Fara í efni

SAMKEPPNISSTOFNUN GEGN SAMFÉLAGI?


Ég skal játa að oft hef ég verið í vafa um gildi Samkeppnisstofnunar og sviðið að fyrir skattpeninga sem fjármagna þá stofnun skuli spjótum iðulega beint gegn því sem samfélagslegt er. Svo er að skilja á Samkeppnisstofnun að samvinna sé jafnan af hinu illa en  samkeppni ætíð eftirsóknarverð.
Í dag lét Samkeppnisstofnun frá sér heyra á þessum nótum. Nú er ætlunin að reyna að koma í veg fyrir að Orkuveita Reykjavíkur kaupi hlut Hafnfirðinga í Hitaveitu Suðurnesja. Samkvæmt RÚV gæti eignarhluturinn fyrir bragðið „endað í höndum Reykjanesbæjar og Geysis Green Energy."
Vill almenningur að svo verði? Ég held ekki. Ítrekað hefur komið fram að meirihluti landsmanna vill að samfélagið eigi orkuna sem fólgin er í iðrum jarðar og fallvötnunum svo og orkuveiturnar. Sem frægt var opnaði ríkisstjórnin einkakapítalinu leið að orkunni á Reykjanesinu með því að selja hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja síðastliðið vor. Það skilyrði var sett fyrir sölunni að einkaaðli keypti! Sem frægt var tókst að koma í veg fyrir að einkakapítalið kæmist til frekari áhrifa í orkugeiranum en um skeið stóð OR því opið.
En menn eru ekki búnir að gefast upp. Nú er það Samkeppnisstofnun sem tekur upp þráðinn til að reyna að fullnusta það sem einkavæðingarsinnum tókst ekki í vor og haust. Nú á að banna samfélaginu - okkur öllum -  að eiga orkugeirann saman! Og höfuðið er bitið af skömminni með því að það opinber stofnun sem stendur fyrir þessum hernaði gegn almenningi!
Samkeppnisstofnun má gjarnan upplýsa um samráð í almennri verslun, bensínsölu og vöxtum. En hún á að láta orkuna, vatnið og annað sem við viljum eiga og reka saman í friði. Ella hygg ég að fari dvínandi viljinn hjá mörgum skattgreiðandanum að standa straum af kostnaði við þessa stofnun.