Fara í efni

NATO OG WASHINGTON VÍGBÚAST GEGN "GULU HÆTTUNNI"

Tveir viðburðir í öryggismálum Vesturlanda urðu í febrúar: Varnarmálaráðherrar NATO-ríkja (og Guðlaugur Þórðarson) héldu með sér fjarfund 10-12 febrúar. Einnig var 19. febrúar haldin árleg öryggisráðstefna í Munchen. Bandaríkin og höfuðstöðvar NATO gáfu tóninn á báðum stöðum. Tónninn er skýr: herskár. Og miklu ákveðnar en nokkru sinni áður beindist sá hauklegi tónn gegn nýjum meginandstæðingi, Kína.

Í morgunútvarpinu 18. febrúar (Heimsglugganum) skýrði Bogi Ágústsson nýjustu áherslur NATO. Hann spilaði brot úr viðtali við Jens Stoltenberg framkvæmdastjóra bandalagsins og lagði út af því:

 «Hér er Stoltenberg að tala um það ríki sem er kannki helsti andstæðingur eða keppinautur NATO-ríkjanna núna, það er Kína.  Það er náttúrlega alveg ljóst að áhersla Bandaríkjanna hefur á a.m.k. síðustu 20 árum verið að flytjast frá Evrópu yfir á Kyrrahafið og Kína.“ Bogi skýrði áfram hverjar hætturnar væru í nútímanum: „Margir telja stafa vaxandi ógn af Kína á netinu. Þeir hafa verið að gera árásir og innbrot. Svo standi Vesturlöndum líka ógn af geimferðaáætlun þeirra. Svo hafa Kínverjar verið mjög aggressífir í sínu nánasta umhverfi. Hafa líka verið í mikilli útþenslu í Afríku og víðar og framkoma þeirra verið þannig að margir telja að þeim stafi ógn af þeim.“ Bogi sagði í viðtalinu að Kínverjar og Bandaríkjamenn líti hvor á annan sem aðalkeppinaut og það sé ekki alveg nýtt: „Við skulum minnast þess að Vilhjálmur Þýskalandskeisari II talaði um „Die gelbe Gefahr“, gulu hættuna.“ https://www.ruv.is/utvarp/spila/morgunvaktin/23614/7hhgfg

Það er allmikil frétt að heyra því miðlað frá höfuðstöðvum NATO að Kína sé „helsti andstæðingur eða keppinautur NATO-ríkjanna“. Bogi Ágústsson er enginn æsingamaður. Hann endurómar þvert á móti dável það sem vestrænir meginstraumsmiðlar segja á hverjum tíma. Og það er þetta sem þeir segja núna. Við höfum vissulega áður heyrt þessa tóna frá Washington, t.d. frá Pompeo fyrrverandi utanríkisráðhera. En frá NATO markar þessi harkalega Kína-áhersla stefnubreytingu.

NATO-stefna í bók

NATO leggur fram nýtt prógramm, í bókarformi, sem samþykkja skal á leiðtogafundi NATO seinna á árainu. Nafnið er «NATO for 2030: United for a New Era», og höfundar eru 10 sérfræðingar sem Stoltenberg réði til verks. Höfuðstöðvar NATO standa fyrir fjarfundum með stúdentum og ungmennum til að ræða bókina og um komandi ógnanir næsta áratuginn. Þar kemur fram að „sé horft fram til 2030 verður Rússland sennilega áfram helsta ógnunin við bandalagið.“ En að samtímis standi NATO frammi fyrir vaxandi „öryggisáskorunum frá Kína – út frá mati á pólitískri getu og efnahagslegri þyngd, og yfirlýstum hugmyndalegum markmiðum leiðtoga landsins... sem getur haft áhrif á sameiginlegar varnir og hernaðarlegan viðbúnað.“ (bls. 28)  Mjög er hamrað á „miðlægi sambandsins yfir Atlantshafið“ þ.e.a.s. sambands Evrópu við Bandaríkin undir bandarískri forustu, ásamt því að styrkja pólitískt hlutverk NATO gegnum Norðu-Atlantshafsráðið.

KJARNORKUVOPNAÖRYGGIÐ er sett í miðju: „NATO verður að halda uppi nægjanlegri hernaðargetu hefðbundinna vopna og kjarnavopna og hafa snerpu og sveigjanleika til að mæta yfirgangssemi um allt svæði bandalagsins... sérstaklega á austurvængnum“ (26). Kjarnavopnin „eiga að vera áfram einn meginþáttur í tryggingu öryggis og ódeilanleika öryggis á Evró-Atlantíska svæðinu... NATO þarf áfram að endurstyrkja sameiginlegar kjarnavopnavarnir sem eru meginþáttur í fælingarstefnu bandalagsins.“ (36 og 38). Sérfræðingarnir 10 mæla með auknum hraða í staðsetningu skotpalla og flauga. NATO_2030.pdf (voltairenet.org)

Í samhljómi við Washington

Tónarnir frá Stoltenberg eru í góðum samhljómi við nýja og hauklega tóna Biden-stjórnarinnar. Áðurnefndir hermálaviðburðir í febrúarmánaði marka einmitt stykingu ATLANTISMANS, þ.e. pólitíska og hernaðarlega sambandsins yfir Atlantshafið undir Bandarískri forustu. Í ræðu sinni til Munchenráðstefnunnar ásakaði Joe Biden Trump um að hafa spillt þessu sambandi með tíðum árekstrum og deilum við Evrópuleiðtoga, og hann hamraði á mikilvægi þess að styrkja það að nýju. "Sambandið milli Evrópu og Bandaríkjanna er í mínum huga og verður að vera áfram hyrningarsteinn undir öllu því sem við viljum ná fram á 21. öld eins og við gerðum á þeirri 20.“ Biden ávarpaði öryggismálaráðstefnuna í Munchen með hinu nýja vígorði sínu og bandarískra hnattvæðingarsinna, herópinu „America is back!“: „I speak to you today as president of the United States.. and I'm sending a clear message to the world — America is back.“ Þetta kemur í staðinn fyrir kjörorð Trumps „America first“. Kjörorð Trumps hafði falið í  sér ákveðið brotthvarf frá heimslögregluhlutverki BNA – en nýja vígorðið felur einmitt í sér endurkomu BNA sem  íhlutunarsinnaðs risaveldis. Í því hlutverki er sambandið við Evrópu hyrningarsteinninn eins og áður segir. Og Ursula von der Leyen forseti framkvæmdastjórnar ESB svarar glaðhlakkalega: Eftir fjögur löng ár „...we have a friend in Washington“.

Í ræðu sinni kom Biden inn á þá fækkun í herjum Bandaríkjanna í Þýskalandi sem Trump-stjórnin hóf á síðasta ári, en Biden sagði að stjórn sín myndi um sinn stöðva þá fækkun. Heildarmyndin þarf að skoðast í ljósi mikillar uppbyggingar þýska hersis Bundeswehr, en hernaðarútgjöld hans munu á árinu 2021 slá öll met síðan á dögum Hitlers. https://www.wsws.org/en/articles/2021/02/13/mili-f13.html 

Biden: „Lýðræði gegn einveldi“

Ný stefnumótun í ræðu Bidens til Munchenráðstefnunnar fólst sérstaklega í áherslu hans á togstreituna miklu við Kína. Hann höfðaði til bandamanna sinna í Evrópu og Asíu: „Við verðum að hrinda þvingunum Kínastjórnar og misbeitingu valds sem grefur undan grundvelli hins alþjóðlega efnahagskerfis.“  Biden sagði að Bandaríkin og bandamenn þeirra yrðu að búa sig undir „langtíma strategíska keppni“ við Kína. Hann þróaði greininguna enn lengra og sagði að baráttan milli „lýðræðis og einveldis (alræðis)“ í heiminum væri nú á „hverfipunkti“ eða „vatnaskilum“ (inflection point). Sjá úttekt á ræðu Bidens hér: https://www.bloombergquint.com/politics/biden-to-plead-for-democracy-over-autocracy-in-pivot-from-trump 

Greiningin sem Biden gerir, um baráttu milli lýðræðisafla og einræðisafla heimsins, er fölsk þó ekki væri nema í ljósi mikilvægustu bandamanna Bandaríkjanna í Miðausturlöndum. Ekki nóg með það: Bandaríkin ásamt með bandamönnum í NATO sem skreyta sig mikið með lýðræðismerkimiðum er EINI AÐILI SEM HERNAÐARÓGN STAFAR AF á alþjóðavettvangi nú um stundir. Ekki nóg með það: Af langri sögu hefur okkur lærst að því meira sem bandarísk stjórnvöld tala um að tryggja „lýðræði“ (Sýrland eða Úkraína), mannúð og mannréttindi (Írak, Júgóslavía, Líbía) eða kvenréttindi (Afganistan) í öðrum löndum þeim mun meiri dauði og eyðilegging eru í vændum. Bandarískt „lýðræði“ er banvænn útflutningur. https://williamblum.org/books/americas-deadliest-export 

Stefnan gegn Kína

Í stefnunni gagnvart Kína er stefna Bidenstjórnar beint framhald af stefnu Trumpstjórnarinnar sem að sínu leyti hélt áfram og jók við stefnu Obamastjórnar um aukin her- og flotaumsvif nærri Kínaströnd. Sjá t.d. þessa ræðu frá Mike Pompeo sl. sumar. https://china.usembassy-china.org.cn/communist-china-and-the-free-worlds-future/  Það er sem sagt samfella í áherslubreytingum Bandaríkjanna undir breytilegum forsetum, áherslur sem færast sífellt í austur. Það er alveg ljóst að með Bidenstjórn verður stigið enn lengra í sömu átt. Skv. fréttum úr stjórnkerfinu hefur nýr öryggisráðgjafi forsetans, Jake Sullivan, endurskipulagt bandaríska öryggisráðið (NSC) í mannaráðningum og gefið Kína og Austur-Asíu forgang, m.a. fram yfir áhersluna á Miðausturlönd sem hefur verið ráðandi. White House Shifts Focus From Middle East to China - News From Antiwar.com

Ástæður þess að Kína varð höfuðandstæðingur BNA er ekki í neinum meginatriðum hugmyndalegs eðlis. Allir sem nenna að hugsa vita að ástæðan er kínverska viðskiptaveldið sem breytir hratt valdahlutföllum í heiminum. Áður en þessi áratugur er á enda fer kínverska hagkerfið fram úr því bandaríska í beinum hagtölum. Efnahagslegi þyngdarpunkturinn flyst til Asíu og „Ameríska öldin“ er þá fyrir bí. Til að hindra að það gerist beitir risaveldið helstu trompum sínum samtengdum: hervaldinu og áróðursmaskínunni. Þar hefur það ennþá yfirburði. Og söngurinn mun óma í eyrum okkar næstu misserin (hljómar hátt nú þegar): að vestrænir lýðræðisriddarar eigi í óþrotlegri baráttu við tvo Hitlera sem heita Xi Jinping og Vladimir Putin.

Það verður samt ekki alveg vandræðalaust fyrir Bandaríkin og Stoltenberg að mana Evrópuríki til aukins fjandskapar við Kína. Á árinu 2020 fór Kína fram úr Bandaríkjunum sem stærsti viðskiptaðili ESB. Á því ári urðu t.d. járnbrautarlestarferðir frá Kina til Evrópu 12.400 talsins og flutningagámum fjölgaði um 56%. https://www.politico.eu/article/china-topples-us-as-eus-top-trade-partner-over-2020/

Stefnubreyting gagnvart Austurlöndum nær

Á meðan harðnandi bandaríska stefnan gagnvart Kína einkennist að samfellu virðist marktæk stefnubreyting verða gagnvart Austurlöndum nær, og þar skiptir ólík afstaða forsetanna tveggja máli. Donald Trump  reyndi að draga úr hernaðarlegri viðveru í SÝRLANDI, nokkuð sem Pentagon fordæmdi og vann stöðugt gegn (CIA hafði þá þegar yfirgefið forsetann). Og á vikunum kringum innsetningu Bidens hafa verið merki um að brottkvaðningu herjanna sé nú snúið við. Bandarískar flutningabílalestir með bæði byggingarefni til flugvallagerðar og með hergögn koma inn á kúrdnesku svæðin í Norður-Sýrlandi yfir landamærin frá Írak. Samkvæmt Sýrlensku mannréttavaktinni í London kom 60 flutningabíla lest þann 18. febrúar og var það tólfta flutningalestin í ár! Large US Convoy Loaded With Armored Vehicles Enters Northeastern Syria (Video, Photos) (southfront.org)

Í ÍRAK birtist aftur endurstyrktur ATLANTISMI þegar NATO kemur stökkvandi til styrkingar bandarískum herjum. Samkvæmt AntiWar.com mun NATO á næstunni fjölga í herjum sínum í Írak frá 500 upp í 4000. https://news.antiwar.com/2021/02/18/no-decision-made-on-nato-afghanistan-withdrawal/

Frá AFGANISTAN er nokkuð líka sögu að segja. Friðarsamningur milli Trumpstjórnar og Taliban var undirritaður í febrúar 2020 og frestur gefinn til 1. maí 2021 fyrir alla erlenda heri að yfirgefa landið. En strax í janúar komu merki frá Pentagon um að bandarískir herir muni framlengja dvölina. Og 15. febrúar sagði Stoltenberg að NATO-herir yfirgefi ekki Afganistan „fyrr en tími er til kominn“ og gaf sterklega í skyn að það yrði ekki 1. maí.   https://www.aljazeera.com/news/2021/2/15/nato-will-leave-afghanistan-when-time-is-right-stoltenberg

Skyldan að stjórna heiminum

Victoria Nuland var sem kunnugt er einn af helstu leikstjórum á bak við valdaránið í Úkraínu 2014, fræg fyrir orð sín „Fuck the EU!“ þegar ESB vildi fara hægar í sakirnar. Nú hefur Joe Biden gert hana að aðstoðarráðherra stjórnmálasviðs í Utanríkisráðuneytinu sem mun vera þriðja valdamesta embætti ráðuneytisins. Eiginmaður hennar er íhaldssami stjórnmálahaukurinn og hnattvæðingarsinninn Robert Kagan, og hann skrifar nýja grein í hið áhrifamikla rit Foreign Affairs sem hann kallar „Superpower. Like it or not“. Þar kemur fram að mesta vandamál Bandaríkjanna sé Bandaríkjamenn sem víki sér undan skyldum risaveldisins og vilji ekki stjórna heiminum:

„Ef tuttugasta og fyrsta öld á ekki að lenda í því hjólfari – sem væri hættulegast í keppninni við Kína – þá verða Bandaríkjamenn að hætta að leita að undankomuleiðum og viðurkenna hlutverkið sem örlögin og þeirra eigið vald hafa fengið þeim í hendur. Kannski eru Bandaríkjamenn eftir fjögur ár með Trump forseta tilbúnir undir hreinskilið tal.“ https://outline.com/freHx7

Greinin brtist einni á neistum.is