BISNISMENN Á HVÍTUM SLOPPUM

Birtist í Morgunblaðinu 03.10.08.
MBL - LogoJóhannes Kári Kristinsson, einn eigenda læknastöðvarinnar Sjónlags, skrifaði mér opið bréf í Morgunblaðið. Jóhannes er ekki bara eigandi fyrirtækisins, hann er einnig starfsmaður og sinnir augnlækningum enda titlar hann sig augnlækni undir greininni.
Vandinn í samræðum við menn á borð við Jóhannes Kára er að erfitt getur verið að greina hvort maður á í orðræðu við lækni eða bisnissmann á hvítum sloppi; þar í ofanálag með pólitíska stefnuskrá.
Jóhannes á sjálfur í slíkum vanda ella hefðu skírskotanir til Stalíns heitins varla dúkkað upp í grein um augnlækningar nútímans.
Gagnrýni mín á markaðsvæðingu breska heilbrigðiskerfisins er afgreidd á þessa lund: Þú (þ.e. ég) "gleymir að nefna að aukinn einkarekstur á NHS kerfinu í Bretlandi er runninn undan rifjum þíns eigin systurflokks í Bretlandi, Verkamannaflokksins, undir stjórn Tony Blair."
Af þessu tilefni vil ég segja að mig gildir einu hvað stjórnmálaflokkur heitir, aðeins hitt hvernig hann framkvæmir.

Á kostnað skattborgara

Nýlega breyttu hægrimenn í stjórnmálum um kúrs varðandi fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar. Í stað þess að leggja áherslu á aukin notendagjöld, var nú sagt að heilbrigðisþjónustuna ætti að fjármagna með sköttum. (Að vísu hafa efndir ekki fylgt orðum því bein gjaldtaka hefur aukist!) Á þessu er hamrað og sagt að deilan snúist ekki um einkavæðingu heldur einkarekstur. Undir þetta tekur Jóhannes Kári; skilur ekkert í gagnrýninni því skattborgarinn borgi brúsann, af hverju ættu sjúklingar eiginlega að hafa áhyggjur?
Jóhannes Kári er ekki einn um þessi sjónarmið. Hvaða fyrirtæki skyldi fúlsa við því að hafa allt sitt á þurru með greiðslum úr ríkissjóði! Ég er ekki andvígur því að einkaaðilar reki spítala og læknastofur. En þegar þeir ætlast til þess að við skattgreiðendur borgum reksturinn þá mega þeir vita að við viljum hafa á honum skoðun, hvað snertir aðgengi, gæði, kostnað og kjör og réttindi starfsfólks ekki bara lækna heldur líka ræstingafólks. Hér blasa staðreyndirnar við. Einkareksturinn hefur reynst dýrari, réttindi starfsfólks hafa iðulega verið rýrð og reynslan erlendis sýnir að einkarekstrinum fylgir félagsleg mismunun.

Stutt í einkaspítalann

Ég er því ekki andvígur að tilteknar aðgerðir séu framkvæmdar "útí bæ" á einkastofum. Þegar hins vegar einkareknu stofurnar fara að slá sig saman þá er stutt yfir í einkarekinn spítala. Þegar tilteknar bæklunaraðgerðir, svo dæmi sé tekið, verða síðan boðnar út þá er líklegt að þær hafni einmitt hjá hinum einkarekna spítala. Ríkisspítalinn á þá erfiðara um vik því hans bæklunardeild situr uppi með erfiðari viðfangsefni og meiri kostnað. Er slíkt hagkvæmt fyrir almannaþjónustuna? Kannski í fyrstu. Síðan kemur einokunin. Það gerðist til dæmis með tæknifrjóvgunina. Hún var sett út fyrir "hina dýru spítalaveggi" svo orðalag Jóhannesar Kára sé notað, og hafnaði í einokandi höndum á þessu sviði. Síðan hefur fyrirtækið sett nýjar álögur á þá sem leita eftir þjónustu. Í krafti einokunar er skattlagningavaldið komið í þeirra hendur, nema nú er um að ræða einstaklingsbundinn sjúklingaskatt.

Óverðskuldaðar þakkir

Í sumum tilvikum hefur fjármagn til tiltekinna þátta verið aukið með því skilyrði að þeir yrðu útvistaðir. Dæmi um þetta eru augnsteinaaðgerðirnar sem Jóhannes Kári starfar við. Landspítalinn fékk ekki það fjármagn sem Jóhannes Kári og félagar hjá Sjónlagi fengu aðgang að. Þeir þakka hins vegar sjálfum sér og einkavæðingunni aukin afköst en ekki fjármagninu sem streymir til þeirra úr vösum okkar skattgreiðenda!
Þá verður Jóhannes Kári að horfast í augu við að útboðsstefnan hefur ekki leitt til þess að ódýrustu valkostirnir hafi verið teknir. Þvert á móti hefur tilkostnaðurinn iðulega aukist. Hvers vegna? Samkvæmt Ríkisendurskoðun er ástæðan sú að fjárfestar þurfi sinn arð. Við höfum mörg dæmi þess að einkarekstri fylgi aukinn tilkostnaður og síðan fákeppni eða einokun sem vinnur gegn mun eftirsóknarverðari blöndu af fjölbreytni og hagkvæmni.
Jóhannes Kári vill þakka einkarekstri framfarir í augnaðgerðum sem öðru: "Svokallaðar augasteinsaðgerðir kröfðust þriggja daga innlagnar á árunum í kringum 1990. Aðgerðirnar sjálfar tóku uppundir klukkutíma og voru afar vandasamar. Nú tekur aðgerðin aðeins tíu mínútur og sjúklingur getur farið heim strax að henni lokinni." Hver skyldi nú vera ástæðan fyrir þessum framförum? Ætli það séu ekki tækniframfarir fyrst og fremst?

Fjölbreytni í stað fákeppni

Jafnvel þótt ýmsar aðgerðir geti átt heima utan veggja sjúkrahúsa er engu að síður nauðsynlegt að kalla hlutina réttum nöfnum. Stytting á listum sem þeir Sjónlagsmenn státa af er vegna þess að þeir fengu fjármagn sem Landspítalanum var meinað um. Hitt er líka staðreynd að með tilkomu einkarekinna sjúkrahúsa, sem rekin eru í arðsemisskyni, erum við ekki að stefna inn í hagkvæmara, skilvirkara og fjölbreyttara umhverfi heldur einsleitara fákeppnisumhverfi sem reynslan kennir að leiki skattborgarann grátt og sé ávísun á mismunun og misrétti.

Höfundur er alþingismaður og formaður BSRB.

Fréttabréf