Fara í efni

FYLGJUM GUÐFRÍÐI LILJU Í FRÍKIRKJUNA


Sunnudaginn 17. febrúar, klukkan  16, skulum við fara að hvatningu Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, skákdrottningar, rithöfundar og íkveikjukonu í félagslegu réttlæti  -  og fylla Fríkirkjuna í Reykjavík til varnar Þjórsánni.  Undir lok hugvekju sinnar í laugardagspistli sínum í Morgunblaðinu, segir Lilja: „ Hvar í flokki sem við stöndum , eða stöndum ekki, þá skulum við fjölmenna í Fríkirkjuna á morgun. Heimamenn eiga skilið og finna fyrir stuðningi okkar allra - og þau þurfa á slíkum stuðningi að halda. Þjórsá á skilið þjóð sem kann að meta eigin dýrgripi og stendur um þá vörð."

Hér að neðan er hugvekja Guðfríðar Lilju í heild sinni:

Þjóð með Þjórsá

Ég þreytist seint á að vitna í orð Jóhönnu Jóhannsdóttur frá Hamarsheiði í Gnúpverjahreppi, en Jóhanna hefur lifað nær heila öld með Þjórsá:

Fegurðin var algjör. Mér varð hugsað til Landsvirkjunar sem ef til vill sekkur svo túnum í Haga, á þessari fallegu landnámsjörð, að ekki verður búandi hér lengur - og engin situr við glugga og dáist að fegurðinni, eða nýtur góðs af gæðum jarðarinnar. Það er mikið vald sem fáeinir gróðahyggjumenn taka sér.”  

Það er oft reynt að gera lítið úr baráttunni fyrir náttúruvernd með því að stimpla hana sem öfgar eða óraunsæi. Jóhanna Jóhannsdóttir fyrrum bóndi á tíræðisaldri er engin öfgamanneskja. Aðrir sveitungar hennar sem halda uppi hetjulegri baráttu til varnar Þjórsá eru heldur ekki öfgafólk. Þau eru venjulegir Íslendingar með ólík áhugamál, ólík flokksskírteini og ólíka lífssýn. Þau sameinast hins vegar í því að vilja vernda landið sitt – landið okkar allra.

 

Heimafólk við Þjórsá hefur í meira en fjörtíu ár staðið vaktina til varnar Þjórsárverum. Þar hefur fólk fórnað dýrmætum tíma, orku og jafnvel heilsu í þágu baráttunnar, enda munu kynslóðir framtíðarinnar verða þeim ævinlega þakklátar.

 

Ýmsir sigrar hafa unnist fyrir tilstilli kraftmikils fólks, en mýmörg dýrmæt svæði og náttúrugersemar liggja enn undir fallöxinni á teikniborðum skammtímagróðans. Þar á meðal er neðri hluti lengsta stórfljóts landsins, Þjórsár.

 

Með virkjunum í neðri hluta Þjórsár á að fórna anddyri Þjórsárdals, dyrum okkar að hálendi Íslands þar sem tindar Heklu gnæfa yfir. Margrómuð náttúrufegurð við gátt hálendisins, flúðir, sker og eyjar og bakkar Þjórsár eiga að sökkva.

 

Nákvæmlega hver ætlar að banka upp á hjá Jóhönnu í Haga og segjast bera ábyrgð á eyðileggingunni? Umhverfisráðherra eða iðnaðarráðherra? Fjármálaráðherra eða forsætisráðherra? Sjálfstæðisflokkur eða Samfylking? Þjóðin öll? Eða er þetta bara sama tóbakið eins og vanalega: Er þetta allt bara á ábyrgð einhverra annarra en okkar sjálfra?

 

Hver ætlar að bera ábyrgð á því að Búðarfoss og Urriðafoss hverfi; Hagaey og hólmar og flúðir Þjórsár hverfi og árfarvegur skerðist; jörðum meðfram Þjórsá og bújörðum bænda sé sökkt; fuglalíf í Þjórsá og gengd laxa upp ána skerðist; hrygningarstöðvar þorsks undan ósum Þjórsár verði í hættu? Hver ætlar að bera ábyrgð á því þegar upp verður staðið að stórskaða lífríki Þjórsár og gróður, útsýni, landslag, fegurð og fornminjar frá landnámi?

 

Þótt sumir séu snillingar í að axla ekki ábyrgð þá verður reikningurinn á endanum sendur þangað sem honum ber.

 

Nýrri ríkisstjórn er nú í lófa lagið að sýna skörungsskap í þessum efnum. Við erum svo heppin að hafa flokk við völd sem lofaði því ítrekað fyrir kosningar að vernda náttúruna og taka umhverfismál alvarlega – og viti menn, verja Þjórsá. Við eigum ráðherra innan ríkisstjórnar sem hafa lýst því opinberlega yfir að þeir leggist gegn virkjunum í neðri hluta Þjórsár. Hvað er það þá sem tefur?

 

Ef Samfylkingunni er alvara þá neitar hún að láta Sjálfstæðisflokkinn valta yfir sig í þessum efnum, harðneitar, ef það er þá þar sem hnífurinn stendur fastur í kúnni. Fólk við Þjórsá og aðrir Íslendingar eiga ekki að þurfa að berjast í 40 ár til viðbótar við svikin loforð, ekki í 40 mánuði, vikur eða daga. Baráttan á að hafa skilað árangri nú þegar.

 

Saga náttúruverndar á Íslandi er öðru fremur lituð traustum þræði blekkinga og svikinna loforða. Í þeim efnum er ekkert nýtt, en nú er gullið tækifæri til að breyta af leið. Ég hvet alla sem vettlingi geta valdið til að fjölmenna á þverpólitískan og óháðan baráttufund til varnar Þjórsá á morgun sunnudag kl. 16 í Fríkirkjunni. Fundurinn er haldinn undir yfirskriftinni „Þjóðin stendur með Þjórsá“. Þar koma saman heimamenn, listamenn og fræðimenn til að leggja baráttunni fyrir vernd Þjórsár lið.

 

Hvar í flokki sem við stöndum, eða stöndum ekki, þá skulum við fjölmenna í Fríkirkjuna á morgun. Heimamenn eiga skilið að finna fyrir stuðningi okkar allra – og þau þurfa á slíkum stuðningi að halda. Þjórsá á skilið þjóð sem kann að meta eigin dýrgripi og stendur um þá vörð. Íslensk náttúra og lífríki á sömuleiðis skilið þjóð sem krefst lýðræðislegra vinnubragða og sættir sig ekki við svik og blekkingar.