Fara í efni

INNBLÁSTUR ÞJÓÐINNI Í HEILD


Yfirskriftin er eignuð Thor Vilhjálmssyni, rithöfundi í Fréttablaðinu í dag. Tilefni orða Thors var sigurganga íslenska landsliðsins í handbolta á Olympíuleikunum í Kína. Haft er eftir Thor: „Það er mikið undur að finna bræðralagið með þessum köppum sem eru óstöðvandi vegna þess að þeir standa saman...Kjarval sagði eitt sinn: Fólk sem aldrei lyftir neinu samtaki, verður aldrei þjóð. Vonandi verða þessir rösku drengir innblástur þjóðinni í heild, að standa saman, halda öllu sínu óspilltu og hrinda af sér allri óværu. Þeir leggja sig allir fram, hver og einn með sitt ágæti og allt í þágu heildarinnar og þjóðarinnar þar með."  Vel mælt Thor Vilhjálmsson!
Annar ritsnillingur fjallar um handboltasigurinn í dag. Það gerir Guðfríður  Lilja Grétarsdóttir í vikulegum laugardagspistli sínum í Morgunblaðinu. Hún fagnar fögnuðinum og segir að við eigum að finna okkur fleiri tækifæri til að gleðjast saman: „En það verður líka að segjast eins og er að þegar við fáum ærlegt tilefni til þá fögnum við innilega og þá gleymist allt hitt eitt augnablik og við stöndum saman. Múrar ryðjast burt: Karlmenn gráta saman, þeir kyssast, faðmast, húrra, húrra. Jafnvel hömlulaus sársauki er ekkert mál, hann gleymist undir eins. „Þetta er ævintýri sem ætlar engan enda að taka," hrópar íþróttafréttamaður í ákafa. „Guð blessi móðurina sem ól þig!" er öskrað á suðrænan máta í íslensku sjónvarpi. Og í stað þess að hugsa „Það er eitthvað að honum þessum" er tekið undir af heilum hug. Múgsefjun er hættuleg en hún getur líka verið óviðjafnanleg. „Ef einum gengur illa eru allir tilbúnir að hjálpa manni úr lægðinni," segir ein skyttan sem á tilteknu augnabliki í leiknum hefur nagað sig að innan. „Allir taflmennirnir verða að vinna saman, það er bannað að skilja útundan" er sagt um æðsta lögmál skáklistarinnar. Hversu mörg ætli þau séu sviðin þar sem einmitt þetta er nauðsynlegt leiðarljós?"
Þessi orð eru til umhugsunar. Það er merkilegt að verða vitni að því þegar jákvæður og uppbyggilegur félagsandi skilar árangri og ánægju. Ólafur Stefánsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, hefur lengi talað fyrir þessum viðhorfum. Hann hefur talað liðsandann í sitt lið sem svo aftur skilar sér til okkar allra. Það hreif mig þegar Guðjón Valur sagði okkur hve illa sér hefði liðið þegar honum tókst ekki að nýta hraðaupphlaupin sem skyldi en að félagarnir hefðu hjálpað sér úr lægðinni og hann eftir það náð sér á strik. Hugleiðum orð þeirra Thors, Guðfríðar Lilju og Guðjóns Vals og drögum af þeim lærdóma. Ef við byggjum samfélag þar sem allir hjálpast að og liðsandi er góður þá eru okkur allir vegir færir.