ÁRNI, MATTHÍAS OG SIGURÐUR GÍSLI


Það þarf enga réttlætingu fyrir Ríkisútvarpið á meðan það flytur þætti á borð við Krossgötur. Á laugardaginn var stóðu tveir heiðursmenn á krossgötum með Hjálmari Sveinssyni. Þetta voru þeir Árni Bergmann og Matthías Jóhannessen. Tveir blaðamenn, tvö skáld, sem ræddu um fullveldi, sjálfstæði, fortíðina og framtíðina. Alveg burtséð frá hvort menn eru sammála Árna, eða Matthíasi, var unun á að hlusta. Yfirsýn þeirra félaga, sögulegar skírskotanir, upprifjun þeirra á tilteknum þáttum úr þjóðlífinu, menningin og meiningarmunurinn. Það var upplýsandi að hlusta á blaðamennina og athyglisvert að merkja hve kurteisir þeir voru, en ákafir. Í lokin var okkur svo boðið upp á Björk að syngja lag Jórunnar Viðar við ljóð Jakobínu Sigurðardóttur. Þarf að segja meira? Nei, en það mætti spyrja: Hvað varð til þess að við hættum að hlusta á svona menn og háakta þá? Var það kannski þegar við slepptum kúltúrlausu peningaliði inn í sparibauka landsmanna, án barnfóstru? Eða er hinn spillti strengur þjóðlífsins miklum mun lengri? Á hann sér kannski upphaf í spillingu hermangsins í seinna stríðinu? Varð hann til þegar þjóðin græddi á stríði, dauða og vesæld í stríðshrjáðum löndum? Þetta var ekki strengurinn sem leikið var á í Krossgötum og þetta var ekki þráðurinn sem spunninn var í frábæru viðtali í Fréttablaðinu á dögunum þar sem rætt var við Sigurð Gísla Pálmason um ekki ólík mál og þeir Árni og Matthías voru spurðir um. Önnur kynslóð, önnur nálgun, en sama kurteisin, í rauninni sama væntumþykjan gagnvart því sem þjóðin hefur skapað saman á Íslandi frá örófi alda. Það er ástæða til að hæla þeim öllum: Árna, Matthíasi og Sigurði Gísla.

Sjá viðtal við Sigurð Gísla 11. apríl:
 http://vefblod.visir.is/index.php?s=2985&p=73064

Fréttabréf