EKKI MEIR HALLDÓR!


"Menn hegða sér ekki svona, að fara í fjölmiðla með offorsi,"
segir Halldór Ásgrímsson, fyrrum ráðherra og fyrrum formaður Framsóknarflokksins í viðtali við Fréttablaðið í dag, laugardag. Sjálfum hefur Halldóri greinilega orðið mál. Um nokkra hríð hefur hann haft hægt um sig í Kaupmannahöfn og lítið haft sig í frammi í pólitískri umræðu; látið núverandi forsystu Framsóknarflokksins um það - allavega opinberlega.

Uppvakningar frá fyrir tíð

Nema hvað Halldór var sjálfur ekki alveg laus við það "offors" sem hann gagnrýnir hjá öðrum. Auðvitað má færa fyrir því rök að Halldór Ásgrímsson eigi heima í umræðunni nú því hann er einn helsti guðfaðir þeirra vandræða sem nú dynja yfir í þjóðina. Í ráðherratíð hans ákváðu Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn í sameiningu að hefja þá glæfraför sem nú hefur endað með ósköpum. Þeir einkavæddu allt fjármálakerfið á einu bretti án þess að reisa neina lagalega múra almenningi til varnar. Óaðskiljanlegur hluti var svo einkavinavæðingin. Hana þekkja allir. Ekki veit ég hve miklar þakkir núverandi forsysta Framsóknarflokksins kann Halldóri Ásgrímssyni fyrir að vekja nú upp þessi hugrenningatengsl.

Blásið á landslög

Eins og fyrri daginn gefur Halldór lítið fyrir hinar lagalegu varnir. Til dæmis þær varnir sem reistar hafa verið náttúrunni til handa með lögum um umhverfismat. Nei, nú á að ráðast í virkjanir sem aldrei fyrr, án skilyrða og undanbragðalaust: "Menn mega ekki vera hikandi við að koma af stað fjárfestingum í orkumálum og iðnaði og við getum ekki fest okkur í lögformlegu ferli sem tefur fyrir. Alþingi getur sett sérlög um ákveðnar framkvæmdir eins og gert var um Kárahnjúkavirkjun."
Síðan er kveðin gamalkunn vísa um Evrópusambandið og að útlendingar eigi að bjarga okkur með því að setja upp banka fyrir okkur, sjálf séum við rúin trausti.  Ekki nóg með það heldur er Halldór beinlínis að óska eftir verkstjórn frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum við endurreisn þjóðfélagsins; stofnunar sem beitt er af hálfu alþjóðaauðmagnsins til að þröngva þjóðum út í einkavæðingu með innviði sína og selja frá sér verðmætar eignir.

Hagsmunagæsla fjármagnisins

Jafnan þegar Alþjóðagjaldeyrisjóðurinn kemur að þjóð í vanda hefur hann gætt að tvennu:
1) Að tryggja að alþjóðaauðmagnið fái eins mikið úr þrotabúum og kostur er. Þessir tónar heyrast þegar frá fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hér á landi.
2) Að tryggja að auðmagnið fái greiðan aðgang að endurreistu samfélagi. Það er gert með markaðsvæðingu.

Skálkaskjólið

Stjórnvöld höll undir auðmagnið vilja yfirleitt gjarnan fá Alþóðagjaldeyrissjóðinn að borði því í ráðgjöf hans fá þau skálkaskjól til að fara sínu fram. "Við erum bara að fara að ráðgjöf og skilyrðum sem okkur eru sett," er þá viðkvæðið.
Um þetta segir Halldór Ásgrímsson: "Ég tel nauðsynlegt að leita til sjóðsins við þessar aðstæður enda er það hlutverk hans að koma til hjálpar. Menn kunna að óttast að hann setji ýmis skilyrði, sem hann mun vissulega gera, en það þarf hvort er eð að taka margar ákvarðanir sem munu leiða okkur inn í betri framtíð. Það er betra að hafa aðstoð við það."
Þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og menn með þessa afstöðu leggja saman er ekki við góðu að búast.  En við Halldór Ásgrímsson vil ég segja: Ekki meir. Við höfum reynsluna af þínum ráðum.

Fréttabréf