.:

[viii] Sjá t.d.: University of Calgary. (2018). Half life - Energy Education. [online] Available at: <https://energyeducation.ca/encyclopedia/Half_life> [Accessed 13 February 2021].

[ix]    Sjá t.d.: European Bank for Reconstruction and Development. The story of Chernobyl's New Safe Confinement. Apr 26, 2019. https://www.youtube.com/watch?v=mdnutU2m71o

[x]     Weintraub, K. (2016). „Aging Is Reversible—at Least in Human Cells and Live Mice.“ Scientific America. https://www.scientificamerican.com/article/aging-is-reversible-at-least-in-human-cells-and-live-mice/

[xi]    Sjá t.d.: Dawkins, D. (2020). The Billionaires Who Died In 2020: Remembering Their Lives. Forbes. https://www.forbes.com/sites/daviddawkins/2020/12/26/the-billionaires-who-died-in-2020-remembering-their-lives/?sh=6ff70f4a6f70

[xii]  Sjá t.d.: Condé Nast Traveler. (November 12, 2011). „The Mob Is in Queens: A Tour of Crime Boss Gravesites.“ https://www.cntraveler.com/galleries/2011-11-12/mobster-gravestones

[xiii] Poutvaara, P. (2017). Beauty in Politics. CESifo Forum, 18, 37-43. https://www.researchgate.net/publication/317218052_Beauty_in_politics