Fara í efni

FALLIÐ Á HLUTABRÉFAMÖRKUÐUM OG ORKUGEIRINN


Nokkuð hefur verið skrifað um það hér á síðunni á hvern hátt okkur beri að draga lærdóma af þeim hræringum sem nú verða á hlutabréfamörkuðum. Þótt tónninn í bréfi Hreins Kárasonar sé gamanasamur, þar sem krafist er afsagnar Hannesar Hólmsteins, frjálshyggjuprófessors, -  hugmyndir hans eigi ekki lengur erindi við samtímann þar sem kennd er stjórnmálafræði heldur  í sagnfræðiskor eða þá bara á þjóðskjalasafni - þá er engu að síður undirliggjandi alvara: Lausnir óheftrar markaðshyggju séu ekki til að reiða sig á fyrir samfélög framtíðarinnar. Að þessu þurfi m.a.  lífeyrissjóðir að hyggja. Þeir geti tapað miklum verðmætum í nánu samkrulli við spilamenn í Casinói heimskapitalismans.  En það er ekki bara í skrifum af þessu tagi sem við erum minnt á fallvaltleikann á hlutabréfamarkaði. Í nýjum skýrslum frá alþjóðamatsfyrirtækjum sem birtar voru fyrir fáeinum dögum er varað við því að íslenskir bankar kunni að vera að verða of fyrirferðamiklir fyrir íslenskt hagkerfi.  Á hvern hátt? Jú, ef þeir verða of stórir gæti ríkið - það er að segja við - ekki bjargað þeim frá gjaldþroti ef á þyrfti að halda. Ítrekað hefur það gerst að ríki hafa þurft að koma bönkum til aðstoðar ( á síðustu tuttugu árum í Kanada, Noregi og Svíþjóð). Í þeim tilvikum hefur það verið mat ráðamanna að gjaldþrot bankanna  yrðu samfélaginu svo dýrkeypt að ekki væri annarra kosta völ en hlaupa undir bagga með þeim.
Allt þetta kemur upp í hugann þegar tal berst að mikilvægi þess að hleypa fjármálamönnum inn í orkugeirann. Það er ekki ár liðið frá því ríkisstjórn Íslands ákvað að selja hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja með því skilyrði að aðeins einkaaðilar mættu kaupa.  Geysir Green Energy, þar sem Hannes Smárason og félagar í Fl group voru meðal fjárfesta,  nýtti sér þetta einstaka tækifæri í boði ríkisstjórnarinnar. Síðan þekkja allir framhaldið; tilraunir þessara aðila að ná tangarhaldi á auðlindum Orkuveitu Reykjavíkur og bjarga eigin skinni því ekki leið á löngu þar til í ljós kom að Fl group átti við verulega fjárhagserfiðleika að stríða. Þarna átti augljóslega að gera tilraun til að bæta stöðu þessara fjárfesta.
Hvenær kemur að því að við áttum okkur á þeim verðmætum sem fólgin eru í auðlindum þjóðarinnar, orkulindunum, vatninu og  sjávarfanginu?  Hvenær mun það renna upp fyrir ráðamönnum þessarar þjóðar að þeim ber siðferðileg skylda til að tryggja sameign þjóðarinnar á þessum auðlindum  ekki bara í lögum og stjórnarskrá heldur með öllum sínum gjörðum. Að setja þessi verðmæti á spil í samkrulli við braskara er í besta falli barnaskapur eða heimska - í versta falli eitthvað miklu verra.

Sjá ágætan pistil Helga Guðmundssonar um tengt efni: http://blog.central.is/hage/index.php