Fara í efni

VARNARSIGUR RÁÐHERRANNA


Þeir sem mest eiga undir því að engin breyting verði gerð á eftirlaunalögunum svokölluðu - lögunum, sem kveða á um lífeyrisréttindi þingmanna, „æðstu" embættismanna og ráðherra - eru hinir síðastnefndu. Ráðherrar fá 3% ávinnslu á þeim hluta launa sinna sem til eru komin vegna þingmennsku en 6% af ráherrahlutanum. Þeir eiga því nokkuð undir því komið að dragist á langinn að breyta lögunum.

Ráðherrarnir segja okkur að við verðum að vanda okkur óskaplega vel áður en farið er að hreyfa við þessum lögum  - ef þá  yfirleitt eigi að gera það. Það kosti í það minnsta mikla yfirlegu í nefndum og samstarf og samráð allra hlutaðeigandi. Því miður hafi ekki unnist tími til þessa í sumar. Þess vegna hafi ekki tekist að efna kosningaloforð Samfylkingarinnar nú á haustþingi.

En á meðan mala lögin gullið: Ofan í vasana hjá úrvalsdeild sérgæskunnar.

Á hverju heilu ári sem tekst að koma í veg fyrir breytingu á lögunum spara ráðherrarnir sér kjararýrnun í lífeyri sem nemur 23.610 krónum. Hvernig finnum við það út. Jú, lífeyrisávinnslan á ári fyrir ráðherra nemur   42.082 kr. á mánuði. Ef ráðherra borgaði af sömu fjárhæð í A-deild LSR myndu  lífeyrisgreiðslur ( það sem hann eða hún fengi í lífeyri á mánuði) nema 18.472 kr.  Mismunurinn er fyrrgreind upphæð.

Flestir stóðu í þeirri trú að Samfylkingin ætlaði að afnema sérréttindi þingmanna, embættismanna og ráðherra ef hún kæmist í ríkisstjórn. En ef litið er á þennan hóp sem kjarabaráttuhóp  sem við hljótum að gera í ljósi reynslunnar, þá verður að viðurkenna að hann hafi náð sæmilegum árangri, sérstaklega ráðherrahluti hópsins.
Á einu ári hafa ráðherrar í ríkisstjórn tryggt sér lífeyrishækkun   UMFRAM aðra starfsmenn ríkisins að upphæð 23.610 krónur á mánuði. Frábær árangur miðað við 20.300 kr. launahækkun sem samið var um við almenna starfsmenn ríkisins í vor.

Þetta er fólkið sem nú talar um nauðsyn þjóðarsáttar!  Þau eru flott á því ráðherrarnir með félögum sínum hjá atvinnurekendasamtökunum sem bjóða upp á extra krydd í sáttina: Leggja niður Íbúðlánasjóð!!!
 Auðvitað hlýtur þetta að vera grín. Nema einhverra hluta vegna þá er fáum hlátur í hug.