Beint á leiđarkerfi vefsins

Frjálsir pennar

18. Nóvember 2015

Jón Snorri Ásgeirsson skrifar: ENN UM RÁĐHERRA HEILBRIGĐIS-MÁLA SEM TEKUR Á ÁFENGIS-VANDANUM MEĐ SÍNU LAGI

Í stórum dráttum samhljóða grein sem birtist á vef Ögmundar Jónassonar 18. október 2015. Helsta breytingin er sú að kaflinn HVAÐ Á FÓLK AÐ LÁTA SÉR FINNST UM SVONA MÁLFLUTNING? hefur verið endursaminn að mestu og lengdur.

Hinn 7. maí 2015 voru  Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, og Valgerður Rúnarsdóttir, læknir á sjúkrahúsinu Vogi, gestir í hlaðvarpsþættinum Hip hop og pólitík á vef Vísis. Í dagskrártilkynningu stendur að þau hafi m.a. rætt um áfengis- og vímuefnastefnu stjórnvalda og hugbreytandi efni.

Ráðherrann upplýsti að hann hefði stutt það að áfengislagafrumvarp var lagt fram haustið 2014 af þrettán alþingismönnum, sjö vígreifum sjálfstæðismönnum af báðum kynjum og nokkrum einföldum og hrekklausum sálum úr öðrum flokkum, samtals rúmlega fimmta hluta þingheims. Það var semsagt ekki ákveðið gegn vilja ráðherrans sem fer með heilbrigðismál í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs!

„Ég studdi það að þetta yrði lagt fram og fengi umfjöllun í þinginu," sagði ráðherrann.

Ekki fer á milli mála að ýmsir létu sér fátt um finnast þegar sú umfjöllun fór af stað og hugsuðu sem svo: Sjálfstæðisflokkurinn enn við sama, gamla heygarðshornið. Er þetta ekki orðið ansi lúið?

Hins vegar er ekki nokkur vafi á að þingmennirnir fimm og átta hafa fagnað undirtektum ráðherrans þótt hann að vísu tæki ekki fram hvort hann hygðist greiða atkvæði með frumvarpinu. Ekki virðist samt mikil hætta á að það bregðist: hann var einn af aðstandendum áfengislagafrumvarpsins 2007!

Í fréttum Vísis 11. júlí 2014 var greint frá því að enn eitt frumvarpið væri í uppsiglingu, og þessu bætt við:

„Álíka frumvörp hafa MARGOFT (leturbr. mín jsá) verið lögð fram áður. Þingið 2007-2008 var svipað frumvarp lagt fram og voru fjórir núverandi ráðherra flutningsmenn þess. Bjarni Benediktsson, Illugi Gunnarsson, Kristján Þór Júlíusson og Ragnheiður Elín Árnadóttir.
"

Hér verður ekki fjallað ítarlega um þá hneykslun sem ráðherrann, æðsti maður heilbrigðismála hér á landi, hefur kallað yfir sig með yfirlýsingu sinni, einungis minnt á hve ámælisverð hún er og gjörsamlega fáránleg í ljósi alls þess sem nú er vitað um hættulegar afleiðingar aukins aðgengis, bæði vegna beinnar reynslu af því víða um lönd og vegna þess að viðamiklar rannsóknir sýna að ungu fólki stafar miklu meiri hætta af víni en áður var talið. Ungmenni sem leiðast út í slark eiga það á hættu að greindarvísitalan verði lægri en efni standa til. Sumt af þessu unga fólki fær skorpulifur þegar fram líða stundir, og svo er að sjá sem óregla á unga aldri sé algengasta orsök vitglapa sem hefjast snemma, þ.e. fyrir 65 ára aldur (Young-Onset Dementia, YOD).

Glöpin munu skýrast af því að heilinn nær að jafnaði ekki fullum þroska fyrr en upp úr tvítugu, og fram að því er sérstök hætta á ferðum ef áfengis er neytt að einhverju ráði.

RÁÐHERRANN LEGGUR FRAM SÍN RÖK Í MÁLINU

Í umfjöllun sinni setti ráðherrann fram eftirfarandi athugasemd sem óneitanlega er ofurlítið ýkjukennd: „Ég held að hvaða Íslendingur sem er geti í rauninni nálgast áfengi hvar og hvenær sem honum dettur það til hugar." Þessi orð áttu væntanlega að sannfæra fólk um að engu máli skipti hvort aðgengið er mikið eða lítið, glórulaus alhæfing ætluð þeim sem ekki nenna að hugsa um málið. Reyndar gæti þessi lýsing átt ágætlega við ef frumvarpið verður samþykkt og aðgengið eykst til muna eins og eðlilegt virðist að gera ráð fyrir.

Látum nægja að segja að þetta hafi ekki verið merkilegt innlegg í umræðuna.

Ráðherranum þótti alveg nóg um umsvifin hjá ÁTVR og hafði þetta um þau að segja: „Það er verið að opna vínbúðir út og suður um allt land og auglýsingar og svo framvegis og svo framvegis og þetta er farið að starfa sem í rauninni hvert annað fyrirtæki á markaði."

Samkvæmt upplýsingum ÁTVR hefur lítið verið að gerast á seinni árum. Útþenslan í fyrra var í því fólgin að búð var opnuð á Kópaskeri. Á þessu ári verður vínbúðin í Spönginni enduropnuð, en henni var lokað 2009. Búðinni í Garðabæ var lokað 2011.

Þetta með auglýsingarnar virðist ekki alveg í samræmi við veruleikann. Enginn kannast við að ÁTVR hafi nokkurntíma auglýsi vörur sínar, enda er það viðurkennt í greinargerðinni með frumvarpinu. Þar stendur skýrum stöfum: „ÁTVR sinnir hlutverki sínu af ábyrgð, t.d. eru engar söluhvetjandi aðgerðir leyfðar."

Hvað ráðherrann átti við með orðunum „og svo framvegis og svo framvegis" er ekki ljóst.

Ráðherrann hélt áfram og bætti við: „Flestar stofnanir á mínum vegum og fagfélög sem álykta gegn þessu og ég held að það beinist miklu fremur að neyslu áfengis fremur heldur en því beinlínis hver er að rétta þetta, eða afgreiða, raunar, við kassann." Þetta var sérkennileg túlkun og það er erfitt að ímynda sér að þessir aðilar hafi í þessu tilviki bara verið að álykta gegn áfengisneyslu almennt. Ætli hitt sé ekki líklegra að þeim sé ekki alveg sama hverjir það eru sem rétta veigarnar yfir borðið.

Því má bæta við að samkvæmt fullyrðingu fjármálaráðherrans í eldhúsdagsumræðunum í byrjun október skiptir engu máli hverjir það eru sem rétta bokkurnar yfir borðið. Það var það eina sem hann hafði um málið að segja. Eins og allir sjá heldur hann sig á sama lága planinu og félagi hans í Heilbrigðisráðuneytinu.

NÁNAR UM AUKIÐ AÐGENGI

Ráðherranum blöskrar alveg fyrirferðin á ÁTVR eins og áður kom fram. Vel má vera að aðgengið sé óþarflega mikið þar á bæ, en varla myndi það minnka við markaðsvæðingu sölunnar. Í því sambandi mætti kannski rifja upp ummæli Vilhjálms Árnasonar í morgunviðtali í Ríkisútvarpinu 10. mars síðastliðinn: „Það er oft talað um að það sé verið að gera þetta til að setja þetta í matvöruverslanir, en svo er ekki. Þetta má vera í sérvöruverslunum og má vera til dæmis í ostabúðum eða þess vegna blómabúðum, þannig að þetta er ekkert bundið við matvöruverslanirnar." Vilhjálmur er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.

Ölkærir sjá fyrir sér að brátt renni upp betri tíð: Stressaðir iðnaðarmenn sem eiga erindi í Byko eða Húsasmiðjuna fá sér um leið eitthvað sem hjálpar þeim að komast í gegnum daginn, bókavinir kaupa sér koníakspela og nýjustu bókina hans Arnalds hjá Eymundsson eða Máli og menningu, Reykvíkingur sem ætlar að aka austur á Egilsstaði kaupir bensínið og bjórinn til fararinnar hjá N einum.

Tekið er fram í greinargerðinni með frumvarpinu að „Ekki [sé] ólíklegt að aukið aðgengi að áfengi hafi aukin áfengiskaup í för með sér, a.m.k. til byrja með" verði það samþykkt. Þarna er aldeilis ekki djúpt tekið í árinni! Í framhaldinu er því svo slegið fram með einkennilega þokukenndu orðalagi að neyslan myndi „líklega" dragast „eitthvað" saman aftur. Þarna höfum við það svart á hvítu: Þingmennirnir (ásamt ráðherra heilbrigðismála) sætta sig ágætlega við þær horfur að neyslan aukist með tilheyrandi áfengisböli og heilsutjóni, og ef hún minnkar aftur, sem þó er alls ekki víst, fer hún ekki niður á fyrra stig.

Sú kenning að aukin neysla gangi hugsanlega lítið eitt til baka eftir stuttan tíma án þess að dregið sé úr aðgenginu kemur illa heim og saman við erfiða og afar sársaukafulla reynslu Breta og fleiri Evrópuþjóða. Sumt af því sem kemur upp á skjáinn ef gúgglað er saman, til dæmis, UK alcohol deregulation, er hreint og beint skelfilegt.

Að aðgengið gæti aukist gríðarlega (jafnvel margfaldast) og neyslan rokið upp úr öllu valdi, samanber það sem gerst hefur í Bretlandi og víðar, er einmitt það sem gagnrýnendur frumvarpsins óttast mest.

Guðbjartur Hannesson (í beinskeyttri smágrein um frumvarpið, Hagsmunagæsla á kostnað almennings, DV 3. mars 2015) segir meðal annars: „Bent er á að fjöldi sölustaða gæti tífaldast." Ef þingmennirnir og ráðherrann hefðu kynnt sér rannsóknir á því hver yrðu áhrif haftalosunar í löndum með svipaðar takmarkanir og tíðkast hér, hefðu þeir séð síst lægri tölur en þá sem Guðbjartur nefndi.

Jafnvel þótt þessi ískyggilegu orð Guðbjarts heitins rættust ekki öll væri það samt alveg grafalvarlegt mál. En hvað ef háleitar hugsjónir Vilhjálms Árnasonar verða að veruleika? Það er umhugsunarefni hvaða afleiðingar það hefði ef neyslan ykist til dæmis um 10% vegna fjölgunar sölustaða - hversu mörg mannslíf færu í súginn beinlínis vegna þess? Þorum við að hugsa um 15 - 20%, eða jafnvel ennþá meiri aukningu? Við ættum kannki að búa okkur undir það.

Þótt fjölgun sölustaða, og þarmeð söluaukningin, yrði ekki nema örlítil væri það samt of mikið.

Hví skyldum við taka áhættuna? Hvaða áhættu? Væri ekki nær að tala um fulla vissu?

Þegar talið barst að samdrætti í reykingum kom greinilega í ljós á hverra bandi ráðherrann er. Valgerður Rúnarsdóttir gerði ágætlega grein fyrir þróun þeirra mála og þakkaði árangurinn fyrst og fremst verðhækkunum og skertu aðgengi, en ráðherrann vildi sem minnst af því frétta og lagði á það þunga áherslu að fræðslustarf landlæknis og fleiri aðila hefði skipt meginmáli.

Hina kostulegu afstöðu ráðherrans verður að skoða í ljósi þess að forvarnarþvættingurinn í greinargerðinni með frumvarpinu, með hinu afspyrnufáránlega ákvæði um tveggja ára sérstakt átak í upphafi („til þess að bregðast við þeim tímabundnu breytingum (leturbr. mín jsá) sem kunna að verða á áfengisneyslu eftir að smásala á áfengi verður gefin frjáls," eins og segir í greinargerðinni), er einmitt það sem á að fá fólk til að trúa því að það sé alveg í fínasta lagi að ÁTVR hætti að selja áfengi og fjárplógsmenn sjái um það framvegis.

Það kann vel að vera að Landlæknisembættið hafi staðið sig vel í forvörnunum, en almennt munu menn sammála Valgerði um að verðið á tóbakinu ásamt tiltölulega erfiðu aðgengi hafi ráðið úrslitum, en ekki fræðslustarfið.

Varla þarf að vekja athygli á því að auðmennirnir myndu hirði gróðann af áfengissölunni en engan þátt taka í varnaraðgerðunum. Til þess þyrfti opinbert fé. Ekki þarf mikla spádómsgáfu til að sjá, að verði salan markaðsvædd, kemur í beinu og rökréttu framhaldi af því frumvarp um áfengisauglýsingar til að núlla út allar forvarnir, þar með taldar forvarnirnar sem fengjust fyrir þá hækkun framlags til lýðheilsusjóðs sem lögð er til í frumvarpinu.

MERKILEG YFIRLÝSING

En ráðherranum lá fleira á hjarta.

Hann bætti því við að hann væri í ákveðinni tilvistarkreppu sem sjálfstæðismaður (ekki sem heilbrigðisráðherra?) vegna þess að „ ... meðferðin á þessu máli ... er í grunninn sú að þetta [er] fyrst og fremst spurningin um það hvort þetta eigi að vera ríkisstarfsmenn, opinberir starfsmenn, sem að annist um söluna á þessu eða hvort við eigum [að] láta einhverja aðra úti á almennum markaði vinna með þetta."

Þetta hljómar allt saman afar einkennilega. Hafi ráðherrann lent í meiriháttar sálarháska fór það alveg framhjá hlustendunum því ekki var annað að heyra en að hann væri í ágætu stuði.

Sjá menn fyrir sér að frumvarpið sem hann fagnaði svo innilega á sínum tíma, og er í stíl við frumvarp sem hann sjálfur lagði fram ásamt öðrum fyrir nokkrum árum, sé farið að halda fyrir honum vöku? Er hugsanlegt að hann hafi um síðir áttað sig á að ekki fari vel á því að ráðherra heilbrigðismála styðji frumvarp um áfengismál sem er fullkomlega óverjandi út frá öllum lýðheilsulegum viðmiðum? Eigum við að trúa því að hann kveljist mikið því innst í hugarfylgsnum sínum langi hann til að hafna sótthitakenndum nýfrjálshyggju-órum flokksystkina sinna?

Hvernig sem þetta mál er vaxið hljóta menn að velta því fyrir sér hvort er framar í forgangsröðinni hjá ráðherranum, hollustan við Sjálfstæðisflokkinn eða skyldutilfinningin gagnvart embættinu sem hann gegnir.

HVAÐ Á FÓLK AÐ LÁTA SÉR FINNAST UM SVONA MÁLFLUTNING?

Það sem ráðherran sagði var alveg afdráttarlaust. Hann sá ekki neina vankanta á frumvarpinu og gaf ekki mikið (þ.e.a.s. ekki neitt) fyrir gagnrýnisraddirnar.

Umfjöllun ráðherrans um frumvarpið og ÁTVR hefur nú verið rakin (og hrakin) hér að ofan  (ráðherrann leggur fram rök sín í málinu), en niðurstöður hans voru þessar:

 • „ ... ég held að aðgengið ... sé ekki sú hindrun að það sé í grunninn það sem að stoppi þetta því að ég held að hvaða Íslendingur sem er geti í rauninni nálgast áfengi hvar og hvenær sem honum dettur það til hugar"
 • „ ... það er verið að opna vínbúðir út og suður um allt land ..." og ÁTVR líkist helst markaðsfyrirtæki
 • ÁTVR auglýsir áfengið

Þessir þrír punktar voru nánast allt sem ráðherrann hafði um frumvarpið og ÁTVR að segja - sérkennilegar staðhæfingar sem ekki myndu beinlínis styðja kröfur þeirra sem vilja markaðsvæðingu (ef við gæfum okkur að þær væru sannar). Varla væri þörf á slíkri kúvendingu, með stórauknu framboði og tilheyrandi auglýsingahryllingi, ef eitthvað væri hæft í því að ÁTVR gangi svona hart fram í sölumennskunni.

Allir sem eitthvað hafa fylgst með þessum málum vita að staðhæfingar ráðherrans eru út í loftið, og nú er spurt: Hvers vegna styður hann frumvarp sem telja má víst að efli neyslu áfengis til frambúðar verði það að lögum? Hvers vegna beitir hann sér ekki gegn því í stað þess að fara í fjölmiðlana með innihaldslaust þvaður og hrein ósannindi til að villa um fyrir almenningi?

Þessi sami almenningur veltir því fyrir sér hvernig ráðherrann hugsar þetta allt saman? Hann hlýtur að hafa einhverja hugmynd um óhjákvæmilegar afleiðingar markaðsvæðingarinnar þótt hann hafi ekki nefnt það einu orði í Hip hop viðtalinu:

 • sölustöðum fjölgar mikið
 • neyslan eykst verulega og varanlegt
 • ungt fólk verður fyrir miklum áföllum og óvíst hvort skaðinn kemur allur í ljós fyrr en eftir nokkra áratugi - jafnvel eftir áratuga bindindi
 • fleiri mannslíf fara í súginn með margvíslegum hætti
 • fleiri fjölskyldur leysast upp
 • fleiri börn verða illa úti félagslega eða lenda á hrakhólum
 • fleiri börn alast upp á óregluheimilum - þau eru líklegri til þess en önnur börn að leiðast út í drykkjuskap og eiturlyfjaneyslu síðar meir
 • afbrotum (ofbeldisglæpum, umferðalagabrotum, o.sv.frv.) fjölgar mikið
 • auglýsingafarganið sem þjakar landsmenn mikið nú þegar versnar enn

Vel væri hægt að hafa þennan lista miklu lengri.

Það er semsé erfitt að trúa því að þekkingarskortur ráðherrans, sem ef til vill er mikill að umfangi, komi í veg fyrir að hann fordæmi þetta brambolt allt saman eins og honum þó ber, og það er fróðlegt að verða vitni að því hvernig höfuðsmaður íslenskra heilbrigðismála leggur sig í framkróka - með sínum hætti - til að telja fólki trú um að stórhættulegt áfengislagafrumvarp sé nú alls ekki svo slæmt.

Það væri sömuleiðis fróðlegt að komast að því hvernig færi fyrir ráðherranum ef hann setti sig upp á móti frumvarpinu. Yrði hann settur út af sakramantinu af flokksforystunni?  Þá yrði tilvistarkreppa.

Aðferð ráðherrans er sú að hann talar í notalegum rabbtón eins og málefnið sé nú ekkert sérstaklega mikilvægt og engin ástæða til að mölbrjóta í sér heilann út af því. Gott dæmi er það sem vitnað var í hér að ofan: „ ... hvort þetta eigi að vera ríkisstarfsmenn ... eða hvort við eigum [að] láta einhverja aðra úti á almennum markaði vinna með þetta..." og svo fylgdu undarlegar vangaveltur um að aðgengið sé hvort sem er svo mikið og að ÁTVR sé hvort sem er eins og markaðsfyrirtæki. Skilaboðin eru eitthvað á þessa leið: Sopinn er að sjálfsögðu jafn góður sama hver á vínbúðina, og hví skyldu menn þá vera að æsa sig út af lítilfjörlegu aukaatriði eins og markaðsvæðingu ÁTVR.

TAKIÐ EFTIR! Það sem ráðherrann lét hafa eftir sér um orsakir minnkandi reykinga (sjá hér að ofan) var örugglega gegn betri vitund. Hann er tæpast svo skyni skroppinn að hann skilji ekki pottþétta og almennt viðurkennda niðurstöðu Valgerðar Rúnarsdóttur.

AFSTAÐA LANDLÆKNIS

Birgir Jakobsson landlæknir er ekki alveg eins spenntur fyrir frumvarpinu og heilbrigðisráðherrann. Í viðtali sem Fréttablaðið átti við Birgi 15. maí 2015 kemur þetta fram: „ ‚Ég hef ekki verið hér lengi en mér finnst eins og íslenskt hugarfar einkennist af svolítilli léttúð. það er mikil hugmyndafræðileg frjálshyggja í þessu samfélagi (leturbr. mín jsá). Jafnvel þegar hún gengur inn á svið sem gengur gegn lýðheilsu þá segja ráðamenn bara allt í lagi og loka augunum fyrir því,‘ og [Birgir] vísar í áfengisfrumvarp og afnám tolla á sykur. ‚þetta stangast hvort tveggja algerlega á við öll þekkt markmið um lýðheilsu og heilbrigði almennings (leturbr. mín jsá).‘ "

Á SJÖ ÁRA FRESTI

Sjálfstæðisflokkurinn hefur stefnt að því áratugum saman að markaðsvæða áfengissöluna fyrir klíkuna sem gerir hann út. Hann hefur hvað eftir annað lagt fram frumvörp þar um, samanber Vísisfréttinni hér að ofan, nú síðast í tvígang með sjö ára millibili. Ef áhlaupinu sem hófst síðla árs 2014 verður hrundið, er vísast að blásið verði til næstu stórsóknar Sjálfstæðisflokksins og hinna leiðitömu samherja eigi síðar en á árinu 2021.

En þá kemur upp spurningin hvort bandaríska smásölukeðjan COSTCO sættir sig við svo langa bið. Mörgum fannst það ákaflega óviðeigandi að Nefndasvið Alþingis neitaði ekki að taka við umsögn COSTCO um frumvarpið í nóvember 2014, og nú er spurt hvort eitthvað sé hæft í því að fyrirtækið hafi á æðri stöðum fengið ádrátt um afnám hafta á sölu áfengis fyrir opnun verslunar (risaverslunar segir RÚV) í Garðabæ sem líklega fer senn að styttast í.

LOKAORÐ

Þó menn voni að allt fari vel eru sumir uggandi því við ýmsu má búast af löggjafarsamkundu þar sem harðsnúið lið barðist fyrir því í nokkur ár að klukkan yrði, í þágu utanríkisviðskiptanna, færð til um heila klukkustund svo sól yrði í hádegisstað í Reykjavík um klukkan hálfþrjú og sex ára börn færu í skólann fyrir sólarupprás mánuðum saman á hverjum vetri í Reykjavík. Það er sama samkundan og sú er á sínum tíma lögleyfði barsmíðar og líkamsmeiðingar undir samheitinu hnefaleikar.

Sjálfstæðisflokkurinn er skaðræðisskepna og það er löngu kominn tími til að kveða hann í kútinn. Það liggur mikið við að góðir menn og góðar konur sem kunna að halda á penna og koma fyrir sig orði fordæmi fyrirliggjandi áfengislagafrumvarp og önnur óhæfuverk hans.

er ekki kominn tími til að mótmæla á Austurvelli?

 


Bréf til síđunnarRSS Fréttaveita

Frá lesendum

19. Maí 2018

SVO ER ÖNNUR TEGUND FROĐUFRÉTTA

... Þakka pistilinn um daginn um hvernig fjölmiðlamenn forheimska opinbera umræðu um stjórnmál með að slá upp fyrirsögn um ýmis mál og með viðbótinni "segir stjórnmálafræðingur" í meginmáli. Í aðdraganda kosninga halda þeir sínu striki með þetta en bæta við annarri tegund froðufrétta sem felst í því að skrifa fyrirsögn hvern dag um hvort meirihlutar standi eða falli. Í meginmáli er síðan vísað til skoðanakannana. Sífelldar fréttir af skoðanakönnunum er sennilega einföld leið til að fylla síður blaða og framkalla uppgerða spennu í stað þess að taka til umfjöllunar viðfangsefni stjórnmála og mikilvægi almannaþjónustu fyrir lífskjör. Aukið vægi ...
Sigfinnur

18. Maí 2018

BARNAVERNDAR-MÁL EIGA BETRA SKILIĐ EN AĐ RÁĐIST SÉ GEGN EFTIRLITS-AĐILUM

Sæll Ögmundur. Takk fyrir góða og tímabæra grein þína um fréttaflutning af barnaverndarmálum. Ég var rétt í þessu að lesa einkar einkennilega grein eftir Auði Jónsdóttur á vef Kjarnans, en hún virðist ímynda sér að ábending þín í lok greinarinnar um möguleg tengsl blaðamanns Kjarnans og aðila sem barnaverndarmálum - að þarna sé að finna tengsl ekkert síður en annars staðar - sé megininntakið í umfjöllun þinni. Það er afskaplega undarlegur málflutningur, órökvís og óheiðarlegur, og mér finnst þessi mikilvægi málaflokkur eiga betra skilið en slíka útúrsnúninga. Maður veltir fyrir sér ...
Þorsteinn Siglaugsson 

16. Maí 2018

GETUR EKKI ORĐA BUNDIST

Var að lesa það sem félagi Einar Ólafsson ritar. Eg get ekki orða bundist: Að jafna einni skelfilegustu harðstjórn sem mannkynið hefur nokkru sinni upplifað við Evrópusambandið botna eg ekkert í. Evrópusambandið hefur verið byggt á grundvallarmannréttindum og að útfæra lýðræði á kannski eitthvað öðruvísi hátt en íhaldinu á Íslandi hugnast. Í mínum augum er fáni Evrópusambandisin tákn um betra lýðræði og aukin mannréttindi. Og að ala á tortryggni gagnvart því sem vel hefur verið gert skil eg ekki. Vilja menn þessa endalausu vitleysu með þennan efnahagsleik með ...
Guðjón Jensson

4. Maí 2018

MÁLAVEXTIR OG MĆĐRAHYGGJA

Ég þakka þér fyrir að greina frá allri þessari uppákomu í Velferðarráði varðandi hæfni Braga. Er það ekki rétt skilið að afskipti Braga snéru aðeins að því að amman fengi að umgangast barnabörn sín áður en hún dæi? Og eins og þú segir, hefði verið ámælisvert og vanræksla ef Bragi hefði ekki haft afskipti af því. Það hefur nú komið fram að ástæða hefur verið til að Barnaverndarstofi skipti sér af/komi með athugasemdir á starfsháttum barnaverndarnefnda á t.d. höfuðborgarsvæðinu í gegnum tíðina, eins og hefur komið fram í fjölmiðlum. Ég leyfi mér að vitna í eftirfarandi: "Í umræðu sem spannst um þessa lagasetningu og aðkomu mína að henni var ég harðlega gagnrýndur fyrir að draga taum mæðra - væri mæðrahyggjumaður eins og ...
Ari Tryggvason

15. Apríl 2018

SITT SÝNIST HVERJUM

Ögmundur minn kæri. Ég hefi nú um langt skeið ekki tjáð mig varðandi mál líðandi stundar. Ég get þó ekki orða bundist hversu harkalega öfl innan VG fara gegn Katrínu okkar Jakobsdóttur. Mér finnst helv hart hversu sú er við tók af þér og ég veitti brautargengi á sínum tíma fer grimmilega fram gegn okkar frábæra formanni og kann ég henni litlar þakkir fyrir. Auðvitað stöndum við öll gegn beitingu vopnavalds og ég tala nú ekki um beitingu efnavopna, en mér finnst aðallega vera mesti hávaðinn eftir að Trump og co fóru fram og eyðilögðu efnavopnaverksmiðjurnar, þessi háværu mótmæli voru ekki mjög svo í frammi þegar Rússar og stjórnvöld í Sýrlandi voru að berja á þjóðinni. ...
Óskar K Guðmundsson fisksali

14. Apríl 2018

UTANRÍKIS-NEFND ALŢINGIS TAKI AF SKARIĐ

Albert Jónsson fyrrverandi sendiherra og núverandi fréttaskýrandi RÚV, segir í fréttum að samkvæmt foringja NATÓ styðji Ísland árásirnar á Sýrland, það standi þar til annað verði sagt. Um þetta hlýtur utanríkismálanefnd Alþingis að greiða atkvæði þegar hún kemur saman eftir helgi - eða hvað?
Jóel A.

14. Apríl 2018

LÍĐUR STRAX BETUR EN SPYR SAMT HVORT ENGIN TAKMÖRK SÉU FYRIR RUGLINU

Mér líður strax betur eftir að hlusta á fréttir RÚV og Stöðvar 2 af árásunum á Sýrland.Trump skýrði fyrir okkur hvers vegna árásirnar voru nauðsynlegar og síðan komu Guðlaugur utanríkisráherra og Katrín forsætisráðherra og sögðust hafa skilning á árásinni, hún  hefði verið "víðbúin", sagði forsætisráherra. Albert Jónsson, fyrrverandi sendiherra mætti svo í fréttir til að segja að engin stórhætta væri á ferðum, árásarþjóðirnar ætluðu ekki að fara að blanda sér í átökin í Sýrlandi, það hefði aldrei verið vilji til þess af þeirra hálfu!!! En herskipin halda áfram að safnast við Sýrlandsstrendur og Trump segir að Bandaríkjamenn séu tilbúnir að halda árásum áfram. Hann talar fyrir hönd ríkis sem tekið hefur þátt í stríðinu og ausið milljörðum til stðunings leppherjum sínum ... Eru engin takmörk fyrir ruglinu? ...
Jóhannes Gr. Jónsson

11. Apríl 2018

TIL UPPRIFJUNAR

Var fyrst núna að hlýða á viðtalið á Kjarnanum í kjölfar fundarins við V. Beeley. Verð að segja að ég dáist að þolinmæði þinni, æðruleysi og staðfestu gagnvart þessum blessuðum, að mér finnst ófaglegum frétta-gösprurum. Ég sá að Z.Brzezinski lést í maí síðastliðnum, vissi það ekki. Set þessa þýðingu á viðtali við hann á Le Nouvel Observateur 1998 þar sem hann viðurkennir að stuðningurinn við Mujahiddin hófst 1/2 ári fyrir innrás Sovétríkjanna inn í Afganistan. Við hæfi að ...
Ari Tryggvason

7. Apríl 2018

ÉG ER Í LIĐI GUĐS, ŢÚ SATANS

Egill Helgason hefur farið mikinn um fréttaflutning frá Sýrlandi síðustu daga. Hann komst að því eftir að reyndur blaðamaður sendi honum ábendingu að þeir sem ekki eru sama sinnis og almennt gerist skapi vísvitandi upplýsingaóreiðu svo réttsýnir menn missi sjónar á veruleikanum og glati trú á réttum málstað ...Það eru margar sjálfstæðar heimildir til að véfengja túlkun hernaðarvelda vesturlanda um Sýrlandsstríðið. Viðbrögð þeirra Egils og Boga um að veröldin sé ekkert flóknari en Nató-línan gefur í besta falli til kynna ...
Árni V.

7. Apríl 2018

EINHVER ÚR NĆR-UMHVERFINU, GEOGRAFÍSKU EĐA ANDLEGU

Veistu eftir hverjum þetta er haft? Þakka þér svo fyrir góða grein. "...að háskalegt væri að rugla fólk í ríminu með tali af þessu tagi; almenningur gæti hætt að trúa alþjóðlegum fréttamiðlum ef bátnum væri ruggað um of og vísað var í enn aðra „sérfræðinga" sem sögðu að ekkert alvörufólk tæki Vanessu Beeley alvarlega,..."
Ari Tryggvason


BSRBVGAlţingi

Póstlisti

Hér ađ neđan geturđu skráđ ţig á póstlista Ögmundar. Skráđir ađilar fá reglulega sent fréttabréf í tölvupósti.
Afskrá | Breyta skráningu

Frjálsir pennar

10. Apríl 2018

Hrafn Magnússon skrifar: LEIFTURSÓKN FRÁ HĆGRI

Fyrir nokkru las ég bók Þorleifs Óskarssonar, sagnfræðings, um SFR, stéttarfélag í almannaþjónustu. Félagið hét reyndar SFR, starfsmannafélag ríkisstofnana, þegar ég gegndi framkvæmdastjórastörfum fyrir félagið á árunum 1973 til 1975. Bókin kom út í apríl á liðnu ári og er heiti hennar  „Saga baráttu og sigra í sjötíu ár". Bók Þorleifs er afar fróðleg og prýdd mörgum myndum. Ég hefði talið ákjósanlegt að nafnalisti væri aftast í bókinni, en tilvísanir, heimildir og myndaskrá eru hins vegar til fyrirmyndar.  Þá eru viðtölin við ýmsa fyrrverandi og núverandi forystumenn félagsins upplýsandi og gefa fyllri mynd af starfsemi SFR. Við lestur bókarinnar sakna ég þó þess að ekki sé getið um ...

13. Mars 2018

Jón Karl Stefánsson skrifar: VARĐANDI NEIKVĆĐA UMFJÖLLUN UM VANESSU BEELEY OG TIM ANDERSON

Eins og við mátti búast vakti fyrirlestur Vanessu Beeley ásamt útgáfu bókar Tim Andersons, Stríðið gegn Sýrlandi, sterk viðbrögð, bæði jákvæð og neikvæð. Einnig var viðbúið að viðbrögðin í neikvæðu áttina væru ekki efnisleg, heldur beint gegn persónum höfundar og þeirra sem buðu Vanessu til Íslands. Það er rétt að svara bæði þeirri gagnrýni sem komið hefur upp og einnig að lýsa stuttlega því sem kemur fram í bók Tims Andersons og einnig því sem ekki kemur fram þar, um tilgang útgáfunnar og þætti þýðenda í þessu öll saman. Bók Tims Andersons er mjög ítarleg, hvað heimildavinnu varðar. Þeir sem vilja ...

3. Febrúar 2018

Einar Ólafsson skrifar: ŢEGAR NÝJA MARKIĐ SÁ DAGSINS LJÓS

Takk Ögmundur fyrir frumkvæði þitt að fundinum í dag. Það var mjög athyglisvert að hlusta á Zoe Konstantopoulou. Þegar hún var að tala um Evrópusambandið og evruna kom mér í hug klausa úr gamalli norskri skáldsögu (gamalli eða ekki, hún kom út á æskuárum okkar). Einn merkasti rithöfundur Norðmanna eftir Ibsen og Hamsun var Jens Bjørneboe, lítt þekktur hér. Merkasta bók hans, að mér finnst, kom út árið 1966, Frihetens øyeblikk. Þorsteinn bróðir minn gaf mér hana í jólagjöf árið 1970. Eftir að ég las hana var ég ekki samur maður. Ég byrjaði að þýða hana ...

Slóđin mín:

Frjálsir pennar

Stjórnborđ

Forsíđa vefsins Stćkka letur Minnka letur Senda ţessa síđu Prenta ţessa síđu Veftré Hamur fyrir sjónskerta