HORTUGIR SÖKUDÓLGAR


Almennt gera Íslendingar sér grein fyrir því að þeir verði að snúa bökum saman. Fjármálakrísan sem við stöndum frammi fyrir er einfaldlega af þeirri stærðargráðu að slíkt er lífsnauðsyn.  Hugsum í lausnum er krafa dagsins. Þessu er ég sammála. En jafnframt heyrist sagt að nú sé ekki tíminn til að leita að sökudólgum.  Þessu er ég ósammála. Við verðum að þekkja sökudólgana. Við verðum að gera okkur grein fyrir því hvað fór úrskeiðis til þess að forða okkur frá því að endurtaka sömu mistök. Vítin eru til að varast.

þjóðin sökudólgurinn?

En hverjir vilja að við ræðum sem minnst um sökudólga? Það eru að sjálfsögðu sökudólgarnir sjálfir. Þeir sem opnuðu þjóðfélagið fyrir óheftum kapítalisma og síðan þeir sem sett hafa okkur á spil með gambli og braski. Þessir aðilar eru að vísu ekki alveg fríir sjálfir af því að vilja ekki finna sökudólga. Þeir benda á Seðlabankann sem fólið eða hið "illa ríki" sem að sjálfsögðu erum við, þjóðin, gæti verið að hagnast á yfirtöku "eigna" þeirra. Á þá lund mæltist stóreignamanni, handhafa gjafakvóta í sjónvarpsviðtali í vikunni.  Og félagi og samverkamaður hans með milljarðatuga gróða í rassvasanum frá liðnum árum, tók í sama streng og sagði að veruleg hætta væri á því að ríkið væri að hagnast á yfirtöku eigna þeirra. Eignin var Glitnir. Kominn að fótum fram og við það - ásamt öðrum fjárfestingar-monsterum - að taka okkur öll með í fallinu.

Því miður tapar þjóðin

Nei, ríkið er því miður ekki að hagnast. Betur ef svo væri. Sannleikurinn er sá að Ísland hefur verið ræningjabæli á undanförnum árum.  Og nú eiga sökudólgarnir að hafa sig hæga. Þeir eiga að fara varlega í því að reisa kröfur á hendur þjóð sinni, sem þeir nú hafa sett á hliðina. Að snúa bökum saman þýðir ekki að fara eigi að þeirra vilja. Það þýðir ekki það að framlengja eigi óbreytt ástand. Það þýðir samkomulag um að hverfa inn á nýjar brautir. Þar sem almannahagur er einvörðungu hafður að leiðarljósi. Ég sagði einvörðungu. Um annað getur ekki orðið nein málamiðlun.
Nú eiga sökudólgarnir að halda sig til hlés á meðan þjóðin reynir að komast út úr þeim ógöngum sem þeir hafa komið okkur í.

Fréttabréf