AÐ GETA EKKI HORFST Í AUGU VIÐ SJÁLFAN SIG

Birtist í DV 02.07.08.
DVÞegar svo er komið að forsætisráðherra þjóðarinnar líkir gagnrýninni fréttamennsku við dónaskap, einsog gerðist nýlega, og þegar umhverfisráðherra segist ekki leyfa myndatökur af ísbjarnarhræi því þær gætu reynst óþægilegar, þá erum við komin nálægt því sem á góðu máli heitir ritskoðun.
Þægilegar myndir, óþægilegar fréttir. Hver er munurinn? Þessi spurning vaknaði þegar iðnaðarráðherra undirritaði viljayfirlýsingu um álver á Bakka við Húsavík nýlega. Iðnaðarráðherra sá samhengið þarna á milli. Honum var greinilega  ekki um það gefið að fá birta af sér mynd með álforstjórum að fagna stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar; álforstjórum sem eiga vart orð yfir ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar svo ánægðir eru þeir með hana.

Konfektmolar álrisanna

Þeir nota að vísu hvert tækifæri til að minna á að álverin sem nú eru að komast upp á færibandið þyrftu að vera ívíð stærri en ráðgert er. Það eigi til dæmis við um álbræðsluna á Bakka. Þeir vita sem er að þessu má kippa í liðinn síðar. Goðafoss er ekkert á förum og Jökulárnar í Skagafirði bíða þess að stungið verði niður stíflu hér og stíflu þar. Fossarnir, hverirnir og óbeislaðar árnar bíða eins og konfektmolar á matseðli álfyrirtækjanna sem eru staðráðin í því að "fullnýta" Ísland.
Össuri Skarphéðinssyni er ekki um þetta gefið. Það er mín tilfinning. Sannast sagna held ég að innst inni vilji hann í lengstu lög forðast nýtt álver á Bakka. Það á líka án efa við um Þórunni Sveinbjarnardóttur, umhverfisráðherra. Hún vill ekki sjá álver á Bakka. Og helst ekki í Helguvík. En lætur sig hafa það.
En ef þeim Össuri og Þórunni er illmögulegt að kyngja stóriðjustefnu Sjálfstæðisflokksins og virkjunarsinnanna  í Samfylkingunni  - sem mér sýnist vera að ná yfirhöndinni í þeim flokki - þá þurfa þau líka að segja sig frá þessari stefnu og þess vegna ríkisstjórnarsamstarfinu. Ef samviskan þolir ekki álagið þá þarf að láta hana ráða.  
Allt er þetta spurning um hænuna og eggið. Ef ríkisstjórn og ráðherrum þykir óþægilegt að horfast í augu við eigin gjörðir í fjölmiðlum, þá þurfa þau að endurskoða þær, ekki stíga á þá sem hafa þann starfa að greina þjóðinni frá umdeildum gjörðum þeirra. Þegar menn orka ekki lengur að horfa á sjálfa sig í fjölmiðlum þá er eitthvað mikið að.

Össur og samviskan

Mér fannst kjörorð Samfylkingarinnar um Fagra Ísland vera frábært. Það er þó einvörðungu ef  innihaldið er eftir umbúðunum. Ef innihaldið er hins vegar ekkert, engin meining á bak við þetta ákall um fegurð Íslands, þá er slagorðið innihaldslaust glamuryrði og verra en ekkert.  Ef þessi er raunin  verður líka skiljanlegt að fréttir sem ganga þvert á slagorðin og fyrirheitin verði óþægilegar og best að hafa þær í algeru lágmarki. Núverandi iðnaðarráðherra er óbanginn pólitíkus og afstaða hans til ljósmyndavélarinnar í síðustu viku ekki beint í hans stíl. Eitthvað truflar samviskan.
Það yrðu góð tíðindi fyrir Goðafoss, Þjórsá og allar hinar náttúrperlurnar ef samviskan fengi nú að ráða för og hægt væri að mynda og spyrja átölulaust. Þá fengi líka stefna Samfylkingarinnar um fagurt Ísland raunverulegt inntak. Hvort stjórnarsamstarfið héldi er svo önnur saga.

Ögmundur Jónasson, alþingismaður

Fréttabréf