RYKKORN GEIRS


Geir H. Haarde, forsætisráðherra, virðist ekki alltaf hugsa mjög stórt fyrir Íslands hönd. Þannig sagði hann á þingi í vikunni á þá leið að menn skyldu ekki ætla að miklu munaði um framlag Íslendinga í friðarumleitunum í Palestínu. Það lá í orðunum að við værum smáir lítilmagnar á alþjóðavettvangi! Ég leyfi mér að vara við þessum þankagangi. Þjóð sem hugsar á þennan veg verður nefnilega  smá hversu fjölmenn sem hún annars kann að vera. Gleymum því ekki að í þessum skilningi hafa margar milljónaþjóðir verið ósköp smáar í sér en að sama skapi hafa smáríki stundum reynst  stór og kröftug. Eða eru menn búnir að gleyma dæmisögunni um Davíð og Golíat? Gæti það nú ekki verið að málstaður gerði menn smáa eða stóra eftir atvikum. Þannig var Svíþjóð, svo dæmi sé tekið, móralskt stórveldi á dögum Olofs Palme en smækkaði til muna eftir að Svíar tóku að steypa utanríkisstefnu sína  í móti Evrópusambandsins.
Í þessu fari er önnur ræða sem forsætisráðherra vor flutti í vikunni. Til umfjöllunar var mengun af völdum stóriðju á Íslandi. Sem kunnugt er stefna Íslendingar hraðbyri í átt að því að verða á meðal þeirra þjóða sem spúa út mestum koltvísýringi á hvert mannsbarn. Aftur þarna var forsætisráðherra búinn að smækka okkur niður, að þessu sinni í agnarlítið korn.
Um mengun af okkar völdum sagði Geir H. Haarde á Alþingi: "Hún er auðvitað hverfandi á Íslandi á alþjóðlegan mælikvarða. Heildarmengun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi mun vera 0,01% af því sem blásið er út í andrúmsloftið á heimsvísu, svona nokkurn veginn sambærilegt við eitt rykkorn."
Skyldi forsætisráðherra finna smærri samlíkingar fyrir þjóð sína í næstu atrennu? Við bíðum spennt.

Fréttabréf