STYRMIR AF MORGUNBLAÐSVAKTINNI


Styrmir Gunnarsson er ekki lengur ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hefur látið af störfum fyrir aldurs sakir. Skrítið, kornungur maðurinn.  Þegar Styrmir kvaddi flutti hann athyglisverða ræðu. Hann talaði um Kalda stríðið og hlutverk Moggans í því stríði. Eftir að því lauk hafi Morgunblaðið tekið upp nýja línu og hún verið sett í praxís fyrir alvöru fyrir ári eða svo.  Eftir sem áður hefði Sjálfstæðisflokkurinn fengið sérmeðhöndlun en þrátt fyrir hana hafi Mogginn farið sínu fram gagnvart Flokki.

Þetta merkjamál skilur án efa innmúrað fólk. Við hin sem stöndum utan múra skiljum reyndar líka. Við lásum og skildum þetta á þann veg að gagnstætt því sem áður var, vildi Mogginn nú hafa vit fyrir Flokki. Áður hafi Mogginn látið sér lynda að Flokkur hefði vit fyrir blaði. Þannig skil ég þetta.

Sjálfur vil ég forðast þá stöðu að einn hafi vit fyrir öðrum. Þó er ég maður flokksmálgagna eða eigum við kannski frekar að tala um málgagn málstaðar en flokks  - held það væri nær lagi. Kosturinn við málgögn er að þar eru línurnar skýrar. Með því að bera málgögnin saman er ef til vill hægt að komast aðeins nær sannleikanum, eða í það minnsta sjá að hann á sér margar hliðar. Nú sitjum við meira eða minna uppi með einsleitni, sömu hliðina á sömu fréttinni alls staðar, og yfirleitt er það frétt valdsins. Valdið á sér dygga fylgismenn á flestum  ritstjórnarstólum. Ef til vill eru það stjórnendur, eigendur eða kannski fyrst og fremst auglýsendur sem ráða; og allir meira og minna undir hæl ráðandi afla. Þá bið ég frekar um málgagn VG eða Framsóknar sem væru þó að bisa við að halda fram málstað og skoðun og koma með ólíka sýn á viðfangsefnið. Við sem komin erum á miðjan aldur og þar yfir munum eftir Þjóðviljanum, Alþýðublaðinu og Tímanum þegar þessi blöð voru upp á sitt besta.

Í  seinni tíð var Mogginn einn eftir af gömlu flokksmálgögnunum. Og þrátt fyrir alla tilburði til að vera frjálst og óháð fréttablað  þá var hin pólitíska afstaða hvort eð er alltaf áhugaverðasta efnið í blaðinu, leiðararnir, Reykjavíkurbréfið og Staksteinar.

Eftir að Styrmir varð frjáls af Kalda Stríðinu og í einhverjum mæli Flokknum, var sem hann tæki sig til flugs. Þá fékk hin gagnrýna hugsun og manngildissjónarmiðin sem hann augljóslega ber í brjósti fyrir alvöru að njóta sín. Ég nefni heilbrigðismálin, stríðsrekstur Bandaríkjanna og NATÓ  á undanförnum árum og misserum í Asíu og víðar sem hann gagnrýndi hart, orkumál,  umhverfismál, misskipting í þjóðfélaginu og síðast en ekki síst málefni geðsjúkra sem hann studdi betur en allir aðrir áhrifamenn í íslenkum fjölmiðlum. Því fer fjarri að ég hafi verið sammála Styrmi í öllum þessum málaflokkum en allt voru þetta mál sem hann taldi nauðsynlegt að halda stöðugt í brennidepli umræðunnar og skyldu fjölmiðls að brjóta til mergjar. Frjáls Styrmir er góður skríbent. Vissulega gat sviðið undan skrifum hans, í mínum flokki sem öðrum. En þannig á það líka að vera í pólitík, gagnrýni og aðhald frá öllum vígstöðvum, krefjandi spurningar og efi.

Ég kem til með að sakna hinna nafnlausu skrifa hins frelsaða manns af síðum Moggans. Þau báru með sér beitta hugsun og ósk um betra samfélag.

Fréttabréf