Fara í efni

SÆSTRENGIR OG SAMTENGING ÍSLANDS VIÐ INNRI ORKUMARKAÐ ESB

            Þegar líður að kosningum til Alþingis er rétt að rifja upp hvað ákveðnir þingmenn sögðu í umræðum um orkupakka þrjú og mögulega lagningu sæstrengs til Íslands. Þeir sem studdu orkupakkann fullyrtu m.a. að engin tengsl væru á milli pakkans og mögulegrar lagningar sæstrengs. Sama fólk fullyrti og að pakkinn hefði engar breytingar í för með sér og skipti engu máli.

            Annað hefur heldur betur komið á daginn og annað á eftir að koma í ljós. Þar er af ýmsu að taka. Snjallmælavæðing er kominn á fulla ferð en hún er einmitt hluti af bæði þriðja og fjórða orkupakkanum. Orkupakki þrjú var lagður fram af framkvæmdastjórn ESB árið 2007 og samþykktur tveimur árum síðar innan sambandsins. HS Veitur hófu uppsetningu snjallmæla árið 2015.[i]

            Staða íslenska Landsreglarans er ekki hvað síst athyglisverð, eins og áður er komið fram í fyrri skrifum. Hann hefur umtalsverð völd og ber enga ábyrgð gagnvart kjósendum á Íslandi – er einfaldlega „landstjóri“ ESB á Íslandi í orkumálum. Orkupakkann bar á góma í þættinum Vikulokin á Rás1 laugardaginn 20. febrúar. Þar gaspraði framsóknarkona eins og henni lætur best á Alþingi. Hún lét að því liggja að öll varnaðarorð gegn lagningu sæstrengs[ii] væru ástæðulaus með öllu enda engin slík áform uppi. Þetta er sama fólkið og nú óskar eftir stuðningi almennings til áframhaldandi setu á Alþingi!

            En hvers vegna skiptir lagning sæstrengs máli? Svar: Hún skiptir mjög miklu máli sökum þess að með slíkri tengingu er Ísland orðið fullgildur þátttakandi í innri orkumarkaði Evrópu. Eftir innleiðingu orkupakka þrjú verður að teljast afar hæpið að slíkur strengur (einn eða fleiri) verði lagðir á öðrum forsendum en forsendum innri orkumarkaðarins og þriðji orkupakkinn fjallar m.a. um millilandatengingar.

            Síðan eru að sjálfsögðu fjölmörg önnur atriði tengd lagningu sæstrengs. Þar vega ákaflega þungt þau sem snúa að innlenndri atvinnuuppbyggingu, virðisauka innanlands annar vegar og hráefnisútflutningi hins vegar [að flytja rafmagn út sem „hráefni“], verð til íslenskra neytenda og fyrirtækja (vegur mjög þungt enda mun það stórhækka), aukinn virkjanaþrýstingur [vatnsorka, vindorka og gufa] að ógleymdu braski og fjárglæframennsku sem tekur markaðinn fljótlega yfir eins og dæmi eru um innanlands og frá öðrum ríkjum.

            Fyrstu merki um það má strax greina á Íslandi. Að halda regluverkið um innri orkumarkaðinn svo öflugt að hægt sé að stjórna því og stýra hverjir fá að athafna sig þar sýnir í besta falli oftrú á regluverkinu. Illa fengið og „þvættað fé“ ratar inn í alla atvinnustarfsemi, meira og minna. Fjöldi banka er flæktur í peningaþvætti og net þess afar flókið og víðtækt. Orkumálin eru aldeilis ekki undanskilin þar!

Áform um lagningu sæstrengja

            Árið 2016 kom út skýrla á vegum North Atlantic Energy Network. Allir sem áhuga hafa á orkumálum eru hvattir til þess að lesa skýrsluna vel [hafi þeir ekki gert það áður]. Í inngangi að skýrslunni segir m.a.:

Það er tæknilega mögulegt að tengja öll nágrannalöndin við Ísland með sæstrengjum. Ísland framleiðir nú um 18 TWst af raforku á ári og gæti tvöfaldað framleiðsluna úr jarðhita og vatnsafli einu saman. Það eru mörg óljós atriði sem þarf að rannsaka frekar til að fá fram heildarmynd af kostum og göllum samtenginga frá Íslandi. Laga- og regluverkið verður að vera til staðar[iii] áður en hægt er að ráðast í verkefni af þessu tagi og þörf er á umfangsmiklum styrkingum netkerfis til að styðja við útflutning um streng með einum tengipunkti á Íslandi.[iv]

            Þarna er rætt um laga- og regluverk. Nú er það komið, með innleiðingu orkupakka þrjú. Telja menn að það sé alger hending hversu hatramlega stuðningsmenn orkupakkans börðust fyrir innleiðingu hans á þingi, þar sem beitt var bæði lygi og blekkingum? Auðvitað eru hagsmunir þar að baki og það miklir. Þar með er þó ekki sagt að það séu þjóðarhagsmunir að leggja streng/strengi. Almenningur og fyrirtæki á Íslandi mun greiða fyrir það bæði beint og óbeint. Stórhækkað raforkuverð til einstaklinga og fyrirtækja mun m.a. fljótt fylgja í kjölfarið.

            Þessu fylgja og fjöldamörg lagaleg álitamál. Eitt þeirra er samningsgerðina sjálf, hvernig áhættu vegna viðhalds er skipt á milli samningsaðila, ef t.d. kemur upp alvarleg bilun.[v] Rofni slíkur sæstrengur t.d. vegna náttúruhamfara [jarðskjálfta] neðansjávar, með þeim afleiðingum að hann verður ónothæfur um langan tíma, hver yrði þá áhætta íslenskra skattgreiðenda? Núverandi stjórnarþingmenn virðast halda að það sé nóg að „þegja málið af sér“ og vísa svo á „sérfræðinga“. Það er alkunn aðferðafræði þingmanna sem ekki hafa neina burði til þess að setja sig sjálfir inn í mál. Hér gildir eins og ævinlega að menn eiga ekki vísvitandi að segja ósatt. Það er oft hægt að afsaka vanþekkingu en verra að ljúga vísvitandi að almenningi.

            Kjósendur eiga að krefja frambjóðendur svara um þessi mál fyrir næstu kosningar og gefa ekkert eftir – ekki líða neitt orðagjálfur. Undirlægjur sumra fjölmiðla munu að sjálfsögðu reyna að stýra umfjölluninni frá frambjóðendum en kjósendur eiga ekki að láta það hafa nein áhrif á sig.

            Raunar er svo komið með miðla eins og t.d. Facebook að það er áleitin spurning hvort ekki sé kominn tími til þess að stofna „Open-Facebook“ þar sem byggt væri á hugmyndafræði frjáls hugbúnaðar[vi] [The GNU General Public License] og notendur þannig losaðir undan áþján og yfirgangi sem einkennir marga miðla [„veitur“] í dag. Opinn hugbúnaður er einhver mesta bylting sem orðið hefur á sviði tækni og vísinda á síðustu áratugum og nær til flestra sviða í nútímaþjóðfélögum.

Mynd 1
SÆSTRENGIR OG SAMTENGING ÍSLANDS VIÐ INNRI ORKUMARKAÐ ESB

Myndin[vii] sýnir hugmyndir sem uppi hafa verið um millilandatengingar frá Íslandi til Grænlands og Noregs.

            Áætluð lengd sæstrengs á milli austurstrandar Íslands og Færeyja er 450 km á um 500 metra dýpi. Sæstrengur frá Íslandi til Skotlands er áætlaður 900 km að lengd á 1100-1200 metra dýpi. Til Bretlands[viii] væri fjarlægðin um 1200 km á 1200 metra dýpi.[ix]

Sæstrengur á milli Evrópu og Norður-Ameríku

            Því fer fjarri að hugmyndir um sæstrengslagnir frá Íslandi séu einskorðaðar við ríki Evrópu. Hugmyndirnar ná miklu lengra en það. Þar liggja fyrir úttektir á hagrænum og tæknilegum þáttum slíks verkefnis. Í tímaritinu Journal of Cleaner Production er fjallað um þetta í grein frá 2018.

            Hugmyndin um flutning raforku um streng á milli heimsálfa er sýnd á mynd 2. Gert er ráð fyrir jafnstraumsstreng (HVDC) en slíkur strengur myndi tengja Evrópu (um Stóra-Bretland) við Norður Ameríku (um Kanada). Þessir tengipunktar mynda stystu leið um Ísland og Grænland, þar sem lengdin yrði 3300 km og hámarksdýpið ná 3000 metrum. Stærstu áskoranir við þess konar framkvæmd eru helst taldar framleiðslutíminn á svo löngum sæstreng en einnig aðferðir við lagningu (sbr. Evrópu-Asíu verkefnið[x]) og möguleg vandamál vegna sjávardýpis.[xi] Þó má einnig ætla að umtalsvert orkutap [flutningstap] verði á svo langri leið. Afriðlatapið [losses in converters] er í skýrslunni áætlað 9%.

Mynd 2
m2.JPG

Mynd 2 sýnir áætlanir um Atlandshafssæstreng á milli Evrópu og Kanada.

Evrópu-Asíu strengurinn

            Lengd Evrópu-Asíu sæstrengsins verður 1208 km. Hann mun tengja saman Ísrael, Kýpur og Grikkland og geta flutt 2000 megavött í hvora átt (bipolar).

            Forgangsverkefni kerfisþróunaráætlunar ESB (Projects of Common Interest - PCI) eru innviðaverkefni, sérstaklega yfir landamæri, sem tengja saman orkukerfi ESB-ríkja. Þeim er ætlað að auðvelda ESB að ná fram orkustefnu sinni og loftslagsmarkmiðum: hagkvæmri, öruggri og sjálfbærri orku fyrir alla borgara og langtíma minnkunar á kolefni efnahagslífsins, í samræmi við Parísarsamkomulagið. Framkvæmdastjórn ESB setur upp forgangslista [PCI] á tveggja ára fresti.

Mynd 3
m3.JPG

Mynd 3[xii] sýnir legu Evrópu-Asíu sæstrengsins.

            Til þess að verkefni komist á slíkan forgangslista þurfa þau að teljast hafa verulega þýðingu á orkumarkaði og við samþættingu markaða, í að minnsta kosti tveimur ESB-ríkjum. Þau þurfa að efla samkeppni á orkumörkuðum og efla orkuöryggi ESB, með því að auka fjölbreytni orkugjafa og stuðla að loftslags- og orkumarkmiðum ESB með samþættingu endurnýjanlega orkugjafa.[xiii]

            Evrópu-Asíu strengurinn fellur undir þessa skilgreiningu og er flokkaður sem forgangsverkefni [PCI] í skilningi kerfisþróunaráætlunar. Slík verkefni eru styrkhæf úr sjóði ESB til samtengingar Evrópu (Connecting Europe Facility, eða CEF).[xiv] Sjóðurinn hefur til umráða um 30 milljarða evra.

            Gert er ráð fyrir 8.7 milljörðum evra til Evrópu-Asíu verkefnisins á árabilinu 2014-2020. Fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir því að sjóðurinn hafi til ráðstöfunar 42.3 milljarða evra frá 2021-2027.[xv]

            Meðal álitsgjafa íslenskra stjórnvalda vegna innleiðingar orkupakka þrjú var lagadeildardósent við Háskólann í Reykjavík. Dósentinn sá engin tengsl á milli orkupakkans og lagningar sæstrengs! Það má kalla dæmalausan dómgreindarbrest, sérstaklega í ljósi þróunar orkumálanna í Evrópu. Með sambærilegum „rökum“ mætti halda því fram að lagning Evrópu-Asíu sæstrengsins hafi ekkert með orkupakka ESB að gera og tengist innri orkumarkaði Evrópu ekkert. Það væri þó fráleit ályktun.

           

[Dómgreindarbrestur]

Samhengi hluta og sannleikans frestur,

sökk í botnlaust dý.

Dæmalaus var sá dómgreindarbrestur,

dósentinn eftir því.

            Í þessu sambandi er líka óþarft að taka það fram að Evrópu-Asíu verkefnið er á forsendum innri orkumarkaðar Evrópu og orkupakka hans. Vísað er m.a. til reglugerðar Evrópuþingsins og Ráðsins (ESB) nr. 347/2013.[xvi]

Að lokum

            Á heimasíðu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins má finna innleiðingaráætlun [PCI] frá 2017 og þar er IceLink[xvii] á áætlun, vegna sæstrengs á milli Ísland og Bretlands.[xviii] Áætlunin gerir ráð því að framkvæmdir hefjist 2027.[xix] IceLink er hins vegar ekki á PCI-lista[xx] ársins 2019.

            En samtenging ríkja mun halda áfram, bæði innan Evrópu og jafnvel við aðrar heimsálfur. Ísland er þar inn í ýmsum áformum eins og komið er fram. Íslenskir stjórnmálamenn eiga að tala skýrt um þessi mál, greina frá því sem þeir þegar vita og hætta allri lygi og blekkingum. Þá eiga þeir að tala skýrt um stefnu sína í þessum efnum og þá viðurkenna ef þeir hafa enga stefnu og vilja gera orkustefnu ESB að sinni. Kjósendur eiga heimtingu á svörum við spurningum þar að lútandi áður en gengið verður til næstu kosninga.

            Ætíð þarf að hafa í huga að orkupakkar ESB eru markaðspakkar, ganga beinlínis út frá markaðsvæðingu og samtengingu ríkja innan og utan Evrópu. Rafmagn er hins vegar hluti innviða í samfélögum nútímans og ætti undir engum kringumstæðum að markaðs- og einkavæða. Meint „neytendavernd“ er raforkukaupenda er algerlega óþörf svo lengi sem braskarar og fjárglæframenn fá ekki að valsa um þessa mikilvægu innviði.

            Menn hafa nú fengið að sjá hvernig þetta virkar í Texas þar sem straumleysi hefur fylgt í kjölfar öfga í veðurfari. Öfgar í veðurfari eru vandamál víða um heim. Rökin um „sérstakar aðstæður“ halda illa þarna. Texas er einungis eitt margra dæma sem mætti nefna. Það mætti líka fjalla um rafmagnsleysi[xxi] í öðrum fylkjum Bandaríkjanna,[xxii] s.s. í Kaliforníu og New York fylki. Sumir tala um skort á „skipulagi“. Það vandamál má lágmarka með því að halda framleiðslu (og dreifingu) á raforku í opinberri eigu.

            Um þetta segir prófessor Sharon Beder m.a.: „Útbreitt rafmagnsleysi í norðausturríkjum Bandaríkjanna er aðeins það nýjasta í langri röð raforkukreppna sem stafa af einkavæðingu rafmagns og afreglun.[xxiii] Rafmagnsleysi hefur orðið frá Kaliforníu til Buenos Aires til Auckland. Það hefur orðið í Suður-Ástralíu og er spáð í Nýju Suður Wales. Nauðsynlegt hefur verið að bjarga [bailout] raforkufyrirtækjum í Kaliforníu og Bretlandi. Það hefur þurft að skammta rafmagn í Brasilíu og það er orðið of dýrt fyrir milljónir manna frá Indlandi til Suður-Afríku.“[xxiv]

            Þessi orð prófessors Beder lýsa prýðilega afleiðingum markaðs- og einkavæðingar á rafmagni. Nú er verið að feta sömu braut í Evrópu, með orkupökkum ESB. Enda þótt innri orkumarkaður Evrópu sé „vel flæktur“ í reglugerðir og tilskipanir mun fjármagnið að sjálfsögðu leggja þetta allt undir sig, eftir að búið er að opna hliðið, og sveigja reglugerðarumhverfið að sínum þörfum.

            Þarna er einfaldlega opnað á ný tækifæri fyrir braskara og fjárglæframenn til þess að maka krókinn á kostnað almennings. Íslenskum stjórnmálamönnum reynist oft mjög erfitt að læra af reynslu annara ríkja en eru síðan algerlega ábyrgðarlausir þegar allt er komið í hnút og gjaldþrot blasa við. Þá má almenningur taka við eins og venjulega. Hvernig ætlar þjóðin að kjósa næst? 

[i]      HS Veitur. Snjallmælavæðing sölumæla á dreifisvæðum okkar. https://www.hsveitur.is/upplysingar/maelavaeding/

[ii]    Sjá einnig: Nelson, B. (2011). World's Longest Underwater Electric Cable to Connect Iceland and Europe. Forbes. https://www.forbes.com/sites/eco-nomics/2011/03/15/worlds-longest-underwater-electric-cable-to-connect-iceland-and-europe/?sh=2ba125b269f5

[iii]   Svartletrun höfundar.

[iv]    North Atlantic Energy Network January 2016. Sjá heimasíðu íslenska Landsreglarans: https://orkustofnun.is/gogn/Skyrslur/OS-2016/North-Atlantic-Energy-Network-Report.pdf

[v]     Sjá einnig: Offshore WIND. (2019). Using experience to execute flawless HV submarine cable repairs. https://www.offshorewind.biz/2019/09/19/using-experience-to-execute-flawless-hv-submarine-cable-repairs/

[vi]    Sjá t.d.: Open Source Software. https://www.omnisci.com/technical-glossary/open-source-software

[vii]  North Atlantic Energy Network, op. cit.

[viii] Sjá einnig: COMMISSION DELEGATED REGULATION (EU) 2018/540 of 23 November 2017 amending Regulation (EU) No 347/2013 of the European Parliament and of the Council as regards the Union list of projects of common interest. 1.13 Interconnection between Iceland and United Kingdom [currently known as ‘Ice Link’].

[ix]    North Atlantic Energy Network, op. cit.

[x]     Sjá: EuroAsia interconnector. (2019). https://euroasia-interconnector.com/cable-construction/

[xi]    Purvins, Arturs, et al. “Submarine Power Cable between Europe and North America: A Techno-Economic Analysis.” Journal of Cleaner Production, vol. 186, 2018, pp. 131–145., doi:10.1016/j.jclepro.2018.03.095.

[xii]  EuroAsia interconnector. (2019). https://euroasia-interconnector.com/at-glance/the-big-picture/euroasia-eu-status/

[xiii] EuroAsia interconnector. (2019). https://euroasia-interconnector.com/cable-construction/

[xiv]  European Commission. (2021). Connecting Europe Facility. https://ec.europa.eu/inea/en/connecting-europe-facility

[xv]   EuroAsia interconnector, op. cit.

[xvi]  REGULATION (EU) No 347/2013 OF THE EUROPEAN PARLIAMENT AND OF THE COUNCIL of 17 April 2013 on guidelines for trans-European energy infrastructure and repealing Decision No 1364/2006/EC and amending Regulations (EC) No 713/2009, (EC) No 714/2009 and (EC) No 715/2009. https://eur-lex.europa.eu/legal-content/en/TXT/?uri=celex%3A32013R0347

[xvii] Sjá einnig: Gautier, A. (December 2019). ELECLINK: SHEDDING SOME LIGHT ON A KEY EUROPEAN PROJECT. Altermind. https://www.getlinkgroup.com/content/uploads/2019/12/191218-ElecLink-Study-uk-web.pdf

[xviii]       European Commission. (2018). Interconnection between Iceland and United Kingdom [currently known as "Ice Link"]. http://ec.europa.eu/energy/maps/pci_fiches/pci_annex2_1_13_en_2017.pdf

[xix]  European Commission. (2018). Interconnection between Iceland and United Kingdom [currently known as "Ice Link"]. Project of common interest: 1.13

[xx]   Sjá: COMMISSION DELEGATED REGULATION (EU) 2020/389 of 31 October 2019 amending Regulation (EU) No 347/2013 of the European Parliament and of the Council as regards the Union list of projects of common interest. https://eur-lex.europa.eu/legal-content/en/ALL/?uri=CELEX:32020R0389

[xxi]  Sjá einnig: Top 5 U.S. States for Power Outages. (2021). GENERAC. https://www.generac.com/be-prepared/power-outages/top-5-states-where-power-outage-occur

[xxii] Sjá enn fremur: Beder, S. 'Thieves in the Night', Arena Magazine 67, October 2003, pp. 37-40. https://documents.uow.edu.au/~sharonb/theives.html

[xxiii]       Svartletrun mín.

[xxiv]       Beder, S. 'Thieves in the Night', Arena Magazine 67, October 2003, pp. 37-40. https://documents.uow.edu.au/~sharonb/theives.html