Fara í efni

TRYGGVI ÞÓR OG ÓSÝNILEGA HÖNDIN


Tryggvi Þór Herbertsson, ráðgjafi Geirs H. Haarde, kom fram í Kastljósi í kvöld og sagði að alls ekki  mætti aðskilja viðskiptabanka og fjárfestingarsjóði. Dramtatísk kúnstpása fylgdi þessari yfirlýsingu efnahagsráðgjafans, svona til að segja með þögninni að kröfur sem uppi væru í þessa veru á Alþingi komi ekki til greina að samþykkja.
Í pistli hér á síðunnu frá í morgun er fjallað um framgöngu Björns Inga Hrafnssonar, blaðamanns, í Kastljósþætti gærdagsins. Hann sagði þar ábúðarfullur mjög, að þess misskilnings hefði gætt hér á landi að fara bæri þessa aðskilnaðarleið. Með öðrum orðum Tryggvi Þór tók upp þráðinn þar sem fyrrum ráðgjafi Halldórs Ásgrímssonar, Björn Ingi Hrafnsson, sleppti honum kvöldið áður.

Hverra hagsmuna er gætt?

Í fyrrnefndum morgunpistli mínum vísaði ég í fróðlegt bréf frá Birni Jónassyni þar sem fram kemur að erlendis eru óháðir sérfræðingar ekki á þessari skoðun. En vel að merkja það á aðeins við um óháða sérfræðinga þá sem ekki eru tengdir fjárfestingarsjóðunum hagsmunalegum eða pólitískum böndum. Það á með öðrum orðum við um þá sérfræðinga sem hafa sett sér að standa vörð um hagsmuni almennings en ekki fjármagnsins.

Mótsagnakenndur málflutningur

Annars var Tryggvi Þór Herbertsson harla mótsagnakenndur í viðtalinu í kvöld. Hann sagði að íslensku bankarnir stæðu mjög vel enda væru þeir ekki fjárfestingarbankar! En hvað er svo okkar happ, svo orðlag efnahagsráðgjafans sé notað? Jú, okkar happ er að mörgþúsundmilljaðra fjárfestnigarbrjálæði bankanna er ekki komið með þá enn lóðbeint á hausinn vegna þess að þeir hafa viðskiptastarfsemina sem kjölfestu!!!!

Varasöm afstaða í Stjórnarráði

Vandinn við afstöðu þeirra félaga Björns Inga og Tryggva Þórs virðist mér vera sá að sjónarhorn þeirra  nær til hagsmuna stóru fjárfestanna, ekki annarra. Þetta er stórhættuleg afstaða í Stjórnarráði Íslands.

Stóra fréttin - en óbotnuð

Aftur og aftur gerðist efnahagsráðgjafi Geirs H. Haarde, forsætisráherra mótsagnakenndur. Þannig sagði hann annars vegar að markaðurinn  - það sem frjálshyggjumenn af trúarlegri lotningu kalla hina ósýnilegu hönd - myndi bjarga öllu - og taki menn eftir orðalaginu: Þegar tugþúsundir manna missa atvinnu sína (Lehman Brothers)  þá kallast það hreingerningar í kerfinu! Hins vegar segir hann að ríkið muni koma inn með afgerandi hætti til bjargar bönkunum.  Auðvitað var það stóra fréttin í viðtalinu við efnahagsráðgjafa forsætisráðherra, að hann gaf sterklega í skyn að bönkunum yrði bjargað. Af hverju? Er ekki rétt að láta markaðinn bara gera hreint? Og  hverjum á að bjarga? Fjárfestingunum, sem bankarnir fá ekki lengur lán til að fjármagna?

Brostið líkan

En hvað segja þeir Björn Ingi og Tryggvi Þór um eftirfarandi frétt af mbl.is í dag?:
Fleiri beina augunum að fjármálakerfi heimsins og hvort umrótið nú tákni að breytingar séu framundan. Einn þeirra er Larry Elliot, viðskiptaritstjóri The Guardian, sem segir það hafi tekið yfirvöld í Bandaríkjunum langan tíma að horfast í augu við að eitthvað væri bogið við það líkan fjármálakerfis heims sem þróast hafi áratuginn fram að ágúst 2007, með sinni áherslu á útbelgdar lántökur, safn meira og minna óskiljanlegra afleiðna og meinta áhættudreifingu.
„Fyrir suma okkar er augljóst að þetta líkan er svo brostið að ekki tekur að gera við það, og að nú er þörf á að hverfa aftur til hefðbundnari forms bankastarfsemi. Sú staðreynd að nú skuli talað um þörfina á nýjum Glass-Steagall lögum - löggjöfin frá fjórða áratugnum sem kvað á um að bandarískar bankastofnanir yrðu að vera annað hvort viðskiptabankar eða fjárfestingabankar en ekki hvort tveggja - er til marks um að heimurinn breytist."