RITSTJÓRI 24 STUNDA, GEYSIR OG ÞJÓÐMINJASAFNIÐ


Ólafur Þ. Stephensen, ritstjóri 24 Stunda skrifar kröftuga leiðara í blað sitt. Ekki er ég ritstjóranum alltaf sammála. Hitt þykir mér gott þegar menn hafa góða yfirsýn yfir þau viðfangsefni sem þeir taka til umfjöllunar. Ólafur skrifar ritstjórnargrein á föstudag undir fyrirsögninni Einn miða á Geysi. Í leiðaranum hvetur hann til þess að farið verði að rukka aðgangseyri að Gullfossi og Geysi og öðrum náttúruperlum til þess að standa straum af kostnaði við viðhald göngustíga og manngerðs umhverfis við þessar náttúruperlur.
Ólafur Þ. Stephensen tilgreinir rök með og á móti. Rökin með er augljós, gjaldtaka tryggir fjárstreymi til fyrrnefndra verkefna. Rökin á móti  tilgreinir Ólafur líka, í fyrsta lagi að aðgangseyrir fæli fólk frá, í öðru lagi að ekki sé hægt að rukka fyrir aðgang að sumum náttúruperlum, ekki öðrum. Ekkert vandamál,   segir ritstjórinn, hleypum fólki ókeypis inn í Hallgrímskirkju, rukkum fyrir að fara upp í turninn. Þá nefnir hann  rök sem  hann segir "tilfinningaþrungnari", nefnilega að menn vilji ekki "rukka Íslendinga fyrir aðgang að þjóðareign."  Þessari gagnrýni svarar Ólafur með spurningu: " Af hverju hefur þá ekki verið gerð uppreisn gegn því fyrirkomulagi að það kosti 600 kr. inn í Þjóðminjasafnið?"
Þetta er hárrétt ábending hjá ritstjóra 24 Stunda. Auðvitað á að afnema aðgangseyri að Þjóðminjasafninu. Þetta er mín niðurstaða, ekki ritstjórans. Hann vekur hins vegar athygli á sjónarmiði sem vert er að gaumgæfa.  Á 19. öldinni og eftir því sem leið á þá 20. fögnuðu félagslega þenkjandi menn því þegar samfélagsrýmið var stækkað, almenningur fékk aðgang að almenningsgörðum og síðar söfnum  án endurgjalds. Listasöfn og önnur söfn urðu öllum opin og hefur því verið haldið fram með tilvísun í rannsóknir og reynslu að beint samhengi sé á milli gjaldtöku og heimsókna: Því minni gjöld, þeim mun betri nýting.
Þess vegna segi ég, Geysir verði okkar allra, líka Þjóðminjasafnið - án endurgjalds.

Fréttabréf