REYKJAVÍKURBRÉF: ÁBYRGÐ LÖGGJAFNAS Í FALLVÖLTUM HLUTHAFAHEIMI?


Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins í dag tekur á mikilvægu álitamáli, annars vegar framkomu stjórnenda stórfyrirtækja, himinhá laun og  kaupréttarsamningar þeim til handa og hins vegar réttarstöðu annarra hluthafa ("almenningshlutafélag er ekkert annað en sameign þeirra, sem eiga hluti í því")  og í því samhengi skyldum sem hvíli hjá löggjafanum  hinum smáa hluthafa og samfélaginu til varnar gegn ásælni hinna stóru gráðugu hluthafa og starfsmanna sem koma inn í fyrirtækin á þeirra forsendum.

Bónusar í fiski og banka!

Viðhorf höfundar Reykjavíkurbréfs þótti mér þegar á heildina er litið gott, ekki síst fyrir þá sök að hann taldi mikilvægt að stjórnendur stórfyrirtækja aðhefðust ekkert sem væri hróplega úr takti við launakerfin og lífsskilyrðin almennt í landinu. Þrátt fyrir þetta  gat ég ekki annað en brosað innra með mér þegar sett voru nánast í eina spyrðu með sína bónusa, fiskvinnslukonan og bankastjórinn: " Kannski má segja að prinsippið sé í sjálfu sér heilbrigt, þ.e. að starfsmaður, hvort sem hann er að veiða fisk, flaka fisk eða stjórna banka, fái umbun fyrir vel unnin og árangursrík störf en að útfærslan hafi farið úr böndum. Það sé æskilegt að samfélagið sem viðkomandi starfar í sé sæmilega sátt við það, sem er að gerast, og þess vegna verði að vera eitthvert samhengi á milli þess, sem gerist almennt í starfskjörum fólks, og þess, sem menn geta borið úr býtum t.d. í fjármálageiranum á Íslandi. "
Eins og hér kemur fram er áherslan á að skoða málin heildrænt, í samhengi við það sem er að gerast í þjóðfélaginu almennt. Gott, sem fyrr segir.

Óseðjandi þotulið

Síðan spyr höfundur um ábyrgð löggjafans: " Í ljósi þess, að almenningshlutafélög eru sameign þeirra, sem hluti eiga í þeim, má spyrja hvort einhver sérstök ástæða sé til að bregðast við. Á löggjafinn að beita sér með einhverjum hætti? Er ekki sjálfsagt að fólk fái að ráðstafa eigum sínum að vild og þar með verði hluthafar að gera út um það sín í milli, sem eigendur, hversu háar fjárhæðir þeir eru tilbúnir til að borga stjórnendum, sem starfa fyrir þá? Auðvitað er það svo í meginatriðum...Það er þó eitt, sem löggjafarvaldið getur gert. Það getur skoðað rækilega hvort tilefni er til að styrkja og treysta stöðu litla hluthafans í almenningshlutafélögum..."
Undir þetta vil ég taka með Morgunblaðinu. Skiljanlegt er að hluthafar sem hafa tapað á verðbréfahruni að undanförnu reiðist þegar þeir horfa upp á hvernig farið er með fjármuni þeirra þegar forstjórar eru annars vegar. Við hin þurftum (mörg hver alla vega) ekki að verða vitni að neinu hruni til að gagnrýna hið óseðjandi þotulið sem aldrei kann sér hóf.

Það sem höfundi Reykjavíkurbréfs láðist að fjalla um

Tilefni þess að ég skrifa þessar línur er þó ekki fyrst og fremst til að taka undir með höfundi Reykjavíkurbréfs heldur  að benda á það sem vantar í þann hluta bréfsins sem fjallar um ábyrgð stjórnvalda. Hún á að mínu mati að felast í því að ráðstafa ekki út á fallvaltan hlutabréfamarkað dýrmætum eignum þjóðarinnar. Sá lærdómur sem við eigum að draga af þeim sveiflum sem nú ganga yfir markaðina er hve varasamt það er að treysta á fjárgróðafólk þegar fjöregg okkar eru annars vegar, hvort sem það er heilbrigðisþjónustan, orkuauðlindirnar og orkukerfin, vatnið eða fiskurinn í sjónum! Þar liggur sú ábyrgð löggjafans sem höfundi Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins í dag láðist að fjalla um.

Fréttabréf