VIÐ BETLISTAF


Það var dapurlegt að fylgjast með fréttum í dag. Ekki bara vegna frétta af fjármálamörkuðum heldur ekki síður vegna betlikveinsins  í talsmönnum okkar þjóðar. Vissulega eiga Íslendingar í miklum vandræðum, margir eru að tapa hluta af eignum  sínum, sumir lífeyrissparnaði, stöku maður ævisparnaði. Hinum síðastnefndu er vorkunn. Mikil vorkunn. Þetta eru þó undantekningarnar.  Enn sem komið er heyrir það til undantekninga að gjaldþrot bankanna hafa skapað neyð hjá fólki. En því  miður er hætta á því að margir missi vinnuna. Það er ógæfa. því atvinnuleysi fer illa með fólk, fjárhag þess og sálarheill. Félagsamtök tapa einnig eignum. Í sumum tilvikum miklum eignum. Það þekki ég hjá BSRB. Sama gildir um lífeyrissjóði. Þeir hafa þegar orðið fyrir umtalsverðum búsifjum.
Þrátt fyrir þetta hefur ekki skapast neyð á Íslandi á borð við þá sem snauðar þjóðir búa við.
Höfum þetta hugfast. Ekki síst áður en fulltrúar þjóðarinnar skekja betlistafinn í reiði framan í þá sem neita að ausa í okkur peningum. Þeir sem neitað hafa að afhenda okkur lausnarfé eru sagðir óverðugir vináttu okkar og sagt að nú verði leitað nýrra vina! Alvöru vina sem borga okkur fyrir okkar eigin mistök og misgjörðir. Ég frábið að láta taka okkur niður  á hnén á þann hátt sem gert var í dag frammi fyrir heimspressunni. Íslendingar hafa látið stjórnast af gróðavon, mært útrásarliðið, verið tilbúnir að hagnast á snauðum þjóðum ef svo hefur hagað til og ekki hreyft gagnrýni að neinu marki þegar fátækar þjóðir hafa verið beittar ofbeldi af "okkar" fólki.  Ekki ætla ég þó að taka það á mig að hafa setið þegjandi undir slíku. en var fyrir bragðið sagður haldinn  "heimóttarskap" gagnvart útrásinni:  http://ogmundur.is/annad/nr/1385/

Fréttabréf