ÞAKKAÐ FYRIR SIG


Ég átti stórkostlegan afmælisdag í gær, fimmtudaginn 17. júlí, fékk fjöldann allan af gjöfum og kveðjum - í bundnu máli og óbundnu - og að sjálfsögðu blómin einsog í körfunni sem sjá má hér að ofan, með blómum í íslensku fánalitunum,  frá vinum mínum í Starfsmannafélagi Færeyja.
Veðrið var yndislegt - hlýtt og stillt og sólríkt að undanskildum hitaskúr sem kom þegar ræðumenn kvöddu sér hljóðs. Stórkostlega góðar og skemmtilegar ræður voru fluttar enda engir viðvaningar á ferðinni: Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, sem stýrði samkomunni af glæsibrag, Steingrímur J. Sigfússon,  Geir H. Haarde, Guðni Ágústsson, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Hjörleifur Guttormsson, séra Gunnþór Ingason, sem flutti drápu auk eldheitrar ræðu, Skerjafjarðarskáldið Kristján Hreinsson sem einnig flutti mér kveðju í bundnu máli ( sjá að neðan þegar þar að kemur) og Kjartan Gunnar Kjartansson, fræðimaður og blaðamaður. Ómar Ragnarsson, flutti ávarp og brag einsog honum einum er lagið. Söngsveit UVG var á svæðinu og var með skemmtilega uppákomu. 

Rósa´s gorgeous band, Villi naglbítur,Lúðrasveit verkalýðsins og Englabörnin

Söngkonan Rósa og félagar hennar úr Gorgeous band slógu í gegn á bílskúrsþakinu á Grímshaga 1 og Villi naglbítur flutti kveðjur BSRB og orð frá eigin hjarta; söng að sjálfsögðu og var frábær! Lúðrasveit verkalýðsins kom í fullum skrúða og spilaði af krafti og gleði. Mín uppáhaldshljómsveit.  Svo voru það náttúrlega Englabörnin, frændsystkinin sem stýrðu fjöldasöng.

Kropotkin, Bergþóra, koníak og súkkulaði

Nóg verður lestrarefnið næstu vikurnar því mér bárust margar góðar bækur og dýrar veigar var einnig talsvert um, forláta beisli frá Sjálfstæðisflokknum fékk ég (Geir sagði að nauðsynlegt væri að koma á mig múl), ævisögu anarkistans Kropotkins fursta, fékk ég í þýðingu Kristínar Ólafsdóttur, læknis, ömmu Vilmundar heitins Gylfasonar útg. 1942. Þá fékk ég uppstoppaðan lunda frá Árna Johnsen með hlýrri kveðju, málverk og listmuni frá vinum mínum sem heimsóttu mig og reyndar einnig öðrum listamönnum sem ekki komu því við að mæta. Nefni ég þar Koggu sem færði mér postulínsegg sem var einn af síðustu mununum sem hún vann að með Magnúsi Kjartanssyni eiginmanni sínum fyrir ótímabært andlát hans. Ég nefni hér gjafir af handahófi. Afleitt er þegar merkimiði verður viðskila við gjöf. Forvitnilegt þætti mér að vita hver færði mér koníaksflöskuna með súkkulaðipakkanum áföstum eða geisladiskana hennar Bergþóru Árnadóttur!
Kæru vinir og félagar.  Þessi pistill er skrifaður fyrst og fremst til að þakka fyrir mig.

Allir á svæðinu

Mér þótti vænt um að sjá fjölskyldu, frændur og frænkur, skólasystkin, samstarfsfólk úr Sjónvarpi og Útvarpi, enn eldri samstarfsfélaga úr verktakabransanum, Sigtúnsfélaga, félaga úr verkalýðshreyfingu, BSRB, ASÍ, KÍ, ASÍ og öðrum verkalýðsfélögum, VG, Klúbbnum Geysi og fleiri og fleiri. Í Fréttablaðinu í dag var svo að skilja að Samfylkingarfólk hafi sniðgengið afmælishófið. Svo var reyndar ekki. Ég taldi að minnsta kosti fimm þingmenn Samfylkingarinnar, allt ágæta vini mína. Allra flokka fólk var til staðar. Samfylkingarfólkið nefni ég sérstaklega þar sem sagt er að það hafi ekki komið en hitt er rétt að sennilega var Íhaldið fjölmennara, næst að höfðatölu Vinstrihreyfingunni grænu framboði og félögum mínum úr BSRB, sem eru alls staðar að úr hinu pólitíska litrófi.
Bestu þakkir fyrir að gera daginn ógleymanlegan!

Frétt Stöð 2: http://vefmidlar.visir.is/VefTV/?channelID=&programID=d93d6ddc-f3df-4c27-90e2-28d49738f306&mediaSourceID=9dd74987-8f36-4a17-a940-468d3b070334&mediaClipID=f76c1298-5b55-44c1-97da-ed788f50fee4

Fréttabréf