Fara í efni

GÓÐ FJÖLMIÐLAUMRÆÐA Í DAG


Ef fjölmiðlar hefðu sinnt hlutverki sínu sem skyldi værum við að öllum líkindum ekki  úti í því foraði sem við erum nú. Til þess að komast upp úr feninu þurfum við líka á fjölmiðlum að halda.

Hlutverk fjölmiðla er af tvennum toga:

Í fyrsta lagi að upplýsa. Einsog Agnes Bragadóttir gerir í Mogganum í dag. Jón Ásgeir var ekki ýkja sannfærandi í fréttum Sjónvarpsins þar sem hann var beðinn um að svara fyrir tugmilljarða lánasukk. Hann sagði að þörf væri á að kanna hvernig fjölmiðill hefði fengið aðgang að lánabók Glitnis! Er það svo? Að málið snúist um leynd og leka? Auðvitað á almenningur rétt á öllum upplýsingum, sjá allar lánabækur, allar tilfærslur. Er það ekki almenningur - við öll - sem eigum að borga? Í framhaldinu vakna svo fleiri spurningar. Voru þetta ekki upplýsingar sem Fjármálaeftirlitið hafði aðgang að? Hvers vegna var ekkert gert með þær?

 Í öðru lagi eiga fjölmiðlar að leiða fram gagnrýnin sjónarmið. Það heppnaðist vel í Silfri Egils í dag. Margs urðu áhorfendur vísari. Sumum sjónarmiðum sammála, öðrum ekki.  Einsog gengur. Gaman að sjá ný andlit. Hóphyggja undangenginna ára er vonandi á undanhaldi. Egill, fleiri sjónarmið, fleiri andlit, meira á dýptina, þú ert á réttri leið.

En hvað með framhaldið? Í þættinum var því haldið fram að verið væri að gefa fyrirtækjum eftir skuldir í stað þess að taka þær til ríkisins og koma þeim í verð eða halda þeim þar til góðir sölumöguleikar skapast. Hinum efnaminni eru engar skuldir gefnar eftir. Hvers vegna  þessa mismunun? Hvað eru skilanefndirnar eiginlega að gera? Nú reynir á fjölmiðlana sem aldrei fyrr og okkur öll sem eigum að veita aðhald. Við megum ekki bregðast - eins og ríkisstjórnin.