Fara í efni

ÚR MENNINGARFJÁRSJÓÐI

Á þrengingartímum er hollt að leita í menningarfjársjóði þjóðarinnar. Þar er að finna margar perlur.
Í inngangi að Andvökum Stephans G. Stephanssonar frá árinu 1939, skrifar fræðimaðurinn og ritsnillingurinn Sigurður Nordal formála, sem síðar var gefinn út í sjálfstæðu riti. Þar víkur hann óbeint að hildarleiknum sem þá var fyrirsjáanlegur, heimsstyrjöldinni síðari.

Sigurður ræðir hugsjónir Klettafjallaskáldsins og minnir á þau gildi i mannlífinu sem dýrmætust eru.
Eftirfarandi eru niðurlagsorðin í formálanum frá 1939 en þau er ekki að finna í útgáfu Helgafells frá 1959. Örfáar línur en mikil viska. Hvert orð á erindi við samtímann:  

„Það er einkennilegt að vera að ljúka þessu máli einmitt á þeim tíma, er hin nýja járnöld, baráttan um ríkið af þessum heimi, virðist enn vera að tefla dýrmætustu vonum og hugsjónum Stephans G. Stephanssonar, réttlæti, friði og frelsi, í fullan voða. En þó þær geti um stundarsakir sýnst eins og hvítvoðungar í tröllahöndum, eru þær samt eilífar. Þær megna ekki um sinn, og ef til vill aldrei, að hafa hemil á rás hinna ytri viðburða. En þær lifa áfram í hverjum þeim einstaklingi, sem „lætur ekki dæma sál sína úr sjálfs síns eigu" - vill ekki láta flokksfylgi hlekkja sig né ofríki ægja sér, reynir að varðveita hjarta sitt ókólnað af kæruleysi, vilja sinn óbrotinn af örvæntingu og vit sitt ótruflað af hleypidómum. „