KEPPNI UPP Á LÍF OG DAUÐA - EÐA VERA MEÐ Í LEIK?


Róðrakeppnin á milli ensku háskólanna í Oxford og Cambridge á sér langa sögu, allt aftur á öndverða 19. öld. Í báðum þessum fornu háskólabæjum er fjöldi sjálfstæðra háskóla eða háskólagarða, colleges, einsog þeir  kallast á ensku þótt allir flokkist þeir undir Oxford eða Cambridge háskóla eftir atvikum.  Þessir garðar keppa sín í milli en mynda síðan sameiginlegt lið sem stefnt er gegn hinum háskólabænum. Að þeirri keppni varð ég vitni fyrir réttri viku, á páskadag, í smábænum Henley sem stendur á bökkum árinnar Thames. Að þessu sinni voru það kvennalið háskólabæjanna sem öttu kappi hvort við annað.
Hvers vegna skyldi ég vera með hugann við róðrakeppni háskólanna í Oxford og Cambridge?
Ástæðan er sú að ég hef fylgst með aðdraganda þessarar keppni  í gegnum dóttur mína, Margréti Helgu, sem var í keppnisliði Oxford.  Æfingum, sem staðið hafa sleitulaust í heilt ár, þar sem farið er í róður klukkan fimm á morgnana og síðan aftur síðdegis, alla daga, allar helgar, jól og páska...
Svo vill reyndar til að í Cambridge bátnum voru tvær íslenskar stúlkur og var þess getið í breskum fjölmiðlum að Íslendingar væru greinlega harðdrægir róðrarmenn.
Eitt vakti athygli mína og það er hve alvarlega þessi keppni er tekin. Ég ræddi lítillega við þjálfara Oxford liðsins og heyrði ég strax að í hans huga var þetta ekki spurning um að "vera með" í leik. Þetta var grafalvarlegt mál, nánast upp á líf og dauða, þannig hugsaði Ian Shore þjálfari Oxford-stúlkna. Það fór ekkert á milli mála. Var honum greinilega mjög létt eftir keppnina, þegar við ræddumst við, enda hafði "hans lið" sigrað örugglega. Var hann fyrir vikið hinn roggnasti og sagði að þótt Cambridge stúlkur hefðu lent í ógöngum í upphafi, þá væri það hluti af keppninni að sigrast á erfiðum aðstæðum en síðan væri einnig hitt að þetta hefði engu breytt um öruggan sigur síns liðs!

"Job done" sagði Ian þjálfari og brosti í kampinn, fannst hann greinilega hafa skilað sínu og nú reiðubúinn að takast á við næsta verkefni: Að þjálfa landsliðið í Wales.
Að sjálfsögðu fagnaði ég ákaft sigri Oxford, með dóttur mína innanborðs í sigurbátnum, enda eitthvað um keppnisgen í mínum kroppi. Þó verð ég að játa að innst inni finnist mér ekki öllu máli skipta að sigra, ekki síður að hafa gaman af og að vera með í leik. Þannig finnst mér allavega að það eigi að vera og þannig held ég nú reyndar að flestir hugsi þegar upp er staðið og keppnisskap stundarinnar runnið af mönnum.


 

Fréttabréf