ÚTVISTUN Á STÖRFUM LÆKNARITARA

Ekki verður annað séð en að útvistun á störfum læknaritara á Landspítala háskólasjúkrahúsi sé liður í áformum um að koma sem flestum verkþáttum innan heilbrigðiskerfisins í hendur einkaaðila. Í Morgunblaðinu 16. desember birtist auglýsing þar sem segir að Landspítali hyggist "ráðast í tilraunaverkefni um að úthýsa ritun sjúkraskráa. Eftir 6 mánuði verður árangur metinn. Ef árangur er góður verður verkefnið boðið út."

Fróðlegt verður að fylgjast með því hvernig árangurinn verður metinn (ef af þessu verður), hverjir komi til með að annast það mat og á hvaða forsendum það verði gert. Líklegt er að þegar búið verður að koma á koppinn nýju einkareknu batteríi verður erfitt að snúa til baka. Síðan er einnig spurning hvort til þess verður vilji því um er að ræða framkvæmd á pólitískri stefnumörkun. Mig grunar að hér sé einfaldlega um að ræða gömlu aðferðina til að slá á mótmæli, þ.e. að láta sem verið sé að kanna og rannsaka þótt þegar hafi verið ákveðið hvert halda skuli.

Eitt vekur sérstaka athygli í þessu ferli öllu og það er framkoman gagnvart læknariturum. Þeir lesa um það í blöðum hvernig verði farið með þeirra störf og bendi ég í því sambandi á bréf sem birtist frá fulltrúum stéttarinnar í 24 Stundum rétt fyrir áramót (28. des.):
"Læknaritarar Landspitala harma það að þurfa að kalla eftir upplýsingum eða lesa í dagblöðum um þá fyrirætlan að bjóða út ritun sjúkraskráa stofnunarinnar. Læknaritarar fordæma þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið við þessa fyrirætlan. Á annað hundrað læknaritara vinna á spítalanum og lesa um það í blöðunum að  "...þeir sem missa vinnu hjá okkur verði ráðnir annars staðar ef til þess kemur..." (24 stundir) og að leita eigi eftir skilvirkari vinnubrögðum. Læknaritarar telja verulega að starfsheiðri sínum vegið. Mikið hefur verið fjallað um málefni Landspítala síðustu vikur. Málefnin eru mörg og brýn sem taka þarf á. Læknariturum er kunnugt um það eins og öðrum fagstéttum. Bendum við á að læknaritarar eru færir um að ræða um þau málefni sem að þeim snúa svo sem ritun sjúkraskráa, hagræðingu ýmiss konar og ekki síst lausnir. Læknaritarar eru meðvitaðir um húsnæðisvanda spítalans. Við hvetjum framkvæmdastjórn Landpítala til að eiga viðræður við læknaritara um þeirra málefni.

Áslaug Sigvaldadóttir skrifstofustjóri f.h. læknaritara lyf I Fossvogi
Edda Þorvarðardóttir skrifstofustjóri f.h. læknaritara slysa-bráðasviðs
Eiríka Urbancic skrifstofustjóri f.h. læknaritara lyf I Fossvogi
Hulda Magnúsdóttir skrifstofustjóri f.h. læknaritara öldrunarsviðs
Þuríður Þórðardóttir skrifstofustjóri f.h. læknaritara geðsviðs."

Á þessu máli eru ýmsar hliðar. Þannig hefur komið í ljós að sá aðili sem mestan áhuga hefur sýnt þessu verkefni er fjárfestingarsamsteypan Veritas Capital sem er eignahaldsfélag umboðs- og lyfjadreifingarfyrirtækja. Er það snjöll ráðstöfun að fela lyfjafyrirtækjum, eða aðilum sem þeim eru tengd, að annast sjúkraskýrslur á stærsta sjúkrahúsi landsins? Svari hver fyrir sig.

Ég er hræddur um að Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra komist ekki hjá því að svara þessari spurningu á Alþingi þegar þing kemur saman. Hann komst upp með að þegja þegar hann var inntur eftir þessu á þingi fyrir þinghlé en á bak við þögnina getur ráðherrann ekki skýlt sér lengur.

Fréttabréf