ICESAVE OG HEILBRIGÐISKERFIÐ

Birtist á smugan.is 08.01.09.
smuganNú er myndin að skýrast. Annars vegar höfum við ríkisstjórn sem lyppast niður í samningum við erlenda lánadrottna og peningamenn en sýnir "einurð" í aðför  sinni að sjúkum og veikum.

Hve margir skyldu gera sér grein fyrir því að áform ríkisstjórnarinnar um niðurskurð í heilbrigðiskerfinu (þ.e. frá fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram í október) nema 6,7 milljörðum króna. Þessi niðurskurður er álíka upphæð og nemur einu prósentustigi til eða frá í vaxtakostnaði vegna Icesave-skuldbindinganna.
Í gær gafst ríkisstjórnin  í reynd upp í Icesave-deilunni; sagðist ekki treysta sér í mál við Breta vegna hryðjuverkalaganna. Málstaður Íslands væri ekki nægilega góður til að standast bresk lög! Skyldi ríkisstjórn sem ekki trúir á málstað Íslendinga vera treystandi til að gæta hagsmuna okkar sem skyldi við samningaborðið? Að sjálfsögðu ekki. Geir Haarede og Ingibjörg Sólrún hefðu tapað hverju einasta landhelgisstríði sem háð var hér fyrr á tíð.

En gagnvart sjúklingum eru þau hvergi bangin."Við verðum að spara", segir Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra um leið og hann seilist lengra ofan í vasa sjúklinga og rukkar þá um 6000 krónur fyrir að leggjast veikir inn á sjúkrahús. "Bara einu sinni" í mánuði, er látið fylgja með okkur til friðþægingar. Ef hinn sjúki er það þjáður að hann þurfi að leggjast inn oftar í mánuðinum, fær hann semsé frítt í seinni skiptin. Það er ekki fyrr en í næsta mánuði sem rukkað verður aftur!

Þetta er nýlunda á Íslandi. Undarlegt og kaldhæðnislegt að það skuli gerast í stjórnartíð Samfylkingarinnar sem segist vera jafnaðarmannaflokkur. Ríkisstjórnin ætlar að ná inn 360 millónum í ár með aukinni gjaldtöku af þessu tagi.

En það er ekki nóg að rukka hinn veika. Það þarf líka að skera niður, segir ríkisstjórnin. Og fyrirskipar fyrrnefndan  6,7 milljarða niðurskurð í heilbrigðiskerfinu; kveðst vera staðföst hvað þetta snertir. Óskandi að ríkisstjórnin væri eins staðföst þegar erlendar skuldir eru annars vegar.
Hvernig er hægt að fá úr þessu bætt? Ég sé bara eina leið. Kosningar og nýja ríkisstjórn.

Ögmundur Jónasson, alþingismaður

http://www.smugan.is/pistlar/adsendar-greinar/nr/546

Fréttabréf