Fara í efni

ALLIR VELKOMNINR Í HÓPINN

Fréttabladid haus
Fréttabladid haus

Birtist í Fréttablaðinu 12.02.09.
Það er ekki langt síðan forstjóri Sjóvár sendi síðast út greiðsluseðla fyrir tryggingum. Verið var að hækka þær um  40% á milli ára. Engin lækkun í boði þar! Sami forstjóri, Þór Sigfússon, auglýsir eftir þjóðarsátt um niðurskurð ríkisútgjalda. Það gerir hann sem formaður Samtaka atvinnulífsins.
Hvert mannsbarn veit að nú er okkur gert að skera almannaþjónustuna niður við trog. Laun hafa lækkað, svo og framlög til heilbrigðismála og krafa er á enn frekari niðurskurð. Á markaði er víða sömu sögu að segja. Skuldum hlaðin fyrirtæki draga saman seglin og hin ábyrgari reyna að halda verði á vöru og þjónustu í lágmarki. Þau vita að samhliða kaupmáttarrýrnun almennings þurfa þau að lækka gjöld, ekki hækka þau einsog Þór Sigfússon gerir.
Ég held að flestir geri sér grein fyrir því að eina leiðin til að við vinnum okkur út úr þrengingunum sem félagar Þórs Sigfússonar í Samtökum atvinnulífsins bera óneitanlega margir ábyrgð á, er að við gerum það saman: Að við tryggjum aukinn jöfnuð í samfélaginu um leið og við vinnum okkur út úr heimatilbúnum vanda; að ef við förum"útrásarleið" Samtaka atvinnulífsins með tilheyrandi ójöfnuði þá komumst við hvorki lönd né strönd.
Þór Sigfússon, sem talar fyrir atvinnurekendur í landinu, gerir lítið úr hugmyndum um að þjóðin standi saman og vinni sig út úr vandanum, sbr. sérstaka tilkynningu sem hann sendi frá sér í byrjun vikunnar. Þar segir:"Í útgjaldaráðuneytum virðist mest bera á vissum popúlisma, talað um að skera niður laun hálaunafólksins í læknastéttum, fyrirhugaðar sparnaðaraðgerðir hafa verið settar í bið og því haldið á lofti að ráðherrar labbi í vinnuna." Hvað er forstjórinn að leggja til? Er hann að leggja til að laun starfsmanna í eldhúsi spítalanna verði lækkuð? Inn í hvaða tíma er maðurinn að tala? Fór framhjá honum bankahrunið og hugmyndafræðin sem bankar og fyrirtæki byggðu á fram í september á síðasta ári? Ætli hann tali fyrir þann stóra hóp atvinnurekenda sem í sveita síns andlits vinna baki brotnu til að halda fyrirtækjum sínum á floti og leggja sig fram um að reyna að halda fólki í vinnu? Ætli hann tali til dæmis fyrir dugmikla útgerðarmenn? Ég trúi því ekki.
Ísland hefur breyst. Lausnirnar sem talsmenn samtaka atvinnulífsins töluðu fyrir 2006, 2007 og 2008 eiga ekki lengur við. Því fyrr sem menn leggja til hliðar gömlu frasana og finna sér nýja hugmyndafræði þeim mun hraðar komumst við út úr kreppunni.
Við eigum aldrei að sætta okkur við að samfélag ójöfnuðar verði endurreist, samfélagið sem hrundi fyrir fimm mánuðum, samfélagið sem popúlistarnir í sérhagsmunahópi atvinnulífsins bera megin ábyrgðina á. Ef Þór Sigfússon er tilbúinn að slást í hóp okkar sem viljum vinna okkur út úr vandanum með jöfnuðinn að leiðarljósi þá veri hann velkominn. Ef formaður SA ætlar  hins vegar að halda sig í veröld sem var, dæmir hann sjálfan sig og samtök sín úr leik.