Fara í efni

FYRIR HVERJA STENDUR FRÉTTASTOFA RÚV VAKTINA?


Fréttastofa RÚV ohf þóttist heldur betur komin í feitt um helgina. Borgarfulltrúi hafði sent út upplýsingapakka um niðurskurð Reykjavíkurborgar á fjárframlögum til unglingasmiðja í borginni. Borgarfulltrúinn, Þorleifur Gunnlaugsson, hafði fengið leyfi stúlku sem bar hag þessarar starfsemi fyrir brjósti, til að senda með í pakkanum ákall hennar gegn niðurskurðinum. Þetta gerði Þorleifur. Hann strokaði út nafn stúlkunnar, sem var undir bréfi hennar, og sendi á fréttastofurnar. Eitt yfirsást honum. Í bréfinu sjálfu var að finna nafn stúlkunnar. Þorleifur skrifaði fréttastofunum að nýju og bað þær um að virða nafnleynd stúlkunnar og sýna málinu nærgætni.
Það gerðu fréttastofurnar. Framan af allar nema fréttastofa RÚV. Hún birti að vísu ekki nafn stúlkunnar.  Fannst hún hins vegar hafa komist í feitt og blés það út að borgarfulltrúi hefði birt bréf í leyfisleysi! Stórfrétt. Eða hvað?
Hagsmuni hverra skyldi fréttastofan telja sig vera að gæta? Stúlkunnar sem er að berjast gegn niðurskurði eða þeirra sem vilja drepa umræðu um niðurskurðinn á dreif? Aðrir fjölmiðlar viku einnig að málinu, fóru í kjölfar RÚV, einkum netmiðlarnir sjá http://eyjan.is/blog/2008/12/13/borgarfulltrui-vinstri-graenna-sendi-vidkvaemar-trunadarupplysingar-um-unga-stulku-til-fjolmidla/
Við þetta vakna ýmsar spurningar. Er virkilega ekki hægt að ræða við fréttastofur á mannlegum nótum? Þegar augljós mistök verða - handvömm -  hví ekki taka tillit til þess? Engum fjölmiðli kom til hugar að birta nafn stúlkunnar. Engum kom til hugar að gera sér mat úr þessu nema fréttastofu hljóðvarps. Sjá ágæta frásögn hér: http://soley.blog.is/blog/soley/entry/744318/
Önnur spurning snýr að rétti stúlkunnar. Hvers vegna að gera það mál nánast totryggilegt - að felumáli - þegar kröftugur einstaklingur eins og stúlkan, eldfklár og með sterka réttlætiskennd, rís upp og segir skoðanir sínar. Sjálfum finnst mér viðkomandi einstaklingur aðdáunarverður.
Ekki svo að skilja að það á að sjálfsögðu að vera hennar að ákveða hvort og hvenær nafn hennar birtist. En mærðarvellan sem flóði um alla netmiðlana var með ólíkindum þótt verstar væru fréttir RÚV: Forræðishyggja í dularklæðum mannréttinda.
Þorleifur Gunnlaugsson, borgarfulltrúi, sýndi allan tímann hógværð og kurteisi. Baðst afsökunar fyrir mistök sín. Á þessu var reyndar hamrað í fréttum RÚV. En hvar er afsökunarbeiðni fréttastofu RÚV gagnvart fólki sem greinilega var misboðið, samanber yfirlýsingu sem fjölskylda stúlkunnar og hún sjálf birti eftir að tíundað var í Ríkisútvarpinu ohf að borgarfulltrúinn hefði beðist afsökunar. Í yfirlýsingu fjölskyldunnar kemur fram að borgarfulltrúinn hafði aflað allra tilskilinna leyfa þótt honum hefðu orðið á mistök sem hann reyndi að leiðrétta og fjölskyldan hafði fullan skilning á.
sbr. http://smugan.is/frettir/frettir/nr/360