Fara í efni

ÚKRAÍNA: HVER BYGGIR UPP SPENNUNA?

Spennustig er hátt í Úkraínudeilunni. Diplómatísk samskipti Rússa og Bandaríkjanna hafa líklega ALDREI verið verri. Rússar hóta árásaröflum öllu illu. Samkvæmt NATO stunda þeir «óréttlætanlega hernaðaruppbyggingu». Það gera þeir þó innan eigin landamæra. Hver magnar upp spennuna?

Sagan harkalega

Rússar eru stærsta þjóð í Evrópu. Þeir hafa ráðið stóru evrópsku austurléttunni vestan Úralfjalla og lengst austur um Síberíu nokkurn veginn óslitið í á fjórðu öld, frá dögum Péturs mikla, og raunar alveg frá því þeir hrintu í áföngum af höndum sér útþensluríki Mongóla, Gullnu hordunni.

Í Rússlandi ræður ríkjum mjög samþjöppuð auðstétt, kennd við fáveldi, óligarkí. Eignaskiptingin harla ójöfn – mætti að því leyti samlíkjast við stórþjóð í Vesturheimi, Bandaríkin. Ráðandi hugmyndafræði (eftir að Rússar létu af hvers konar sósíalisma) er þjóðernissinnuð íhaldssöm austurkristni. Réttindi minnihlutahópa eins og samkynhneigðra og hinseginfólks eru heldur bágborin, og félagafrelsið og útgáfufrelsið mættu vera betri, hafa þó æði oft verið verri. Eiríkur Bergmann kallar Rússland „valdboðsríki“ og mótmæli ég því ekkert.

Svo eru það utanríkis- og varnarmálin. Rússar og þjóðarleiðtogar þeirra búa á margan hátt í óblíðu ytra umhverfi. Þeir búa við harkalegan utanríkispólitískan veruleik. Eitt atriði er sléttlendið, landið er opið og berskjaldað í vesturátt. Útþenslusinnuð veldi hafa notfært sér það, og eftir miðaldir hafa allar innrásir í Rússland komið einmitt úr vestri. Pólsk-litháíska samveldið réðist þar inn í byrjun 17. aldar (hertók Moskvu 1610), Karl 12. Svíakóngur réðist þar inn á 18. öld, Napóleon hundrað árum síðar og Þjóðverjar bæði 1914 og 1941. Sovétríkin misstu a.m.k. 25 milljónir þegna sinna í seinni heimsstyrjöld, og eftirá var vesturhluti landsins eitt blæðandi flagsæri.

Áherslur Rússa í utanríkismálum byggja á þessari sögu. Eftir síðastnefnda hildarleikinn gripu þeir, Sovétrússar, til nokkuð harkalegra ráðstafana, og komu sér upp „stuðpúðabelti“ vestan við sig. Þeir áskiluðu sér þann rétt að tryggja að í belti ríkja vestan þeirra sætu þeim „vinsamleg“ stjórnvöld. Og „vinsamleg“ túlkun á því er sú að það hafi verið meiri öryggisráðstöfun en útþensluráðstöfun. Hafa má líka í huga að lönd eins og Búlgaría, Rúmenía, Ungverjaland og einnig Finnland höfðu verið í bandalagi við Hitler á stríðsárunum. En svarið kom: í beinu framhaldi af stríðslokunum var NATO stofnað til höfuðs Sovétrússum árið 1949, undir bandarískri forustu.

Einstefnan eftir 1990

Síðan liðu fjórir áratugir. Þegar svo „stuðpúðabeltið“ og Warsjárbandalagið var að leysast upp 1990 og semja skyldi um sameiningu Þýskalands aftur og inngöngu þess í NATO voru Sovétleiðtogum gefin hátíðleg loforð: „Þannig verður það með sameinað Þýskaland í NATO. Sú staðreynd að við ætlum ekki að staðsetja NATO-heri handan við landsvæði Sambandslýðveldisins gefur Sovétríkjunum traustar tryggingar um öryggi“, lýsti aðalritari NATO Manfred Wörner yfir 17. maí 1990. https://www.nato.int/docu/speech/1990/s900517a_e.htm 

Já, um hvað var samið við endalok Kalda stríðsins 1990? Der Spiegel skrifaði 26. nóvember 2009:

«Eftir að hafa talað við marga þá sem voru þarna viðriðnir og lagt mat á áður leynileg bresk og þýsk skjöl í smáatriðum hefur DER SPIEGEL komist að þeirri niðurstöðu að enginn vafi sé á að Vestrið gerði allt sem það gat til að gefa Sovétmönnum þá vissu að NATO-aðild væri útilokuð fyrir lönd eins og Pólland, Ungverjaland eða Tékkóslóvakíu». Sjá t.d. hér: https://consortiumnews.com/2016/07/10/europes-nato-ambivalence/

En eftir stutta bið – bið til ársins 1999 – var NATO-ríkjum í Evrópu skjótlega fjölgað um nákvæmlega helming (úr 14 í 28), alveg upp að vesturgluggum Rússlands! Þetta er það sem ég kalla „harkalegan utanríkispólitískan veruleik“, séð frá Moskvu. Valdakerfið í heiminum var „einpóla“, risaveldið aðeins eitt, NATO gleypti „stuðpúðabeltið“. En þegar stærsti granninn á vesturlandamærum Rússlands og næststærsta land Evrópu, Úkraína, gerði sig líklegt til að ganga í NATO ákvað Pútín Rússlandsforseti að reka hnefann hart í borðið og segja hingað og ekki lengra. Gerði það þó ekki fyrr en eftir að valdaskiptin í Úkraínu voru staðreynd.

Valdaskipti sem voru valdarán, litabylting af bandarísku vörumerki með bandarísk stjórnvöld djúpt innblönduð í uppþotið sjálft og takandi ákvarðanir um nýja ráðamenn. Victoria Nuland aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna heimsótti Kiev þrisvar á þeim fimm vikum sem mestu mótmælin stóðu, og stærði sig af margmilljón dollara stuðningi við stjórnarandstöðuna. Ofbeldi á Maidan-torgi vakti andúðarbylgju gegn Janukovitsj forseta. En traustar heimildir eru fyrir því að mesta ofbeldið á torginu kom frá „mótmælendum“ úr öflugum hópum fasista sem voru vel vopnaðir. Í „byltingunni“ var lýðræðislega kjörinn forseti hrakinn  frá völdum. Það gerðist m.a.s. eftir að náðst hafði samkomulag milli forsetans og stjórnarandstöðunnar, um að skipa skyldi þjóðstjórn og flýta kosningum, samkomulag sem utanríkisráðherrar Þýskalands, Frakklands og Póllands ábyrgðust. En næsta dag var valdaránið framið og samkomulaginu nýja hent út um gluggann eftir að vopnaðar sveitir frá Maidantorgi hertóku þingið og forsetinn flúði borgina, og landið. Sjá t.d. https://www.counterpunch.org/2015/04/14/ukraine-the-truth/

Pútín gat sem sagt ekki hindrað valdaskipti í Kiev, og til varð afar andrússnesk ríkisstjórn í Úkraínu. Fyrsta verk hennar var að afnema stöðu rússnesku sem annað opinbert tungumál í landinu (um þriðjungur þegnanna hefur rússnesku sem fyrsta mál, helmingur þegnanna í austurhéruðunum) og þremur mánuðum síðar var Kiev-stjórn komin í stríð við austurhéruðin Donetsk og Lugansk. En Pútín átti a.m.k. eitt svar: Innlimun Krímskaga í Rússland, frá Úkraínu. Þjóðaratkvæðagreiðsla var skipulögð í skyndi á skaganum, reynt var sem sé að framkvæma innlimunina í einhverju samræmi við þjóðréttarlegar reglur (sem vissulega leyfa ekki einhliða breytingar á landamærum). Íbúar Krím hafa undanfarnar aldir verið yfirgnæfandi Rússar og skaginn því sögulega rússneskur. Við upplausn Sovétríkja árið 1991 höfðu Krímbúar (94% þeirra) í þjóðaratkvæðagreiðslu kosið sjálfsstjórnarstöðu sér til handa gagnvart Úkraínu, og höfðu slíka stöðu í fjögur næstu ár þar til Úkraínustjórn felldi það einhliða úr gildi 1995. Það var því vitað mál hvað þeir kysu í mars 2014.

 „Allt breyttist með innlimun Krím“

Íslenska utanríkisráðuneytið skrifaði 2016 í skýringu á stuðningi sínum við refsiaðgerðirnar gegn Rússlandi:  „Innlimun Krímskaga af hálfu Rússlands í mars 2014 og aðgerðir rússneska hersins í austurhluta Úkraínu voru kaflaskil í samskiptum vestrænna ríkja við Rússland frá lokum Kalda stríðsins – og í raun frá lokum síðari heimsstyrjaldar.“ https://www.stjornarradid.is/media/utanrikisraduneyti-media/media/utn-pdf-skjol/utn-hagsmunamat---thvingunaradgerdir.pdf   Þessi staðhæfing utanríkisráðuneytisins er röng þegar gefið er í skyn að innlimun Krím hafi verið upphaf Úkraínudeilunnar og þess vegna verið „kaflaskil“. Innlimunin var ekki upphaf, hún var svar Rússa við því sem ég hef hér nefnt „harkalegan utanríkispólitískan veruleik“. Rússar eru aðþrengdir, umkringdir, höfuðsetnir. Síðasta ógnin var valdaránið í Kiev.  

Staðhæfingin um innlimun Krím sem „kaflaskil“ er hins vegar rétt m.t.t. þess hvernig hún hefur síðan verið notuð af NATO-blokkinni. Innlimunin er helsta ástæða og yfirvarp þeirrar blokkar fyrir víðtækum efnahagslegum refsiaðgerðum sem og hernaðarlegri uppbyggingu gegn Rússlandi. Í hinum vestrænu herbúðum er það túlkað svo að innlimunin hafi fyrst og fremst verið merki um útþenslu- og árásarstefnu Rússa. Og þessi útþenslu- og árásarstefna er sögð ógna bæði nágrönnum Rússlands og Evrópu í heild. Að Pútin geri sig líklegan til að ráðast á Evrópu, hann ógni heimsfriði.

Obamastjórnin brást við hart. John Kerry mælti: „Á 21. öld haga menn sér ekki bara í 19. aldar stíl og ráðast á annað land á fullkomlega fölskum forsendum.“ Utanríkisráðherra BNA hafði efni á slíku tali! Á Krím var fengið efni í nýtt kalt stríð og Bandaríkin fóru að slá taktinn ákaflega. Nokkru síðar hældist Biden varaforseti yfir því að Bandaríkin hefðu neyðst til að kúska Evrópulönd til refsiaðgerða gegn Rússum: „Það er satt, þau vildu ekki gera þetta, en aftur voru það bandarísk stjórnvöld og forseti Bandaríkjanna sem krafðist þess, og nokkrum sinnum urðum við að láta Evrópu skammast sín (we had to embarras Europe) til að fá þau til að standa upp og taka á sig efnahagsleg högg til að valda [Rússum] kostnaði.“ http://eldmessa.blogspot.com/2016/01/russum-refsa-hfur-domari-rettmt-refsing.html

 Hvernig getur litla Ísland hjálpað til?

Í miðjum herbúðum Vestursins standa Íslendingar. Getur litla Ísland lagt stríðinu gegn Rússum eitthvert lið? Jú, aðstöðuna! Á Íslandi er „herinn“ á leiðinni til baka, í Keflavík er að taka á sig mynd varanleg herstöð með sívaxandi herbúnaði og hreyfanlegum herafla frá Bandaríkjunum og NATO. Nokkur hunduruð manns með reglulegu millibili. Sveitir kafbátaleitarflugvéla koma og fara, flugskýli stækkuð og flughlöð. Gámaíbúðir og svefnskálar hermanna í byggingu, fyrir a.m.k. 1000 manns á næstu þremur árum. Árlegar flotaæfingar NATO við Ísland.

En Ísland á að geta lagt herbúðum vestursins til enn meiri aðstöðu í stríðinu við Rússa. Síðastliðið haust kom Robert Burke flota­for­ingi og yf­ir­maður banda­ríska sjó­hers­ins í Evr­ópu í heimsókn til Reykjavíkur. Burke segir banda­ríska her­inn vera að „..íhuga aukna fjár­fest­ingu hér á landi... Hann seg­ir her­inn líta sér­stak­lega til Aust­ur­lands þar sem slík­ur staður væri „hent­ugri“ fyr­ir hernaðaraðgerðr en t.d. höfuðborg­ar­svæðið, vegna ná­lægðar við svæðin sem rúss­nesk­ir kaf­bát­ar at­hafna sig reglu­lega... Ekki er búið að ræða við íslensk yfirvöld um þessi áform en hugmyndinni hefur verið velt upp, að sögn Burke.https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/10/30/skoda_varanlega_vidveru_bandarikjahers/

Flotaforinginn sagði sem sé að Bandaríkjaher liti sérstaklega til Austurlands „vegna nálægðar við svæðin sem rússneskir kafbátar athafna sig reglulega“. Þá er eins og við manninn mælt: Þremur mánuðum seinna hefur Guðlaugur Þór Þórarson utanríkisráðaherra samið frumvarp um breytingu á varnarmálalögum, um margfalda stækkun öryggissvæðisins á Gunnólfsvíkurfjalli niður í Finnafjörð. Tilefni þessarar breytingar á varnarmálalögum er „möguleg uppbygging stórskipahafnar“ í Finnafirði og auðvitað tekur frumvarpið „mið af þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland“ https://neistar.is/greinar/ys-og-thys-ut-af-nato/ 

Ísland reynir alltaf að vera best í bekknum. Óskir Bandaríkjahers og viðbrögð íslenskra ráðamanna ríma alveg. Viðbrögðin fumlaus og hröð.  Þau sýnast vera eftir pöntun. Andstaðan á þingi er engin. Svo er sálfræðihernaðurinn grundvallaratriði: Fjölmiðlarnir með RÚV í fararbroddi teikna upp óvinamyndina, stöðugt skýrari og stöðugt ljótari. Pútín er með Hitlersskegg. Xi Jinping er að fá það líka. Þetta er einfalt, bara að endurvarpa frá helstu fréttastöðvum Vesturblokkar, CNN, CBS, BBC... Þar fáum við NATO-veruleikann. Upplýsingastreymið er miðstýrðara en nokkru sinni. Enginn þarf að hugsa.