FRAMTÍÐ FORSETAEMBÆTTISINS

Ég er þeim sammála sem telja rétt að ræða framtíð forsetaembættisins undir lok kjörtímabils forseta og í aðdraganda nýs tímabils. Sjálfur hef ég verið gagnrýninn á þróun embættisins í seinni tíð og þá einkum hve mjög embættisfærslur forseta hafi fléttast hagsmunum ýmissa stórfyrirtækja og auðmanna. Hef ég verið talsmaður þess að þarna yrðu dregin skýrari mörk á milli.

Í umræðu um framtíð forsetaembættisins hefur þeirri hugmynd verið velt upp að kjörtímabil forseta Íslands yrði lengt úr fjórum árum í sex og að forseti gæti setið að hámarki í tvö kjörtímabil. Þetta hefur m.a. komið fram hjá Steingrími J. Sigfússyni og undir þetta sjónarmið hafa ýmsir tekið, þar á meðal Morgunblaðið í leiðara og hér á síðunni hafa komið fram jákvæði viðbrögð. Þannig segir í nýlegu lesendabréfi: "Hugmyndin um sex plús sex ár  sem Steingrímur J. Sigfússon nefnir er þekkt. En hver eru rökin? Jú, rökin eru þau að þjóðin hefur í raun miklu minni möguleika til þess að kjósa nýjan forseta en til dæmis nýjan alþingismann. Ástæðan er auðvitað sú að fólk fer ekki gjarnan gegn sitjandi forseta þó fyrir því sé stemming og áhugi eins og var í síðustu forsetakosningum, Sá sem er forseti hefur þannig yfirburðastöðu í forsetakosningunum að aðrir komast hvergi nálægt honum/henni. Með því að sami maðurinn geti verið í framboði til forseta endalaust er verið að stífla lýðræðið."

Þetta er hárrétt. En með einum fyrirvara þó. Sá fyrirvari er að sjálfsögðu sá  að embættið hafi lýðræðislega þýðingu. Ef forsetaembættið er gert mjög pólitískt getur það vissulega öðlast mikilvægt lýðræðislegt inntak og getur við slíkar aðstæður verið réttmætt  að tala um stíflugerð gegn lýðræði ef erfitt er að sækja fram gegn sitjandi forseta.  En viljum við þróa embættið í þennan faraveg? Um það hef ég miklar efasemdir, hef lengi haft og iðulega viðrað þær skoðanir opinberlega.

Ég tel að ekki eigi að einskorða umræðuna við það hve lengi forseti situr heldur hvert við viljum að verði inntak embættisins. Mín skoðun er sú að hið pólitíska hlutverk eigi að hvíla hjá Alþingi og ríkisstjórn sem starfar í umboði  þess. Embætti forseta Íslands eigi fyrst og fremst að þjóna menningarlegu hlutverki. Forseti eigi að tala máli lands og þjóðar, halda á loft gildum sem sameina, styrkja okkur og efla sem þjóð. Þetta hefur núverandi forseti iðulega gert prýðilega. Sem áður segir hef ég hins vegar gagnrýnt þegar mér hefur þótt forseti vor ganga of langt, fyrir minn smekk , inn í auðmannafaðminn. Það faðmlag er varasamt í heimi þar sem auðmagnið er að færa sig upp á skaftið gagnvart samfélaginu, ásælist eignir þess og völdin yfrir því. Grímur Thomsen hefði kallað hlutskipti þeirra sem væru í slíkum faðmlögum að hvíla í vinarklóm.

Fréttabréf