ER KOMINN TÍMI TIL AÐ GANGA ÚR EES?

Birtist í Morgunblaðinu 02.07.08.
MBL - LogoÉg var í hópi þeirra sem voru andvígir samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði, EES, þegar honum var þröngvað í gegnum Alþingi árið 1993. Þáverandi stjórnarmeirihluti hafði að engu undirskriftir tugþúsunda Íslendinga sem kröfðust þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn.

Enda þótt ég hefði frá upphafi miklar efasemdir um ágæti EES samningsins hef ég þó fram til þessa ekki verið því fylgjandi að við segðum okkur frá honum, einfaldlega vegna þess að það er eitt að gerast ekki aðili að EES og leita eftir tvíhliða samningi einsog m.a. Sjálfstæðisflokkurinn vildi gera áður en til kastanna kom, annað að ganga út úr hinu Evrópska efnahagssvæði eftir að ákvörðun hefur verið tekin um að ganga þar inn.

Síðan samningurinn var gerður höfum við þurft að sitja undir endalausu ógagnrýnu mærðartali um ágæti EES, sérstaklega frá Samfylkingunni en einnig mörgum sjálfstæðismönnum og þingmönnum af Evrópusambandsvæng Framsóknar.

En hefur EES samningurinn ótvírætt verið til góðs? Gæti verið að ruglað hafi verið saman efnahagsuppsveiflu á heimsvísu og meintum jákvæðum áhrifum af þessum samningi? Vissulega færði aðildin að EES okkur tollalækkanir á útflutningsvörum og margvíslega stöðlun í viðskiptum. En hér vill gleymast að um gagnkvæma hagsmuni er að ræða. Evrópusambandsríkin hafa ekki síður en við áhuga á að koma varningi sínum á markað. Um það bera vitni tugir tvíhliða samninga við ríki utan Evrópusambandsins einkum í seinni tíð. Í þeim er m.a. kveðið á um tollaívilnanir. Hvað samræminguna áhrærir þá er okkur - og hefur alltaf verið - í lófa lagið að samræma okkur því sem gerist í alþjóðaviðskiptaumhverfinu.

En EES samningurinn lætur ekki hér við sitja. Samkvæmt honum neyðumst við til að gera allar þær breytingar á samfélagi okkar sem ofan á verða innan Evrópusambandsins. Þar er sífellt verið að þrengja að almannaþjónustunni, naga í hana, búta niður og færa út á markaðstorgið að kröfu kræfra fjármálamanna. Þetta viðgengst með fádæma ólýðræðislegum vinnubrögðum í Brüssel þar sem pólitíkin, skrifræðið og "dómstólar" Evrópusambandsins leggjast á eitt. Nú síðast ætlar einn slíkur úrskurðaraðili að banna Íslendingum að reka Íbúðalánasjóð. Samtök banka og fjárfestingafyrirtækja hér á landi segja þetta "áminningu" til íslenskra stjórnvalda, sem hugsanlega verði að greiða skaðabætur fyrir að brjóta gegn heilagri ritningu Evrópusambandsins!

Eigum við kannski að fara að hugsa okkur til hreyfings úr EES, eða hvort er mikilvægara lýðræðið eða aðildin að hinu Evrópska efnahagssvæði?

Höfundur er alþingismaður.

Fréttabréf