HÚSBÆNDUR OG HJÚ


Í gamla daga var sambandinu þannig háttað á milli fólks, einkum til sveita,  að um var að ræða annars vegar húsbændur og hins vegar hjú. Þetta var fyrirkomulagið fram undir lok 19. aldar og jú, eitthvað fram á hina tuttugustu. Síðan var farið að koma á annars konar fyrirkomulagi, einkum hjá hinu opinbera. Þar var skýrt kveðið á um réttindi launafólksins. Það bjó nú við margvísleg og sívaxandi mannréttindi. Hætt var að tala um húsbændur og hætt var að tala um hjú. Nú var farið að tala um atvinnurekendur og launafólk.
 Í desember síðastliðnum var gengið frá samkomulagi á milli forseta Alþingis og formanna þingflokka Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar, Framsóknarflokks og Frjálslynda flokksins um breytingar á þingskaparlögum. Órjúfanlegur hluti af þessu samkomulagi var fjárhagslegur stuðningur við stjórnmálaflokkana og þingið, að sögn ekki síst við stjórnarandstöðuna. Þess vegna var mörgum aurapúkanum óskiljanlegt að VG neitaði að selja réttindin í þinginu þar sem von  væri um peninga og fríðindi fyrir að fallast á ný þingskapalög. Stuðningurinn  sem lofað var fyrir að styðja breytingarnar á þingskaparlögunum, fólst ekki síst í aðstoð við þingmenn dreifbýliskjördæma.
Nú er það svo að almenn samstaða hefur verið um að styrkja pólitískt starf í dreifbýliskjördæmum. Ágreiningur hefur hins vegar verið um hvernig það skuli gert. Ég var í hópi þeirra sem vildi styrkja pólitíkina með tvennum hætti. Annars vegar með því að styrkja nefndasvið Alþingis, búa þar til öfluga starfseiningu  með sjálftraust  á grundvelli öflugrar liðsheildar og sterkrar þekkingarlegrar stöðu. Hins vegar með því að styrkja stjórnmálaflokkana með það að markmiði að efla starfið í dreifðum byggðum.
Samkomulag þingskapameirihlutans byggði ekki á þessu. Það byggði á því að búa til fyrirkomulagið "húsbændur og hjú", starfsmenn einstakra þingmanna. Undir lok umræðunnar um þetta makalausa frumvarp var því lýst yfir af hálfu stjórnenda Alþingis að stefnt skyldi að því að skapa öllum þingmönnum þjónustufólk af þessu tagi!  
Skyldu skattgreiðendur hafa heyrt þessa yfirlýsingu? Mér brá þegar ég heyrði hana og þá ekki síður þegar ég sá vinnuskjöl sem þessu tengdust þar sem hugtakinu húsbóndavald brá fyrir. Fyrst hélt ég að það væri missýn. Svo reyndist ekki vera. Þá varð mér líka ljóst hvað orðið afturhald þýðir. Verra þótti mér að hugsa til þess að afturhaldið væri allsráðandi á Alþingi í dögun 21. aldarinnar.
Ástæðan fyrir því að ég ákvað sem ungur maður að beita mér í verkalýðsbaráttunni var til að berjast gegn þessari hugsun. Nákvæmlega þessari hugsun. En burt séð frá vangaveltum um réttindi launafólks og hvaða viðhorf heyri samtímanum til, þá væri fróðlegt að vita hvað skattborgaranum finnist.

Fréttabréf