Fara í efni

BANKAR OG SPARISJÓÐIR: ÁBENDINGAR OG VARNAÐARORÐ

Miklar hræringar eru í fjármálalífi þjóðarinnar. Í mjög svo umhugsunarverðu bréfi sem Ólína birti hér á heimasíðunni fyrir skemmstu undir fyrirsögn þar sem spurt er hvort engin viðurlög séu við því að eyðileggja efnahagskerfi þjóðar, rekur hún afleiðingar þess að fjármálakerfið var einkavætt og þar komust til valda  „menn sem höfðu takmarkaða þekkingu á alþjóðlegum bankaviðskiptum" en „ áttu innhlaup hjá okurlánurum heimsins og slógu þar lán til hægri og vinstri. Sameiginlega lögðu þeir til atlögu við fasteignamarkaðinn sem mistókst og þýddi að bankarnir gátu til allrar hamingju ekki hneppt nema eina kynslóð í fasteignaviðskipti við sig til fimmtíu ára." Og Ólína heldur áfram og segir að einn angi séríslensku bankakreppunnar sé „ að bankana vantar viðskiptavini til að standa undir óhagsstæðum lánum sem útrásarsnillingarnir töldu óhætt að taka."
Og þá vantar meira. Þeir halda áfram að reyna ná eignarhaldi yfir því sem eftir er í fjármálakerfinu og er enn utan yfirráða þeirra.
Jón Bjarnason , alþingismaður, hefur verið ötull talsmaður þess að varðveita sparisjóðina sem samfélagslega ábyrgar stofnanir róttengdar því samfélagi sem þeir eru sprottnir upp úr. Í pistli sem Jón birti á bloggsíðu sinni fyrir fáeinum dögum segir m.a. : „Ljóst hefur verið í nokkurn tíma að fámennur hópur fjármálamanna var að bora sér leið bakdyramegin inn í Sparisjóð Mýrasýslu til að komast yfir eigur hans fyrir lítið. Nýjustu fregnir herma að Kaupþing sé að eignast 70% hlut í Sparisjóði Mýrasýslu,  einum stærsta  sparisjóði landsbyggðarinnar á aðeins 1750 milljónir  króna. Er ekki eitthvað athugavert með stjórnendur eins sterksta sparisjóðs lanndsins að koma honum í þessa stöðu og gera hann svo "verðlítinn"  á skömmum tíma? Verði af þessari eignaupptöku á Sparisjóði Mýrasýslu munu eigendur Kaupþings  einnig komast yfir  meirihluta í  Sparisjóði Skagafjarðar sem Sparisjóður Mýrasýslu sölsaði undir sig nýverið  og sameinaði Sparisjóði Siglufjarðar með aðstoð stjórnenda hjá Kaupfélagi Skagfirðinga og fleiri aðila sem tengdust gamla Sambandshópnum.  Í meðgjöf fylgir svo Sparisjóður Ólafsfjarðar.Svo virðist sem þessi atburðarás sé löngu hönnuð af þeim fámennishóp sem nú eru að leggja undir sig fjármálastofnanir landsmanna."
Á þessari síðu og í fjölmiðlum hefur oft verið vakin athygli á baráttu heimamanna í Skagafirði til að verjast ásælni fjármálaaflanna og er hér að neðan að finna slóðir inn á hluta þessarar umræðu:

Pistill Ólínu: https://www.ogmundur.is/is/greinar/eru-engin-vidurlog-vid-thvi-ad-eydileggja-efnahagskerfi-thjodar
Pistill Jóns Bjarnasonar: http://jonbjarnason.blog.is/blog/jonbjarnason/
Fyrri umfjöllun: https://www.ogmundur.is/is/greinar/slagurinn-um-sparisjodina
Fyrri umfjöllun: https://www.ogmundur.is/is/greinar/ari-a-hrisum-og-magnus-a-gilsbakka