Fara í efni

HÁSKÓLARNIR OG „AFBURÐAFÓLKIÐ"


Fyrir nokkrum árum átti ég þess kost að heimsækja háskólann í Minneapolis í Minnesota Í Bandaríkjunum. Skólinn þykir mjög góður og eflaust eru þar uppi draumar einsog á fleiri bæjum að verða „ einn af hundrað bestu háskólum í heimi".  Og kannski er hann það. Kannski einn af tíu bestu. Gott ef ég ekki hef heyrt að svo sé talið vera.
Hvað um það, þegar ég var þarna úti varð ég vitni að umræðu um stefnumarkmið skólans, hversu mikið hann ætti að leggja upp úr því að skara fram úr og laða til sín bestu nemendur sem völ væri á í Bandaríkjunum ef ekki heiminum öllum.

Skyldur við sitt samfélag

Í þessari umræðu varð þó ofan á sjónarmið af allt öðrum toga, nefnilega að skólanum bæri fyrst og fremst að rækja skyldur við það samfélag sem hann væri sprottinn upp úr. „Við bjóðum aðkomufólk velkomið, og ekki sláum við hendinni á móti afburðafólki, en það er fólkið í Minnesota, fólkið  sem setti skólann á fót til þess að sjá samfélaginu öllu fyrir menntun, einnig þeir sem ekki státa af því að vera „afburðafólk", sem á að njóta góðs af háskólanum „sínum"."

Ekki á mínu framfæri takk!

Þetta kom mér í hug þegar sagt var frá því í fréttum nýlega að Háskólinn í Reykjavík hefði samið við Landsbankann um stuðning við allt að 35 afburðanemendur sem hæfu nám við skólann á hverju ári. Fram kom að bankinn hyggðist greiða skólagjöld nemendanna á fyrstu önn og 150 þúsund kr. í framfærslustyrk, samtals 278 þúsund á nemanda.
Allt er þetta gert fyrir mína hönd því svo vill til að ég er í föstum viðskiptum við Landsbankann. Ef ég mætti velja vildi ég frekar lægri vexti og minni greiðslur til „afburðanemenda" við Háskólann í Reykjavík.

Þarf afburðafólk á stuðningi að halda?

Í morgun segir Fréttablaðið okkur svo frá því að Háskóli Íslands ætli út á sömu braut. Í fréttinni segir m.a.: „Háskólaráð Háskóla Íslands hefur ákveðið að stofna afreks- og hvatningasjóð til styrktar afburðanemendum."
Þarf þetta fólk á sértökum stuðningi að halda? Eða er þetta liður í þeirri elítuhugsun sem er í tísku um þessar mundir, nefnilega að þá aðeins sé maður að standa sig ef maður er á meðal hinna bestu í heimi, „í fremstu röð" einsog klisjan hljóðar. Einnig þetta er gert fyrir mína hönd því ég fjármagna HÍ með sköttum, reyndar Háskólann í Reykjavík einnig.
Þessir skólar eiga vissulega að stefna að því að standa sig vel en aldrei mega þeir þó gleyma því meginhlutverki sínu að þjóna því samfélagi sem þeir eru sprottnir úr - því fólki sem kostar þá með skattfé sínu hvort sem það telst til afburðafólks eða ekki.  Og hverjir eru afburðamenn? Gæti verið að það væri svoldið afstætt hvernig skilgreina eigi afburðamanninn í fremstu röð?