„SKAMMASTU ÞÍN!"

Birtist í 24 Stundum 02.07.08.
24 stundirÁgætur kunningi minn sagði nýlega að sér þætti merkilegt að nú þegar Kalda stríðinu er lokið, Berlínarmúrinn orðinn að molum í bréfapressum á borðum heldra fólks, Kaninn farinn heim  til sín, og friður hefur brotist út a.m.k í okkar heimshluta,  þá taki Samfylkingin sig til og stofni her- og varnarmálaráðuneyti og leyniþjónsutu í lokuðu rými á Miðnesheiði.

Milljarðar í hernað á kostnað aldraðra og sjúkra

Þetta er mikið rétt hjá kunningja mínum enda höfum við mörg furðað okkur á því hvernig Samfylkingin ætli að skýra og réttlæta milljarða fjáraustur úr skatthirslum almennings á meðan aldraðir og sjúkir eru hlaðnir sífellt þyngri klyfjum, að ekki sé minnst á húsnæðiskaupendur og leigjendur sem eiga nú erfiðar uppdráttar á Íslandi en verið hefur um áratugaskeið.
Ef menn á annað borð bera skyn á hið skoplega í tilverunni þá mætti án efa hafa gaman að því uppátæki utanríkisráðherrans að fá Frakka og Norðmenn til að gæta öryggis okkar á friðartímum en reikna síðan með Kananum ef til ófriðar kæmi! En auðvitað er þetta ekki til að hlæja að. Þessi gæsla á friðartímum kostar ógrynni fjár og hvað varnir á ófriðartímum áhrærir þá myndi ég ekki vilja hvíla í vinarklóm þeirra sem rekið hafa pyntingarbúiðir víðsvegar um veröldina og orðið uppvísir af grófum mannréttindabrotum.
En hvað gerir utanríkisráðherra vor gagnvart slíkum aðilum? Þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hitti helsta talsmann innrásarinnar í Írak og pyntingabúðanna í Guantanamo, Condi Rice, utanríkisráðherra Bush, gefur hún henni skartgrip sem sérstaka vinarkveðju frá íslensku þjóðinni. Forsætisráðherrann, Geir H. Haarde, innsiglar síðan samhug sinn með því að reka Condi innilegan koss við komu hennar til Íslands nýlega.

Neyðarópi svarað

Í byrjun árs var ljóst orðið að miklar og vaxandi efasemdir voru um hernaðaríhlutun Bandaríkjamanna og Breta í Afganistan. Þetta olli óróa í Washington og þaðan kvað við pólitískt neyðaróp til "vinaþjóðanna í NATÓ" um að fara hið bráðasta til Afganistan að tala máli innrásarinnar og bera síðan fagnaðarerindið sem víðast. Viti menn. Ekki leið langur tími þar til utanríkisráðherrann, formaður Samfylkingarinnar,  var mætt á staðinn að tala máli innrásarinnar!
Allt þetta var harðlega gagnrýnt á Alþingi, m.a. af minni hálfu. Í febrúarlok sagði ég við umræður á þingi að augljóst væri að áherslur, og þeir tónar sem komið hefðu frá Samfylkingunni í umræðunum og þar með utanríkisráðherra, rímuðu við málflutning haukanna í Washington. Við þetta varð ráðherra mjög ókyrr í sæti sínu og kallaði stundar hátt: "Skammastu þín!"

Enginn rökstuðningur

Meira var það ekki. Enginn rökstuðningur. Bara þetta óp: "Skammastu þín!".
Það gerði ég ekki. Ég játa hins vegar að það er ekki laust við að ég skammist mín fyrir hvernig nú er haldið á utanríkismálapólitík Íslands. Ég er svolítið að dofna í voninni um að ráðherrar breyti ótilknúnir um stefnu. Þar þurfa kjósendur að koma að málum. Hvað það snertir ætla ég að leyfa mér að vera bjartsýnn. Varla eru Íslendingar svo geðlausir að þeir láti átölulaust bjóða sér þá skefjalausu hernaðarhyggju sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar stendur fyrir.
Ögmundur Jónasson, þingmaður

Fréttabréf