Fara í efni

ARFLEIFÐ ANDRÉSAR

Andres Bjornsson
Andres Bjornsson
Einhvern veginn finnst mér Ríkisútvarpið og þá sérstaklega Rás eitt, gamla Gufan eiga samleið með páskunum. Á stórhátíðum sýnir hún nefnilega best hvað í henni býr. Og það er ekkert lítið. Bæði nýtt efni og gamalt streymir frá á öldum ljósvakans.
Allt frá því Ævar Kjartansson, sá eðalútvarpsmaður, kom okkur í hátíðaskap á skírdagsmorgun með  heimsókn til Laufeyjar Sigurðardóttur að ræða tónleikahald í Mývatnssveit og fram á páskadag hefur staðið samfelld útvarpsveisla og er ekki séð fyrir endann á henni því á öðrum í páksum er okkur heitið framhaldi á kræsingunum. Eitt hefur tekið við af öðru: Tónlist og talað orð, bundið og óbundið, leikrit, fræðsla og skemmtun. Á eftir Ævari kom fróðlegur þáttur um Händel, þátturinn um Ingólf Guðbrandsson var ekki síður fróðlegur og hugljúfur og þannig mætti áfram telja.
Við skulum aldrei vanmeta menningarlegt hlutverk Ríkisútvarpsins. Þegar þjóð lendir í þrengingum eins og við höfum nú gert, þá er gott að eiga traustan menningararf að styðjast við. Menningin er aldrei mikilvægari en á slíkum stundum. Menning og bókvit veitir gleði og ánægju,  eflir sjálfstraust og þor og verður í askana látið!
Við eigum útvarpssnillingum á borð við Ævar Kjartansson mikið að þakka, mönnum sem halda loganum stöðugt vakandi. Forvera hans ýmsa, lífs og liðna, hefur mátt heyra í dagskrá Gufunnar yfir páskana. Það hefur yljað um hjartarætur. Megi stjórnendur Ríkisútvarpsins jafnan vera meðvitaðir um menningarlega ábyrgð sína. Á útvarpsstjórastóli hafa setið margir mætir menn, sem risið hafa undir sinni ábyrgð. Sumir þeirra hafa verið í senn verkstjórar og átt sjálfir hlutdeild í menningarlegu framlagi Ríkisútvarpsins. Þar kemur nafn Andrésar Björnssonar upp í hugann. Hann var útvarpsstjóri frá upphafi árs 1968 til ársloka 1984 en áður hafði hann verið dagkrárstjóri og afkastamikill útvarpsmaður auk þess sem hann sinnti kennslu í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands. Að öllum ólöstuðum hefur Andrés án efa átt einna drýgstan þátt í því að móta það menningarlega hlutverk sem Ríkisútvarpið tók sér og byggir greinilega enn á. Alla vega á stórhátíðum. Megi RÚV færa okkur andblæ stórhátíðarinnar allan ársins hring og um ókomin ár. Lifi arfleifð Andrésar Björnssonar!