Fara í efni

LIÐSKÖNNUN ANTONY BLINKENS Á NORÐURSLÓÐUM

Liðskönnun Antony Blinkens á Norðurslóðum gekk vel. Allir flokkar á Alþingi Íslendinga stóðu prúðan heiðursvörð þegar hann gekk könnunarganginn. Hann var ekki spurður um nýja norðurslóðastefnu Bandaríkjahers. Sergei Lavrov var hins vegar sagður efna til átaka á Norðurslóðum, vegna einhvers sem hann sagði aldrei.

Kurteislegt tal í Hörpu

Eftir fund þeirra Guðlaugs Þórs Þórðarsonar í Hörpu sagði Antony Blinken: “Sem bandamenn á Norðuslóðum vilja Íslendingar og Bandaríkjamenn tryggja að heimshlutinn verði áfram laus við átök, þar sem samvinna ræður.“ Íslensku blaðamennirnir létu þetta gott heita og spurðu hann ekki frekar um stefnu og athafnir Bandaríkjanna á Norðurslóðum, hvorki á þessum fundi né öðrum. Enda telja þeir vandamálið liggja annars staðar. Bogi Ágústsson orðaði það svo í sjónvarpsfréttum 18. maí: „Lavrov varaði vestræn ríki við að gera kröfur til Norðurskautssvæðisins, það tilheyri Rússum.“ Svo át hver það eftir öðrum að Sergei Lavrov hefði komið með „stóryrtar yfirlýsingar“ um að „Norðurskautssvæðið tilheyri Rússum“ og þær kröfur „brjóta í bága við alþjóðalög um hafrétt á svæðinu“ (sjá t.d. Fréttablaðið 20. maí). Það er auðséð hvar ógnin er og yfirgangurinn! Gallinn sá er að Lavrov sagði þetta aldrei, og orð Blinkens tjá ekki Norðurslóðastefnu Bandaríkjanna.    

Kurteislegt tal Antony Blinkens um spennuleysi og umhverfisvernd í norðri hefur það hlutverk að breiða yfir staðreyndir, sem er vígvæðing Norðurslóða, leidd af Bandaríkjunum. Fundir Norðurskautsráðsins hafa lengi undafarið snúist um annað en hermál. En á fund ráðsins í Finnlandi í maí 2019 var Pompeo utanríkisráðherra mættur og lýsti yfir: “Þetta er stund Ameríku til að standa upp sem heimskautaþjóð... Svæðið er orðið að vettvangi hnattrænna valda og samkeppni.“ Hann réðist þar harkalega á „yfirgang“ Rússa og Kínverja á Norðurslóðum.

Skömmu eftir valdatöku Bidenstjórnar birtu höfuðstöðvar Bandaríkjahers stefnu sína fyrir Norðurheimskautssvæðið í bæklingi með heitið: „Að endurvinna yfirráðin á Norðurskautssvæðinu. Norðurslóðastefna Bandaríkjahers.“ Þar má lesa: „Breytingarnar í hinu landfræðipólitíska umhverfi og aðgerðir stórveldakeppinauta ásamt breytingum í náttúrulegu umhverfi krefjast þess að herinn endurstilli og endurskerpi valkostina við að byggja aftur upp mátt okkar á Norðurskautssvæðinu.“  https://api.army.mil/e2/c/downloads/2021/03/15/9944046e/regaining-arctic-dominance-us-army-in-the-arctic-19-january-2021-unclassified.pdf Blinken minntist ekki á þessa stefnuyfirlýsingu í Hörpu, og íslenskir blaðmenn voru þá ekki heldur að ónáða utanríkisráðherrann með óþægilegum spurningum þarum.

Grænland, Noregur og Atlantshafsflotinn

Blinken kom hingað með viðkomu í Danmörku. Mikilvægasta erindi hans þangað var að ræða Grændlandsmál og hitta fólk úr grænlensku heimastjórninni (einnig þeirri færeysku). Hann lýsti þar yfir ánægju sinni vegna stórlega aukinna útgjalda Dana til varnarmála á Grænlandi. Danska ríkisstjórnin samþykkti í febrúar sl. 40 milljarða aukningu til málaflokksins. Þessi gríðarlega hækkun kom eftir mikinn þrýsting frá Washington. Berlingske hafði í ágúst 2019 eftir Peter Viggo Jakobsen, lektor í Varnarmálaakademíunni dönsku:Það er feiknalegur þrýstingur á Danmörku til að fá okkur til að hafast meira að á Norðurheimskautssvæðinu sem þjónar bandarískum hagsmunum. Bandaríkin segja: 'Setjið upp hjálminn og komið með í bardagann'.“ https://www.berlingske.dk/nyheder/ekspert-danmark-er-under-gigantisk-pres-usas-budskab-er-spaend-nu-hjelmen Þetta var í anda Trumps sem pressaði mjög á NATO-bandamann að leggja meira fram til hermála. Danir höfðu sem sagt látið undan þessum þrýstingi og Blinken lýsti ánægju sinni með það.

Þetta var Danska konungsríkið. Næst er Noregur. Á undanförnum árum hefur Noregur verið að yfirgefa sína gömlu herstöðvapólitík, en við inngöngu Noregs í NATO 1949 og í öllu kalda stríðinu gilti sú stefna að Noregur skyldi aldrei hafa erlendar herstöðvar (né karnorkusprengjur) í landinu. En árið 2016 var norsk flotastöð í Værnes í Þrændarlögum gerð að bandarískri herstöð. Herstöðvapólitíkinni frá 1949 var þarmeð hent út um gluggann. Nú voru þarna 330 bandarískir hermenn að staðaldri. Frá 2018 var sá herstyrkur aukinn upp í 700 manns, með útibú á annarri herstöð í viðbót, Setermoen í Tromsfylki norðan heimskautsbaugs.

Síðastliðinn vetur undirrituðu Bandaríkin og Noregur nýjan samning um hernaðarsamvinnu sem leyfir Bandaríkjaher að byggja upp aðstöðu á þremur flugvöllum í viðbót og einni flotastöð. Frambúðarhervöllur  fyrir hinar ógurlegu B-1 Lancer kjarnorkusprengiflugvélar er á Ørland skammt norðan Þrándheimsfjarðar, og flotastöð m.a. fyrir kjarnorkukafbáta norður í Tromsfylki. Sjá Stars and Stripes Report: https://outline.com/wvpjS6

Haustið 2018 var NATO-æfingin Trident Juncture haldin í Noregi, með  50 þúsund hermenn, 8 þúsund stríðsökutæki og skriðdreka, 70 herskip og 130 flugvélar.  Að ári, 2022, verður önnur NATO-heræfing í Noregi með 40 þúsund hermenn en þar verður samt flugher og floti í aðalhlutverki. Helsti munurinn verður sá að meðan æfingin 2018 var í sunnanverðum Noregi er þessi norðan við heimskautsbaug, sú stærsta þar eftir Kalda stríðið. Og andstæðingurinn er núna yfirlýstur, Rússland. Norway to host biggest exercise inside Arctic Circle since Cold War | The Independent Barents Observer (thebarentsobserver.com)

Bandaríski Atlantshafsherflotinn (United States Second Fleet ) hafði verið leystur upp til annarra verkefna árið 2011, en árið 2018 var hann endurræstur, og ástæðan sögð „stórveldasamkeppni vegna endurrísandi Rússlands“. Eitt yfirlýst meginhlutverk hans er sk. kafbátaeftirlit á N-Atlantshafi og norðar. Bandaríkjastjórn „ætlar honum hlutverk á hafsvæðum fyrir norðan Ísland. Viðbúnaður á Keflavíkurflugvelli tekur mið af þessu“, skrifaði Björn Bjarnason (Mbl. 9. ágúst 2019). Umsvifin færast í norður og norðaustur. Árið 2020 var í fyrsta sinn eftir Kalda stríðið send bandarísk flotaeining inn á Barentshaf.

Hvað réttlætir þennan vígbúnað?

Spurningar: a) Hvað réttlætir allan þennan viðbúnað og vígbúnað NATO-ríkja og b) hvað réttlætir vígbúnaðinn á Norðurslóðum sérstaklega? Hvað ógnar NATO-ríkjum? Í upphafi aldarinnar var það sagt vera „hryðjuverkahættan“ en nú um skeið ku það einkum vera árásarstefna og yfirgangur  Rússa sem ógnar þeim. Hvað er til vitnis um það? Á meginlandinu er innlimunin á Krímskaga 2014 stóra dæmið um árásarstefnu Rússa. Sú aðgerð ku hafa „breytt öllu“ um öryggi Evrópuríkja. Svo eru það ógnanirnar á hafinu. Guðlaugur Þór Þórðarson talar oft um þá gríðarlegu ógn sem stafi af rússneskum kafbátum á Atlantshafi: „Við erum að sjá hér fleiri kafbátaferðir, ef marka má fullyrðingar bandarískra flotaforingja, rússneskra kjarnorkukafbáta heldur en við sáum á dögum Kalda stríðsins.“ https://www.ruv.is/frett/russum-likar-ad-vera-miklir

Standast þessar réttlætingar á vígbúnaðinum? Lítum aðeins á herstyrkleikahlutföll. Samkvæmt tölum sænsku rannsóknarstofnunarinnar SIPRI fyrir árið 2020 standa Bandaríkin og NATO á bak við 55% af herútgjöldum heimsins (Bandaríkin ein með 39%) en Rússland aðeins 3,1%. Samt eigum við að trúa því að 3,1 prósentið hafi hug að ráðst gegn 55 prósentunum af einskærri heiftrækni og árásarhneigð.  https://reliefweb.int/sites/reliefweb.int/files/resources/fs_2104_milex_0.pdf Það eru ennfremur Bandaríkin og NATOsem standa á bak við helstu stríð okkar tíma svo sem í Austurlöndum nær. En höldum okkur við Evrópu, og skoðum þessi ákveðnu atriði sem eiga að sanna „rússnesku ógnina“ þar.

Rússneska ógnin á landi

Krímskagi var innlimaður í Rússland 2014 og haft er fyrir satt að það hafi „breytt öllu“ um öryggismál Evrópu. En er það nú svo? Innlimun Krím var ekki upphaf neins heldur einn leikur í miklu valdatafli og viðbrögð við mikilli spennumögun fyrir dyrum Rússa. Nokkru eftir fall Austurblokkar og brotthvarf Varsjárbandalags um 1990 – þvert á það sem leiðtogum gömlu Sovétríkjanna var lofað – þandi NATO sig snögglega í austur alveg upp að vesturgluggum Rússlands. Og þar voru reistir eldflaugaskotpallar. Síðasta skrefið í þeirri spennumögun úr vestri var CIA-stýrt og fasismablandað valdarán í Kænugarði 2014. NATO hafði þá þegar samþykkt að Úkraína skyldi verða NATO-ríki.

Krímskagi hefur sögulega verið de facto rússneskt land í 240 ár, byggður Rússum. Bókhaldsleg færsla hans í sovétkerfinu, frá hendi Krúsjoffs, til Úkraínu 1954 breytti engu um það. En eftir valdaránið í Úkraínu sáu Rússar fram á að með því áframhaldi yrði eina herflotastöð þeirra í suðri brátt orðin NATO-stöð, svo skipulögð var í hvelli þjóðaratkvæðagreiðsla á Krím. Hvað sem um þjóðréttarlegu framkvæmdina má segja stenst það ekki að sú aðgerð sé merki um „útþenslustefnu Rússa“. Aðeins það að „de facto“ breyttist í „de juri“.

Bandaríkin höfðu allt frumkvæði í því að gera Krím-málið að þeim stórpólitísku „kaflaskilum“ sem það varð og koma á refsiaðgerðunum gegn Rússum, aðgerðum sem voru efnahagslega álíka skaðlegar Evrópu og Rússum. Joe Biden varaforseti Obamastjórnar hældist yfir því að Bandaríkin hefðu neyðst til að kúska Evrópulönd til refsiaðgerðanna: „Það er satt, þau vildu ekki gera þetta, en aftur voru það bandarísk stjórnvöld og forseti Bandaríkjanna sem krafðist þess, og nokkrum sinnum urðum við að láta Evrópu skammast sín (we had to embarras Europe) til að fá þau til að standa upp og taka á sig efnahagsleg högg til að valda [Rússum] kostnaði.“ https://www.youtube.com/watch?v=ZDRBzk0lTVY

Rússneska ógnin á hafinu

Hvað þá um ógnina miklu af rússneska herflotanum – komandi frá Norðurskautssvæðinu og suður um Atlantshaf? Það bera að vísu lítið á honum á yfirborðinu, en það er verra með kafbátana. Guðlaugur Þór Þórðarson segir að svæðið milli Grænlands, Íslands og Bretlands sé „komið á allt annan stað en það hefur verið í mjög langan tíma“ og hann segist vita af meiri umferð „rússneskra kjarnorkukafbáta heldur en við sáum á dögum Kalda stríðsins“. Hann bætir að vísu við: „ef marka má fullyrðingar bandarískra flotaforingja“. https://www.ruv.is/frett/russum-likar-ad-vera-miklir

Heimildirnar um ógnina miklu eru sem sagt sóttar til Bandaríkjahers. Þá þarf ekki að kanna það betur! Á því er byggð ný „þjóðaröryggisstefna Íslands“, loftrýmnisgæsla NATO með kafbátaeftirlitsflug 173 daga á árinu 2020, aukning frá 21 degi árið 2014, og tilsvarandi aukning umsvifanna á Keflavíkurfluvelli. Allt með stuningi stjórnarflokkanna og allra flokka á Alþingi. En Bandaríkjaher er vond heimild í þessu því hver maður veit að drottnunarstaða Bandaríkjanna innan eigin herbúða byggist á að viðhalda spennunni, og auka hana.   

Kringum fundina í Hörpu máttum við skilja að Ísland og Bandaríkin vilji tryggja að Norðurslóðir séu „laus við átök, þar sem samvinna ræður“ en Rússar hins vegar hafi uppi „stórkallalegar yfirlýsingar“ um að svæðið í heild „tilheyri Rússum“. Það var því merkilegt að heyra á Rás 1 sl. fimmtudag viðtal Arnars Páls Haukssonar við Albert Jónsson sem var í undarlegum mishljómi við þennan söng og allan málflutninginn kringum „þjóðaröryggisstefnu Íslands“. Albert Jósson er sérfræðingur í alþjóða- og hernaðarmálum og fyrrv. sendiherra í Moskvu og Washington.

Hjá Albert kom fram að Sergei Lavrov vilji koma aftur á formlegu samráði um hernaðarleg málefni á Norðurslóðum af því Bandaríkjaher sé þar í sókn en Rússar í vörn, nokkuð sem Albert einfaldlega tók undir. Rússa skorti nú vettvang til að ræða þau mál, vettvang sem var til í tengslum við Norðurskautsráðið en tekinn frá Því, að frumkvæði NATO, í kjölfar Úkrínudeilunnar. Ég vitna í allstóra sneið úr viðtalinu.

Arnar Páll: „Hvers vegna segir þú að Bandaríkin séu í sókn?“

Albert Jónsson: „Hagsmunir Rússa eru þeir sömu og þeir hafa verið í áratugi á Norðurslóðum, og lúta að kjarnorkuhernum. Þeir halda úti eldflaugakafbátum í Barentshafi og í þeim eru eldflaugar með kjarnahleðslu. Þetta er hryggjarstykkið í rússneska kjarnorkuhernum og hann tengist tilvistarhagsmunum Rússlands og stöðu í heiminum o.s.frv. Þeim er mjög annt um öryggi kjarnorkuhersins. Og í öðru lagi er Rússland með feikilegt landsvæði á Norðurslóðum og efnahagsleg þýðing þess fyrir Rússa seint ofmetin. Þetta hefur allt verið til stðar í marga áratugi og lengur.

En hernaðarhagsmunir Bandaríkjanna hafa þróast með ákveðnum hætti sem dregur þá lengra í norður. Í fyrsta lagi, Norðurfloti Rússlands er miklu minni en sovéski forverinn var og fer minnkandi miðað við þann sovéska. Þeir eiga tiltölulega mjög fáa kafbáta sem geta athafnað sig á úthafinu, hverfandi fá herskip sem geta það. Áhersla Rússanna er öll á varnir heimahafanna og nærsvæða þeirra þar sem þessir eldflaugakafbátar eru. Það er ekki um það deilt meðal sérfræðinga og leyniþjónustumanna að meginverkefni Norðurflotans er að verja kjarnorkuherinn að því leyti sem hann er í Norðurhöfum, og síðan þetta stóra landsvæði, fullveldi Rússlands á þessu feiknastóra landsvæði.

Það sem Bandaríkin eru að gera af því Norðurflotinn er orðin svo miklu minni og kemur ekki mikið lengur út á Atlantshaf þá þarf að fara í norðar til að komast í færi við rússnesk herskip, kafbáta og flugvélar – í æfingaskyni eða til að undirstrika fælingarstefnu gagnvart Rússlandi.“

Athyglisvert. Vandamál Bandaríkjanna er sem sagt minnkun rússneska herflotans, lítil umferð hans á Atlantshafi  og takmörkun við heimahöf! Hins vegar nefndi Albert að stýriflaugarnar í kafbátunum yrðu sífellt langdrægari og gætu ógnað skotmörkum í Evrópu og jafnvel N-Ameríku, enda „hryggjarstykkið í rússneska kjarnorkuhernum“. Tilvist slíkra vopna segir þó ekkert um „útþenslu- og árásarstefnu“ Rússa, af því slík vopn eru jafn áhrifarík til landvarna vegna fælingarmáttar eins og til árásarstríðs.

Arnar Páll: „Norðmenn hafa miklar áhyggjur af auknum þrýstingi frá Rússum, og Lavrov gagnrýndi það harkalega að þeir séu að hleypa Bandaríkjunum og NATO inn á Norðurskkautssvæðið.“

Albert Jónsson: „Ja, inn í Norður-Noreg, með þeim hætti sem þeir hafa ekki gert áður. Nú liggur fyrir samkomulag milli Noregs og Bandaraíkjanna að Bandaríkjaher og Bandaríkjamenn munu byggja flugskýli á herflugvelli í Norður-Noregi fyrir kafbátaleitarflugvélar og leggja eldsneytisgeyma og eldsneytiskerfi – umtalsverð framkvæmd. Þeir ætla að auka verulega kafbátaleitarflug út frá Norður-Noregi inn á Norður-Noregshaf og Barentshaf. Eins er búið að leyfa aðgang fyrir bandaríska og NATO kjarnorkuknúna kafbáta í höfn nálægt Tromsö. Þetta láta Rússar pirra sig og benda á, eins og Lavrov í morgun, að þetta er í nágrenni við Rússland. Þetta er strúktúr málsins og þess vegna er eðlilegt að Lavrov geri tillögu um að endurvekja þetta formlega samráð.“

Engar nýjar kröfur Rússa á Norðurslóðum

Arnar Páll: „Lavrov kom með hálfskringilegar yfirlýsingar um að Norðurslóðir væru þeirra yfirráðasvæði. Getum við sagt að það sé hætt við auknum hernaðarumsvifum á Norðurslóðum?“

Albert Jónsson: „Ég las útskriftina af því sem Lavrov sagði, hann hefði mátt tala skýrar. En það sem hann er að segja, greinilega, og fellur að örðum hlutum, hann fékk sko spurningu á fundi með utanríkisráðherra Sierra Leone um Norðurslóðir. – Hvað segir þú um gagnrýni Vesturlanda á aukin hernaðarumsvif Rússa á Norðurslóðum? Þá varð hann mjög styggur og sagði: Þetta snýr alveg öfugt! Gleymið ekki að við eigum gríðarmikið svæði á Norðurslóðum sem við þurfum að verja. Svo nefndi hann sérstaklega siglingaleiðina við Norðurströnd Rússlands, þar eru augljósir hagsmunir okkar o.s.frv. Hann var að tala um þetta. Það voru engar nýjar kröfur þarna, en hann hefði mátt vera nákvæmari.“ https://www.ruv.is/utvarp/spila/spegillinn/25249/7gpcvm/hernadarumsvif-og-nordurskautsradid

Viðtalið við Albert verðskuldar að hlustað sé á það í heild. Fréttirnar um „stórkarlalegar yfirlýsingar og kröfur Rússa“ á Norðurslóðum var sem sagt bara kjaftæði og misskilningur einhverra fréttamanna. Íslenskir rámenn kusu samt að vera ekkert að leiðrétta það.

Friðarhyggja SHA leiðir afvega

Samtök hernaðarandstæðinga hafði litla mótmælastöðu utan við Hörpu á miðvikudagskvöld. Þau sendu út yfirlýsingu með yfirskriftinni: „Kjarnorkuveldunum mótmælt. Stöðvum vígvæðingu norðurslóða!“ Stefán Pálsson skrifaði grein á Vísi og mótmælti því sem hann nefndi „eltingaleiki risaveldanna í heimshöfunum“. Krafan um að stöðva vígvæðingu Norðurslóða er góð. En að mótmæla „stefnu stórveldanna“ og „stefnu risaveldanna“ eins og vígbúnaður Rússlands og Bandaríkjanna megi samjafnast er röng stefna. Og jöfnunin sem felst í hugtakinu „risaveldin tvö“ er hér alveg fráleit.

Þessi jöfnun er gömul tilhneiging SHA að leggja allan vígbúnað að jöfnu, afstaða sem kemur sér best fyrir þá sem mesta útþenslu stunda og mest drífa áfram hnattræna vígvæðingu. Það er hætt við að svona fari þegar almenn siðræn friðarhyggja hefur komið í stað andheimsvaldastefnu.

Liðskönnunin gekk vel

Liðskönnun Antony Blinkens á Norðurslóðum gekk vel. Allir flokkar á Alþingi Íslendinga stóðu heiðursvörðinn, dyggir og prúðir, þegar hann gekk könnunarganginn. Engin NATO-andstaða þar lengur. Blinken veit að Íslendingar ætla að gegna skyldum sínum við risaveldið, veita Bandaríkjaher þá aðstöðu sem hann biður um og styðja hann í öllum þeim aðgerðum sem hann færist í fang á hverjum tíma. Sem áður.