Kári skrifar: HVER Á VINDINN? - BRASK MEÐ ALMANNAGÆÐI

         

            Umræða um vindorkuver á Íslandi hefur varla farið framhjá nokkrum einasta manni undanfarna mánuði og ár. Fjölmiðlar hafa greint frá mjög glannalegum áformum um stóra vindorkugarða, oft í eigu erlendra aðila. Þetta er enn einn anginn af botnlausri græðgisvæðingu samfélagsins. Ætlunin er að fórna landsvæði, útsýni og fuglalífi á altari fáeinna braskara og jafnvel fjárglæframanna.  Fjölmiðlar margir eru gagnrýnislausir, segja einungis frá áformunum en tengja þau ekkert við stærra samhengi.

            Eftir því sem áherslan eykst á „græna orkugjafa“ sjá braskararnir sér einfaldlega leik á borði að féfletta almenning, neytendur. Regluverk orkupakka Evrópusambandsins gerir m.a. ráð fyrir því að hinn almenni raforkukaupandi verði virkur þátttakandi í braskinu á eftirspurnarhliðinni með svonefndum snjallmælum. Þannig er reynt að koma braskhugsuninni inn í höfuð sérhvers notanda. Líkist því þegar almenningur var hvattur til þess að kaupa hlutabréf í vafasömum fyrirtækjum og bönkum, árin fyrir hrunið. Sá sem hins vegar þekkir formúlu Dr. William K Black, um virkni glæpabanka, kaupir aldrei slík hlutabréf. Niðurstaðan er í stuttu máli ævinlega sú sama: almenningur tapar (stórtapar) en fáeinir forhertir fjárglæframenn stórgræða.

            Það má vel hugsa sér að „rafmagnsævintýrið“ nái ákveðnu hámarki þegar öllu þakjárni á Íslandi hefur verið skipt út fyrir sólarsellur, þær settar í alla glugga í stað glers og settar hafa verið vatnstúrbínur í þakrennur húsanna [enda getur fallið verið mikið og vatnsmagnið verulegt í „góðu vatnsári“]. Enginn dropi verður látinn fara til spillis.

            Flestir munu lofa regnið sem sem hreina guðsgjöf enda forsenda auðs og velmegunar (sem það er líka í miðlunarlónum) og sem forsenda alls lífs. En þessu til viðbótar komi vindrafstöðvar á þök húsanna og á möstur í görðum þeirra. Þar með eru nánast allir Íslendingar orðnir „raforkubændur“. Menn framleiða, kaupa og selja rafmagn, og taka virkan þátt í „markaðnum“. Bæjarfélög geta einnig sett upp sérstakar „skólpvirkjanir“ þar sem hæðarmismunur lands er nýttur og frárennsli notað til þess að knýja túrbínur. Möguleikarnir eru margir.

Verjast þarf yfirgangi rándýranna

            Fjárglæframönnum má líkja við hýenur, þeir renna á lyktina og „veiða“ í hópum. Þegar álitleg ríkisfyrirtæki eða almannagæði eru annars vegar byrja hýenurnar að hópa sig og undirbúa árás. Þær lúta ákveðnu skipulagi [eru skipulagðar eins og íslenska valdaklíkan] og valda glundroða á vettvangi.

            Oft er talað um einhvern sem „leiði hóp fjárfesta“. Sá aðili hefur sama hlutverk og forystudýrið í „klani“ hýena (alpha female). Vörn almennings felst í samstöðunni, fyrst og fremst. Síðan vantar auðvitað nokkur „karlljón[i] á Alþingi sem veitt geta öfluga viðspyrnu þegar hýenurnar gera árás. En karlljón eru raunverulega einu dýrin sem hýenur hræðast virkilega, meira en nokkuð annað.

            Í stjórnvöldum er yfirleitt ekkert hald. Þau ganga erinda fjárglæframanna í hvívetna og forðast samneyti við almenning (kjósendur); nema í nokkrar vikur fyrir kosningar! Því má heldur ekki gleyma að inn á Alþingi rata oft allnokkrar hýenur líka og þær ráðast yfirleitt ekki gegn öðrum hýenum í sama „klani“.[ii] Þegar feldi „siðmenningar“ hefur verið lyft blasir við áþekk mynd og á sléttum Masai Mara-þjóðgarðsins í Kenya. Þá kemur einnig í ljós að heildarhagsmunir ákveðinna stjórnmálaflokka eru oftast teknir fram yfir hagsmuni einstakra flokksformanna og almennings ef velja þarf á milli. Formönnum er „fórnað“ ef heildarhagsmunir eru taldir ríkari, þ.e. hagsmunirnir af því að halda „klaninu“ (flokknum) saman.

            Nýjasta bráð „hýenanna“ er vindurinn. Enginn umræða hefur þó farið fram á Íslandi um „eignarhald“ á vindinum. Veðurfræðingar geta þar hjálpað til, útskýrt hitabreytingar við Miðbaug og hvernig vindakerfi heimsins virka.[iii] Tæknilega má segja að allur vindur sé sólarorka. Er ætlunin sú að einkavæða sólina líka og afhenda varanleg nýtingarleyfi til fáeinna aðila? Upp koma mörg álitamál um „eignarhald“ á vindi. Á t.d. að miða „eignarhald“ við „upprunastað“ vindsins eða þann stað þar sem vindrafstöð [vindorkugarður] er staðsett, þann stað þar sem vindur er „fangaður“?

            Er vindur almannagæði eða getur hann lotið einkaeignarrétti? Sé vindur almannagæði, sem mun fleiri rök hníga að, vakna spurningar um það hvort þeim sem reka t.d. vindorkugarða beri ekki að greiða auðlindagjald fyrir afnotin af vindinum. Mönnum er oft gert að greiða fyrir margskonar nýtingarrétt. Hvers vegna ætti vindur að vera undanskilinn? Hvernig á að afmarka vind(inn), þannig að falli að lagalegum skilgreiningum?

Hver á vindinn?

            Í fylkinu Wyoming í Bandaríkjunum hefur þessari spurningu verið svarað. Ekki löngu eftir að ljóst varð að öflugir vindar sem blása frá Klettafjöllum (Rocky Mountains) og þvert yfir gresjuna Sagebrush Sea, gætu skilað miklum ágóða, í heimi sem kallar eftir aukinni endurnýjanlegri orku, spurðu menn á löggjafarþingi Wyoming: hver á allan þennan vind?

            Menn komust að þeirri niðurstöðu að Wyoming ætti hann. Í fylki sem alla jafna er ekki þekkt fyrir að íþyngja orkuiðnaðinum var ákveðið að gera nokkuð sem önnur fylki höfðu ekki gert áður; nefnilega að leggja afnotagjald á vindinn. Gjaldið hefur skilað fylkinu tæpum15 milljónum dala í tekjur. Er nú jafnvel áformað að hækka gjaldið.[iv] Þarna er auðvitað um auðlindagjald að ræða, leigu fyrir afnot af vindinum. Nokkuð sem íslenska valdaklíkan hefur aldrei gert af viti gagnvart þeim sem t.d. nýta auðlindir sjávar í íslenskri lögsögu. Íslensku „hýenurnar“ vilja ekki greiða auðlindagjald [nema til málamynda] og þar við situr.

            Á heimasíðu þýska endurskoðunar- og ráðgjafafyrirtækisins Rödl & Partner er m.a. fjallað um eignarhald á vindi. Þar segir að þróun undanfarinna ára sýni að meirihluti vindrafstöðva sé ekki í eigu almennings heldur fagfjárfesta, s.s. banka, tryggingafélaga, fjárfestingarsjóða og annara. Bent er á það að vind megi flokka undir sameign sem rekstraraðilum vindorkuvera standi til boða afnot af gegn sérleyfi og í ákveðinn tíma. Renni sérleyfisgjaldið til viðkomandi sveitarfélags gildi í raun sömu reglur og t.d. um jarðhita þar sem krafist er sérleyfisgjalds á grundvelli námulaga.

            Þá sé og hægt að líta á vind sem eldsneyti sem, vegna mismunandi vindskilyrða, ræður arðsemi verkefna. Það sé því tæplega ásættanlegt fyrir íbúa í nálægð vindorkuvera að sjá eigendur þeirra uppskera 100% hagnaðarins með því að nota „eldsneytið“ frítt, á meðan allt tjónið sem stafar af rekstri veranna, s.s. skuggar og skert útsýni, er lagt á herðar íbúanna.

            Það sé óumdeilt að vindorkuver í eigu almennings, eða í eigu ríkisfyrirtækja, njóti verulega meiri velvildar en vindorkuver í eigu fjárfestingarsjóða. Í ljósi fyrirsjáanlegs skorts á endurnýjanlegum orkugjöfum, ættu eftirlitsaðilar (landsreglarar) sérstaklega að taka þetta til athugunar.

            Undir lok greinarinnar er rætt um flutningskerfi. Þar segir að síðastliðinn áratug hafi mörg sveitarfélög keypt flutningsnet sín aftur, til baka frá einkaaðilum og hafið rekstur þeirra að nýju.[v] Þetta er sannarlega ekki eina dæmið um verulega misheppnaða „einkavæðingu“. Eru kjósendur búnir að gleyma „einkavæðingu“ íslensku bankanna? Er ekki ætlunin sú að endurtaka leikinn í sumar? Hversu oft er hægt að „einkavæða“ sömu fyrirtækin og færa þau síðan gjaldþrota í hendur almennings?

Afl vindrafstöðva

            Aflið [Power] sem verður til með vindorku byggist á eftirfarandi formúlu:

P = π/2 * r² * v³ * ρ * η

            P=afl í vöttum [W]; r= radíus spaða í metrum; v=vindhraði í m/sec; ρ [gríski bókstafurinn hró] loftþéttleiki [1.225Kg/m3]; og η [eta]=nýtnistuðull %.

            Árið 1919 taldi þýski eðlisfræðingurinn Albert Betz, að engin vindrafstöð gæti umbreytt meira en 16/27 (59.3%) af hreyfiorku vindsins í vélræna orku sem snýr rafal. Þetta nefnist Betz-takmörkunin eða Betz-lögmálið. Fræðileg hámarksafköst vindrafstöðvar eru þannig 0.59 sem merkir að 59% eru það hámark orku sem náð verður út úr vindinum. Þetta kallast aflstuðull [Cρmax=0.59].

            En vindrafstöðvar geta ekki skilað hámarksafli yfir langan tíma [veltur á vindhraða]. Cρ-gildið er einnig mismunandi eftir gerðum túrbína og er fall af vindhraðanum sem virkar á túrbínuna. Að teknu tilliti til ýmissa verkfræðilegra krafna, sérstaklega um um styrk og endingu, verða raunveruleg mörk talsvert undir Betz-mörkunum eða nær 0.35-0.45 (35-45%) í best hönnuðu vindrafstöðvunum. Hlutfallið lækkar enn þegar tillit er tekið til þátta sem valda viðnámi, s.s. gírkassa, lega, rafala o.s.frv. Þá getur afl vindsins sem hægt er að umbreyta í rafmagn farið niður í 10-30%.[vi] Það er því ljóst að nýtni vindrafstöðva[vii] veltur á mörgum þáttum.

Vindorkugarðar

            Aukinn áhugi á vindorkugörðum er greinilegur á Íslandi. Nú síðast bárust af því fréttir að breskt fyrirtæki [Hectate Independent Power] hefði lýst áhuga sínum á uppsetningu vindraafstöðva við strendur Íslands. Þar hefur komið fram að ætlunin sé að flytja rafmagnið til Bretlands, væntanlega með sæstreng sem stjórnvöld og stuðningsmenn orkupakka þrjú hafa þó neitað að til standi að leggja.             „Sérfræðingarnir“ við Háskólann í Reykjavík myndu vafalaust halda því fram að þar sem ekkert standi um þessi áform í tilskipunum orkupakka þrjú þurfi ekki að velta þeim fyrir sér. Þarna gildir reglan: „allt sem ekki stendur skrifað í orkupökkunum, getur ekki gerst!“ Ef afleiðingar eru ekki fyrirséðar, þá verða þær ekki. Ófyrirséðar afleiðingar skipta ekki máli enda hvergi skrifað hverjar þær verða! Margir Íslendingar láta ekki sannfærast af „röksemdafærslum“ sem þessum. Þeir sjá hlutina gerast fyrir framan augun á sér.

Mynd 1[viii]:

Uppsöfnuð afkastageta vindafls [GW] á landi þyrfti meira en þrefaldast árið 2030 og næstum tífaldast árið 2050, miðað við árið 2018, til þess að uppfylla loftslagsmarkmið.

Myndin sýnir hnattræna nýtingu vindafls á landi.
vindorka1.JPG

            Ef uppfylla skal loftslagsmarkmið Parísar-samkomulagsins þarf umtalsverða aukningu á vindorku og sólarorku á heimsvísu. Vindorka á landi og hafi myndi nema meira en þriðjungi (35%) af heildar raforkuþörfinni árið 2050.[ix]

Mynd 2[x]:

Árleg aukning vindorku á hafi þyrfti að sexfaldast, í 28 GW árið 2030 og vaxa í 45 GW árið 2050, úr 4,5 GW árið 2018, til þess að ná loftslagsmarkmiðum.

Myndin sýnir hnattræna nýtingu vindafls á hafi.
vindorka2.JPG

            Meðal þess sem horft er til eru fljótandi vindrafstöðvar. Þeim er m.a. ætlaður staður þar sem dýpi er mikið. Áætlað er að 2030 verði á bilinu 5-30 GW af rafmagni framleidd þannig á heimsvísu, eða um 5-15% af allri vindorku sem nýtt er á hafi (offshore). Það eru næstum 1.000 GW fyrir árið 2050.

[Vindrafstöðvar undan ströndum]

Almenning munu þau finna í fjöru,

fullveldissöluklíka.

Rafmagnið kalla svo verslunarvöru,

vindinn auðvitað líka.

Að lokum

            Orkumálin og vindrafstöðvar (vindorkuver) á að ræða nú sem aldrei fyrr í aðdraganda kosninga til Alþingis. Örugglega verður þess ekki langt að bíða að þeir sem styðja gervisamkeppni og gervineytendavernd á raforkumarkaði kveði upp úr um það að vindurinn sé „auðvitað eins og hver önnur vara sem notuð sé til þess að framleiða aðra vöru, rafmagn“. „Almannatenglarnir“ sem nú vilja inn á þing verða ekki lengi að „sjóða saman“ speki sem þessa. Hver hefur jú ekki séð veðurfregnir í sjónvarpi einmitt sem „vörukynningu“? Þarf ekki gefa út „græn upprunavottorð“ vinds? Hver er uppruni vindsins sem tiltekin vindrafstöð nýtir? Er ekki rétt að kalla veðurfræðinga að borðinu og hanna „grænt kerfi“ utan um þetta? Er boðlegt að framleiða rafmagn með „óhreinum vindi“ sem jafnvel hefur blásið í menguðum ríkjum?

            Þróun sögunnar er ekki óhjákvæmileg. Hún er afleiðing af ákvörðunum og gerðum manna. Uppsetning vindrafstöðva og vindorkuvera er málefni þjóðarinnar allrar, ekki fáeinna braskara og fjárglæframanna. Það er ekki nóg fyrir stjórnmálamenn að brosa í myndavélar. Fjölmiðlum á heldur ekki að líðast að leiða fram „prófessora“ sem reyna að skapa ímynd um „sjálfvalda“ leiðtoga í stjórnmálum. Það þarf að kjósa, enginn er „sjálfvalinn“. Alvöru stefnu skortir og alvöru dómgreind, ekki meiri sýndarmennsku.

[i]      Sjá einnig: Unbelievable Male Lions Kill Hyena In Kruger National Park. (2020). [Video]. https://www.youtube.com/watch?v=ThYUTri7XY8

[ii]    Sjá þó t.d.: A Hyena Queen Deposed | Animal Fight Night. (2017). [Video]. https://www.youtube.com/watch?v=Pi3zJIW9OQU

[iii]   Sjá t.d.: Arthur, M. and Saffer, D. Global Wind Explained. The Pennsylvania State University. https://www.e-education.psu.edu/earth111/node/1013

[iv]    Yardley, W. (2016). Who owns the wind? We do, Wyoming says, and it’s taxing those who use it. Los Angels Times. https://www.latimes.com/nation/la-na-sej-wyoming-wind-tax-snap-story.html

[v]     Imolauer, K. (2017). Who owns the wind? Rödl & Partner. https://www.roedl.com/insights/renewable-energy/2017-11/who-owns-wind

[vi]    Sjá t.d.: Wind Turbine Power Calculations RWE npower renewables Mechanical and Electrical Engineering Power Industry. The Royal Academy of Engineering. https://www.raeng.org.uk/

[vii]  Sjá til samanburðar: How much hydropower power could I generate from a hydro turbine? Renewables. https://www.renewablesfirst.co.uk/hydropower/hydropower-learning-centre/how-much-power-could-i-generate-from-a-hydro-turbine/

[viii] IRENA (2019), Future of wind: Deployment, investment, technology, grid integration and socio-economic aspects (A Global Energy Transformation paper), International Renewable Energy Agency, Abu Dhabi.

[ix]    Ibid.

[x]     Ibid.

Fréttabréf