Fara í efni

UM HAFLIÐA OG HIMINTUNGLIN OG UM SPARISJÓÐ MÝRASÝSLU


Afleiðingar einkavinavæðingarinnar í fjármálageiranum eru enn óljósar. Brask hinna nýju fjármálamanna, sem högnuðust gríðarlega eftir að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gaf þeim bankana, hefur verið tröllaukið. Fjárfestingar þeirra innan lands sem utan urðu þess valdandi að þeir komust yfir mikinn auð en hversu vel hann er í hendi er önnur saga. Auðmennirnir kunna að hafa komið ár sinni vel fyrir borð persónulega en bankarnir eiga hins vegar allt sitt undir því komið að þeir geti áfram fjármagnað rándyrar fjárfestingar sínar. Til þess þarf fjármagn á alþjóðamörkuðum á viðráðanlegum kjörum að vera aðgengilegt. Takist ekki að tryggja það, telja ýmsir að ríkið verði að hlaupa undir bagga. Grátbólgna fjármálamenn höfum við séð birtast á sjónvarpsskjá þessara erinda, nefnilega að óska eftir stuðningi.

Á sínum tíma lagði ég fram frumvarp um aðskilnað á milli þeirrar starfsemi fjármálastofnana sem annars vegar snýr að lánaviðskiptum og hins vegar fjárfestingum. Það er nefnilega eins fráleitt að ríkið eigi að vera ábyrgt fyrir fjárfestingargamblinu og það er augljóst að samfélagið hlaupi á einhvern hátt undir bagga til að koma í veg fyrir að almenn lánsviðskipti landsmanna hrynji. Þegar þessu tvennu er blandað saman - lánsviðskiptum og starfsemi fjárfestingarsjóða -  vandast hins vegar málið. Og það vandast heldur betur.

Enginn veit fyrir víst hver framvindan verður. Enginn.

Nema kannski hann Hafliði Helgason, sem titlar sig sem framkvæmdastjóri hjá Sjávarsýn og skrifar í Markaðinn, viðskiptablað Fréttablaðsins. Honum verður tíðrætt um lögmál og tregðulögmál, þá sem greiða götu framfara og hina sem „tefja" þróunina.  Í gær skrifar hann um sparisjóðina. Þeir séu að týna tölunni, bankarnir gleypi þá hvern af öðrum, nokkuð sem kemur Hafliða ekki á óvart, fremur en gangur himintunglanna eða önnur náttúrulögmál. Nú séu sparisjóðirnir komnir að fótum fram, eins og fyrirsjáanlegt hafi verið:"Þá veita stóru bankarnir þeim náðarhöggið einum á eftir öðrum."

Þar höfum við það. Samkvæmt þessu eru Landsbankinn, Glitnir og Kaupþing komnir í hlutverk Rauða Krossins eða Hjálpræðishersins. þeir veiti hinum sárþjáðu líkn.

Ég held að þetta sé nú ekki alveg svona. Og innst inni held ég að Hafliði viti að fullyrðingar hans um styrk „stóru bankanna" sem veiti hinum dauðvona „náðarhögg" standait ekki, sbr. þessi ummææli hans .: „Það skiptir miklu að fjármálakerfið haldi og bankarnir og hagkerfið nái að skapa tiltrú á ný á alþjóðamörkuðum." Til hvers? Jú, meðal annars til þess að bankarnir fái áfram aðgang að fjármagni á viðráðanlegum kjörum til að geta áfram fjármagnað veldi sitt.

Sparisjóðirnir íslensku hafa almennt plumað sig bærilega. Ýmsir hafa hins vegar komist í hann krappann á síðustu misserum eftir „formbreytingar" og áhættusamara líferni í hvikulum fjárfestingarheimi. Nú síðast fylgjumst við með vandræðum Sparisjóðs Mýrasýslu.

Í pistli hér á síðunni hef ég áður vísað í vangaveltur Jóns Bjarnasonar, þingmanns VG, um hræringarnar sparisjóði Mýrasýslu og hvernig þær tengjast öðrum sparisjóðum: „Ljóst hefur verið í nokkurn tíma að fámennur hópur fjármálamanna var að bora sér leið bakdyramegin inn í Sparisjóð Mýrasýslu til að komast yfir eigur hans fyrir lítið. Nýjustu fregnir herma að Kaupþing sé að eignast 70% hlut í Sparisjóði Mýrasýslu,  einum stærsta  sparisjóði landsbyggðarinnar á aðeins 1750 milljónir  króna. Er ekki eitthvað athugavert með stjórnendur eins sterksta sparisjóðs lanndsins að koma honum í þessa stöðu og gera hann svo "verðlítinn"  á skömmum tíma? Verði af þessari eignaupptöku á Sparisjóði Mýrasýslu munu eigendur Kaupþings  einnig komast yfir  meirihluta í  Sparisjóði Skagafjarðar sem Sparisjóður Mýrasýslu sölsaði undir sig nýverið  og sameinaði Sparisjóði Siglufjarðar með aðstoð stjórnenda hjá Kaupfélagi Skagfirðinga og fleiri aðila sem tengdust gamla Sambandshópnum.  Í meðgjöf fylgir svo Sparisjóður Ólafsfjarðar.Svo virðist sem þessi atburðarás sé löngu hönnuð af þeim fámennishóp sem nú eru að leggja undir sig fjármálastofnanir landsmanna."

Í samþykkt félagsfundar Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Borgarbyggð frá í gærkvöld saegir: „Félagsfundur Vinstri grænna í Borgarbyggð sem haldinn var í Englendingavík þann 6. ágúst 2008, lýsir hryggð sinni og furðu yfir því hvernig komið virðist fyrir Sparisjóði Mýrasýslu. Sjóðurinn hefur verið ómetanlegur bakhjarl allri starfsemi í héraðinu og verðmætasta eign sveitarfélagsins. Sparisjóðurinn hefur á undanförnum árum skilað verulegum rekstrarafgangi, og aldrei sem síðustu tvö ár, en virðist nú skyndilega standa á brauðfótum, - hvernig má slíkt gerast?
Við þessar aðstæður telur fundurinn að stjórnendur Sparisjóðs Mýrasýslu skuldi íbúum Borgarbyggðar skýringar á því að hvað leyti stefna og starfshættir sparisjóðsins í lánastarfsemi og fjárfestingum hafa leitt til þeirrar stöðu sem nú ríkir og hvaða leiðir til bjargar hafi verið kannaðar.
Fundurinn telur einboðið að stjórnendur sjóðsins verði látnir axla ábyrgð á þeirri stöðu sem hann er kominn í og treystir því að sveitarstjórn Borgarbyggðar sjái til þess og taki jafnframt forystu í því að kryfja mál þetta allt til mergjar og finni þá leið til lausnar sem best tryggir hagsmuni sveitarfélagsins, og íbúa þess, í bráð og lengd."